fbpx

Gunnar Smári: „Ég ætlaði ekki að verða eins og pabbi, sem var fyllibytta á mörkunum við að vera róni“

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 21. apríl 2018 09:00

Gunnar Smári.

Gunnar Smári Egilsson var um áratuga skeið einn þekktasti blaðamaður og ritstjóri landsins. Nú stendur hann í sporum sósíalistaleiðtogans og berst fyrir því að rödd alþýðunnar fái að heyrast í borgarmálunum. Lífsskoðanir hans hafa mótast af uppeldi í fátækt og alkóhólisma og hans eigin baráttu við kerfið og sjúkdóminn. Kristinn Haukur ræddi við Gunnar Smára um æskuna, stéttabaráttuna og hlutverk blaðamennskunnar.

Pabbi datt á jólatréð

Gunnar Smári er fæddur í Hafnarfirði árið 1961 þegar fjölskyldan átti heima á Krosseyrarvegi. Hann er yngstur fjögurra sona, hjónanna Guðrúnar Guðmundsdóttur og Egils Hansen. Vinir og kunningjar nota yfirleitt seinna nafnið og höldum okkur við það í þessari frásögn. Fjölskylda Smára flutti á Sólberg í Garðahreppi og síðan á Seljaveginn í Reykjavík. Guðrún og Egill skildu þegar Smári var fimm ára og fluttist Guðrún áfram með synina milli íbúða næstu árin. Fyrst á Tjarnarstíg á Seltjarnarnesi, í Ljósheima 12 og síðan á númer 8 við sömu götu uns þau fengu loksins verkamannaíbúð í Unufelli þegar Smári var tólf ára. „Þú sérð hvernig það var að vera á leigumarkaði á þessum árum,“ segir hann. „Ég hafði átt heima á sjö stöðum þegar ég var tólf ára.“

„Pabbi var mikill alkóhólisti og mamma var af fyrstu kynslóð kvenna sem skildi við fulla kallinn. Fram að því neyddust konur til að hanga áfram í samböndum með alkóhólistanum. Ég var slysabarn og fæddist í raun eftir að þau hefðu átt að vera skilin.“ Telur Smári að fæðing hans hafi líklega frestað skilnaði foreldra hans um fjögur eða fimm ár.

„Pabbi drakk fyrir allan pening heimilisins og þetta olli mömmu og bræðrum mínum miklu álagi,“ heldur Smári áfram. „Sjálfur man ég lítið eftir þeim saman því mamma fór með okkur af heimilinu þegar ég var lítill. Mér finnst ég í raun hafa sloppið nokkuð vel frá alkóhólisma pabba. Hann mótaði meira æsku bræðra minna.“

Beitti hann ofbeldi þegar hann drakk?

„Nei, hann gerði það ekki en hann réði ekki við sig. Ég man fyrst eftir honum drukknum á aðfangadag þegar ég var þriggja eða fjögurra ára gamall. Þá datt hann á jólatréð. Á gamlárskvöld datt hann með rakettu sem flaug undir nærliggjandi bíla. Síðan man ég eftir að mamma fór með okkur inn í herbergi, lokaði og beið eftir að hann færi af heimilinu.“

„Ég þurfti að biðja dyraverði um að aðstoða mig við að koma honum heim, átta, níu eða tíu ára gamall.“

Fyrirlitning og skömm

Eftir að Egill og Guðrún skildu reyndi Egill að sinna hlutverki sínu sem helgarpabbi áður en það hugtak var búið til. En Egill var langt leiddur drykkjumaður og réð ekki við fíknina. Þessar minningar lifa enn mjög sterkt með Smára.

„Hann drakk þegar við fórum í bíó, á leiki í Laugardalshöllinni eða í skemmtiferðir út í Viðey. Hann drapst þá áfengisdauða og ég þurfti að biðja dyraverði um að aðstoða mig við að koma honum heim, átta, níu eða tíu ára gamall.“

Kveiðstu fyrir þessum heimsóknum?

„Nei. Þetta er eins og með aðra sjúkdóma. Ég sem barn var að bíða eftir því að rétti pabbi kæmi en varð svo alltaf fyrir vonbrigðum. Það er hægt að bera þetta saman við Alzheimer. Maður er nálægt manneskjunni en saknar hennar samt. Þú elskar þann sem er einhvers staðar falinn inni í sjúkdóminum.“

Smári segist hafa fundið fyrir mikilli skömm sem barn, bæði vegna fátæktar sem og drykkju föður síns. Þá hafi viðbrögð samfélagsins ekki hjálpað til við að skila skömminni þangað sem hún átti heima. Rólega en með þungri áherslu segir hann:

„Ég man vel eftir fyrirlitningunni frá hópnum. Sérstaklega þegar ég var einn með föður mínum. Enginn bauðst til að hjálpa að fyrra bragði og enginn sýndi samkennd því fólk var hrætt við að tengjast þessu. Fullorðið fólk dæsti þegar það sá mig burðast með hann og sýndi enga hlýju.“

Hvernig komu önnur börn fram við þig?

