fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fókus

Andie lenti í óþægilegri uppákomu vegna rasisma

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 2. september 2018 08:17

Ljósmynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið 2007 markaði hin bandaríska Andie Fontaine tímamót þegar hán var fyrsti innflytjandinn til að taka sæti á Alþingi. Hán fæddist sem Paul Fontaine en tók upp nafnið Nikolov þegar hán gifti sig. Í sumar braut Andie annan múr þegar hán tilkynnti að að kynleiðréttingarferli væri að hefjast. DV ræddi við Andie um uppvöxtinn í Baltimore, innflytjendamál, veruna á Alþingi og leiðréttinguna.

Þetta er brot úr stóru viðtali í helgarblaði DV.

Útlendingastofnun lömuð

Útlendingamál og málefni hælisleitenda hafa verið mikið í umræðunni hér á landi þó að deilurnar um málaflokkinn hafi ekki farið jafn hátt og í nágrannalöndum okkar vestra og eystra. Upp hafa komið mál þar sem fólk hefur verið sent úr landi, jafnvel með börn og um miðjar nætur með lögregluvaldi, sem hefur valdið töluverðri úlfúð. Andie hefur skrifað um þessi mál og hefur á þeim sterkar skoðanir.

„Útlendingastofnun er lömuð stofnun og ég tel að það þurfi einfaldlega að loka henni. Þarna er mannekla, fjárskortur og starfsfólkið hefur ekki orku eða vilja til að sinna þessum málum eins og það ætti að vera að gera. Þarna inni eru gerð ótal hroðvirknisleg mistök sem auðveldlega væri hægt að komast hjá. Sumar ákvarðanirnar eru ómannúðlegar og ólöglegar samkvæmt bæði íslenskum og alþjóðlegum lögum. Ef þessi mistök væru gerð í heilbrigðisráðuneytinu, svo að dæmi sé tekið, þá væru þingmenn organdi og ráðherrann þyrfti að segja af sér. En þar sem þetta snýr að erlendum borgurum þá skiptir það ekki máli.“

Andie undrast hversu lítil virkni er innan stofnunarinnar.

„Bakgrunnsskoðanir eru framkvæmdar af lögreglunni, heilsufarsskoðanir á heilsugæslu, atvinnuleyfi gefin út af vinnumálastofnun. Það eina sem Útlendingastofnun virðist gera er að gefa fólki leyfi til að vera hér eða senda það úr landi. Til hvers er þessi stofnun?“ segir Andie. Einnig að starfsmenn stofnunarinnar skýli sér bak við þá staðreynd að því fólki, frá til dæmis Írak eða Sýrlandi, sem ekki fljúgi hingað beint heldur komi við í öðrum Evrópulöndum og sé skráð þar, sé hægt að vísa beina leið aftur til baka á grundvelli Dyflinnarreglunnar. „Það verður að líta á hvert mál fyrir sig, lesa skýrslur og taka niður vitnisburði, en það kostar tíma, orku og peninga og enginn vilji er til þess.“

 

Óþægileg uppákoma vegna rasisma

Erlendis höfum við séð hægri-popúlistaflokka rísa hratt en ekki hér á Íslandi. Hvað heldur þú að valdi því?

„Ég held að það sé vegna þess að Íslendingar eru almennt á móti öfgum. Á Norðurlöndum hefur lengi ríkt það sem kallast félagsleg sátt og það hefur þótt óþægilegt þegar einhver ruggar bátum, til dæmis ef einhver kvartar á vinnustað. Hinn frægi Indriði, persóna Jóns Gnarr sem kvartar yfir öllu, er dæmigerð fyrir persónu sem þrífst illa í félagslegri sátt. Öllum finnst nærvera hans óþægileg og kvíðavaldandi. Hin félagslega sátt er enn þá mjög sterk á Íslandi en við erum að sjá breytingar á hinum Norðurlöndunum og þess vegna hefur skapast jarðvegur fyrir hægri popúlistaflokka þar og nýnasistar eru að verða meira áberandi.“

Heldur þú að þetta muni gerast hérna líka?

„Ég vona svo sannarlega ekki. Sá rasismi sem birtist hérna er yfirleitt annaðhvort innbyggður í stofnanir eða ómeðvitaður. Ómeðvitaður rasismi birtist okkur í sífellu og get ég nefnt Tong Monitor, persónu sem grínistinn Pétur Jóhann Sigfússon skapaði. Hann birtist í auglýsingu með augun límd, gulmálaður í framan og með ýktan asískan hreim. Einnig hljómsveitin The Hefners frá Húsavík, meðlimir hennar koma fram svartmálaðir með afróhárkollur. Við sjáum alltaf sömu afsökunina, það hafi ekki verið ætlunin að móðga neinn, þetta sé í rauninni ekki rasismi og enginn er tilbúinn að axla ábyrgð á neinu. Málið er að hvítt fólk fær ekki að ákveða hvað sé ekki rasismi.“

Hér á landi hefur öfgaflokkum á borð við Íslensku þjóðfylkinguna og Frelsisflokkinn ekki orðið neitt ágengt í kosningum og þeir fáu nýnasistar sem þorað hafa að tjá sig hafa verið úthrópaðir og hent að þeim grín. Engu að síður fá raddir þeirra sem tala gegn til dæmis múslimum óvenju mikið rými í fjölmiðlum að mati Andie.

„Ég get nefnt sem dæmi Margréti Friðriksdóttur. Af hverju skiptir álit hennar fjölmiðla svo miklu máli? Hún er ekki guðfræðingur, hún hefur ekki stöðu eða menntun í þessum fræðum. Hún stjórnar Facebook-hópi, það er allt og sumt. En fjölmiðlar éta gagnrýnislaust allt upp sem hún segir um múslima, lögregluna, landamæragæslu og hvað eina, af því að ummæli hennar stuða, vekja umtal og skemmtun fyrir lesendur. Sama mætti segja um aðra sem setja fram rangar staðhæfingar um múslima, Araba og aðra útlendinga og heyrast iðulega á Útvarpi Sögu.“

Andie segir að það megi ekki vanmeta þetta vandamál og að þær skoðanir sem birtast á Útvarpi Sögu og víðar geti haft áhrif á skoðanir fólks. Í eitt skipti veittist ókunnug manneskja að háni úti á götu þar sem hán var á rölti með eiginkonu sinni og þriggja ára dóttur.

„Hann kom og öskraði á mig að skattarnir hans væru að fara í að halda mér uppi. En ég sagði honum að ég hefði alltaf unnið og borgað mína skatta og skyldur. Þá varð hann reiðari og sat við sinn keip – að ég hlyti að vera á bótum fyrst ég væri útlendingur. Það kom næstum til handalögmála út af þessu.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“
Fókus
Í gær

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sjáðu senuna sem er sögð sú fyndnasta í Saturday Night Live frá upphafi – Enginn náði að halda andliti

Sjáðu senuna sem er sögð sú fyndnasta í Saturday Night Live frá upphafi – Enginn náði að halda andliti
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs
Fókus
Fyrir 4 dögum

Tinna er líklega búin að finna móður sína – „Ég þarf að vera tilbúin til að fara út til þegar kallið kemur“

Tinna er líklega búin að finna móður sína – „Ég þarf að vera tilbúin til að fara út til þegar kallið kemur“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar