fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fókus

Kalli Bjarni

Auður Ösp
Laugardaginn 3. mars 2018 16:52

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Mamma var ung þegar hún eignaðist mig. Hún vissi að það var betra fyrir mig að alast upp hjá ömmu. Fyrstu árin var ég sár og stundum reiður því ég taldi að hún hefði yfirgefið mig. Seinna komst ég að því að hún hafði tekið erfiða ákvörðun að láta frá sér barnið sitt til að það gæti átt betra líf. Hjá ömmu ólst ég upp í vernduðu umhverfi. Æska mín var góð og mér leið vel hjá ömmu.“

Þetta segir Karl Bjarni Guðmundsson eða Kalli Bjarni eins og hann er gjarnan kallaður. Kalli varð fyrst frægur á Íslandi fyrir að sigra Idol-stjörnuleit. Kalli starfar í dag sem sjómaður en hann stefnir á að gefa út nýja tónlist á næstu misserum. Í kjölfarið voru miklar vonir bundnar við söngvarann en framundan voru öldudalir. Kalli hafði sem unglingur tekist á við fíkn vegna áfengis og fíkniefna. Þegar álagið eftir keppnina varð sem mest nýtti hann sér örvandi efni til að halda sér gangandi en þegar mest var spilaði hann á átta mismunandi stöðum sama daginn. Þegar Kalli missti tökin á neyslunni og var búinn að koma sér í skuldir tók hann að sér í eitt skipti að flytja inn fíkniefni til landsins. Kalli sagði frá þeirri sögu í þættinum Burðardýr en þættirnir hafa vakið mikla athygli á Stöð 2 í vetur. Í þættinum rifjaði Kalli á einlægan hátt upp æskuna, samband sitt við ömmu sína, ástina, framtíðina þá á Kalli og unnusta hans von á dreng … Þá bræddi þjóðina myndskeið þar sem sjá mátti Kalla syngja á finnsku fyrir aldra ömmu sína á hjúkrunarheimili en amma hans er 95 ára. Von er á nýju lagi frá Kalla og stefnir hann á að gefa það út á afmælisdegi ömmu sinnar.

„Amma er algjör nagli,“ segir Kalli og bætir við að ef til vill hafi hún verið of góð við hann. „Hún kenndi mér margt en hún gat líka verið hörð í horn að taka. Hún bannaði mér stundum að fara út á kvöldin og fékk ég ekki leyfi fyrr en ég hafði sýnt fram á það að ég væri búinn að læra heimalærdóminn eða að ég kynni að leggja snyrtilega á borð. Ég er þakklátur fyrir að hafa alist upp hjá henni í Grundarfirði.“

Læknar vildu eyða Kalla

Þegar Sveinbjörg móðir Kalla var ólétt af honum lenti hún í alvarlegu umferðarslysi. Þá ók strætó yfir fótlegg hennar og brotnaði hún illa. Þegar læknarnir áttuðu sig á að hún væri ófrísk var lagt hart að henni að eyða fóstrinu. Vildu læknarnir meina að ef hún færi ekki eftir ráðleggingum þeirra myndi bataferlið taka mun lengri tíma og jafnvel ekki ná fullum bata. Móðir hans tók það hins vegar ekki í mál og Kalli kom í heiminn þann 6. janúar 1976. Leiðir þeirra Sveinbjargar og Guðmundar höfðu skilið á þessum tíma. Guðmundur bjó og starfaði í Noregi en móðir hans var á Íslandi. Móðir hans taldi hagsmunum hans betur borgið á Grundarfirði hjá ömmu hans og afa og flutti hann til þeirra þegar han nvar um tveggja ára gamall. Nokkrum árum síðar voru Kalli og Elna Bárðarson, amma hans ein eftir þegar eiginmaður hennar féll frá. Elna er af finnskum ættum.

„Það er mömmu og ömmu að þakka að ég átti dásamlega æsku. Ég þakka mömmu fyrir hugrekkið að hafa látið mig til ömmu. Amma á líka mikinn þátt í því að ég byrjaði að syngja en ég var þriggja ára þegar ég var farinn að syngja alla daga.“

Einkatónleikar

Kalli og Elna amma hans ferðuðust reglulega saman með rútu á milli Grundarfjarðar og Reykjavíkur þegar hann var polli. Þá fékk Elna leyfi hjá bílstjóranum til að leyfa honum að grípa í hljóðnema í rútunni sem var ætlaður farastjórum.

