fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024

Ofurhuginn Inga María: Varð amma 37 ára – Fann flottan Svía á Tinder – Leiðin liggur til Uppsala

Margrét Gústavsdóttir
Laugardaginn 31. mars 2018 11:01

„Ég vara þig við. Kannski er svolítið vond lykt af honum. Ég er orðin frekar ónæm.“ Allir sem þekkja Ingu vita að hún safnar hræjum. Þennan hrafn fann vinur hennar í Keflavík en Inga afþýddi hrafninn sérstaklega til að sýna Sigtryggi, ljósmyndara DV.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fólk er mishrifið af dýrum. Sumir hreinlega þola þau ekki meðan aðrir elska þau út af lífinu. Inga María Brynjarsdóttir teiknari tilheyrir síðarnefndum hópi. Í raun er hún svo heilluð að hún er með heila frystikistu af dauðum dýrum heima hjá sér og lifibrauð sitt hefur hún af því að teikna þau.

Ástríðan fyrir lífverum er reyndar ekki það eina sem gerir Ingu Maríu öðruvísi en allflestar konur. Hún er mikill ofurhugi, stundar bæði köfun og fallhlífarstökk og segist ekki í rónni nema ný áskorun sé framundan. Þegar myndlistin hefur ekki dugað til að draga björg í bú hefur hún stokkið í fjölbreytt verkamannastörf enda jafnoki margra karlmanna þegar kemur að styrk og líkamlegu atgervi. Inga hefur bæði hellulagt og málað hús enda fæstir garðar svo háir að hún treysti sér ekki til að ráðast á þá.

„Ég var alltaf mjög hvatvís og orkumikill krakki. Út á við var ég reyndar feimin en á sama tíma gekk ég lengra en aðrir, var óhrædd og djörf, beit á jaxlinn og harkaði af mér. Þótt æska mín hafi verið nokkuð ágæt var hún engan veginn áfallalaus og á margan hátt held ég að áföllin hafi fært út mörkin mín og tilfinninguna fyrir því hvað telst eðlilegt enda hef ég oft upplifað að það sem er mjög eðlilegt fyrir mér, er það alls ekki fyrir öðrum,“ segir Inga María hugsi og veltir því upp hvort botnlaus áhugi hennar á dýrum gæti átt svipaðar skýringar.

„Yfirleitt tjái ég mig betur með því að teikna en að tala. Ég hef líka alltaf átt auðvelt með að tengjast dýrum og ná sambandi við þau. Maður skapar sér öryggi og ramma í því sem maður þekkir og treystir en dýrin og myndlistin eru samofin tilveru minni og hafa alltaf verið það. Kannski að ég hafi skapað mér öryggi í þessu tvennu.“

Flutti heim til fjölskyldu vinkonu sinnar

Inga María, sem er fædd árið 1980, ólst upp hjá einstæðri móður, Gunnhildi Oddsdóttur sjúkraþjálfara. Þær mæðgur bjuggu í Danmörku frá því Inga var tveggja til fjögurra ára og fluttu svo til Noregs þegar hún var um tíu ára. Þess á milli bjuggu þær í Hlíðahverfinu í Reykjavík. Hún segir teiknihæfileikana hafa komið sér vel þegar kom að því að kynnast krökkum í Noregi.

„Þau samþykktu mig strax þegar þau sáu að ég gat teiknað.“

„Með teikningunum gat ég einhvern veginn brúað bilið sem vantaði af því ég talaði auðvitað ekki tungumálið,“ rifjar hún upp. „Þau samþykktu mig strax þegar þau sáu að ég gat teiknað.“

Þótt félagslífið hafi gengið ágætlega í Noregi langaði Ingu samt aftur heim til Íslands enda saknaði hún vina sinna. Þar sem móðir hennar átti enn tvo vetur eftir af náminu var afráðið að Inga færi til móðurömmu sinnar sem bjó í Vogahverfinu. Þar fannst henni samt enn allt of langt í vinina svo úr varð að hún fékk að búa heima hjá bestu vinkonu sinni, Hildi Eddu, dóttur Einars Kárasonar og Hildar Baldursdóttur, konu hans.

