fbpx
Þriðjudagur 19.febrúar 2019

Þorsteinn Guðmundsson fékk vont uppistandsgigg á Höfða

Kristinn H. Guðnason
Mánudaginn 2. júlí 2018 18:00

Ljósmynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þorsteinn Guðmundsson hefur verið einn ástsælasti grínisti landsins síðan hann sló í gegn í þáttunum Fóstbræður, sem sýndir voru á Stöð 2 árin 1997 til 2001. Þorsteinn hefur komið víða við í leiklist, uppistandi, þáttagerð og fleiru. Nú hefur hann breytt um stefnu, menntað sig í sálfræði og starfar við nýstofnaðan bataskóla, sem fólk sem glímt hefur við andleg veikindi og aðstandendur þeirra sækja.

Þetta er brot úr stóru viðtali í helgarblaði DV.

Uppistand fyrir nýrekið fólk

Eftir menntaskólann hélt Þorsteinn í Leiklistarskóla Íslands og síðan í ýmis verkefni á vegum Þjóðleikhússins, Borgarleikhússins og smærri leikhúsa. Að eigin sögn var hann hins vegar ekki beint að slá í gegn. Einnig fór hann að skrifa töluvert og árið 1993 eða 1994 að halda uppistand, sem var þá nánast óþekkt á Íslandi. Orðið uppistand var ekki einu sinni til.

Sem leiklistarskólanemi stefndi Þorsteinn á að verða hádramatískur og alvarlegur leikari en fljótlega komst hann að því að gamanleikurinn ætti betur við hann og í dag er Þorsteinn nær eingöngu þekktur fyrir gamanleik og grín í gegnum ýmsa miðla. Enn kemur Þorsteinn fram af og til sem uppistandari þó að hann leggi ekki sérstaklega mikla áherslu á þann vettvang.

Hafa áhorfendur breyst á þessum aldarfjórðungi?

„Í sjálfu sér ekki en í dag veit fólk út á hvað þetta gengur. Þegar ég var að byrja þá áttu margir erfitt með að skilja hvað uppistand væri. Í dag er orðinn miklu meiri kúltúr fyrir þessu.“

Hefur þú tekið eftir breytingum á því sem leyfilegt er að segja?

„Já, fólk er orðið miklu meðvitaðra um hvað sé móðgandi og á varðbergi gagnvart því. Að sumu leyti er það gott en að öðru leyti takmarkandi. Sérstaklega þegar fólk er að móðgast fyrir hönd annarra, það er bara kjánalegt. Þjóðfélagið hefur breyst mikið á þessum tíma og grínistar verða að þróast með. Það er ekki hægt að vera með sama prógram og sama húmor og fyrir 25 árum.“

Hefur þú móðgað fólk?

„Já, guð!“ segir Þorsteinn og slær sér á lær. „Stundum þannig að ég sé eftir því en stundum þannig að ég sé ekkert eftir því. Uppistandarar eru í mikilli hættu af því að þeir eru í svo nánu samtali við áhorfendur. Með reynslunni hef ég lært að svara fólki og gert þá góðlátlegt grín að því. Þegar ég var að byrja svaraði ég oft á harkalegan hátt og lenti þá jafnvel á einhverjum sem ekki gat tekið því. Síðan lærði ég að beina þessu að til dæmis yfirmönnum eða einhverjum sem ég sé að hefur húmor.“

Þorsteinn segir að hann sjálfur sem grínisti hafi þróast með árunum og hans húmor hafi færst nær raunverulegum smekk. Á fyrstu árunum var hann mikið að apa eftir öðrum og flytja efni í stíl sem hann hélt að fólk vildi heyra.

En hefur þú lent í því að enginn hlær?

„Já, síðast fyrir um það bil tuttugu árum. Það er hrikalega óþægilegt en kemur fyrir alla. Ungir grínistar kenna sjálfum sér um en það geta margar mismunandi ástæður verið fyrir þessu, stemningin og annað. Ég man til dæmis eftir einu atviki þar sem ég var pantaður upp á Höfða til að skemmta starfsfólki eftir vinnu. Þegar ég kom voru ekki nema um tíu manns þarna, sitjandi í sófa með krosslagðar hendur. Það kunni enginn að meta atriðið og enginn hló. Ég fór niðurlútur til forstjórans og baðst afsökunar á því að hafa klikkað svona á sýningunni. En hann sagði mér að hafa ekki neinar áhyggjur. Þetta væri allt saman fólk sem hefði fengið uppsagnarbréf um morguninn og með þessu hefði verið reynt að létta lundina.“

Uppistand er langt frá því það eina sem Þorsteinn hefur tekið sér fyrir hendur. Hann hefur verið dagskrárgerðarmaður í sjónvarpi og útvarpi, með leikna þætti og viðtalsþætti. Skrifað bækur, teiknimyndasögur og margt, margt fleira. Hann segir að í rauninni skipti miðillinn sjálfur ekki máli.

Er listin hark?

„Já, það er alveg hægt að segja það. Þetta er illa borgað og möguleikarnir þegar ég var að byrja voru mun færri en núna. Þetta var mjög stressandi og engin hálaunastörf í boði. Nýútskrifaðir nemar biðu eftir símtali frá Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu og voru búnir að ákveða að finna sér nýjan starfsvettvang ef það kæmi ekki. Í dag eru möguleikarnir fjölbreyttari. Til dæmis er elsti sonur minn, sem er nýútskrifaður, ekki að hugsa á þessum nótum heldur um alls konar verkefni sem hann ætlar að taka sér fyrir hendur.“

Kristinn H. Guðnason
Kristinn Haukur Guðnason er blaðamaður og sagnfræðingur sem starfað hefur hjá DV síðan 2017 en áður skrifaði hann fyrir Kjarnann.
Kristinn skrifar almennar fréttir, mannlífsviðtöl, um söguleg málefni og menningu.
Hann er ólæknanlegur nörd sem eyðir laugardagskvöldum í að spila við sjálfan sig og leggja höfuðborgir heimsins á minnið.

netfang: kristinn@dv.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 3 klukkutímum

Helga Möller sviptir hulunni af sínu vinsælasta lagi: „Þetta er náttúrulega bara klámtexti“

Helga Möller sviptir hulunni af sínu vinsælasta lagi: „Þetta er náttúrulega bara klámtexti“
Bleikt
Fyrir 3 klukkutímum

Karl Lagerfeld er látinn

Karl Lagerfeld er látinn
Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum

Elvar og Sveinn í rusli eftir Hlíðamálið: „Það gera allir mistök í lífinu“

Elvar og Sveinn í rusli eftir Hlíðamálið: „Það gera allir mistök í lífinu“
Matur
Fyrir 4 klukkutímum

Auglýsing í Fréttablaðinu ruglar fólk í ríminu: „Þar sem kjöt snýst um fólk“

Auglýsing í Fréttablaðinu ruglar fólk í ríminu: „Þar sem kjöt snýst um fólk“