„Ég tók stundum lagið í rútunni fyrir farþegana og þótti flestum það skemmtilegt, sem betur fer,“ segir Kalli Bjarni og hlær. „Þetta varð til þess að ég var snemma laus við alla feimni. Amma var líka alltaf að fá mig til að syngja og og semja og spila á hljóðfæri.“

Kalli bætir við að æska hans hafi verið góð og honum liðið vel á Grundarfirði. Hann var í hljómsveit með félögum sínum og 12 ára byrjaði hann að vinna eins og margir krakkar á þessum tíma. Vann hann við að pilla rækjur og til að ná upp á færibandið þurfti hann að standa upp á bláum mjólkurkassa til að ná upp á færibandið. Peningurinn fór svo í gos og prins polo.

Fyrsti sopinn

Þegar Kalli var 14 ára tók hann örlagaríka ákvörðun. Þá bragðaði hann áfengi í fyrsta sinn. Kalli lýsir því á þann hátt að á skemmtun í Grundarfirði á þjóðhátíðardaginn stóð hann uppá sviði ásamt hljómsveit þegar gosflösku með áfengi var hent uppá svið. Kalli fékk sér sopa og endaði kvöldið á þann hátt að hann kom heim til ömmu sinnar undir áhrifum áfengis. Elna amma hans las yfir hausamótunum á barnabarninu og lét Kalli áfengi vera í nokkra mánuði á eftir.

Það var síðan ekki fyrr en í 10. bekk í grunnskóla sem áfengisneyslan hófst fyrir alvöru. Kalli flutti þann vetur í neðra Breiðholt til móður sinnar en amma hans glímdi við veikindi á þeim tíma. Lopapeysa vék fyrir leðri og gúmmítúttunum var fljótlega lagt.

„Ég kom úr vernduðu umhverfi og allt í einu var ég innanum hóp af krökkum þar sem þú varst ekki samþykktur nema að drekka líka. Ég setti geislabauginn á hilluna og upp fór hanakamburinn og þóttist vera voða svalur og bjó til aðra og harðari útgáfu af sjálfum mér.“

Á þessum tíma fór Kalli einnig að fikta við fíkniefni og ánetjaðist kannbisefnum og fikaði einnig við harðari efni. Ekki leið á löngu þar til Kalli var sendur á meðferðarheimilið Tinda. Meðferðarstöðin sem var á Kjalarnesi hjálpaði mörgum unglingum á þessum tíma en um var að ræða afar metnaðarfullt úrræði fyrir unglinga sem stóð yfir í nokkra mánuði. Á Tindum kynntist Kalli piltum á svipuðu reki sem höfðu glímt við fíkn. Í kjölfarið stofnuðu þeir hljómsveitina Viridian Gree um miðjan tíunda áratuginn. Hljómsveitin var efnileg og spilaði víða. Sigurjón Ingibjörnsson var í hljómsveitinni með Kalla en hann segir:

„Það kom snemma í ljós að Kalli Bjarni var mikið tónlistarefni. Hann er með tónvissari mönnum sem ég þekki. Málið var bara að hann kæmi sér á framfæri. Og það hefur hann svo sannarlega gert.“

Kalli og vinir hans í sveitinni voru án áfengis í um tvö ár og hjálpuðu hvor öðrum að halda sér á beinu brautinni. Þegar þeir svo misstu tökin gerðist það sama kvöldið. Í kjölfarið horfði Kalli upp á einn sinn besta vin sem einnig var í sveitinni, og var kallaður Kiddi. Þeir stefntu á plötuútgáfu saman. Það varð aldrei neitt úr því. Kiddi missti tök á neyslunni og sá enga aðra leið en sjálfsvíg. Kalli ákvað síðar að heiðra minningu hans með laginu Til Kidda.

Andleg vakning á Skólavörðustíg

Barátta Kalla við fíknina hélt áfram en um 18 ára flutti hann til Vopnafjarðar og byrjaði á sjó. Þá var hann á togara. Bjó Kalli meira og minna á Vopnafirði næstu fjögur árin.

„Ég sá eftir að hafa ekki lokið námi og ég var týndur og vissi ekki hvað ég vildi. Flóttaleiðin var áfengi og neyslan ágerðist. Í kjölfarið var ég búinn að koma mér í vandræði og hafði fengið sektir vegna smábrota sem tengdust neyslunni og þurfti að sitja í sektarfangelsi í um viku á Skólavörðustíg og var einnig um tíma í Kópavogsfangelsinu. Þar varð Kalli fyrir andlegri vakningu. Í viðtali við DV árið 2004 rifjaði hann einnig upp fangelsisvistina:

„Mig fór allt í einu að dreyma, og milli svefns og vöku sá ég sjálfan mig sem barn, þar sem spurt var: Hvað ætlar þú að verða þegar þú ert orðinn stór? Og ég sá ömmu þar sem hún var að kenna mér um allt hið góða í lífinu og ég sá Öllu fyrir mér. Það breyttist allur minn hugsunargangur í einum vettvangi og ég fann það svo sterkt að líf mitt eins og það var á þessum tímapunkti var ekki það sem ég lagði upp með, það var ekki í samræmi við það veganesti sem mér var gefið af góðu fólki. Ég vil meina að þarna hafi einhverskonar æðri máttur verið að verki, þótt ég sé efasemdarmaður í trúmálum.