„Mér fannst alveg frábært að dvelja á heimili þeirra. Fram að þessu hafði ég alltaf verið bara ein með mömmu eða ömmu og kærkomin tilbreyting að búa allt í einu á stóru og líflegu heimili. Fjölskyldan var með fjöldann allan af gæludýrum og mér fannst ég alveg komin í himnaríki. Við Hildur Edda deildum líka áhuganum á dýrum og ég á enn skráningarbækur frá þeim kvöldum þar sem við gengum í hús í hverfinu og skrásettum, nöfn, tegundir, heimili og aldur dýranna sem þar voru,“ rifjar hún upp og hlær.

„Agúrka kostar svona þúsund kall. Ef hún er þá til á landinu“

„Með aldrinum varð ég svo hálfgerð „ofsatrúarmanneskja“ í dýraverndunarmálum. Skráði mig í PETA og fleiri dýraverndunarsamtök og hikaði ekki við að vinda mér upp að konum í pelsum og úthúða þeim. Með aldrinum hafa viðhorf mín hins vegar gerbreyst. Núna finnst mér mikið eðlilegra að fólk drepi sér til matar og nýti svo alla afurðina í stað þess að kaupa plastað kjöt í næstu búð. Það er mannúðlegri og eðlilegri tenging við náttúruna að fella dýr með eigin hendi og verka þau svo en að kaupa sem fjöldaframleidda vöru hjá næsta kaupmanni. Að mörgu leyti finnst mér mannfólkið komið úr tengslum við náttúruna og dýrin,“ segir Inga María um leið og hún bendir á að flest fólk keyri rakleiðis framhjá, sjái það slasað eða dautt dýr liggjandi í vegkanti.

„Á sama tíma hafa aldrei fleiri grænmetisætur verið á Íslandi. Það er auðvitað frábært að fólk sé meðvitað um mataræði og neyslu en á sama tíma finnst mér þetta svolítil nútíma firring. Fyrir nokkrum áratugum hefði ekki verið hægt að vera grænmetisæta á Íslandi, einfaldlega af því náttúran býður ekki upp á það,“ segir Inga og ber saman okkar matarmenningu og matarmenninguna hjá nágrönnum okkar á Grænlandi:

„Þar væri ekki séns að vera vegan!“ segir hún og skellir upp úr. „Agúrka kostar svona þúsund kall. Ef hún er þá til á landinu.“

Sjálf prófaði Inga María að vera grænmetisæta í eitt ár en segir að sér hafi ekki liðið vel af því. Hún varð orkulaus og meltingin léleg. „Hins vegar fór ég að hugsa töluvert um mataræðið eftir þetta; hvað maður borðar og hvað það skiptir miklu máli að bera virðingu fyrir því sem er drepið svo að aðrir geti borðað það.“

„Sumir sleðahundar eru meira að segja þjálfaðir í að drepa fullorðna ísbirni með einu biti. Þá bíta þeir í afturendann, eða endaþarminn á birninum, og rífa innyflin út með einum hnykk.“

Bíta í endaþarminn og rífa innyflin út

Inga María kom fyrst til Grænlands síðasta sumar en þangað fór hún að frumkvæði Hrafns Jökulssonar sem er mikill Grænlandsvinur og hvatamaður þess að settur var á laggirnar sérstakur sjóður fyrir grænlensk börn. Þann 17. júní 2017 reið mikil flóðbylgja yfir austurströnd Grænlands sem olli því að heilu þorpin þurrkuðust út og fólk missti heimili sín. Tilgangur ferðarinnar var að heimsækja munaðarlaus börn sem búa í hinu afskekkta þorpi Uummannaq en þangað er aðeins hægt að komast með þyrlu. Hún segir heimsóknina hafa haft mjög mikil áhrif á sig og langar að fara aftur og setjast þá jafnvel að í stuttan tíma.

