fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
FókusKynning

Þetta ætla þau að lesa í sumarfríinu

Spenna, heimspeki, ljóð, sjálfshjálp og fleira

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 9. júní 2016 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sólin er farin að skína og landsmenn í óða önn að skipuleggja sumarfríin. Margir nota þennan dásamlega árstíma til að slaka á við lestur bóka. Við höfðum samband við nokkra einstaklinga og inntum þá eftir bókmenntaáformum þetta sumarið.

Símon Birgisson

„Þegar ég kemst í sumarfrí þá hlakka ég til að rífa í mig nokkrar Stephen King bækur. Ég á eftir að lesa Finders Keepers sem er framhaldið af Mr. Mercedes, og hef lengi slugsað við að byrja á The Dark Tower-seríunni. Á sumrin gríp ég stundum bækur á bensínstöðinni eða í Leifsstöð ef ég legg land undir fót. John Grisham, Ed McBain og Ian Rankin eru fínustu ferðafélagar.“

Vélvirki og baráttukona.
Anna Kristjánsdóttir Vélvirki og baráttukona.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Anna Kristjánsdóttir

„Það næsta sem ég mun lesa er bók eftir unga transstúlku frá Sómalíu sem ég hitti í vikunni hér í Mílanó. Nafnið á bókinni man ég ekki en bókin er á hótelinu og verður lesin á leiðinni heim í nótt og næstu dagana.“

Ritstýra MAN Magasín.
Björk Eiðsdóttir Ritstýra MAN Magasín.

Mynd: © DV / Kristinn Magnússon

Björk Eiðsdóttir

„Tvær bækur eru komnar á náttborðið: Undirgefni eftir Houellebecq og Þriðja miðið eftir Ariönu Huffington.
Ég var að byrja á þeirri fyrri og hún lofar góðu enda sló hún rækilega í gegn í fyrra og spyr svo sannarlega áleitinna spurninga. Ég fylgdist með kærastanum gleypa hana í sig á dögunum, fyrst ráðlagði hann mér frá því að lesa hana ef ég vildi líta björtum augum til framtíðar en svo sammæltumst við um að ég yrði taka sénsinn svo við gætum talað um efni hennar, því verður hún kláruð á næstu dögum. Ég bara verð að vera samræðuhæf – hvað sem það gerir framtíðarsýn minni! Þegar henni er lokið byrja ég á Þriðja miðinu eftir fjölmiðlakonuna Ariönu Huffington, stofnanda og aðalritstjóra Huffington Post. Ég hef heyrt vel af bókinni látið en hún tekur á því hversu mikil áskorun það getur verið að samræma fjölskyldulíf og frama. Mig langar að lesa þessa bók af frekar augljósum ástæðum.“

Söng- og leikkona.
Bryndís Ásmundsdóttir Söng- og leikkona.

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Bryndís Ásmundsdóttir

„Ég ætla að taka með mér bók í Nauthólsvíkina og liggja á ströndinni með íspinna í vinstri hönd, og bókina í þeirri hægri. Sú sem ég mun byrja á er Bak við luktar dyr eftir B.A. Paris. Svo ætla ég að lesa Hugrekki, sögu af kvíða eftir Hildi Eir Bolladóttur, yfir kertaljósi og reykelsum.“

Borgarstarfsmaður og rokkari.
Björn Blöndal Borgarstarfsmaður og rokkari.

Mynd: Björt Framtíð

Björn Blöndal

„Ég er að byrja á Alex eftir Pierre Lemaitre sem Friðrik Rafnsson þýddi. Þetta er víst krassandi krimmi. Ef hún stendur undir væntingum verður Irene eftir sama höfund tekin í kjölfarið. Var reyndar að klára aðra bók sem Friðrik þýddi, Undirgefni eftir Michel Houellebecq. Mjög athyglisverð bók sem ég hvet alla til að lesa. The Story of Philosophy eftir Will Durant er á náttborðinu hjá mér, ég ætla að glugga í hana áfram. A History of the American People eftir Paul Johnson verður í ferðatöskunni í sumar. Hún er búinn að vera of lengi ósnert uppi í hillu hjá mér. Ég ætla að reyna að komast í eina gönguferð í sumar og er þess vegna að skanna bókina Gönguleiðir eftir Pál Ásgeir Ásgeirsson. Ætla samt ekki að fara að hans leiðbeiningum um mataræði! Svo les ég að sjálfsögðu það sem félagi minn Jón Gnarr kallar leiðinleg gögn. Það er ástríða hjá mér.“

Menntaskólakennari og nemi í ritlist.
María Hjálmtýsdóttir Menntaskólakennari og nemi í ritlist.

María Hjálmtýsdóttir

„Ég þarf að klára svo margt. Ætla að lesa Stóra skjálfta eftir Auði Jónsdóttur, On Writing eftir Stephen King, og svo var ég að frelsast til ljóða og örsagna og ætla aðeins að marínera mig í þeim. Hér liggur bunki sem inniheldur til dæmis bækur eftir Þórdísi Gísladóttur, Ana María Shua, Mo Yan, Ingunni Snædal, Kristínu Eiríksdóttur og Sigurð Pálsson.“

Ljóðskáld.
Jón Örn Arnarson Ljóðskáld.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Jón Örn Arnarson (Lommi)

„Á dagskrá hjá mér í sumar er Síðasti liðhlaupi þorskastríðsins, ljóðabálkur um málefni „líðandi stunda“, sem birtist í bókinni Þjónn það er Fönix í öskubakkanum eftir Eirík Örn Norðdahl. Annars er ég haldinn afkáralegri fóbíu. Mér þykir óþægilegt að fólk viti hvað ég er að lesa eða ætli að lesa. Hef stundum logið því að elskhugum að ég kannist ekki við bókina á gólfinu.“

Prestur.
Hildur Eir Bolladóttir Prestur.

Mynd: Bjarni Eiríksson

Hildur Eir Bolladóttir

„Ég var fjárfesta í tveim bókum, annars vegar kiljuútgáfu af bók Gunnars Gunnarssonar, Saga Borgarættarinnar sem mèr skilst að sé bókin sem skaut honum upp á stjörnuhimininn, og svo keypti èg bókina Ef þú vilt sem er að ég held fyrsta bók höfundarins Helle Helle og fer mjög vel af stað. Annars er ég líka að lesa Einn af okkur eftir Seierstad sem fjallar um Anders Breivik og voðaverkin í Noregi, ég les hana með hléum svona þegar dregur fyrir sólu því þannig er sú saga eins og við öll vitum.“

Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda
Ólafur Stephensen Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda

Mynd: Kristín Bogadóttir

Ólafur Stephensen

„Ég er að hugsa um að klína einhverja nýlega bók eftir Jo Nesbø út í sólarvörn í útlandafríinu mínu. Svo er ég að byrja á stórskemmtilegri bók eftir Michael Booth, The Almost Nearly Perfect People: The Truth About the Nordic Miracle. Hann horfir á norrænu velferðarsamfélögin með augum gestsins og neyðir heimamenn til að horfast í augu við galla þeirra jafnt og kostina.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Kynning
13.12.2023

Hlífðarpúðar sem aðlagast líkamanum vegna einstakrar tækni

Hlífðarpúðar sem aðlagast líkamanum vegna einstakrar tækni
Kynning
28.11.2023

Skúli fann heilsuna aftur í Póllandi – „Lífsgæði mín löguðust umtalsvert frá því að vera algjör sjúklingur eða öryrki yfir í að komast aftur á vinnumarkaðinn“

Skúli fann heilsuna aftur í Póllandi – „Lífsgæði mín löguðust umtalsvert frá því að vera algjör sjúklingur eða öryrki yfir í að komast aftur á vinnumarkaðinn“
Kynning
31.03.2023

Glæsilegir vinningar í Páskaleik DV: Taktu þátt fyrir 5. apríl

Glæsilegir vinningar í Páskaleik DV: Taktu þátt fyrir 5. apríl
Kynning
29.03.2023

Miklu meiri lífsgæði með Protis Liðum

Miklu meiri lífsgæði með Protis Liðum