„Mér var ekki strítt eða lagður í einelti. Börn sem eru í þessum aðstæðum finna oft önnur í sambærilegri stöðu. Hvort sem það er alkóhólismi á heimilinu, geðraskanir, fátækt eða fatlanir. Börn finna önnur börn sem skilja stöðuna og geta haldið aftur af fyrirlitningunni. Án undantekninga voru allir vinir mínir börn alkóhólista. Við ræddum ekki vandann en skildum hver annan og dæmdum ekki.“

Mamma of stolt til að þiggja hjálp

Alkóhólisminn og skilnaðurinn dró fjölskyldu Smára niður í djúpa fátækt. Fyrir skilnaðinn var Egill stopult í vinnu og drykkjan kostaði sitt og eftir skilnaðinn bjó Guðrún ein með synina fjóra. Allar forsendur hennar fyrir góðu og innihaldsríku lífi voru brotnar en stolt olli því að hún veigraði sér við því að biðja um hjálp.

„Ég man eftir henni að afþakka aðstoð frá afa. Svo vann hún myrkranna á milli og ég fór með henni þar sem það var engin barnagæsla. Þegar ég var fimm ára vann hún í bakaríi Jóns Símonarsonar og ég raðaði þar snúðum í hillur og var handlangari hjá sendibílstjóranum, honum Magna,“ segir Smári og bætir við að hann þyrfti helst að hafa uppi á honum til að þakka honum fyrir að taka þátt í að ala hann upp. „Þegar ég var níu ára vann ég með mömmu í efnalaug, pressaði jakka og afgreiddi viðskiptavini. En ég slapp nokkuð vel. Elsti bróðir minn var farinn að vinna fyrir fjölskyldunni í saltfiski tólf ára.“

Faðir Smára fór loks í meðferð á sextugsaldri og lifði allsgáður í tæp þrjátíu ár. Hann var hins vegar hrjáður eftir öll drykkjuárin, dó úr heilasjúkdómi líkum Parkinson, sem án efa mætti rekja til drykkjunnar. Drykkjan hafði skilið eftir eyður í honum, hann var að mörgu leyti misþroska, bæði félagslega og andlega, en alls ekki aðeins á slæman máta.

„Þar sem ég missti föður minn í raun ungur, hann gat ekki fyllt upp í föðurhlutverkið, hef ég alla tíð upplifað mig sem föðurleysingja,“ segir Smári. „Ég er með litla holu í mér sem verður aldrei fyllt upp í.“

Tók fyrsta sopann tólf ára

Gunnar Smári, sem sjálfur hefur glímt við Bakkus, var formaður SÁÁ árin 2011 til 2013, segist geta rakið ættarslóð alkóhólismans aftur til sautjándu aldar, þegar sterkt áfengi var fyrst flutt til landsins. Þar má sjá forfeður sem þóttu efnilegir á yngri árum og miklar væntingar voru bundnar við, en eftir þrítugt gerðist ekkert í þeirra lífi. Þeir lutu í lægra haldi fyrir sjúkdóminum.

„Það er ekki nóg að hafa tilhneiginguna eða genið, vímuefnið verður að vera til staðar. Alkóhólismi verður því ekki plága fyrr en brennt áfengi kemur hingað. Það var nánast ómögulegt að drekka í sig alkóhólisma á veikum mjöð, með góðum vilja mátti gera það við hirðir erlendis sem komust yfir sterkari hvítvín. En þegar fólk kemst upp á lag með að eyma vín og búa til sterkt áfengi breiðist alkóhólimi út eins og farsótt. Fyrst hægt þegar tæknin ferðast í gegnum Miðjarðarhafslöndin og upp Frakkland en þegar hún kemur inn í rúgbeltið verður fjandinn laus. Seníver í Hollandi og síðan ginið í Bretlandi veldur fári, ginfárinu. Jeppi á Fjalli eftir Holberg er skrifað um alkóhólista um það leyti sem sterka áfengið kemur til Danmerkur. Á átjándu öldinni kemur það svo til Íslands og veldur miklu fári, hörmungum og niðurbroti fólks, fjölskyldna og samfélagsins alls.

En þótt genin geti verið forsenda þess að drekka í sig alkóhólisma og að þú þurfir að komast í efnið líka þá hafa áföll í æsku líka mótandi áhrif. Fyrir börn og unglinga sem alast upp í erfiðum aðstæðum virkar áfengi eins og gott lyf. Það slekkur á skömminni, lætur fortíðina hverfa og minnkar kvíða fyrir framtíðinni. Ágengi og önnur vímuefni setja þig í núið, færa þig í núvitund. Ungmennin fá kjark til að ganga inn í fullorðinsárin beinni í baki og síður kreppt af skömm. En lyfið svíkur síðan alkóhólistana og verður sjálft vandamálið.“

Hvenær drakkst þú fyrst?

„Tólf ára, sem er alveg bilað. Dóttir mín varð ellefu ára um daginn. En ég ætlaði ekki að verða eins og pabbi, sem var fyllibytta á mörkunum við að vera róni. Ég sá hann einu sinni þamba hálfa flösku af hvannarótarbrennivíni á bílaverkstæði Steindórs, þar sem hann vann. Þótt ég hafi síðar drukkið margt gat ég aldrei drukkið Hvannarótarbrennivín, gat ekki komið því niður. Ég byrjaði að drekka Johnny Walker með klaka og ræddi þjóðmál og bókmenntir við vin minn Skúla Pé. Þótt ég reyndi að drekka fínna vín en pabbi þá varð ég náttúrlega alkóhólisti eins og hann.“

Unglingsárin og snemmfullorðinsárin einkenndust af rótleysi og stefnuleysi. Smári flosnaði upp úr Menntaskólanum við Sund og vann við eitt og annað víða um landið. Um tíma ferðaðist hann líka töluvert erlendis.

„Unglingadrykkjan fór aldrei úr böndunum líkt og hjá mörgum. Ég var ekki að sniffa lím á Hlemmi. En upp úr sextán ára aldri fór ég að drekka um hverja helgi. Ég fór líka að nota hass og örvandi efni þó að áfengi hafi alltaf verið minn aðal vímugjafi. Um tvítugt var mér ljóst að ég væri alkóhólisti. Ég vissi bara ekki hvað fólst í því.“

„Til að losna út úr þessu ástandi ákvað ég að byrja að drekka aftur. Það var leiðin sem ég kunni. Ég var enn alkóhólisti.“

Elti misnotaða stúlku út úr þjáningunni

Árið 1985 datt Smári fyrir tilviljun inn í blaðamennsku á dagblaðinu NT og þar opnaðist fyrir honum nýr heimur. Upp úr því kynntist hann konu og hóf sambúð með henni og kornungum syni hennar. En með tímanum reyndist erfitt að samrýma fasta vinnu, fjölskyldulíf og það drykkjumynstur sem hann var fastur í.

„Blaðamennskan var uppgötvun fyrir mér. Hún var lykill til að opna dyr að heiminum og mér fannst það stórkostlegt,“ segir Smári upptendraður. „Ég mátti skoða allt sem mér datt í hug. Fram að þessu var ég engu bundinn og hafði engar skyldur. Ég gat drukkið þegar ég vildi. En svo komu árekstrarnir við fjölskyldu sem ég elskaði og starf sem mér fannst mikilvægt og eftir fjögur ár var ég farinn í meðferð.“

Meðferðin bjargaði ekki sambandinu en þar lærði Smári hvað alkóhólismi er, arfgengur sjúkdómur sem á endanum tortímir sjúklingnum ef hann hættir ekki að drekka. Þar var honum einnig kennt að lausnin væri að vera ærlegur maður, standa við orð sín og koma hreint fram við aðra. Broddborgari sem borgar skattinn sinn og stendur sína plikt. Þessu tók Smári fagnandi og bókstaflega og gætti þess að halda samskiptum sínum við alla hreinum og skýrum. Á sama tíma fékk hann aukna ábyrgð í starfi þegar hann var ráðinn ritstjóri á Pressunni 1989.

„Ég stóð mína plikt en eftir nokkur ár kom í ljós að það var ekki nóg. Ég þurfti dýpri fyllingu í lífið. Ég var kominn í öngstræti sem manneskja sem er kannski best lýst með hugtökum úr guðfræðinni. Marteinn Lúther lýsir því hvernig hinn reiði guð gamla testamentisins setur ómanneskjulegar kröfur á manninn. Mannskepnan getur sett á sig meiri kröfur en hann getur staðið undir og hann fyrirgefur sjálfum sér ekki. Að lifa undir slíkum kröfum verður óbærilegt og þú verður að harðneskjulegri manneskju. Til að losna út úr þessu ástandi ákvað ég að byrja að drekka aftur. Það var leiðin sem ég kunni. Ég var enn alkóhólisti.“

Það var meðvituð og erfið ákvörðun. Fyrstu drykkina píndi hann ofan í sig og upplifði hvorki vímu né ánægju. Næstu helgi drakk hann aftur og helgina eftir það. Næstu þrjú árin var Smári meira og minna í dagdrykkju og á virkilega vondum stað í tilverunni.

„Ég vissi að leið AA og SÁÁ var leiðin út en hún var bara ekki fær mér. Ég hafði reynt hana en hún hafði ekki dugað. Það var því engin lausn í boði fyrir mig önnur en að drekka og væla ekki of mikið yfir örlögum mínum. Ég brenndi kertið í báða enda, vann mikið og drakk stíft þar til ég var orðinn þreklaus. Ég feikaði mig í gegnum daginn með gömlum töktum og stælum. Það var enginn neisti í skrifum mínum og ég var orðinn ráðalaus sem manneskja.“

Á þessum tíma hafði hann kynnst núverandi eiginkonu sinni, Öldu Lóu Leifsdóttur, en sambandinu stóð ógn af drykkjunni. Árið 1994 féllst Smári á að reyna aftur meðferð á Vogi án þess að hafa trú á henni. Í eftirmeðferðinni á Staðarfelli gerðist hins vegar nokkuð óvænt sem hann lýsir með bros á vör eins og kraftaverki.