Þetta var eins og faðir hefði tekið son sinn, hent honum í sætið og skipað honum að hlusta. Ég vaknaði upp, leit til baka og hugsaði: Er ég bara búinn að vera sofandi í öll þessi ár? Ég lokaði á allt þetta lífsmunstur sem ég var búinn að vera í og fetaði veginn alveg gjörsamlega upp á nýtt. Fljótlega fann ég gamalkunna hlýja tilfinningu heima með konunni minni og dóttur hennar, þessa öryggistilfinningu sem ég hafði alltaf sem barn heima hjá ömmu og það var meiriháttar.“

Eignast barn

Kalli var um 23 ára þegar hann tók ákvörðun um að fara í meðferð. Í eftirmeðferð á Staðarfelli kynntist hann barnsmóður sinni Öllu. Þau fluttu til Grindavíkur og árið 2001 eignuðst þau son sem fékk nafnið Maríus Máni. Þremur árum síðar átti Kalli eftir að verða þjóðþekktur. Á þeim tíma gekk Kalla allt í haginn. Hann var í góðri vinnu, háseti á frystitogara í góðu húsnæði og lífið lék við hann.

Vinnufélagar hans skráðu Kalla að honum forspurðum í Idol stjörnuleit. Það má því segja að þeir hafi haft gríðarleg áhrif á líf hans. Kalli sló strax í gegn í fyrsta þætti þar sem dómararnir héldu ekki vatni yfir hæfileikum hans. Á meðan keppninni stóð var Kalli í landi og því litlar tekjur fyrir fimm manna fjölskyldu.

„Síðustu tvær vikurnar fyrir úrslitakvöldið þá rétt skrimmti maður af. Ég þurfti nánast að raka saman öllu klinki sem til var svo hægt væri að kaupa mjólk í grautinn. Á tímabili þurfi ég að láta skrifa hjá mér mjólkina í kaupfélaginu.“

Kalli var heimsfrægur á Íslandi eftir keppnina. Alls staðar gjóaði fólk á hann, vildi myndir eða áritanir. Lífið var breytt. Hann var stjarna. Og fyrirmynd. Kalli gagnrýnir helst skipulagið og þrátt fyrir að hafa unnið keppnina vissi hann ekki hvert hann væri að stefna sem listamaður. Nú átti hann að keppa við þá stóru á markaðinum. Við tóku hver viðburðurinn á fætur öðrum og oft var Kalli yfirbókaður. Átti hann að syngja jafnvel á átta stöðum sama daginn.

„Á endanum leitaði ég í kókaín til að komast í gegnum daginn og til að geta haldið áfram. Ég var orðinn úrvinda eftir keppnina og álagið jókst bara eftir hana. Ég hélt að þetta væri lausnin en auðvitað hafði ég rangt fyrir mér.“

Kalli gaf út plötu sem fékk blendnar viðtökur. Neyslan jókst og eftir því sem tíminn leið heyrðist æ minna í Kalla. Í mars 2005 eignaðist hann svo sitt þriðja barn. Tveimur árum síðar slitnaði upp úr sambandi Kalla og Öllu. Skuldaði Kalli þá á aðra milljón króna vegna neyslu og af ótta samþykkti hann að flytja fíkniefni til landsins. Kalli rifjaði upp þessa örlagaríku ferð í þáttunum Burðardýr í þættinum greindi Kalli frá því að hann hefði staðið í þeirri trú að um væri að ræða 700 grömm af kókaíni. Þegar Kalli var stoppaður í tollinum í Keflavík reyndist magnið vera tvö kíló.

Kalli greindi einnig frá því í þættinum að þegar hann var á leiðinni á Litla Hraun í lögreglubílnum hefði auglýsing hljómað í útvarpinu. Kalli lýsir augnablikinu á þennan hátt.

