fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fókus

Ásdís Rán: Jafnréttisbaráttan hefur gert karlmenn að kerlingum

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Mánudaginn 5. nóvember 2018 21:00

Ásdísi Rán þarf vart að kynna. Mynd: Brynja

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég er komin á þann aldur að mig langar bara að gera það sem mér finnst skemmtilegt, gerir mig hamingjusama og skilur eitthvað eftir sig,“ segir fyrirsætan, þyrluflugmaðurinn og frumkvöðullinn Ásdís Rán Gunnarsdóttir. Ásdísi þarf vart að kynna en hún er ein farsælasta fyrirsæta Íslands og gengur alla jafna undir nafninu Ísdrottningin. Lítið hefur farið fyrir Ásdísi í sviðsljósinu síðasta árið en nýtt viðskiptatækifæri á hug og hjarta hennar í dag – nefnilega innflutningur á kolbikasvörtum rósum frá Afríku. Í einlægu viðtali við DV opnar hún sig um ástina, kvenréttindabaráttu, MeToo-byltinguna og samfélagsmiðlastjörnur.

„Ég er búin að stútfylla draumapakkann,“ segir Ásdís brosandi er blaðamaður spyr hvort hún sjái eftir einhverju á löngum ferli sínum í sviðsljósinu. „Ég er búin að gera mögulega allt, uppfylla alla mína drauma, prófa allt sem mig langaði að gera og búa úti um allan heim. Þannig að ég gæti bókstaflega dáið sátt núna. Það er ekkert sem ég hefði gert öðruvísi og ég sé ekki eftir neinu sem ég man eftir eða nagar mig eitthvað. En þar sem ég er búin með svo mikið í mínu lífi er varðar vinnu, frama, lærdóm og upplifun þá er næsta verk einfaldlega að njóta lífsins, finna hamingjuna, fylgja börnunum mínum í gegnum lífið, ferðast, huga að andlegri og líkamlegri heilsu og gera það sem mér finnst skemmtilegt og gerir mig hamingjusama.“

Ljósmyndari: Brynja
„Hjartað mitt er alltaf í Búlgaríu.“ Mynd: Brynja

Hjartað alltaf í Búlgaríu

Ásdís fæddist á sjúkrahúsinu á Egilsstöðum 12. ágúst árið 1979, dóttir Gunnars Vignissonar og Eyglóar Gunnþórsdóttur sem nú eru skilin. Hún bjó á Egilsstöðum um árabil og einnig nokkur ár á Höfn. Síðar flutti hún til Reykjavíkur og gekk í Breiðholtsskóla. Hún var aðeins fjórtán ára gömul þegar stjörnuljósmyndarinn Björn Blöndal tók fyrstu myndina af henni, en gamla brýnið uppgötvaði þessa ungu og efnilegu stúlku á hárgreiðslustofunni Hödd þar sem hún vann með skóla. Ári síðar byrjaði hún að sitja fyrir fyrir alvöru, sem markaði upphaf glæsts fyrirsætuferils.

Búlgaría kallaði þegar þáverandi eiginmaður Ásdísar, knattspyrnumaðurinn Garðar Gunnlaugsson, skrifaði undir samning við CSKA Sofia árið 2007. Ásdís átti góðu gengi að fagna í Búlgaríu og fengu Íslendingar reglulegar fréttir af henni í gegnum búlgarska miðla. Ásdís hefur verið búsett á Íslandi í nokkur ár, en er hún komin til að vera í þetta sinn?

„Ég held að ég verði alltaf með annan fótinn annars staðar. Mér finnst fínt að vera komin hingað og öll fjölskyldan á einum stað. En svo nota ég flest tækifæri sem gefast til að fara til Sofíu eða eitthvert annað. Ég er með íbúð og bíl bæði hér og í Sofíu þannig að ég lít á þessa tvo staði sem heimili mín. Það var alltaf minn draumur frá unga aldri að hafa aðsetur í fleiri en einu landi til frambúðar,“ segir Ásdís og bætir við að hún sakni vissulega þess að búa í Búlgaríu.

