Fókus

Nú er það vísindalega sannað: Unga fólkið okkar vaknar allt of snemma

Ótvíræðar niðurstöður birtust í Frontiers in Human Neuroscience

Einar Þór Sigurðsson skrifar
Fimmtudaginn 20. apríl 2017 08:29

Við látum unga fólkið okkar vakna allt of snemma á morgnana. Þetta er samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sem birtust í Frontiers in Human Neuroscience.

Rannsóknin náði til hóps ungs fólks á menntaskólaaldri í Bandaríkjunum, en hópurinn átti það sameiginlegt að stunda nám á fyrsta og öðru ári. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvaða tími sólarhringsins hentaði best til náms með tilliti til heilastarfsemi ungmennanna.

Mest virkni klukkan 11

Niðurstöðurnar leiddu í ljós að heilastarfsemin er í mestri virkni klukkan 11 fyrir hádegi, en bent er á það í frétt NPR að skólar vestanhafs byrji alla jafna klukkan átta á morgnana. Bent var á það í niðurstöðunum að líkamsklukka ungmenna virki öðruvísi en líkamsklukka fullorðinna, þó undantekningar séu vissulega þar á.

„Þetta er eins og að láta fullorðna vakna klukkan fimm alla morgna.“

„Þetta er eins og að láta fullorðna vakna klukkan fimm alla morgna,“ segir Jonathan Kelly, einn af aðstandendum rannsóknarinnar, í samtali við NPR og vísar í það að skólar byrji of snemma á morgnana. „Þetta er ekki sérstaklega góð hugmynd,“ bætir hann við.

Fleiri valkostir fyrir ungmenni

Í niðurstöðunum er bent á það hugsanlega ættu skólar, sérstaklega á framhalds- og háskólastigi, að bjóða upp á stundarkennslu seinna á daginn, eftir hádegi og jafnvel á kvöldin. Á móti er bent á að hlutfall „nátthrafna“ í samanburði við „morgunhana“ sé tveir á móti einum. Með öðrum orðum megi gera ráð fyrir því að þriðjungur ungmenna geti vel vaknað snemma á morgnana án þess að það hafi áhrif á afköst og athygli.

Ein lausn á þessu væri að bjóða upp á fleiri tíma á netinu sem myndi þýða að nemendur hefðu sjálfir val um það hvenær þeir læra eða sitja tíma í skólanum. Mariah Evans, sem einnig stóð fyrir rannsókninni, segir að kostnaðurinn við þetta fyrir skóla sé tiltölulega lítill í samanburði við hugsanlegan ávinning.

190 nemendur tóku þátt

Rannsóknin náði til samtals 190 nemenda og var hún framkvæmd að frumkvæði Mariuh sem er félagsfræðiprófessor við University of Nevada. Hún ákvað að rannsaka málið eftir að nemendur hennar áttu það til að sofna í tíma hjá henni. Auk Mariuh stóð að rannsókninni Jonathan Kelly, einnig professor við University of Nevada og Paul Kelley við The Open University í Bretlandi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af