fbpx
Laugardagur 19.janúar 2019
Fókus

Rannveig í Eldingu: „Það var aldrei valkostur að brotna saman“

Rannveig Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri og eigandi Eldingar, í mögnuðu viðtali um geðheilbrigðismál og framtíð ferðaþjónustunnar

Margrét Gústavsdóttir
Sunnudaginn 18. mars 2018 20:00

Sumu fólki virðast þau örlög búin að taka út áföll og áskoranir heillar mannsævi á nokkrum árum. Rannveig Grétarsdóttir er ein þeirra en aðeins 32 ára stóð hún uppi sem ekkja, einstæð móðir tveggja dætra og eigandi og framkvæmdastjóri fyrirtækis sem í dag er meðal þeirra öflugustu á landinu.

Þótt Rannveig hafi alist upp í Hafnarfirði titlar hún sig ekki sem Gaflara enda fædd í Reykjavík, nánar tiltekið í byrjun desember árið 1967. Hún sleit barnsskónum í Norðurbænum hjá foreldrum sínum, þeim Guðbjörgu Kristjánsdóttur og Grétari Sveinssyni, og tveimur systkinum, þeim Sveini Ómari og Þórunni. Rannveig var miðjubarn en Sveinn er sex árum yngri og Þórunn tveimur árum eldri. Systkinin þrjú voru ekki há í loftinu þegar þau byrjuðu að vinna í fjölskyldufyrirtækinu en faðir þeirra rak Steypustál, verktakafyrirtæki sem sá aðallega um hitaveitu og símalagnir fyrir ríki og borg.

„Mínar minningar frá unglingsárum eru meðal annars frá því að borða hádegismatinn með körlunum á Smiðjukaffi og fara svo að moka skurði og mæla út, hreinsa hitaveitubrunna og leggja leiðslur,“ segir Rannveig og hlær en aðeins sextán ára var hún líka komin í skrifstofuvinnu hjá föður sínum og tók þá að sér að reikna út launin.

Lét ekki bjóða sér kynbundna mismunun

Eins og við er að búast var Rannveig eina stelpan sem vann þessi verkamannastörf hjá fyrirtækinu. Hún segist lítið hafa fundið fyrir fordómum frá strákunum en þá sjaldan að einhver leiðindi komu upp lét hún ekki bjóða sér þau.
„Ef ég fann að þeir voru eitthvað dónalegir við mig, einungis af því ég var stelpa, þá lagði ég inn formlega kvörtun, alveg öskureið. Ég lét engan komast upp með að sýna mér einhverja vanvirðingu bara af því ég var stelpa enda vann ég sömu störf og strákarnir,“ segir Rannveig.

Í uppeldi hennar var mikil áhersla lögð á að vinnusemi væri dyggð og helst átti fólk að vinna mikið. Grétar, faðir Rannveigar, var sjálfur einbirni en móðir hans var það foreldri sem dró björg í bú.

„Okkur þótti alltaf eðlilegt að ganga í hvaða störf sem var og það skipti engu máli af hvaða kyni maður var. Málið var bara að sýna dugnað og halda áfram enda enginn sem gerir hlutina fyrir mann,“ segir Rannveig en fjölskyldufyrirtækið Elding var stofnað árið 2000 að frumkvæði föður hennar sem er gríðarlegur áhugamaður um báta. Þá vann hún sem deildarstjóri fjármáladeildar hjá Stöð 2 en þar starfaði hún frá 1996 til 2003.

Tók svefnlyf og setti bílinn í gang

Að loknu stúdentsprófi frá Flensborg hóf Rannveig nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands en henni leiddist þar og hætti því innan tveggja ára. Þá skráði hún sig í iðnrekstrarfræði hjá Tækniskólanum og hún segir að það nám hafi átt mikið betur við sig.

„Maður þurfti ekki að sitja í 150 manna sal og hlusta á fyrirlestra heldur vorum við þarna sextíu manna bekkur að vinna saman í náminu. Það var mikið um hópstarf og verkefnavinnu og bara allt öðruvísi andrúmsloft sem hentaði mér mikið betur. Við, bekkurinn úr Tækniskólanum, höldum enn hópinn í dag og hittumst reglulega,“ segir Rannveig sem gekk einnig í það heilaga á námsárunum, gekk með tvö börn og byggði einbýlishús ásamt eiginmanninum sem var líka æskuástin hennar.