„Ég sat aftur í, í handjárnum og fótajárnum. Allt í einu heyrist útvarpsauglýsing, svakalega hress rödd og það var verið að auglýsa Sjóarann Síkáta. „Ekki missa af stemningunni á Sjóaranum Síkáta um helgina, Kalli Bjarni og Magni á Móti Sól mæta og halda uppi stuðinu!“

Lögreglumaðurinn leit á Kalla, glotti og spurði: „Á ekki að mæta?“

Missti bróður og föður á sama árinu

Kalli sat í þrjá mánuði í gæsluvarðhaldi. Þegar dyrnar lokuðust fann hann aðeins fyrir létti. Hann sá fram á að losna undan fíkninni og þurfti ekki lengur að lifa í blekkingu og feluleik. Kalli var ákveðinn í að nýta þessa reynslu á jákvæðan hátt og vinna í sjálfum sér. Hann var vel liðinn af fangavörðum og byrjaði að skrifa sögur til að geta sagt börnum sínum. Ítrekað var fjallað um málið í fjölmiðlum en móðir hans sagði í viðtali við Stöð 2:

„Hann hlýtur að hafa verið burðardýr fyrir aðra því ég vissi alls ekki til þess að hann væri í dópinu. Ég hefði átt að taka eftir því eftir öll þessi ár sem við höfum búið saman.“

Þá sagði mamma hans í öðru viðtali:

„Enginn í fjölskyldunni okkar væri á lífi í dag ef hann hefði sagt frá þeim sem stóðu að smyglinu.Þessi heimur er svo harður að það kom aldrei til greina að segja til þeirra manna sem stóðu á bakvið þetta.“

Kalli var dæmdur í tveggja ára fangelsi vegna smyglsins og ákvað að una dómi héraðsdóms Reykjaness. Kalli hóf afplánun þann 1.maí 2008 fyrir nærri tíu árum. Afplánunin hófst í Hegningarhúsinu en var fljótlega fluttur á Kvíabryggju. Kalla leið vel á Kvíabryggju sem er á hans heimaslóðum í Grundarfirði. Þar vann Kalli við beitningar.

„Ég fékk kannski sjö þúsund kall í laun á viku en þetta voru peningar sem ég vann inn með blóði, svita og tárum. Ég lærði gildin uppá nýtt og fór í ítarlega sjálfsskoðun í sveitinni. Á meðan vistinni stóð dó faðir hans. Var það mikill missir. Ári síðar dó bróðir hans. Þeir tóku báðir eigið líf. Sársaukinn var gríðarlegur en Kalli var afar náinn þeim báðum.

Fangelsisyfirvöld gáfu Kalla leyfi sumarið 2009 til að dvelja á vernd síðustu þrjámánuði en Vernd er opið úrræði. Þar stofnaði Kalli hljómsveit ásamt bróður sínum. Eftir dvölina tók við tími að vinna inn traust fjölskyldunnar og vina á ný.

Brást heilli þjóð

Síðustu ár hefur Kalli stundað sjóinn grimmt og reynt að halda sér réttum megin við strikið. Þegar blaðamaður DV heyrði í Kalla var hann á leið í land með fullfermi. Eftir að hafa landað aflanum var haldið strax á sjóinn aftur.
„Um það snýst lífið,“ segir Kalli. „Að róa á miðin og draga aflann að landi og leggja sitt að mörkum, fyrir fjölskylduna og samfélagið. Þú getur heimfært sjómennskuna uppá allt í lífinu. Á sjónum finn ég líka ró og öryggi.“

Kalli greindi enn fremur frá því í Burðardýrum að hann hefði lengi verið með samviskubit eftir að hafa byrjað aftur að neyta fíkniefna eftir sigurinn í Idol um árið.

„Mér fannst ég hafa brugðist heilli þjóð,“ sagði Kalli. „Ég vann fyrsta idolið. Hvað þýðir idol? Það þýðir fyrirmynd. Ég var ekki rosalega góð fyrirmynd.“ Kalli hafði í mörg ár reynt að hætta alfarið allri neyslu en það aðeins tekist um tíma. Hann ákvað því að nálgast baráttuna við fíknina á annan hátt.