„Hjartað mitt er alltaf í Búlgaríu. Mér finnst rosalega þægilegt að búa þar, það er svo mikið í boði eins og frábær skíðasvæði á veturna, frábærar strendur og sumar, mannlíf og endalaus afþreying.“

Missti Íshellinn í hruninu

Ásdís sat ekki auðum höndum þau mörgu ár sem hún bjó í Búlgaríu. Hún opnaði meðal annars verslun sem leit út eins og íshellir í Sofíu, en því miður varð verslunin hruninu að bráð.

Ljósmyndari: Brynja
Ásdís er hugfangin af svörtum rósum. Mynd: Brynja

„Hún var svo ótrúlega falleg verslunin mín, eða Íshellirinn eins og ég kallaði hana. Ég sé mikið eftir henni, en stuttu eftir opnun skall á erfitt ástand í Búlgaríu og í kjölfarið fór kreppan eins og stormsveipur um mörg lönd í Evrópu. Ég þurfti að loka versluninni eins og svo margir aðrir verslunareigendur og verslunarmiðstöðin þar sem Íshellirinn var fór á hausinn. Tveimur árum seinna var allt aftur á uppleið þannig að ég var aðeins of fljót á mér. En þetta var ótrúlega gaman og lærdómsríkt,“ segir Ásdís, en Íslendingar fengu líka að njóta góðs af sköpunarkrafti hennar á tímabili.

„Ég vann lengi við að hanna snyrtivörur, húðvörur, fatnað og undirföt sem ég seldi einnig í Hagkaupum á Íslandi og fleiri verslunum. Þetta rauk út eins og heitar lummur. Ég var algjör frumkvöðull á þessu sviði á Íslandi. Ég var með mitt eigið merki og lagði mikla vinnu og sköpun í þetta. Þetta gekk svo ótrúlega vel og því er sárt að þetta hafi ekki lifað og dafnað.“

Hrífst af völdum og gráu hári

Ásdís sleit samvistir við kærasta sinn, athafnamanninn Jóhann Wium, í sumar og stendur því á tímamótum er varðar ástalífið. Þótt hún hræðist það ekki að vera einhleyp þá segir hún það alls ekki henta sér.

„Það er alltaf ágætt að fá smá tíma fyrir sjálfan sig eftir sambandsslit en ég er alls ekki einhleypa týpan. Það hentar mér ekki. Mér líður miklu betur í sambandi, en hvort Guð gefi mér þann rétta til að deila lífinu með veit ég ekki. Það væri auðvitað draumur,“ segir Ásdís. „Ég er ekki komin á það stig enn að kynnast einhverjum nýjum. Ég hef nú að mestu verið í sambandi síðustu tuttugu árin þannig að ég er enginn sérfræðingur í þeim leiðum sem fólk fer til að finna sér maka,“ bætir hún við og hlær. En er hún ekkert á Tinder?

„Nei, ég er ekki á Tinder. Svo fer ég sjaldan út á lífið þannig að þetta er hálf vonlaust,“ segir hún og hlær sínum smitandi hlátri. „En ég kynntist nú manninum mínum fyrrverandi bara í Kringlunni og síðasta maka þegar ég var úti að hjóla þannig að ég verð bara að treysta á að guðirnir sendi hann til mín, kannski bara þegar ég fer að kaupa í matinn,“ segir fyrirsætan knáa. Það stendur ekki á svörunum þegar blaðamaður spyr hana hvað í fari karlmanna heilli hana mest.

„Karlmennska, herramannsskapur, stórgerðar hendur, ævintýramennska, fallegur klæðnaður, vald, grá hár og ýmislegt fleira,“ segir hún. En hverju heldur hún að karlmenn hrífist mest af í fari hennar?

„Ég get ekki svarað því hverju þeir heillast mest af í mínu fari. Ég held að það sé bara misjafnt eins og mennirnir. Sumir myndu heillast af því hvað ég er ótrúlega skemmtileg og hæfileikarík og aðrir bara af rassinum,“ segir hún kokhraust.

