fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fókus

Guðrún Dröfn fann upprunann á verndarsvæði

Kristinn H. Guðnason, Auður Ösp
Mánudaginn 10. desember 2018 20:00

Guðrún Dröfn Kom henni á óvart hvað uppruninn skipti miklu máli.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðrún Dröfn Emilsdóttir var ættleidd við fæðingu og er 51 árs gömul í dag. Hún kynntist nýverið föðurfjölskyldu sinni í Bandaríkjunum en þau eru frumbyggjar af ættbálki sem býr á verndarsvæði í Oklahoma. Guðrún hafði aldrei ætlað sér að leita upprunans en fyrir tilstilli ungs frænda síns hófst vegferðin. Nú hefur hún heimsótt bæði systur sína og frændfólk og myndað náin og góð tengsl. Einnig hefur hún formlega sótt um inngöngu í ættbálkinn og vonast eftir jákvæðri niðurstöðu í upphafi næsta árs. DV ræddi við Guðrúnu um þessa reynslu og þær tilfinningar sem hafa bærst innra með henni í öllu ferlinu.

 

Henry Linwood Jackson
Kom til Íslands árið 1966.

Vel heppnuð ættleiðing

Henry Linwood Jackson hét faðir Guðrúnar, úr ættbálknum Otoe-Missouria. Í ættbálknum eru rúmlega þrú þúsund manns, flestir búsettir í Oklahoma-fylki í Bandaríkjunum. Ættbálkurinn hefur sína eigin stjórn og sitt eigið yfirráðasvæði. Henry var sjómaður í bandaríska flotanum og kom til Íslands árið 1966. Guðrún segir:

„Hann hitti blóðmóður mína sem varð ólétt í afmælisboði í júlímánuði. Hún býr ekki lengur á Íslandi og þetta er mjög viðkvæmt fyrir hana. Hún hefur aldrei viljað tala mikið um þetta. Hún gaf mig til ættleiðingar og valdi foreldrana vel. Þegar hún var gengin um sex mánuði komst á samband með þeim. Ég er mjög þakklát fyrir það hvernig hún stóð að þessu. Hún setti til dæmis nafn föður míns á fæðingarvottorðið sem varð lykilatriði fyrir mig þegar ég sótti um að ganga í ættbálkinn.“

Eina vandamálið var að það vantaði millinafnið Linwood. Henry Jackson er mjög algengt nafn í Bandaríkjunum. Faðir Guðrúnar gekk almennt undir nafninu Linwood og gata í landi Otoe-Missouria heitir í höfuðið á honum.

Frændi Guðrúnar hóf að leita að Henry fyrir mörgum árum síðan. Ef millinafnið hefði verið með hefði hann að öllum líkindum fundið hann miklu fyrr.

 

Leit öðruvísi út en önnur börn í Vesturbænum

Lengi vel hugsaði Guðrún ekki mikið út í uppruna sinn jafnvel þó að útlit hennar væri ekki áþekkt flestum Íslendingum. Guðrún var dekkri á hörund þegar hún var yngri og enginn annar krakki í Vesturbænum leit út eins og hún. Yngri systir hennar hugsaði meira út í þetta og þær spurningar sem þær fengu um hversu ólíkar þær voru.

„Fólk kemur sjaldnast upp að manni sjálfum til að spyrja svona spurninga,“ segir Guðrún. „Það er auðveldara að spyrja einhvern annan. Í eitt skipti þegar við vorum litlar kom systir mín grátandi heim og sagði að það væri verið að stríða sér út af þessu. Hún leit upp til stóru systur sinnar og skildi ekkert í þessu. Þá settust foreldrar okkar niður með okkur og útskýrðu allt, mjög fallega.“

Þegar Guðrún var 25 ára hafði eldri bróðir hennar í móðurlegg uppi á henni. Tilvist Guðrúnar hafði verið leyndarmál í þeirri ætt. 28 ára ára komst hún í samband við blóðmóður sína.

„Þá vissi ég hvernig þetta allt hefði atvikast og var því ekki með neinar neikvæðar tilfinningar út í blóðmóður mína. Ég var mjög þakklát henni og það gekk auðveldlega að ganga inn í kærleiksríkt samband við hana og þau öll. Krakkar sem eru gefin til ættleiðingar eru oft að burðast með mikla höfnun og hafa blendnar tilfinningar til blóðforeldra sinna. Hjá mér var ekki búið að sverta eitt né neitt.“

Varst þú sjálf fyrir aðkasti sem barn?