„Þarna inni var ung stúlka frá Vestfjörðum sem hafði lifað ömurlega æsku, verið misnotuð, orðið fyrir ofbeldi og lifað við hryllilegar heimilisaðstæður. Hún hafði flúið veruleikann með því að drekka og dópa og særði sig og skar undir áhrifum, bar ör bæði að innan og utan. Einn daginn, þar sem við sátum í hópavinnu, hvert okkar lokað inni í sínum helli sjálfsvorkunnar, ákvað hún að stíga upp og út og yfirgefa þjáninguna. Ég sá á svipnum á henni að allt hafði breyst. Hún fór að tala um hvað hún vildi og hvert hún gæti farið. Ég hugsaði með mér að úr því að þessi stúlka gat yfirgefið sinn helli, sem hún svo sannarlega hafði allan rétt á að búa í, þá hlyti ég að geta yfirgefið minn auma sjálfsvorkunnarhelli. Morguninn eftir sá ég á yfirbragði stúlkunnar að hún var enn úti, björt og glöð. Ég ákvað því að elta þessa stúlku út úr hellinum, skilja þjáninguna eftir og taka sæng mína og ganga af stað. Síðan hef ég reynt að taka á móti lífinu með opnum faðmi og hlýju hjarta.“

Lærði hjá reynsluboltunum

Á þrjátíu ára ferli í blaðamennsku hefur Gunnar Smári komið víða við. Eftir stuttan tíma á NT fór hann á Helgarpóstinn og síðan DV. Eftir að hafa ritstýrt Pressunni ritstýrði hann Heimsmynd, Eintaki, Morgunpóstinum og Fókus og skrifaði í Alþýðublaðið, flutti pistla fyrir Ríkisútvarpið, Bylgjuna og Stöð 2. Hann vann að stofnun Fréttablaðsins 2001 og varð ritstjóri þess og síðan forstjóri 365. Fór síðan í víking til Danmerkur með Nyhedsavisen árið 2006. Síðasta verkefni hans var hjá Fréttatímanum sem hætti útgáfu vorið 2017. Á þessum tíma hefur hann einnig skrifað tvær bækur og þýtt eina til.

„Blaðamennska verður að hafa tilgang og þá á ég ekki við persónulegan tilgang. Hún verður að þjóna. Fólk sem er ekki í blaðamennsku til að bæta samfélagið og gera gagn er á röngum stað. Þetta snýst ekki einungis um að miðla upplýsingum heldur að þjóna og boða erindi og tilgang líkt og hjá rithöfundum, prestum og stjórnmálamönnum. Blaðamenn fletta ofan af þeiri heimsmynd sem valdið heldur að okkur og vilja sýna fólki hvernig heimurinn raunverulega er. Ég stundaði mína blaðamennsku lengst af á jaðrinum og reyndi að brjóta þá heimsmynd sem valdið reyndi að halda uppi í gegnum meginstraumsmiðlana.“

Um áratuga skeið ráku stjórnmálaflokkarnir sín eigin dagblöð og fréttaflutningurinn bar þess merki. Á áttunda áratugnum börðust blaðamenn og ritstjórar fyrir sjálfstæði sínu og unnu mikla sigra í þeim efnum. Þegar Smári hóf sinn feril var kominn á nokkurs konar sáttmáli um frjálsa og óháða blaðamennsku og flokksblöðin fóru hægt og bítandi að gefa upp öndina. Á þessum tíma lærði hann af fyrirrennurum sínum sem hann er auðheyranlega þakklátur fyrir að hafa kynnst.

Sverrir Albertsson, fréttastjóri á NT, kenndi mér góða tækni, en hann hafði lært blaðamennsku í Kanada. Hann söng fyrir mig hvernig fréttir ættu að hljóma, taktinn í þeim. Þú hefur aðeins sjö línur til að ná athygli lesandans og ef þú nærð honum ekki þá mun hann ekki gefa þér annan séns. Restin af fréttinni fer síðan í að endurtaka niðurstöðuna í fyrstu sjö línunum í lengra máli. Sverrir kenndi mér svona skýra tækni. Halldór Halldórsson, ritstjóri Helgarpóstsins, kenndi mér hins vegar blaðamennsku og síðar Jónas Kristjánsson á DV. Halldór var mjög nákvæmur og yfirheyrði mig um heimildir fyrir hverri einustu setningu sem ég skrifaði, lamdi inn í mig virðingu fyrir heimildaöflun og úrvinnslu. Halldór var langbesti blaðamaður sem ég hef kynnst og ég er þakklátur fyrir að hafa lent í höndunum á honum. Ég fór svo frá Halldóri í skóla hjá Jónasi Það er mikilvægt fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í þessu fagi að læra af reynslumestu og bestu blaðamönnunum á ritstjórninni. Ég var frábærlega heppinn með mentora.“

„Við vorum alltaf með Breiðavík á verkefnalistanum á Pressunni í kringum 1990 en fundum ekki lausnina á því hvernig hægt var að fjalla um það.“

Ekki hægt að segja sögu Breiðavíkurdrengjanna

Hvað var það helsta sem þú og þín kynslóð gerðuð?

„Eftir á að hyggja held ég að við höfum ekki náð að byggja upp neina alvöru gagnrýni á meginstoðir samfélagsins. Okkar afrek voru frekar að hleypa í gegnum okkur röddum hópa sem höfðu verið kúgaðir og þaggaðir niður, þóttu ekki nógu fínir til að vera með á sviðinu. Við færðum fólk sem var á jaðrinum inn í umræðuna, fólk sem hafði orðið fyrir ofbeldi af ýmsu tagi, verið kúgað og misþyrmt af öðru fólki eða stofnunum samfélagsins, fólk sem hafði lifað við fordóma og þöggun. Þetta tímabil, frá um 1990 og fram að hruni, er náttúrlega tímabil „identity politics“ þar sem áherslan var ekki á grunngerð samfélagsins, stéttakúgun eða arðrán heldur á mannréttindabaráttu ólíkra hópa sem höfðu verið jaðar- og undirsettir áratugum og öldum saman.“

Sem dæmi um þetta nefnir Gunnar Breiðavíkurmálið svokallaða sem fjallað var um í Blaðinu og Kastljósi árið 2007 og snerist um gróft ofbeldi og kynferðislega misnotkun sem drengir á uppeldisheimilinu þar urðu fyrir á árunum 1953 til 1979.