Þau kynntust aðeins fjórtán ára í sumarvinnu hjá föður Rannveigar. Hann hét Sigmundur Jóhannesson og var húsasmíðameistari. Rannveig og Sigmundur voru jafnaldrar og miklir félagar. Þau fóru að vera saman þegar bæði voru átján ára og fjórum árum síðar giftu þau sig. Þegar þau höfðu verið gift í sjö til átta ár fór að bera á kvíða og þunglyndi hjá Sigmundi sem síðar dró hann til dauða.

Þann 13. ágúst árið 2000 kom Rannveig að honum látnum í bílskúrnum á heimili þeirra. Hann hafði tekið svefnlyf og sett bílinn í gang.

„Hann var búinn að glíma við kvíða og þunglyndi í tvö til þrjú ár og hafði reynt margt til að fá bót meina sinna bæði hjá geðlæknum og annars staðar. Í maí gafst hann svo allt í einu upp á því að reyna og hætti á öllum lyfjum. Fyrst um sinn virtist allt ganga vel og hann var eins og draumur um sumarið en í byrjun ágúst kom svo eitthvert bakslag í hann sem varð til þess að svona fór,“ segir Rannveig alvarleg í bragði.

Hringdi á geðdeild og var sagt að koma á mánudaginn

Líkt og fleiri hefur hún skoðanir á því sem betur mætti fara í geðheilbrigðismálum landans en upp á síðkastið hafa kröfur um úrlausnir orðið æ meira áberandi. Rannveig ber þunglyndi saman við sjúkdóma á borð við krabbamein og segir að sér þyki ekki rétt að annar þeirra sé feimnismál en hinn ekki. Til að flýta fyrir úrbótum sé eðlilegast að talað sé um hlutina.

„Skömmu áður en hann tók þá ákvörðun að hætta á lyfjunum hringdi hann upp á geðdeild í miklu kvíðakasti. Hann sárvantaði aðstoð en honum var bara sagt að koma á mánudaginn. Ég gleymi því aldrei þegar hann spurði hvort hann þyrfti að vera með hnífinn í bakinu til að fá hjálp. Hann var við það að stökkva fram af svölunum því honum leið svo illa og svo er honum sagt að koma á mánudaginn,“ segir hún og strýkur tár úr hvarmi.

„Þegar maki manns verður svona veikur þá hefur það mikil áhrif á mann. Maður er alltaf að reyna að hjálpa eitthvað til en veit ekkert hvað er réttast að gera. Ég mun eflaust aldrei losna við þá hugsun að ég hefði eflaust getað gert eitthvað meira fyrir hann en á sama tíma verð ég að minna mig á að maður getur aldrei borið ábyrgð á lífi annarra. Þetta hef ég þurft að gera fyrir sjálfa mig, svo að ég geti haldið áfram og búið börnum mínum góða framtíð og gott líf. Í dag á ég tvö barnabörn og tvær dætur og ég held að samband okkar gæti ekki verið betra. Þótt þær hafi vissulega átt erfitt tímabil þá spjara þær sig vel í dag. Ef maður ímyndar sér að pabbi þeirra hefði dáið úr krabbameini þá hefðu viðbrögðin kannski verið öðruvísi. Mamma mín barðist til dæmis við krabbamein í mörg ár og fór á milli lækna til að fá bót meina sinna. Það dregur auðvitað af bæði sjúklingum og aðstandendum þegar þetta gengur illa en þegar fólk er með krabbamein þá virðast allir gera sér betur grein fyrir því hvar mörkin liggja og hvernig á að höndla málin.“

Fékk enga áfallahjálp og hefði verið skilin ein eftir

Hún segir að oft komi fát á fólk þegar hún segi frá því að maðurinn hennar hafi svipt sig lífi. Þá biðji það oft afsökunar en það segir hún að sé óþarfi.