„Öll skynjun mín á umhverfinu breyttist þegar ég kom í þetta einstaka land.“

„Íslendingar og Grænlendingar eiga margt sameiginlegt og að koma til Grænlands er eins og að fara mörg ár aftur í tímann hér á Íslandi. Öll skynjun mín á umhverfinu breyttist þegar ég kom í þetta einstaka land. Við vöknuðum við gól í sleðahundum og sofnuðum út frá því líka en hundarnir eru alls staðar. Flestir eru hlekkjaðir niður með keðjum, enda eru þeir alls engin gæludýr heldur fyrst og fremst vinnudýr. Þeir eru ekki teknir inn nema veðrið sé algjörlega brjálað. Einu sinni gekk mjög vont veður yfir og daginn eftir lágu margir hundar dauðir í keðjunum sínum. Svo koma reglulega upp tímabil þar sem menn verða að skjóta niður lausa hunda, einfaldlega af því þeir eru vargar. Hættulegir bæði börnum og öðrum dýrum. Sumir sleðahundar eru meira að segja þjálfaðir í að drepa fullorðna ísbirni með einu biti. Þá bíta þeir í afturendann, eða

Inga María á Korsíku með vinum sínum að kafa.

endaþarminn á birninum, og rífa innyflin út með einum hnykk.“

Inga lýsir upplifun sinni þannig að gríðarlega miklar andstæður mætist í menningunni og lífsstíl fólksins á Grænlandi. Til dæmis segir hún skólann sem hún kenndi myndlistina við í Uummannaq hafa verið best útbúna skóla sem hún hefur komið í á ævinni. Þar séu drónar í kössum og hátæknitölvubúnaður, börn sem búa þar á munaðarleysingjahæli fái að fara í flott ferðalög á hverju ári, meðal annars til Mexíkó og annarra framandi landa og yfirleitt komi þessi lífsins gæði í formi alls konar fjárveitinga og styrkja.

„Stemningin er svo sértök. Fólkið er einhvern veginn svo brosmilt og glaðlegt en á sama tíma veit maður bæði og skynjar að undir yfirborðinu bjátar oft mikið á.“

Lærði að kafa til að komast yfir hræðslu við hákarla

Talandi um yfirborð. Inga segir að á sínum tíma hafi hún lært að kafa, einfaldlega af því að hún var skíthrædd við yfirborð hafsins. Hún vildi yfirstíga þennan ótta, fara undir yfirborðið og kynnast veröldinni sem þar leynist.

„Ég er ein af þeim sem fékk hið svokallaða Jaws-heilkenni eftir að hafa horft á myndina um hákarlinn ógurlega. Til að komast yfir þennan ástæðulausa ótta ákvað ég að læra að kafa og sé ekki eftir því. Um leið og maður er kominn niður í þennan fallega og framandi heim tekur eitthvað alveg nýtt við. Maður rekst á alls konar fiska, sem hver og einn hefur sín einstaklingseinkenni og ef það kemur hákarl, jú, þá er auðvitað bara ekkert við því að gera,“ segir Inga og skellir upp úr.

Þunglyndur fiskur og kanína með sjálfsmorðshneigð

Spurð að því hvort einhver sérstök dýr séu í meira uppáhaldi en önnur segir Inga það aðallega vera dýr sem enginn annar vill eiga og þær eru ófáar skepnurnar sem hún hefur tekið að sér.

„Seinni barnsfaðir minn var að vinna í gæludýraverslun við Hlemm og ég var auðvitað fastagestur þar. Í búðinni hafði lengi verið til sölu dökkleitur, þunglyndur suðrænn fiskur sem enginn vildi kaupa. Hann sópaði alltaf sandi upp að glerinu á fiskabúrinu með sporðinum og faldi sig þar. Ég fór heim með fiskinn og smátt og smátt tók hann að skipta litum. Varð röndóttur og alveg ofsalega fallegur. Mér fannst hann samt þurfa stærra búr en þegar ég var kominn með það, fattaði ég að það passaði ekki inn til mín svo ég skipti honum, og búrinu, út fyrir kanínu.