„Nei, ég var ótrúlega heppin. Ég var í bekk sem var mjög samheldinn og ég átti góða vini. Ég hef alltaf verið mjög vinamörg og þetta hefur aldrei truflað mig neitt. En ég var auðvitað meðvituð um útlitið eins og allir krakkar.“

 

Fann ekki fyrir þörf til að leita

Lengi var Guðrún ekki upptekin af því að finna föður sinn og föðurfjölskylduna. Ein ástæða þess var að hún er barnlaus. Hún segir:

„Ég er mjög mikið fyrir börn en mig langaði ekki sjálfa til að eignast þau. Vegna þess fannst mér ég ekki hafa neina skyldu til að leita. Ef ég ætti börn myndi mér finnast ég hafa ríkari skyldu til að leita upprunans, fyrir þau.“

Það var Emil, þá fjórtán ára frændi Guðrúnar, sem hafði frumkvæði að því að leita. Guðrún var þá 35 ára gömul. Guðrún segir að ef það hefði ekki verið fyrir þetta frumkvæði hans þá hefði hún aldrei farið út í þetta sjálf.

„Ég fann ekki þessa þörf og var ekki á þeim stað að fara að leita sjálf. Núna þegar ég er búin að fara og gera þetta allt þá skil ég ekki af hverju ég var ekki byrjuð fyrr. Þegar þetta var byrjað áttaði ég mig á því að þetta skipti mig mjög miklu máli og það kom mér á óvart.“

 

Kimberley og Guðrún
Eins og þær hefðu alltaf þekkst.

Eins og þær hefðu alltaf þekkst

Emil gerði nokkrar atrennur í leit sinni. Að lokum hafði hann samband við Karen Vigneault erfðafræðing, sem sérhæfir sig í amerískum ættbálkum. Þá var tekið DNA-sýni af Guðrúnu og allt kom í ljós.

„Á þeim tíma var ég meira að hugsa um að gera þetta fyrir aðra en sjálfa mig. Láta fólk vita hversu auðvelt þetta væri í raun og veru. Á sama tíma var ákveðið að gera heimildarmynd um þetta og ég leit á þetta sem skemmtilegt verkefni og gleðiferð. En þegar ég var komin út og þetta var að raungerast fann ég hvað þetta var mikið tilfinningamál fyrir mig. Það var sérstök en góð lífsreynsla. Ég var mætt á svæðið og sá fólkið mitt, fólk sem var líkt mér í útliti út um allt. Ég gat speglað mig í systur minni og kynntist strax frænku minni. Þetta skipti mig máli.“

Fyrsti ættinginn í Vesturheimi sem hún heyrði í var systir hennar, Kimberley Linebarger, búsett í Arizona. Guðrún hafði uppá henni sjálf. Það var tilfinningaþrungið símtal.

„Ég var að reyna að koma einhverjum hlutum að en það er ekki hægt í svona símtali. Ég vildi fá að vita hvort þau ættu börn, hvernig fjölskyldan væri, hvort ég ætti fleiri systkini og allt það. En svo man ég varla um hvað við töluðum.“

Síðan kom að þeirri stund að þær hittust í fyrsta sinn. Guðrún segir:

„Hann Jón Haukur, sem gerir heimildarmyndina, sagði að það væri skrýtið að sjá hvað við náðum vel saman. Þetta small bara strax. Algjörlega áreynslulaust og án allrar feimni eða viðkvæmni. Það var eins og við hefðum alltaf þekkst.“

Guðrún segir að sambandið milli þeirra sé ennþá jafn náið.

„Ég hringdi í hana um daginn því að hún hafði misst tengdamóður sína. Við töluðum saman fram á nótt.“

 

Sterk tengsl við ömmu

Kimberley þekkti ekki föður þeirra, Henry, frekar en Guðrún. Hún var mjög ung þegar foreldrar hennar skildu og hafði engin samskipti við hann eftir það. Henry var í hernum og barðist bæði í Kóreu og Víetnam. Kimberley bjó með móður sinni í Norður-Karólínu fylki en skilnaðurinn tók mörg ár. Guðrún og Kimberley fóru saman á verndarsvæðið í Oklahoma og hittu frænku sína, Rose, þar.

„Hún er að upplifa allt aðrar tilfinningar en ég. Hann vissi ekkert að ég væri til en hann talaði við hana í síma nokkrum sinnum þegar hún var mjög lítil.“

Hún fékk þá höfnunartilfinningu?

„Já, þetta var allt öðruvísi og mjög sorglegt því að hann átti ekki önnur börn en okkur tvær.“

Henry lést árið 2006 og hitti því ekki aldrei dætur sínar. Hann giftist aftur seinna á lífsleiðinni en eignaðist enga fleiri afkomendur. Hjá Rose fengu þær upplýsingar um fjölskylduna.

„Ég er búin að hugsa mikið um ömmu mína, móður pabba, miklu frekar en hann. Einhverra hluta vegna fæ ég hugskot af henni. Ég sá strax á myndunum að ég væri mjög lík henni. Rose sagði að ég væri miklu líkari þeim öllum heldur en hún sjálf. Við fórum í kirkjugarðinn og fengum leyfi til að mynda þar. Ég gekk beint að leiðinu hennar ömmu því ég fann fyrir sterkum tengslum við hana.“

Ný fjölskylda
Otoe-Missouria ættbálkurinn telur rúmlega 3000 manns.

Bíður eftir ákvörðun ættbálksins

Guðrún hefur kynnt sér sögu og uppruna Otoe-Missouria ættbálksins, sem upprunalega kom frá svæðinu í kringum stóru vötnin í Miðvesturríkjunum. Næsta sumar ætlar Guðrún á sumarhátíð ættbálksins og taka upp meira efni fyrir heimildarmyndina sem áætlað er að sýna á kvikmyndahátíðum frumbyggja. Hún sótti einnig um formlega inngöngu í ættbálkinn á grundvelli faðernisins.

Gekk það greiðlega í gegn?

„Það verður tekin ákvörðun í janúar. Sú sem tók við skráningunni, og er frænka mín, sagði mér að það væru mjög miklar líkur á því að það gengi í gegn. Ég fann það að það skipti mig máli að komast inn í þennan ættbálk. Þeir geta í sjálfu sér alveg neitað mér. Það eru engin lög sem gilda um þetta heldur aðeins þeirra ákvörðun. Ef þeir neita mér þá neita þeir sjálfsagt Kimberley líka.“

Guðrún segir að hún hafi unnið umsóknina mjög vandlega. Hún lét þýða öll skjöl samkvæmt kúnstarinnar reglum og fór með þau í gegnum bæði sýslumann og utanríkisráðuneytið hér heima. Þar voru þau stimpluð og hafin yfir allan vafa. Inni í þeim voru upplýsingar um alla hennar ætt.

„Sú sem tók við skjölunum mínum hafði aldrei séð neitt þessu líkt og hún tók ljósrit af þessu öllu. Ef þau neita mér þá fer ég aftur og kref þá um útskýringar.“

Hvaða þýðingu hefur það fyrir þig að fá inngöngu?

„Það eru ýmsir hlutir sem felast í því að vera tekin inn í ættbálk. Bæði hlunnindi og réttur. Til dæmis gæti ég sótt um styrki varðandi alls konar hluti ef ég myndi flytja til Ameríku. Ég gæti farið í gegnum heilbrigðiskerfið hjá þeim. Þetta er samfélag. Þetta er mjög náið samfélag. Þeir eru með fjárhagsaðstoð, ferðaaðstoð og margt fleira. Á þakkargjörð gáfu þeir öllum eldri borgurum kalkúna og allt meðlæti. Þeir sem vildu gátu fengið peninginn. Það er öryggi í þessu. Einnig er þetta ákveðin tengin við upprunann og söguna bak við fólkið mitt. Ég hef áhuga á að vita miklu meira um þetta samfélag. Að vera boðin velkomin inn skiptir máli.“

 

Arnar- og Bjarnarkvíslin

Otoe-Missouria ættbálkurinn samanstendur af sjö ættkvíslum eða klönum. Guðrún og Kimberly komust að því að þær tilheyra ættkvísl sem kölluð er „Eagle-clan“, eða Arnar-kvíslin. Amma hennar var hins vegar af Bjarnar-kvíslinni. Hinar kvíslirnar eru dúfur, uglur, bifrar, vísundar og hirtir.

„Karen kom með dót fyrir mig til að búa til mína eigin indjána-hálsfesti, með skeljum og fleiru sem ég gat þrætt á. Hún skildi ekki af hverju ég fór að þræða ákveðin tákn á hana af því að það er ekki eitthvað sem þau gera. Öðru megin þræddi ég tvo birni á festina. Svo setti ég skjaldböku á hana sem tákn fyrir Ameríku, Ameríka er kölluð Skjaldbökueyja. Síðan fjöður sem táknaði mig. Ég skildi þá sjálf ekki af hverju ég sétti birnina en seinna, þegar ég lærði um kvíslirnar, áttaði ég mig á því að þetta væri amma mín.“

Vill komast í ættbálkinn
Ýmis hlunnindi og réttur fylgir inngöngu.

Ísland framandi

Guðrún segir að eitt ánægjulegasta við allt þetta hafi verið að kynnast Kimberly og manni hennar Johnny. Hann var mjög drífandi í öllu ferlinu og styrkti þær systurnar.

Eru þau áhugasöm um Ísland, sem er ábyggilega mjög framandi fyrir þau?

„Já, þau eru það. Ég fór með ljósmyndabók með mér út og gaf þeim. Þau eru búin að vera að skoða þetta og eru staðráðin í að heimsækja landið. En þetta er svoldið snúið fyrir hana því hún hefur aldrei farið úr landi og er smeyk við kulda. Johnny er karatemeistari og hefur keppt um allan heim. Í Bandaríkjunum er það algengt að fólk fari aldrei úr landi. Bandaríkin eru svo stór og fjölbreytt að þú getur komist í hvaða loftslag sem er og kynnst menningarborgum innanlands.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Hvalur sprakk í tætlur

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Eva Ruza fer í skóför Felix

Eva Ruza fer í skóför Felix
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu
Fókus
Fyrir 3 dögum

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sonur Elísu og Elíss fæddur

Sonur Elísu og Elíss fæddur
Fókus
Fyrir 4 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“