„Ef hann hefði látist úr öðrum sjúkdómi efa ég að fólk myndi biðjast afsökunar á spurningunni. Þetta var bara það sem gerðist. Það sviptir sig enginn lífi nema vera alvarlega veikur. Hann glímdi ekki við áfengis-, peninga- eða fíknarvanda en leið hins vegar miklar sálrænar kvalir af völdum þunglyndis. Þegar ég spái í það finnst mér lítið hafa breyst í geðheilbrigðismálum á þessum átján árum. Við dætur mínar fengum til dæmis enga áfallahjálp í kjölfarið en vinnuveitendur mínir á Stöð 2 reyndust vel með því að útvega okkur sálfræðiaðstoð og hvíldardvöl á Akureyri. Þegar maður kemur svona að maka sínum, eins og ég gerði, þá fær maður gríðarlegt áfall og ég man í raun lítið eftir því sem gerðist. Það er allt í móðu. Ég var samt svo heppin að vinkona mín sem var úti að hlaupa kom að húsinu meðan sjúkrabílarnir voru þarna fyrir utan. Hún tók mig alveg að sér og fór með mig heim til sín. Ef hana hefði ekki borið að garði hefði ég verið skilin eftir ein í algjöru áfalli. Stundum velti ég því fyrir mér hvað þurfi að gera til að koma þessum málum í lag en eitt veit ég þó, að það ætti ekki að vísa veiku fólki frá og segja því að koma aftur eftir nokkra daga þegar það biður um hjálp. Hvað aðstandendur varðar þá á ég sjálf því láni að fagna að eiga samheldna fjölskyldu og marga góða vini en ég get ekki ímyndað mér hvernig fólk sem hefur ekkert bakland og lendir í svona áfalli fer að.“

Var orðin sérfræðingur í jarðarförum

Það má segja að þessi fimm ár í lífi Rannveigar, frá aldamótum til ársins 2005, hafi vægast sagt verið örlagarík. Fljótlega eftir fráfall eiginmannsins lést móðir hennar úr krabbameini, aðeins 55 ára, og skömmu síðar urðu tvær góðar vinkonur undir í baráttunni við sama sjúkdóm. Á sama tíma var hún að byggja upp fyrirtæki, skipta um starf og á kafi í háskólanámi.

„Á tímabili fannst mér ég vera orðin sérfræðingur í jarðarförum en þetta snerist bara um að halda áfram, halda áfram, halda áfram. Auðvitað gerir maður aldrei allt rétt og kannski hefði ég ekki átt að færast svona mikið í fang en einhvern veginn kemst maður samt í gegnum þetta allt. Ég vildi sýna dætrum mínum að lífið héldi áfram. Kannski hefði ekki verið verra að brotna bara strax niður í stað þess að upplifa það gerast smám saman, – en ég veit það ekki?

Ég velti því oft fyrir mér hvað hefði verið réttast að gera en niðurstaðan er alltaf sú sama; það er ekkert eitt rétt í svona stöðu. Við erum eins misjöfn og við erum mörg og þess vegna eru sorgarviðbrögðin okkar alltaf rétt, sama hver þau eru. Það eina sem ég vissi var að fyrir sjálfa mig var það aldrei valkostur að brotna saman. Ef ég hefði gert það þá hefði það komið niður á börnunum mínum og öllum í kringum mig og það vildi ég ekki.“

Slakar á með því að stemma bókhaldið af

Við vendum kvæði okkar í kross og snúum talinu að Eldingu, fyrirtækinu sem síðasta áratuginn hefur verið með þeim allra fremstu í ferðaþjónustunni. Hagnaður ársins 2015 var 93 milljónir en veltan var 871 milljón árið 2016 og tæpar 688 milljónir árið áður. Eigið fé Eldingar var aftur rúmar 253 milljónir árið 2016.

„Ef ég þarf að róa mig niður þá fer ég að stemma af bókhaldið,“ segir hún og brosir út í annað. „Ég ætlaði mér alltaf að halda áfram að starfa við bókhald en um leið og ég byrjaði í ferðaþjónustunni fann ég hvað það átti vel við mig enda er maður alltaf að hitta skemmtilegt fólk í þessu starfi.“

Eldingu var upphaflega ýtt úr vör í Sandgerði þar sem frænka fjölskyldunnar rak veitingastað. Hvalaskoðunarferðirnar áttu bara að vera viðbót fyrir ferðamenn sem þangað komu en fljótlega ákvað fjölskyldan að færa bátinn í Hafnarfjörð, þar sem fáir áttu leið um Sandgerði og sjólagið mun betra í Faxaflóa.