Kanínan var reyndar mjög hress en fyrir átti ég hins vegar aðra kanínu sem var fötluð og með undarlega sjálfsmorðshneigð. Það hrundi yfir hana búr þegar hún var ungi en við það fótbrotnaði hún og fékk eitthvert áfall sem gerði hana svolítið skrítna. Stundum fann ég hana skorðaða af á bak við sófa eða önnur húsgögn þar sem hún virtist viljandi hafa komið sér í ógöngur,“ segir Inga María, stendur upp og sýnir með látbragði hvernig kanínan hafði fest sig. „Nýja kanínan reyndist svo ágætis félagsskapur fyrir greyið og ég vona að þunglyndi fiskurinn hafi fengið góðan aðbúnað líka,“ segir Inga María og hlær.

„Ég var búin að vera einhleyp í rúmlega sex ár og dóttur minni fannst þetta komið gott. Nú þyrfti mamma hennar að fá sér kærasta. Hún fór í símann minn, opnaði Tinder og fór að fletta.“

Fann flottan svía á Tinder og stefnir til Uppsala

Ásta- og fjölskyldulíf Ingu Maríu hefur einnig verið óhefðbundið á mælikvarða margra. Hún hefur að minnsta kosti aldrei fetað hinn gullna meðalveg vísitölufjölskyldunnar. Inga María varð móðir aðeins 19 ára og amma 37 ára, þegar dóttir hennar, Kara, eignaðist litla stelpu í fyrra, þá átján ára gömul. Með því bættist fimmti ættliðurinn í beinan kvenlegg Ingu Maríu.

Inga María á líka soninn Dalí, eða Daníel Loka, sem nú býr ásamt föður sínum og stjúpu í bænum Uppsala í Svíþjóð. Gaman er að segja frá því að Inga María fann einmitt ástina þegar hún fór ásamt dóttur sinni og barnabarni til Uppsala að heimsækja Dalí síðasta haust.

Barnabarn Ingu, Eva María Pat­reks­dótt­ir, fædd­ist 20. mars í fyrra. Hér kúrir hún hjá mömmu sinni, Köru Lind Sigþórs­dótt­ur, og með á myndinni eru Gunnhildur, móðir Ingu, og langalangamman Rann­veig Jóns­dótt­ir, sem lést á síðasta ári.

„Ég var búin að vera einhleyp í rúmlega sex ár og dóttur minni fannst þetta komið gott. Nú þyrfti mamma hennar að fá sér kærasta. Hún fór í símann minn, opnaði Tinder og fór að fletta. Nokkrum dögu síðar var ég komin á stefnumót með alveg dásamlegum manni sem ég er mjög ástfangin af í dag,“ segir Inga María sem stefnir á að flytja til Uppsala eftir um það bil tvær vikur og láta reyna á ástina.

„Maður verður bara að taka sénsa,“ segir hún og hlýhugurinn til sænska kærastans, sem heitir Robert Mentzer, leynir sér ekki. „Ég er samt ekki viss um að það hefði verið jafn auðvelt að stökkva á þennan séns ef sonur minn ætti ekki heima í næsta húsi,“ segir hún, en hinn heppni, sem er fjórum árum eldri en Inga María, starfar sem veitingamaður og á tvö börn úr fyrra sambandi.

„Pabbi sonar míns og fósturmamma eru að ljúka námi frá háskólanum í Uppsala. Sem mömmu hans fannst mér fínt að hann fengi rútínuna og öryggið sem fylgir því að búa með stærri fjölskyldu,“ segir hún og bætir við að hún hafi aldrei fundið fyrir neinum fordómum vegna þess að hún, sem móðir, sé sátt við að sonur hennar búi á öðru heimili. „Hann hefur jú verið hjá mér í öllum fríum og þetta er það fyrirkomulag sem hentaði aðstæðunum best.“

Virkar betur með brotna fólkinu

Inga María vinnur nú að því að klára tvö stór myndskreytingarverkefni fyrir bæði ríki og borg en þegar þeim er lokið ætlar hún að pakka niður í tösku og fljúga á vit ástarinnar, allsendis óhrædd við það sem framtíðin ber í skauti sér.