Fær ekki póst frá rugludöllum

Það má einmitt segja margt um Ásdísi en ákveðin og atorkusöm er hún, og hefur alltaf verið að sögn hennar nánustu. Hún lætur fátt stoppa sig og grípur tækifærin jafnóðum og þau birtast, hvort sem það er að sitja fyrir í heimsþekktum karlablöðum, stjórna sjónvarpsþáttum eða reka umboðsskrifstofur. Hún er hispurslaus og ritskoðar sig ekki. Þar af leiðandi hefur hún oft verið á milli tannanna á fólki í gegnum tíðina, en hún segir slæmt umtal ekki hafa áhrif á sig.

„Ég hef aldrei orðið vör við ljótt umtal sem hefur pirrað mig eða haft áhrif á mig andlega. Það er þá aðallega bara þegar koma einhverjar slúðurgreinar á DV,“ segir hún og gefur blaðamanni bylmingshögg með augunum. Svo skellir hún upp úr og heldur áfram. „Í þeim tilvikum eru alltaf einhverjir sem þurfa að tjá sig á leiðinlegan hátt í athugasemdakerfinu, en það er ekkert sem ég tek persónulega. Það er auðvitað misskemmtilegt að tala um fólk og fræga og ég hef yfirleitt skarað fram úr í því að vera skemmtilegt umtalsefni, sem hefur einmitt verið ástæðan fyrir farsælum ferli mínum í bransanum. Ég hefði aldrei komist langt ef enginn vildi tala um mig. Þá væri ég eflaust ekki mjög áhugaverð,“ segir hún. Á þeim tíma sem frægðarsól Ásdísar skein hvað skærast voru samfélagsmiðlar ekki komnir á skrið, en í dag segist Ásdís ekki verða vör við áreiti á netinu.

„Það er lítið sem ekkert miðað við að ég er með 25 þúsund fylgjendur á Facebook-síðunni minni og 15 þúsund fylgjendur á aðdáendasíðunni minni. Facebook reyndar síar allan póstinn minn þannig að ég fæ ekki póst frá þessum rugludöllum sem eru virkir í að áreita. Slíkt fer í pósthólf sem ég kíki aldrei í.“

Ljósmyndari: Brynja
„Ég hef aldrei orðið vör við ljótt umtal sem hefur pirrað mig eða haft áhrif á mig andlega.“

Hélt sér til hlés eftir erfiðan tíma

Maður fær þá tilfinningu að ekkert bíti á Ásdísi. Að hún þoli allt. Að það væri hægt að segja hvað sem er við hana án þess að hún bliknaði eða tæki það nærri sér. Hins vegar hefur síðasta ár verið erfitt í lífi fyrirsætunnar, sem er ástæða þess að hún hefur dregið sig úr sviðsljósinu.

„Það er algjörlega meðvituð ákvörðun hjá mér að draga mig úr sviðsljósinu, og stjórnast af mér. Ég hef bara verið í þannig aðstæðum að ég hef kosið að halda mig út af fyrir mig því líkamleg og andleg orka hefur farið í annað,“ segir Ásdís dul. Þegar blaðamaður innir eftir nánari útlistingu á þessum tíma stendur Ásdís föst á sínu. „Það er bara ýmislegt sem ég vil ekki ræða núna. Þetta er ekki rétti tíminn,“ segir Ásdís en bætir við að nú taki við betri tímar með blóm í haga.

„Nú eru tímarnir að breytast og ég kannski fer að sýna meira af mér á nýja árinu. Þetta kemur allt fram í ævisögunni eða bíómyndinni sem Friðrik Þór vildi gera um mig. Ég held að hún yrði rosaleg. Það sem ég hef upplifað er efni í góða bíómynd.“

Útilokar ekki frekari barneignir

Ásdís var aðeins sautján ára þegar alvara lífsins tók við og hún eignaðist sitt fyrsta barn, soninn Róbert Andra með fyrrverandi sambýlismanni sínum. Í dag er Róbert tuttugu ára, en auk hans á Ásdís soninn Hektor, þrettán ára, og dótturina Victoriu, ellefu ára, með Garðari. Fyrirsætan segist ávallt hafa notið sín í móðurhlutverkinu.

„Já. Nú eru þau öll orðin svo stór þessar elskur, öll alveg ótrúlega hraust, dugleg og klár og standa sig vel í lífinu. Ég er mjög heppin mamma. Ég er mjög mikil fjölskyldumanneskja og veit ekkert betra en að eyða kósítíma með fjölskyldunni,“ segir Ásdís sem útilokar ekki frekari barneignir. „Það er ekki á planinu hjá mér að eignast fleiri börn en ég ætla ekki að útiloka neitt. Það fer bara eftir maka og aðstæðum,“ segir hún. Hún telur ekki líklegt að börnin hennar muni feta í hennar fótspor er varðar barneignir, það er að segja að byrja jafn snemma og hún.

„Ég hugsa að ég þurfi að bíða í fimm til tíu ár eftir því að verða amma eins og lífið er í dag. Krakkarnir þurfa að klára skóla, eiga fyrir heimili og koma sér vel fyrir, sem er ekkert auðvelt áður en blessuð börnin koma. En ömmubörnin verða alltaf velkomin.“

Vildi ekki sofa hjá forstjóranum

Talið berst að MeToo-byltingunni svokölluðu, en fjölmargar þekktar konur, bæði íslenskar og erlendar, hafa stigið fram síðasta árið og sagt frá kynferðislegri áreitni og ofbeldi í ýmsum geirum. Hafa sögur úr skemmtanaiðnaðinum verið áberandi og þekkir Ásdís þann heim manna best.

„Mér finnst MeToo frábær bylting sem er búin að breyta heiminum til hins betra. Ég er mjög fegin að hún spratt upp fyrir hönd næstu kynslóðar og vonandi þurfa börnin okkar ekki að upplifa hegðun og ofbeldi af þessu tagi. Ég veit alveg hvernig þessi heimur er og hef mjög oft lent í svona atvikum og mjög oft misst af tækifærum út af því að ég hef ekki látið eftir einhverjum körlum í stjórnunarstöðum sem vilja fá sínu framgengt. Ég tapaði til dæmis áralöngu samstarfi við stærstu blaðaútgáfuna í Búlgaríu út af því að ég vildi ekki sofa hjá forstjóranum. Hann hótaði mér því að ég myndi aldrei vinna aftur með hans blöðum og það stóð, og stendur enn. Ég hef nú reyndar ekki sagt frá þessu í búlgörsku pressunni og væri eflaust í djúpum skít ef ég gerði það. Þannig að það eru margar verri sögur til undir yfirborðinu sem eru ekki sagðar einfaldlega út af því að maður getur lent í vondum málum í svona stórum löndum,“ segir Ásdís og undirstrikar hve mikilvæg henni finnist MeToo-byltingin vera.

„Það er mjög mikilvægt að deila þessum sögum því sögurnar skapa byltinguna og án þeirra hefði lítið gerst.“

Íslenskir karlmenn orðnir alltof miklar kerlingar

Meðal fólks sem hefur gagnrýnt Ásdísi í gegnum tíðina eru femínistar. Hún hefur til að mynda vera sökuð um að viðhalda úreltum staðalímyndum og verið sett í hóp með þekktum karlrembum. Ásdís er bara alls ekkert sammála því að þessar staðalímyndir séu úreltar.

„Þetta er bara smekksatriði. Ég er bara þessi gamaldags týpa sem finnst það sexí þegar að karlmenn kunna að gera vel við konur, hafa hærri laun en ég, meira vald, sjá fyrir heimilinu og þess háttar. Mér finnst ekkert sexí eða virðingarvert við það að bjóða á deit og skipta reikningnum, láta konur borga eða setja karlmenn í þessi hefðbundnu kvenhlutverk. Mér finnst íslenskir karlmenn oft vera orðnir of mótaðir af jafnréttisbaráttunni og þar af leiðandi búnir að týna herramennskunni og orðnir alltof miklar kerlingar. Það er bara ekkert sexí. Við konur erum orðnar svo mikið æðri en þeir í svo mörgu að stundum finnst mér eins og þeir séu að verða að engu smám saman og engin þörf fyrir þá lengur því „við björgum okkur sjálfar í öllu núorðið“,“ segir Ásdís. „Ég er alveg femínisti eins og allar hinar og styð kvenréttindabaráttu, þótt hún fari út í öfgar hér á Íslandi. Ég „fíla“ það ekki og ég held að fólk skilji alveg hvað ég á við með því,“ bætir hún við og brosir.

Ljósmyndari: Brynja
Ásdís einbeitir sér nú að nýju viðskiptatækifæri – innflutning á svörtum rósum frá Afríku. Mynd: Brynja

Ekki afrek að vera Instagram-stjarna

Ásdís er sveipuð vissum glans og hefur alltaf gert. Hún segir ekki erfitt að viðhalda slíkri ímynd.

„Nei, nei, þetta er bara ég náttúrulega. Ég er bara svona og hef ekkert fyrir þessu. Ég fer alveg oft út úr húsi í joggingalla en ég er alltaf tilhöfð að einhverju leyti, það er bara minn standard. Vel til höfð, fínt hár, fínar neglur og þess háttar. Það klikkar sjaldan sem aldrei og án þessa liði mér bara óþægilega,“ segir hún. Henni líst þó ekki á blikuna þegar talið berst að samfélagsmiðlum og þeim stjörnum sem spretta þar upp eins og gorkúlur.

„Mér finnst svolítið skrýtið hvað þetta er algengt í dag vegna þess að ég var nánast ein á þessum markaði frá unga aldri og það var mjög umdeilt. Núna er bara eðlilegt að stúlkur birti myndir af sér fáklæddum og mikið málaðar. Það eru góðar og slæmar hliðar á þessu. Þarna opnast tækifæri fyrir ungar konur sem vilja koma sér á framfæri og það er engin módelskrifstofa sem segir þér hvort þú sért nógu góð eða ekki. En mér finnst tímaeyðslan í þessu hjá stelpum fáránleg. Mér finnst hræðilegt að sjá hvað fólk verður heltekið af því að pósta og snappa öllu sem það gerir að það gleymir að njóta augnabliksins og lífsins. Þetta gengur allt út á að fá „like“ eða viðurkenningu frá samfélaginu. Mér finnst fólk ganga fulllangt í að seilast eftir því. Einhvers staðar sá ég góða tilvitnun sem var eitthvað á þessa leið: Ímyndið ykkur ef Instagram yrði eytt og búmm – þú ert ekki fyrirsæta lengur,“ segir Ásdís, hlær og heldur áfram. „Mér finnst það ekki mikið afrek að vera Instagram-stjarna ef það er ekkert meira þar á bak við en fínar myndir. Það geta flestir orðið Instagram-stjörnur ef þeir nenna að eyða svona miklum tíma í að taka myndir af sjálfum sér, „photoshop“-a þær og koma sér á framfæri með réttum aðferðum alla daga. En svo eru aðrar stjörnur sem hafa tilgang og veita innblástur, til dæmis afreksfólk, alvöru fyrirsætur, heilsugúrúar, íþróttafólk og alls konar fólk sem er bara frábært og gaman að fylgjast með.“

Vill hjálpa fólki og miðla reynslu

Þó að Ásdís hafi, eins og áður segir, haldið sér til hlés síðasta árið er aldrei lognmolla í kringum þessa metnaðarfullu konu.

„Ég er í skóla og klára einkaþjálfaranám núna í desember. Þá verð ég löggiltur einkaþjálfari og get farið að miðla minni reynslu sem ég hef viðað að mér síðustu tuttugu ár í þessum heimi. Vonandi get ég hjálpað fólki með heilsu og lífsstíl í aukavinnu, mér til gamans. Þá get ég spunnið saman andlega og líkamlega heilsu, eða markþjálfun, út frá bókinni minni Valkyrjunni og íþróttanáminu. Ég var oft að kenna í ræktinni í gamla daga, en þá þurfti maður engin réttindi. Annars er þetta bara áhugamál og ástríða og mér finnst gaman að hjálpa fólki og miðla reynslu, þannig að ég ákvað að skella mér í námið út frá því,“ segir Ásdís.

Svalt að gefa karlmanni svarta rós

Samhliða náminu og fyrrnefndri bók, Valkyrjunni, sem kom út í fyrra, er Ásdís komin á kaf í innflutning á kolbikasvörtum rósum frá Afríku.

„Hausinn á mér er mjög virkur og er alltaf að búa til einhverjar hugmyndir. Ég á oft erfitt með svefn út af því. Ég er búin að prófa ótrúlega margt og líka búin að klúðra mörgu. Það hlýtur að fara að koma að því að ég verði rík af einhverju,“ segir hún og hlær. „Þetta var reyndar svolítið öðruvísi með rósirnar. Þetta var ekki mín hugmynd. Ég varð bara algjörlega ástfangin af svörtu rósunum í Búlgaríu. Þvílík fegurð, og sú staðreynd að þær eru svartar, geti lifað í marga mánuði án vatns, ekki visnað og ilmað stórkostlega allan tímann heillaði mig upp úr skónum og þær áttu hug minn allan. Ég ákvað að flytja þær inn aðallega út af ástríðu og mig langaði að færa Íslendingum þessa stórkostlegu fegurð,“ segir Ásdís, en þótt rósirnar séu að uppruna afrískar er vörumerkið Metanoa De La Rose sem Ásdís flytur inn búlgarskt.

„Þær eru allar í glæsilegum, lokuðum gjafapakkningum með borða og það er eitthvað svo glæsilegt og dularfullt við þessar rósir. Ég geng framhjá þeim í eldhúsinu á hverjum degi og hugsa: Vá.

Ég er ljón og mikill fagurkeri og finnst gaman að hafa fallega hluti og fegurð í kringum mig,“ segir hún og er gjörsamlega hugfangin af þessum nýja bransa sem hún er komin í.

„Líftíminn hjá svörtu rósunum er misjafn og getur alveg farið upp í ár. Sagan segir að það fari eftir ástinni sem fylgir rósinni þegar hún er gefin. Svarta rósin er einstök. Hún er fallegasta og sérstakasta rós í heiminum. Svo er líka svalt að gefa karlmanni svarta rós og hægt er að gefa hana við hvaða tilefni sem er.“

Fyrsta sending af rósunum kemur til landsins í lok nóvember og verður hægt að panta þær á heimasíðunni metanoadelarose.is. Ásdís segir að takmarkað magn verði í boði og bætir við að rósirnar séu gífurlega vinsælar í alls kyns skreytingar.
„Hótel, veitingastaðir og hönnuðir nota þær mikið í skreytingar því þær endast svo lengi. Það kemur betur út í kostnaði í staðinn fyrir að þurfa að skipta blómum út vikulega.“

Ljósmyndari: Brynja
Ásdís er einhleyp síðan í sumar. Mynd: Brynja

Á skilið ævintýri

Áður en blaðamaður kveður Ásdísi verður hann að spyrja hverju hún sé stoltust af á löngum og farsælum ferli.

„Ég held að það sem standi upp úr sé Icequeen-vörumerkið, Íshellirinn og náttúrulega þyrluflugmannsprófið. Svo á ég ótrúlega margar fallegar forsíður og myndatökur að baki, sjónvarpsþætti og fleira sem ég er stolt af,“ segir Ísdrottningin og bætir við að hún sé hvergi nærri hætt.

„Vonandi gengur rósabisnessinn vel og ég verð rósadrottning. Svo væri ég alveg til í að vinna í sjónvarpi aftur. Mér finnst það skemmtilegast en það eru bara fá tækifæri í þeim bransa hér á Íslandi. Ég yrði líklegast að sækja þau tækifæri erlendis, framleiða mitt eigið sjónvarpsefni, leika og fleira í þeim dúr. Kannski fer ég meira í heilsubransann í framhaldinu af einkaþjálfararéttindunum. Framtíðin kemur mér vonandi á óvart og verður vonandi full af ævintýrum. Ég held að ég eigi það skilið.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við
Fókus
Fyrir 3 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Hver verður næst?“

„Hver verður næst?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“