fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Fókus

Fermast þau bara fyrir gjafirnar?

Margrét Gústavsdóttir
Laugardaginn 7. apríl 2018 17:00

Jón Gnarr á frægri fermingarmynd.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sumir vilja meina að flestir unglingar fermist aðeins vegna gjafanna en svo þarf ekki endilega að vera. Hvort sem þau kjósa borgaralega eða kristna fermingu er athöfnin í hugum margra fyrst og fremst vitnisburður um að nú sé unglingurinn kominn „til vits og ára“ og flestir unglingar fagna því, – um leið og þeir taka á móti kærkomnum gjöfum og faðma gamla frændur og frænkur.

Í bók sinni Merkisdagar á mannsævinni skrifar Árni Björnsson að fermingargjafir hafi ekki byrjað að tíðkast á Íslandi fyrr en um miðja 19. öld. Fyrst um sinn voru þær aðallega eitthvað sem kom ungmenninu að gagni og voru hugsaðar sem veganesti inn í fullorðinsárin.

Seinna myndaðist hefð fyrir því að gefa bækur og flíkur en með tímanum urðu peningar og skartgripir líka vinsælar fermingargjafir. Í sveitum fengu börnin gjarna kindur, reiðtygi eða hesta í fermingargjöf, og tíðkast sá siður enn hjá þeim sem alast upp í sveitinni.

Vasaúr, húsgögn og skatthol

Á þriðja áratug síðustu aldar urðu vasaúr algeng fermingargjöf fyrir stráka og síðar komu armbandsúrin til sögunnar fyrir bæði kynin.

Það var svo ekki fyrr en eftir miðja síðustu öld að húsgögn urðu vinsælar fermingargjafir og sum fermingarbörn voru svo heppin að allt herbergið var tekið í yfirhalningu. Með því skyldi barnaskapurinn að baki. Skatthol og kommóður voru gríðarlega vinsælar gjafir í mörg ár en þau eru sjaldséð í dag þrátt fyrir að vera einstaklega falleg og skemmtileg hönnun.

Eftir því sem efnahagur og velsæld þjóðarinnar varð meiri, urðu fermingargjafirnar flottari. Árum saman var hvers konar útilegubúnaður mjög vinsæll til fermingargjafa enda fyrsta útilegan eftir fermingu einnig ákveðin vígsla inn í manndóminn. Saltvík, Þjórsárdalur, Húsafell, Uxi, Eldborg, Ein með öllu og fleiri útileguhátíðir um verslunarmannahelgar eru enn í minnum hafðar hjá ákveðnum kynslóðum enda ýmislegt þar sem þar gerðist sem ekki verður tíundað hér.

Akai, Pioneer og JVC – Hringja þessi nöfn einhverjum bjöllum?

Upp úr 1970 byrjuðu hljómflutningstæki að ryðja sér til rúms sem vinsælasta fermingargjöfin en betri borgarar fóru að gefa börnum sínum utanlandsferðir. Hin svokölluðu bjútíbox urðu einnig mjög vinsæl gjöf þessum árum, þá aðallega fyrir pjattaðar stelpur.

Hljómflutningstæki voru vinsæl fermingargjöf í að minnsta kosti þrjá áratugi og það sama má segja um orðabækur. Miklu skipti þó að hljómtækin væru af réttri gerð og Marantz, Akai, JVC og Pioneer voru á tímabili talin það eina sem skipti máli. Í dag er óhætt að fullyrða að fartölvur, utanlandsferðir og peningagjafir tróni á toppnum yfir það sem unglingarnir óska sér helst þótt sum brosi eflaust kurteislega þegar þau þiggja Passíusálmabók eða fallegt armbandsúr.

Fermingargjafir síðustu fimm áratugina

Ferming 1967: Eitt fallegt armbandsúr sem enn er í fullri notkun.

Ferming 1974: Peningar, skartgripir og svefnpoki. Fermingarfötin voru flauelsdragt keypt í Karnabæ.

Ferming árið 1981: 35mm Richo-myndvél og Seiko-armbandsúr.

Ferming 1984: Ikea-húsgögn, orðabók og Akai-hljómtæki.

Ferming 1986: Yfirhalning á herbergi, skartgripir, svefnpoki og armbandsúr frá Seiko.

Ferming sveitastelpu árið 1991:  Reiðhnakkur og beisli. Rúm og hljómflutningstæki. Með fylgdi geisladiskur með Vanilla Ice.

Ferming sveitastráks 1997: Hljómflutningsgræjur sem tóku 61 geisladisk og góður reiðhestur.

Ferming árið 2000: Technics SL 1210-plötuspilari.

Ferming 2012: Ferð í fótboltaskóla til útlanda, myndavél og peningar.

Ferming 2016: Fótbolta- og tónleikaferð til útlanda, peningar og fræðslubækur.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir móður sína stórhættulega í umferðinni – „Hvernig get ég fengið mömmu til að hætta að keyra?“

Segir móður sína stórhættulega í umferðinni – „Hvernig get ég fengið mömmu til að hætta að keyra?“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hver fer á Bessastaði? – Þetta eru makar forsetaframbjóðendanna

Hver fer á Bessastaði? – Þetta eru makar forsetaframbjóðendanna
Fókus
Fyrir 4 dögum

Bankarnir í Þýskalandi hata hana – Þetta er ástæðan

Bankarnir í Þýskalandi hata hana – Þetta er ástæðan
Fókus
Fyrir 4 dögum

Aðdáendur Taylor Swift halda ekki vatni eftir nýjasta uppátæki hennar

Aðdáendur Taylor Swift halda ekki vatni eftir nýjasta uppátæki hennar