„Ég þarf alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni en svo þrífst ég líka á því að mæta áskorunum. Þegar ég kem til Svíþjóðar ætla ég að taka skotveiðileyfi til að komast að því hvort ég geti einfaldlega látið verða af því að drepa dýr. Næsta skref er svo að finna einhvern sem getur kennt mér að stoppa þau upp því það hefur mig alltaf langað til að læra. Svo hlakka ég til að prófa að fara aftur í sambúð og vona að hún gangi vel þótt ég sé auðvitað orðin mjög vön því að vera ein eftir þessi sex ár.“

Dýrahræ í frysti, köfun, fallhlífarstökk, skotveiði, hellulögn og uppstoppun. Finnst þér aldrei erfitt að vera svona frábrugðin öðrum konum á fertugsaldri?

„Jú, auðvitað hef ég margoft fengið að heyra að ég sé klikkuð,“ segir Inga og skellihlær en skiptir svo yfir í alvarlegri tón og spyr við hvað sé þá verið að miða:

„Fólk sem býr í raðhúsum og er í langtímasamböndum? Það er auðvitað gott og blessað en það virka ekki allir eins, – og öll eigum við líka okkar sögu. Sjálf á ég til dæmis tvo vinahópa frá mínum æsku- og uppeldisárum. Annar samanstendur af mjög heilsteyptu fólki ef svo mætti að orði komast. Fólki sem kemur úr hefðbundnu fjölskyldumynstri og á foreldra sem hafa alltaf stutt það, bæði fjárhagslega og með öðrum hætti. Hinn vinahópurinn minn samanstendur af fólki sem hefur meira þurft að spjara sig sjálft og er kannski á einhvern hátt „brotnara“. Ég virka betur með síðarnefnda hópnum. Mér finnst hann skilja lífið betur. Þau er ekki eins dómhörð á mistök annarra, baktala síður hvert annað og sýna almennt meiri skilning og samkennd. Hinn hópurinn er oft dómharðari. Sér lífið sem ýmist svart eða hvítt en gleymir gráskalanum og öllu þar á milli. Sjálf er ég alveg sátt við mína fortíð enda hefur hún búið til þá manneskju sem ég er í dag og ég er sátt enda engin lognmolla í mínu lífi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Ógeðslegt athæfi – Pissaði í glas og skvetti á aðra áhorfendur

Ógeðslegt athæfi – Pissaði í glas og skvetti á aðra áhorfendur
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Ofbeldismenn herja á starfsfólk Héraðssaksóknara

Ofbeldismenn herja á starfsfólk Héraðssaksóknara
Pressan
Fyrir 9 klukkutímum

Leikfimiskennari sakaður um að taka nektarmyndir af yfir 100 stúlkum

Leikfimiskennari sakaður um að taka nektarmyndir af yfir 100 stúlkum
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Setur glæsilegt hús sitt á sölu – Vill fá 800 milljónir fyrir það

Setur glæsilegt hús sitt á sölu – Vill fá 800 milljónir fyrir það
Pressan
Fyrir 10 klukkutímum

Varpa sprengju inn í Gilgo-morðmálið – Er lögreglan að fela eitthvað ?

Varpa sprengju inn í Gilgo-morðmálið – Er lögreglan að fela eitthvað ?
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Miklar breytingar á enska bikarnum um næstu helgi – Ekki spilað í deildinni um sömu helgi

Miklar breytingar á enska bikarnum um næstu helgi – Ekki spilað í deildinni um sömu helgi
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Eiginkona Gundogan blandar sér í stríðið í klefanum hjá Barcelona

Eiginkona Gundogan blandar sér í stríðið í klefanum hjá Barcelona