„Við vorum alltaf með Breiðavík á verkefnalistanum á Pressunni í kringum 1990 en fundum ekki lausnina á því hvernig hægt var að fjalla um það. Ég hitti menn sem voru á Breiðavík og þeir sögðu mér frá þessari hrikalegu meðferð sem þeir voru beittir. En á þessum tíma var ekki búið að brjóta múrinn og það gat enginn komið fram og sagst hafa verið beittur ofbeldi í Breiðavík. Það fylgdi því svo mikil skömm að hafa verið kúgaður. Enginn vildi stíga fram undir nafni. Og við gátum ekki birt frásögn undir nafnleynd sem bar sakir á annað fólk án þess að finna aðra sjálfstæða heimild fyrir akkúrat sömu atvikum. En Breiðavík náði yfir svo langan tíma að þótt við töluðum við nokkra af þessum mönnum þá fundum við aldrei tvo sem gátu sagt frá sömu viðburðum. Þegar árin liðu komu hins vegar aðrir hópar út úr skápnum, til dæmis konur sem höfðu verið beittar ofbeldi, og þá færðust mörkin yfir hvað hægt var að segja og loks gátu Breiðavíkurdrengirnir stigið fram og sagt sína sögu. En þessi barátta, barátta hinna undirsettu og kúguðu, fór alla tíð fram á jaðarblöðunum, ekki í meginstraumsmiðlunum eða á valdastofnunum eins og Morgunblaðinu. Að baki einu viðtali í Mogganum við manneskju sem talar um kúgun og þöggun er vanalega áratuga vinna jaðarmiðlanna við að færa til mörkin.“

Hrunið breytti umhverfi fjölmiðlanna

Samkvæmt Gunnari Smára hófst óháð blaðamennska með útgáfu Dagblaðsins árið 1975. Síðan fylgdu miðlar á borð við Helgarpóstinn, Bylgjuna, Stöð 2 og Pressuna í kjölfarið. En ritstjórnir þessara miðla voru alltaf háðar veiku rekstrarmódeli, fyrr eða síðar komu tímar þar sem kreppan át upp auglýsingatekjurnar og þessir miðlar lentu í rekstrarvanda. Óðamála segir hann:

„Ef þú ert á jaðrinum deyrðu þegar kreppan kemur. Þetta er eins og að búa á heiðarbýli hér á árum áður. Fyrir flest vinnufólk var óbærilegt að búa inni á stórbændum þótt það hafi verið öruggara en heiðarbýlin. Þau sváfu á baðstofunni hjá bændunum, oftast með niðursetning uppi í rúminu hjá sér og þurftu í einu og öllu að gera sem bóndinn krafðist. Hlustuðu á hann prumpa á nóttunni. Vinnufólkið dreymdi því að flytja upp í heiðarbýlið með eina kú og sjö kindur þrátt fyrir að þau vissu að um leið og kæmi eitt kalt vor myndi bústofninn drepast. Vinnufólkið, líkt og blaðamennirnir, fengu þó að minnsta kosti nokkur ár í friði, þótt þau dröttuðust kannski aftur í vist hjá stórbændunum á eftir. Það er alvitlaust að meta blaðamennsku út frá efnahagslegum árangri miðlanna. Öll bestu blöð heimsins hafa farið á hausinn. Þau sem lifa hafa með einum eða öðrum hætti gert samkomulag við valdastéttirnar til að lifa af.“

Rekstrargrundvöllur fjölmiðla hefur algjörlega breyst eftir hrunið að mati Smára. Eftir það hefur enginn fjölmiðill borið sig. Þeir hafa orðið háðir fólki og fyrirtækjum sem leggja þeim til fé með einum eða öðrum hætti og vegna veikrar afkomu orðið háðari auglýsendum. Við hrunið fjaraði undan sjálfstæði ritstjórna gagnvart eigendum og auglýsendum og draumurinn um að „skreppa á heiðarbýlið“ varð óraunhæfari, þótt Kjarninn og Stundin þrauki og eins manns miðlar á borð við Kvennablaðið og Miðjuna. Fyrir hrun gátu blöðin lifað af þótt fimm prósent auglýsenda væru í fýlu á hverjum tíma en þegar fjölmiðlar eru komnir á horrimina verður hver töpuð sala orðin að stórmáli.

„Eftir hrun var blaðamönnum sagt upp í hópum og yfirleitt fyrst þeim reynslumestu. Þetta veikti ritstjórnirnar einmitt þegar samfélagið var á hverfanda hveli og mikil þörf á endurskoðun allra hugmynda, hjá blaðamönnum ekkert síður en í stjórnmálum, stjórnsýslu eða öðrum stofnunum samfélagsins. En eins og aðrar stofnanir voru ritstjórnirnar of veikar til að mæta þessum straumhvörfum, þær tróðu marvaða og breyttu litlu í sinni umfjöllun, sjónarhorni og áherslum á tíma þar sem þær hefðu átt að breyta öllu,“ segir Smári og heldur áfram: „Umræðan á Íslandi er oft eins og endurómur af árunum fyrir hrun fremur en að vera sú deigla sem vera ætti. Þú heyrir þetta til dæmis í Kastljósi þar sem sjónarhóll spyrilsins er oft af einhverjum ruslahaug nýfrjálshyggjunnar. Auðvitað eimir enn eftir af nýfrjálshyggjusjónarmiðum í fjölmiðlum í nágrannalöndunum en það má sjá skýr merki þess að tímabili nýfrjálshyggjunnar er lokið og fólk er farið að leita að nýjum grunni, nýjum sjónarhornum og öðrum áherslum. Hér hefur þessi endurnýjun varla byrjað. Meira að segja gagnrýnin á hrunið er oft út frá sjónarhóli nýfrjálshyggjunnar, eins fáránlegt og það hljómar.“

 

Vildu stöðva Pressuna með meiðyrðadómum

Auk viðkvæmra tekjumöguleika hefur önnur staðreynd ógnað frelsi blaðamanna, það er hin erfiða meiðyrðalöggjöf og tilhneiging dómsvaldsins til að dæma menn seka. Sjálfur hefur Gunnar Smári hlotið marga slíka dóma fyrir ummæli sem bæði hann og undirmenn hans hafa látið falla.

„Þetta var mest á tíma mínum á Pressunni því sá miðill ógnaði valdinu. Í siðanefnd Blaðamannafélagsins sátu íhaldssamir blaðamenn af Mogganum sem stimpluðu allar kærur sem við fengum sem brot á siðareglum og í kjölfarið sóttu kærendur bætur fyrir héraðsdómi. Ætli þetta hafi ekki verið um þrjár kærir í hverjum mánuði þegar mest var og þær runnu í gegn um erfið eins og á færibandi. Við vorum dæmd fyrir ummæli sem voru sönn og sönnuð en dómarinn sagði að væru prentuð í of stóru letri. Við þessar aðstæður hætti ég að taka ekki einu sinni til varna. Þeir mega dæma mig eins og þeir vilja, hugsaði ég. Ríki mitt er ekki af þessum heimi.“

Smári segir að aðfarir gegn ritfrelsinu hafi komið í bylgjum í gegnum tíðina. Þegar mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar voru endurskoðuð 1994 kom smá pása en svo komst valdið aftur upp á bragðið. Valdastéttirnar hafa alla tíð reynt að grafa undan gagnrýni fjölmiðlum, með kærum og dómum en líka með því baknagi sem virkar svo vel í litlu samfélagi. Árásir valdaklíkunnar í kringum Sjálfstæðisflokksins hafa spannað allt frá slíku undirróðri og níði um blaðamenn upp í ákærur og dóma og nú nýlega hreint lögbann um að fjalla um fjármál aðal höfðingjans. Kannski er það vegna þessa linnulausa rógs, sem ég hef til dæmis mátt þola í meira en þrjátíu ár, sem að blaðamönnum hefur ekki auðnast að standa saman gegn þessum árásum. Enginn vill lenda vitausu meginn við víglínuna, fá hinn viðbrennda Sjálfstæðisflokk á bakið.

„Af hverju fékk Stundin til dæmis ekki afgerandi stuðning frá öðrum fjölmiðlum þegar lögbannið var lagt á? Af hverju hættu aðrir miðlar ekki að segja fréttir af Bjarna Ben? Hvernig gátu þeir birt myndir af kökuskreytingarmanni eins og ekkert væri, létu þess ógetið að maðurinn á myndinni væri nýbúinn að fá samþykkt lögbann á umfjöllun um fjármálin hans fyrir hrun? Fjölmiðlar hefðu átt að sýna samstöðu því árásin á Stundina var árás á prentfrelsi og grundvöll frjálsrar fjölmiðlunar. En viðbrögðin voru lýsandi fyrir þann skort á fagmennsku og virðingu fyrir starfinu sem hefur verið ríkjandi hér. Það sem einkennir þorpið er oft smáborgaraháttur og sleikjuskapur við húsbóndann.“

„Fólk hefur engan áhuga á þessu svokallaða fræga fólki.“

Sami rassinn undir þeim öllum

Þegar Gunnar Smári kom að Fréttatímanum í árslok 2015 brá honum í brún við að sjá hvernig umhverfi fjölmiðlanna hafði breyst eftir hrun. Hversu ágengir og frekir auglýsendur voru orðnir. Hann segist hafa viljað búa til alþýðublað sem fjallaði um raunverulega reynslu og vandamál venjulegs fólks.

