Fókus

Heilunarskólinn: Fólk nær í óskirnar og draumana sína

Ágúst Borgþór Sverrisson skrifar
Miðvikudaginn 19. apríl 2017 10:00

Stefanía S. Ólafsdóttir hjá Nýjalandi hefur um 30 ára starfsreynslu sem græðari. Auk þess að taka fólk í meðferð í heilun og spjaldhryggjarjöfnun býður hún upp á blómadroparáðgjöf. Síðast en ekki síst rekur Stefanía Heilunarskólann. Nemendur hennar sækja sér þekkingu sem annars vegar stuðlar að bættri andlegri og líkamlegri heilsu og aukinni lífsfyllingu þeirra sjálfra, og hins gerir þeim kleift að heila aðra.

„Þetta er í formi í einkakennslu. Við komum okkur saman um hvenær manneskjan vill byrja í náminu. Ef hún vill getur hún byrjað daginn eftir að hún skráir sig. Námstíminn er yfirleitt eftir samkomulagi. Fyrir skömmu var ég til dæmis á Þórshöfn að hitta nemanda sem þar býr og hún hefur líka komið hingað í borgina út af náminu. Ég fer ýmist til nemenda eða þeir koma til mín. Miðað er við að hver áfangi sé 64 klukkustundir og er það blanda af kennslustundum og heimanámi. Það er ákveðið námsefni sem við förum yfir og nemendur læra um orkukerfið, hvernig það virkar með líkamanum. Það er mikill fjársjóður þekkingar að vita hvernig orkukerfið manns virkar og starfar, hvernig maður á að næra það og halda sér þannig heilbrigðum,“ segir Stefanía.

Námið skiptist í þrjá áfanga. „Fyrsti áfanginn er fyrst og fremst heilandi fyrir nemandann sjálfan sem þó öðlast líka í leiðinni leikni í að heila aðra,“ segir Stefanía en flestir nemendur hennar fara í gegnum öll þrjú stigin og öðlast við það töluverða leikni og þekkingu í heilun.

Nemendur Stefaníu eru á öllum aldri og af öllum stéttum þjóðfélagsins. „Ég hef fengið til mín fólk á aldrinum 19 til 70 ára. Fólk er fyrst og fremst í leit að betra lífi og að var það sem ég var að leita að þegar ég byrjaði að læra þetta á sínum tíma – að öðlast betra líf. Hingað leitar jafnan stór hópur af fólki úr heilbrigðisgeiranum sem vill öðlast aukna þekkingu og eins líka listamenn í leit að aukinni þekkingu á sjálfum sér,“ segir Stefanía. Hún lýsir því jafnframt þeirri umbreytingu sem verður á fólki við að fara í gegnum þetta ferli:

„Sjálfstraust og sjálfsöryggi aukast. Fólk fer að sjá sjálft sig í öðru ljósi, það fer að ná í óskirnar og draumana sína. Gott dæmi um þetta er stúlka sem var hjá mér og vann á leikskóla. Hún hafði lært skartgripahönnun í Skotlandi en þorði engan veginn að taka áhættuna og freista þess að lifa af sínu fagi. Í Heilunarskólanum fékk hún nægilegt sjálfstraust til að elta drauminn og læra að treysta. Upp frá því tók hún að blómstra. Nýlega tók hún þátt í frægri hönnunarsýningu í New York. Hún blómstrar út um allan heim í sínu fagi og hefur ekki undan við að framleiða og selja. Þessa velgengni þakkar hún meðal annars Heilunarskólanum. Svona sögur eru afskaplega gefandi fyrir mig og hvetja mig til að halda mínu starfi áfram,“ segir Stefanía. Hún bætir við að því fylgi mikið frelsi að líða vel á líkama og sál:

„Við í Nýjalandi trúum því að allir geti öðlast frelsi frá líkamlegum og andlegum verkjum. Heilunarskólinn vill efla innsæi, trú og traust. Breyta viðhorfum þínum og hugsunum. Auka umhyggju og samkennd. Þú kemst nær kjarnanum í sjálfinu og finnur betur fyrir hvað þú sendur og hvað býr í hjarta þínu.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Á heimasíðu Nýjalands má finna margar áhugaverðar umsagnir nemenda um Heilunarskólann. Þar segir meðal annars:

„Heilunarskólinn hefur verið hluti af mínu lífi í tæpt ár. Ég hef fengi frábæra fræðslu og kennslu um orkukerfið mitt, sem hefur nýst mér í daglegu lífi sem ómetanlegur fjársjóður. Ég hef fengið ótal verkfæri til að nýta mér, bæði þá við heilunar vinnu en fyrst og fremst fyrir sjálfan mig.

Þar ber helst að nefna, blómadropa, sjálfsheilun, kristalla og mikilvægi þess að hlúa að og styrkja jákvæða þætti lífsins… eins og jákvætt hugarfar og mikilvægi svefns og næringarríks matarræðis.

Það orð sem lýsir heilunarnáminu best að mínu mati er kærleikur, þar sem hverri manneskju er tekið eins og hún er, allir fá að tjá sig og traustið er það sem ég hef fundið bæði til kennara og annarra nemenda.
Ég hef fengið að læra, hlæja og gráta. Ég hef fengið að upplifa og tala, ég hef fengið að vera nákvæmlega eins og ég er á hverri stundu, dag frá degi.
Ég á ekkert nema þakklæti til skólans og Stefaníu. Og skólinn mun lifa sem varða á mínum vegi í lífinu um ókomna tíð. Takk fyrir mig.“ – Helga

Skráning í Heilunarskólann er hér en Stefanía veitir líka góðfúslega upplýsingar í síma 517 4290. Nýjaland og Heilunarskólinn eru til húsa að Stórhöfða 15, 110 Reykjavík.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af