„Ég var orðinn þreyttur og tók á að vera endalaust í baráttu og þrauka edrú í örfáa mánuði og falla og særa fólk. Um leið og ég hætti að berjast og reyndi frekar að hafa hemil á neyslunni gekk það betur og í raun mun betur en ég þorði að vona. Þetta dró úr laungun og ég særi fjölskylduna mína minna með á þennan hátt heldur en þegar ég er ekki að drekka. Þetta bjargaði lífi mínu, því þegar ég féll fór ég alltaf á dýpri stað. Í dag er ég meðvitaður um mínar skyldur og mitt hlutverk.“

„Að vera í mikilli neyslu, það er ekki líf. Þetta er ekki töff, þú ert ekkert svalur. Það er enginn kóngur nema rétt á meðan kílóið er að klárast,“ þá sagði Kalli ennfremur í Burðardýr: „Þó ég hafi dottið mjög illa í gegnum lífið hef ég alltaf náð að standa upp, þurrka af hnjánum og halda áfram. Ef maður er tilbúinn til þess og tilbúinn til að læra af mistökunum sínum, þá hlýtur þetta að enda með því að maður sé sáttur í eigin skinni.“

Amma til bjargar

Það er ekki hægt að kveðja Kalla án þess að minnast á þáttinn Burðardýr og lokasenuna í þeim þætti. Óhætt er að segja að þá hafi Kalli brætt hjarta allra þeirra sem horfðu á þáttinn.

Í hjartnæmu lokaatriði þáttarins heimsótti Kalli Bjarni ömmu sína á hjúkrunarheimili á Grundarfirði þar sem hann gerði sér lítið fyrir og setti upp einkatónleika inni í herbergi hennar en gamla konan grét eftir að Kalli hafði sungið finnskan sálm. Samband Kalla og Elnu ömmu hans er einstakt enda var hún um tíma móðir hans. Elna hefur gengið í gegnum margt og starfaði í Finnlandi í seinni heimstyrjöldinni við að hjúkra særðu fólki. Þá reynslu nýtti hún til að bjarga Kalla.

„Amma er nagli,“ segir Kalli og sýnir ör á handleggnum. Þegar Kalli var um 10 ára gamall var hann að fara upp stiga á heimili þeirra. Það vildi svo illa til að í efsta þrepinu skrikaði honum fótur og hann féll niður. Kalli sat á gólfinu og horfði á bein stingast út úr handleggnum. Allar sinar voru í sundur. Blóðið fossaði. Ósæð og háræð voru í sundur. Kalli var hreinlega í lífshættu.

„Amma reif sig síðan úr sokkabuxunum og hnýtti þær utan um mig. Svo dró hún mig inn á bað og lét mig liggja með höndina ofan í köldu vatni á meðan hún hringdi á lækninn. Hún var búin að vinna við að taka á mót særðum hermönnum þegar hún var 15 ára. Bæði ósæðin og háræðin fóru í sundur.“

Eftir að hafabjargað lífi barnabarnsins tók við erfið endurhæfing. Elna vissi að ef Kalli Bjarni ætti að geta nýtt höndina seinna á lífsleiðinni yrði hún að láta til sín taka. Og hún fann lausnina og keypti BMX hjól. Hjólið mátti Kalli hins vegar aðeins nota ef hann hjólaði með vinstri.

„Hún bannaði mér að nota hægri hendina,“ segir Kalli og hlær. „Eitt sinn kom hún að mér inni í Grundarfirði þar sem ég var á BMX hjólinu mínu og var að nota hægri. Hún tók af mér hjólið, þannig að ég grenjaði og grenjaði með ekkasogum og hún lét mig ekki hafa það fyrr en eftir tvo mánuði,“ segir Kalli og bætir við að á endanum hafi hann getað stýrt og prjónað með vinstri hendinni.

Þessa konu sem hefur alltaf verið til staðar ætlar Kalli að heiðra síðar í mánuðinum með lagi á afmælisdaginn.

Nýtt líf

Kalli bætir við að hann horfi til þess að láta á sér kveða á ný í tónlist. Hann lýsti því yfi í viðtali að hann ætli seinna í mánuðinum, á afmælisdegi ömmu sinnar að gefa út nýtt lag. Þá er Kalli ástfanginn upp fyrir haus en hann er trúlofaður Önnu Valgerði Larsen. Í þættinum Burðardýr sagði Kalli Bjarni um ástina:

„Þegar maður bjóst engan veginn við því, þá finnst mér eins og Karma hafi gripið þarna inn í og hugsað með sér, er þetta ekki komið gott hjá Kalla í bili? Ég fékk til mín heilladísina sem ég er ekkert smá ástfanginn af og hamingjusamur með. Hún er búin að vera hjálpa mér að benda mér á þá kosti sem ég hef. Það er það sem maður þarf, sálufélaga með mann í liði,“ sagði Kalli og augljóst að Anna Valgerður hafði heillað hann upp úr skónum. Þá er von á enn frekari tíðindum af parinu en Anna Valgerður gengur með barn þeirra undir belti.

„Þann 9. júlí mun lítið sveinbarn lýta dagsins ljós,“ segir Kalli og er eftirvæntingin mikil.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki