fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fókus

Ísak þjáist af ímynduðum sársauka

Slær í gegn í Bretlandi – Þjáist af geðvefrænum sjúkdómi – Hélt hann væri með krabbamein

Steingerður Sonja Þórisdóttir
Sunnudaginn 11. mars 2018 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ísak Freyr kom fyrst á sjónarsvið á Íslandi aðeins 17 ára gamall sem aðstoðarmaður Karls Berndsen í sjónvarpsþáttunum Nýtt útlit. Síðan hafa árin liðið og í dag er hann ein af skærustu stjörnunum í förðunarbransanum í Bretlandi. Þar farðar hann hverja stórstjörnuna á fætur annarri ásamt því að förðun eftir hann birtist í helstu tískublöðunum um allan heim.

Á dögunum opnaði Ísak sig um reynslu sína af geðvefrænum sjúkdómum eða sálvefrænum sjúkdómum en þeir lýsa sér á þann veg að einstaklingurinn finnur fyrir einkennum sjúkdóma sem viðkomandi þjáist ekki af. Hugurinn telur líkamanum trú um að hann nemi sársauka en svo finnast engar stoðir eða útskýringar fyrir honum líkamlega. Sjúkdómurinn er erfiður viðureignar því þótt hann sé andlegs eðlis finna sjúklingarnir raunverulega fyrir sársauka sem flókið getur verið að takast á við.

Skömmin mikil

„Mann langar bara að kaffæra þetta ástand innra með sér og losna við það, skömmin er svo mikil. Ég hélt að þetta væri gleymt og grafið hjá mér, tími sem væri liðinn. Ég get ekki lýst því hvað þetta er sárt. Hræðslan við dauðann er svo sterk og afar mikil árátta sem fylgir því, það er svo magnað hvað hausinn á manni getur verið öflugur.“

Hann minnist sérstaklega eins atviks sem átti sér stað fyrir meira en tíu árum, þegar ástandi var hvað verst.

„Þá var ég staðráðinn í því að ég væri með æxli í vörinni og mamma var búin að fara með mig til tveggja heimilislækna sem fannst vörin ekki líta neitt óeðlilega út. Mér fannst svör þeirra ekki nógu sannfærandi svo mamma pantaði tíma hjá tannholdssérfræðingi svo ég gæti verið alveg hundrað prósent viss.“

Niðurstöðurnar voru þær að ekkert amaði að og engin ástæða eða útskýring fyndist fyrir þessum hugmyndum Ísaks. Léttirinn sem fylgdi niðurstöðunum entist þó stutt.

Úr vörinni í eistun

„Þegar mér var sagt að allt væri í lagi leið samt ekki lengri tími en tvær vikur þangað til að ég var orðinn sannfærður um að ég væri með krabbamein í eistum. Ég man þetta svo vel því ég var kominn með svo svakalega verki og gat varla gengið. Sársaukinn var yfirþyrmandi og ég heimtaði að fara í krabbameinsskoðun á Domus Medica. Læknirinn skoðaði mig í segultæki og sagði mér að allt væri í góðu lagi og ég gekk út með enga verki. “

Verkirnir hverfa tímabundið þegar hann fær niðurstöður rannsókna eða lækna en hann hefur þó enga hugmynd um hve lengi það varir. Verkir á öðrum stað geta gert vart við sig viku síðar eða að hann finni ekki fyrir neinu í mörg ár. Óvissan getur því verið mjög erfið.

Tekur yfir hugsanirnar

„Þetta er ekki einhver smá hræðsla því þetta tekur yfir hugsanir manns eins og eitur. Ég var þess fullviss að þessu tímabili væri lokið og að þetta hefði bara verið að ganga yfir á meðan ég var að glíma við unglingsárin. Ég ætti að vera kominn með hlutina á hreint sem fullorðinn einstaklingur og svona vandamál ættu ekki að vera til staðar.“

Áráttan lét lítið á sé kræla í nokkur ár þar til hún blossaði aftur upp í fyrra. Það tók hann tíma að átta sig á því og horfast í augu við að hann þyrfti að leita sér hjálpar.

„Smám saman var ég því kominn í sama munstur, búinn að fara í nokkrar krabbameinsskoðanir og fór til læknis á tveggja vikna fresti. Að lokum hringdi læknirinn minn í mig og bað mig um að koma í viðtal til sín. Þegar ég mætti þá sagði hann mér að hann hefði hringt í mig því honum fyndist að ég þyrfti á hjálp að halda vegna þess hversu oft ég kæmi til hans vegna vandamála sem væru ekki til staðar.“

Sjúkdómskvíðinn var farinn að hafa veruleg áhrif á daglegt líf Ísaks.

Orkufrekt ástand

„Sambýlismaður minn var líka orðinn svo leiður yfir því að koma að mér heima í kvíðakasti og maníu yfir því að ég væri alveg pottþétt kominn með verstu gerðir af krabbameinum. Maður er í raun sannfærður um að dauðinn sé handan við hornið og það á hverjum einasta degi.“

Ísak áttaði sig á að þetta ætti ekki að vera eitthvað til að skammast sín fyrir og mögulega væru aðrir að upplifa það sama og hann. Hann kaus því að opna sig um þetta á Facebook og ekki stóð á viðbrögðunum. Á milli þess að fólk sendi Ísaki hlýjar hugsanir og falleg orð voru nokkrir vinir hans sem könnuðust við þetta ástand af eigin reynslu.

„Mig langaði bara til að tjá mig um þetta opinberlega. Ég veit að það eru margir að glíma við einhvers konar kvíða og þetta er ein birtingarmyndin af því ástandi. Þegar ég segi að þetta taki yfir hausinn á manni þá meina ég það. Þetta er svo orkufrekt ástand og hefur svo mikil áhrif á daglegt líf manns og persónuleika. Mig langaði bara til að deila upplifun minni af þessu ástandi og kannski um leið opna á umræðuna um heilsukvíða og kvíða almennt því hann hefur svo margar birtingarmyndir. En í dag gengur mér og líður vel, ég þarf bara að hafa meira fyrir því.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við
Fókus
Fyrir 3 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Hver verður næst?“

„Hver verður næst?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“