„Fólk hefur engan áhuga á þessu svokallaða fræga fólki. Fólkinu sem talar um bækur í Kiljunni, ræðir fréttir vikunnar í Vikunni hjá Gísla Marteini eða stjórnmálin í Silfrinu og ferðast um fjöll með Róberti Marshall,“ segir Smári og bætir við að fólki standi á sama hvort Gísli Marteinn sé vegan eða Smári sjálfur farið í þarmaspeglun. „Umfjöllun fjölmiðla vill lokast inni í hryllilega þröngri búbblu þar sem elítan er sífellt að fjalla um elítuna og áhugamál hennar. Við á Fréttatímanum vildum endurspegla stærri heim vegna þess að þegar þú gefur fjölmiðil út í örsmátt samfélag geturðu ekki minnkað það enn meira með því að ávarpa aðeins hluta af fólkinu. Þetta gekk vel. Þótt forsíðan hja okkur hafi verið eins og plaggat fyrir heimildarmynd við hliðna á Hollywood-mynd Fréttablaðisins þá unnum við á í lestri og merktum að aðrir miðlar voru frekar að færa sig yfir á okkar slóð. Ekki vegna þess að þau vildu elta okkur heldur vegna þess að við vorum að bregðast við samfélagsbreytingum sem voru raunverulegar og fleiri áttuðu sig á að þetta frægra fólks mambó hafði í raun dáið í hruninu.Það má reydnar merkja endurkomu þess að undanförnu. Það er eins og elítan þrái að komast aftur í ástandið sem ríkti fyrir hrun, vilji framlengja það aðeins. Ekki síst eftir að núverandi ríkisstjórn var mynduð. En kannski fórum við á Fréttatímanum of langt. Þegar kosningabaráttan hófst haustið 2016 hrundu auglýsingatekjurnar. Fjölmargir auglýsendur tilkynntu okkur hátíðlega að þeir ætluðu ekki að auglýsa í þessu kommúnistablaði. Á sama tíma var djöflast á aðstandendum blaðsins og fjölskyldum þeirra. Frá kosningunum 2016 var útgáfan varnarbarátta og leit að nýjum forsendum í rekstrinum, sem ekki fundust og blaðið fór í þrot. “

Smári bætir við að merkja megi endurkomu hinna ríku og frægu á forsíður blaðanna. Það sé engu líkara en að elítan þrái að komast aftur í ástandið sem ríkti fyrir hrun. Smári segir að honum hafi orðið ljóst að hann gæti ekki breytt samfélaginu með því að hafa áhrif á umræðuna á síðum blaðanna. Fjölmiðlar væru komnir undir vald hinna ríku og það væri í raun tómt mál að ætla að hafa áhrif á samfélagið innan þeirra. Valdaójafnvægið væri slíkt að eina leiðin til að breyta samfélaginu væri að taka völdin. Hann ákvað því að stofna Sósíalistaflokk Íslands. Flokkurinn studdi framboð B-listans í Eflingu fyrr í vetur og bíður nú fram í fyrsta skipti lista í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík.

„Markmið framboðsins er að koma því fólki að borðinu þar sem ákvarðanir eru teknar, sem á allt sitt undir að hinum sameiginlega lýðræðisvettvangi og að sameiginlegir sjóðir og velferðarkerfið þjóni fjöldanum en ekki hinum fáu. Framboðið er eðlilegt framhald af kosningunum í Eflingu, þar sem láglaunafólkið stóð upp og náði aftur völdum yfir verkalýðsfélaginu sínu af þröngri klíku sem hafði haldið þar völdum áratugum saman og í raun drepið niður félagið. Þetta er hluti alþjóðlegrar hreyfingar þar sem fólk er rís upp og tekur aftur völdin af elítunum sem hafa yfirtekið stjórnmálin og öll mikilvæg samtök og baráttutæki amennings og sem hafa haldið stórum hópum fólks frá þáttöku í stjórnmálum og frá áhrifum á samfélagið. Þetta á ekki aðeins við um vinstri flokkana og verkalýðshreyfinguna heldur eru hægri flokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsókn, líka orðnir að þröngum hagsmunaklíkum þótt rætur þeirra liggi í hornum almannasamtökum. Fyrir fólkið sem hefur verið klippt frá þáttöku virkar það svo að sami rassinn sé undir öllum stjórnmálamönnum, að stjórnmál fjalli um eitthvað allt annað en hagsmuni venjulegs fólks og að engin von sé til þess að neitt breytist. Og fjölmiðlarnir eru hluti valdsins  og þeir taka þátt í þessaari elítuvæðingu stjórnmálanna.“

Smári heldur áfram og er mikið niðri fyrir: „Það hafa kannski komið þrír fátækir í Silfur Egils á þessari öld. Það er aldrei talað við fátækt fólk og það er aldrei ávarpað. Inga Sæland gerði það í kosningasjónvarpinu í haust og fór inn með fjóra þingmenn. Aðrir sem voru í settinu með henni höfðu aldrei ávarpað fólk sem býr við vanda. Það hafði talað um það, en aldrei ávarpað. Millistéttin talar um hina fátæku og verr settu á sama hátt og nýlenduherrar töluðu um íbúa Afríku á sínum tíma, það hvarflar ekki að henni að gefa völdin til hinna verr stæðu og hún efast ekki um forræði sitt yfir henni, að hinum verr stæðu sé best borgið undir hjartahlýrri leiðsögn hinna betur megandi. Umræðan um öll mál er á forsendum hinna ríku og voldugu og sú umræða hljómar eins og þvæla í eyrum hinna verst settu. Þeir tengja ekkert við hana. Það skiptir heldur engu máli hvað þau kjósa því að eftir kosningar ganga Katrín og Bjarni saman út af sviðinu, enda hafa þau meiri samkennd hvort með öðru heldur en með kjósendum sínum.“

Ríkir, feitir, hvítir karlar sterkasti minnihlutahópurinn

Samkvæmt Smára er Sósíalistaflokkurinn byggður á baráttu fátæks fólks síðustu hundrað og fimmtíu árin, á grunni stéttabaráttunnar, og telur að engar breytingar verði á samfélaginu nema fyrir breiða samstöðu hinna verr settu. Þrátt fyrir mikinn árangur við að framkalla kröfur verkalýðshreyfingarinnar frá fyrri hluta síðustu aldar lentu vinstri flokkarnir í vanda á sjöunda og áttunda áratugnum. Kröfur verkalýðshreyfingarinnar frá því í kreppunni náðu ekki að halda utan um breytingar á samfélaginu, frelsisbaráttu svartra, kvenna, samkynhneigðra og annara undirsettra hópa. Smári talar sífellt hærra og hraðar þegar hann greinir þennan vanda vinstrisins.