„Fyrst átti þetta bara að vera aukabúgrein en þegar ég hóf MBA-námið árið 2002 ákvað ég að segja starfinu hjá Stöð 2 lausu og einbeita mér alveg að Eldingu. Ég notaði námið til að finna út hvert ég ætlaði mér með þetta fyrirtæki og skrifaði lokaritgerð um stefnumótunina. Ákvað til dæmis strax að við ætluðum að vera umhverfisvæn, sölu- og markaðsdrifin, bjóða bestu þjónustuna og vera með flottustu bátana. Öðru hverju tek ég þetta lokaverkefni upp og vinn nýjar greiningar upp úr því enda tel ég að það hafi á margan hátt lagt grunninn að því hversu vel hefur gengið.“

Brösóttur rekstur í byrjun

Sara, Rannveig og Björg

Þó er ekki hægt að segja að Elding, frekar en annað í lífi Rannveigar, hafi gengið áreynslulaust fyrir sig. Reksturinn var brösuglegur til að byrja með og oft voru þau að því komin að leggja árar í bát. Árið 2005 tók hins vegar tilveran nýja stefnu og síðan hefur leiðin bara legið upp á við. Hápunktinum náðu þau árið 2009 en rétt fyrir hrun tók Rannveig þá skynsamlegu ákvörðun að setja verðskrána upp í evrum.

Síðasti áratugur hefur verið ævintýri líkastur enda dró ferðaþjónustan landann upp úr hruninu og kom okkur aftur á kjöl. Samspil landkynningar, samfélagsmiðla, gengis og fleiri þátta gerðu Ísland að einum vinsælasta áfangastað í heimi á örskömmum tíma og hagsæld landsins sem hefur ekki verið meiri en á því herrans ári 2007. Í þetta sinn er þó um raunverulegar tekjur að ræða öfugt við það sem var uppspunnið í áðurnefndu góðæri.

Síðustu tvö árin hefur dregið úr vexti fyrirtækja í ferðaþjónustu enda telur Rannveig að nú hafi ákveðnum hápunkti verið náð í kúrfunni og næsta verkefni sé að ná stöðugleika. Margir reiknuðu með fleiri gestum en raunin varð og sumir hafi ráðist í offjárfestingar sem nú þurfi að jafna út. Hún segist ekki sjá fram á að auka vöxt Eldingar í Reykjavík enda sé markaðurinn mettur. Skortur á gistirýmum, lækkað verð og mikil samkeppni geri það ekki að vænlegum kosti að stækka við sig hér en hins vegar sé landsbyggðin óplægður akur.

„Nú vilja allir leggja áherslu á að koma ferðamönnum um allt Ísland, allan ársins hring. Þegar við ákváðum að færa út kvíarnar og hefja hvalaskoðun líka út frá Akureyri þá langaði mig að leggja sérstaka áherslu á vetrarferðir enda fyrirhafnarlaust að fá fólk hingað yfir sumarið. Ég hafði samband við vinkonu mína sem vinnur hjá Secret Escape, breskri ferðaskrifstofu sem gerir út á hópkaupaferðir, og hvatti hana til að setja saman pakkaferðir beint frá Bretlandi til Akureyrar. Þetta sló alveg í gegn enda svo ótal margt fallegt að sjá fyrir norðan. Fyrst um sinn var hópunum flogið til Keflavíkur og þaðan var farið með Kynnisferðum beint norður en þegar mönnum varð ljóst hversu vel þetta seldist þá réðst önnur bresk ferðaskrifstofa í að skipuleggja leiguflug beint til Akureyrar,“ útskýrir hún glöð í bragði.

Flogið beint frá Bretlandi til Akureyrar

„Á síðasta ári var flogið frá ellefu áfangastöðum í Bretlandi og nú stendur til að fljúga allan ársins hring. Þegar það spyrst út hversu vel þetta gengur má reikna með að fleiri erlendar ferðaskrifstofur vilji vera með og þá þurfum við að huga að öðrum stöðum á landinu og passa að vera vel undirbúin. Samgöngurnar þurfa til dæmis að vera í lagi og bæjarfélögin þurfa að vera tilbúin að taka við fólkinu. Spurningin er í raun ekki hvort við viljum taka við fleiri ferðamönnum heldur hversu marga teljum við okkur ráða við og hvernig ferðamenn við viljum fá til landsins,“ útskýrir Rannveig og bætir við að neysluhegðun ferðamanna sé mjög mismunandi eftir því hvaða löndum og menningarheimum þeir komi frá og að á margan hátt sé þetta mjög margslunginn og óútreiknanlegur bransi.

Hún tekur fram að nú sé Stjórnstöð ferðamála að marka stefnu í samvinnu við stjórnvöld og að þar sé unnið mjög gott starf þótt margt hefði mátt eiga sér stað fyrr. Fjölmiðlar og stjórnmálafólk hafi tekið heldur seint við sér hvað varðar áhuga á málaflokknum en nú virðist allt í einu allir hafa skoðanir.

Fórnarlömb eigin velgengni

„Þegar ég sagði upp vel launuðu og öruggu starfi til að stofna hvalaskoðunarfyrirtæki þá héldu margir vinir mínir að ég væri orðin kolrugluð,“ rifjar hún upp og hlær. „Íslendingar höfðu takmarkaða trú á ferðaþjónustu þegar við vorum að byrja og stundum þurfti ég að leita til bankans til að fá fyrirgreiðslur. Ég held sérstaklega upp á bréf sem ég fékk frá einum bankanum. Í því stendur að bankinn hafi takmarkaða trú á ferðaþjónustu og því síður hvalaskoðun. Framan af höfðu fjárfestar takmarkaðan áhuga líka en síðustu um það bil fjögur árin hefur áhuginn rokið upp úr öllu valdi. Nú vilja allir koma yfir okkur böndum og fá bita af kökunni. Ég tel áhuga og þátttöku fjárfestanna þó svolítið hættulega því hvoru tveggja fylgir svo mikil ávöxtunarkrafa á skömmum tíma. Flestir sjóðir vilja út eftir nokkur ár og þá ætla þeir að sjálfsögðu annaðhvort að græða eða steypa saman mörgum fyrirtækjum til að setja á markað,“ útskýrir Rannveig og bætir við að eftir styrkingu gengisins hafi staðan hins vegar breyst.

„Ferðamenn spara við sig í afþreyingu, fara frekar í Bónus en út að borða og eyða ekki jafn háum fjárhæðum og áður þótt þeir séu fleiri. Þetta þýðir að það eru ekki eins margir að græða á þeim og þá þarf auðvitað að leysa það með álögum og alls konar sköttum. Ofan á þetta bætast svo launahækkanirnar í þjóðfélaginu, virðisaukaskattur, dýrari aðföng og svo framvegis en um leið hafa tekjurnar dregist saman. Í þessu samhengi mætti kannski segja að við frumkvöðlarnir í ferðaþjónustunni höfum orðið hálfgerð fórnarlömb eigin velgengni. Við þetta má samt bæta að þó vöxturinn sé sannarlega búinn að vera mikið gleðiefni var vissulega kominn tími til að staldra aðeins við til að stabílisera reksturinn,“ segir þessi aðdáunarverði frumkvöðull að lokum.

Margrét Gústavsdóttir
....er félagi nr. 241 hjá Blaðamannafélagi Íslands.
Hún hefur m.a. starfað við sjónvarp og útvarp og verið vinsæll bloggari í gegnum árin.

margret@dv.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 2 dögum

Heimir Karls – „Framvegis ætla ég að faðma fólk eða „olnboga“

Heimir Karls – „Framvegis ætla ég að faðma fólk eða „olnboga“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Ótrúleg breyting á Röggu nagla: Birti mynd af sér fyrir 10 árum – Sjáðu muninn

Ótrúleg breyting á Röggu nagla: Birti mynd af sér fyrir 10 árum – Sjáðu muninn
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hverjir eru með stærstu og smæstu typpin í Hollywood? – Sú ráðgáta er loksins leyst

Hverjir eru með stærstu og smæstu typpin í Hollywood? – Sú ráðgáta er loksins leyst
Fókus
Fyrir 3 dögum

Rúrik og Nathalia njóta lífsins saman

Rúrik og Nathalia njóta lífsins saman
Fókus
Fyrir 3 dögum

The Cranberries heiðra minningu Dolores O´Riordan með nýju lagi

The Cranberries heiðra minningu Dolores O´Riordan með nýju lagi
Fókus
Fyrir 3 dögum

Netflix stefnt vegna Black Mirror Bandersnatch

Netflix stefnt vegna Black Mirror Bandersnatch
Fókus
Fyrir 4 dögum

Spider-Man Far From Home – Sjáðu stikluna úr næstu mynd

Spider-Man Far From Home – Sjáðu stikluna úr næstu mynd
Fókus
Fyrir 4 dögum

Þitt eigið leikrit Ævars vísindamanns – Áhorfendur taka virkan þátt í sýningunni

Þitt eigið leikrit Ævars vísindamanns – Áhorfendur taka virkan þátt í sýningunni