„Mannréttindabaráttan klofnaði því í marga farvegi og hinir sósíalísku flokkar misstu forystuna. Þeir leiddu ekki lengur baráttu fjöldans heldur reyndu með tímanum að elta hana. Það er óraunhæft að hægt sé að sameina ólíkar frelsisbaráttur innan eins flokks. Þú finnur aldrei margt fólk sem er sammála um alla skapaða hluti og það er jafnvel ekki eftirsóknarvert. Og með áherslum á baráttu einstakra hópa á tímum „identity“ stjórnmálanna þá gerðist tvennt. Í fyrsta lagi var efnahagslegum grundvelli samfélagsins ekki raskað og því vann enginn hópur aðra sigra en auðvaldið var tilbúið að láta af hendi. Kjör og aðstæður millistéttarkvenna bötnuðu en staða fátæku pólsku skúringakonunnar sem býr með ofbeldisfulla manninum hefur ekkert batnað síðan 1970. Heldur versnað. Hún tilheyrir í dag ekki einu sinni starfsmannahóp fyrirtækisins sem hún vinnur hjá heldur er hún leigð út af starfsmannaleigu,“ segir Smári og bendir á að fyrir nokkrum áratugum hafi einstaka þingmenn og borgarstjórnarfulltrúar látist vera fulltrúar láglaunakvenna en í dag sé elítan hætt að þykjast. „Þessi skúringakona býr við þær aðstæður að geta ekki flúið ofbeldismanninn sem hún er gift vegna þess að hún gæti aldrei séð börnum sínum farborða á þeim launum sem hún vinnur sér inn. Staða hennar hefur því ekkert batnað þrátt fyrir stóra sigra femínismans á liðnum áratugum.“

Smári bætir við að þegar mannréttindabaráttan sé klofin með þessum hætti í einstök málefni vinni sá minnihlutahópur sem sé valdamestur en í þeim hópi eru ríkir, miðaldra, feitir, hvítir karlar. „Þess vegna eru þeir alltaf til í að ýta undir hina klofnu mannréttindabaráttu. Þeir voru bara nokkuð hressir með Martin Luther King jr. Þangað til að hann fór að tala um sameiginlega hagsmuni allra fátækra og um að mikilvægast væri að vinna gegn efnahagslegu óréttlæti. Þá skutu þeir hann,“ segir Smári. „Það er hin sorglega niðurstaða síðustu áratuga að sigurvegari þeirra er Donald Trump og karlarnir sem sitja með honum í ríkisstjórn.“

En talar Trump ekki einmitt til þessa hóps?

„Hann, líkt og aðrir popúlistar, hefur á réttu að standa um vanda vinstrisins og að elítan hafi svikið alþýðuna. Tökum sem dæmi Vinstri græn. Það er engin lágstéttarmanneskja á Íslandi sem kýs VG, engin!“ segir hann með þungri áherslu. „Kjósendur þeirra koma úr menntaðri millistétt enda hefur flokkurinn enga tengingu við lágstéttirnar. Það sama á við um stofnanavinstrið úti í heimi. Forystan hefur svikið fólkið sem hún átti að þjóna. Þetta er rétt hjá popúlistunum. En lausn þeirra er engin. Þeir segja: „Forystan sveik ykkur svo ég skal vera leiðtogi ykkar.“ Sósíalistar segja hins vegar: „Forystan sveik ykkur svo þið verðið að rísa upp og endurvekja baráttutæki ykkar.“ Markmið sósíalista er alltaf að virkja hina verst settu því þeir vita að án virkrar þátttöku lágstéttarinnar munu ekki verða neinar breytingar á samfélaginu. Leiðtogar breyta engu og millistéttin breytir engu. Breytingar geta aðeins orðið þegar þau sem líða mest vegna óréttlætis samfélagsins rísa upp.“

„Samfylkingin á ekkert erindi lengur inn í alvöru stéttabaráttu og er á engan hátt í stakk búin til að takast á við nýfrjálshyggjuna.“

Ávarpa sama hóp og Útvarp Saga

Mikil vakning hefur átt sér stað innan verkalýðsfélaganna undanfarið ár eftir kjör Ragnars Þórs Ingólfssonar hjá VR og Sólveigar Önnu Jónsdóttur hjá Eflingu. Hillir nú undir að Gylfa Arnbjörnssyni, sem hefur verið nánast sjálfkjörinn um langa hríð, verði steypt úr formannsstóli ASÍ í haust. Þetta hefur glatt bæði róttæka vinstrimenn á borð við sósíalistana en einnig hægrisinnaða popúlista. Mætti segja að þessir tveir hópar bítist um byltinguna.

„Það er rétt að báðir hópar berjast gegn því ástandi sem verið hefur. En ég veit ekki hvort gagnlegt sé að skilgreina þetta sem andstæðar fylkingar. Ég held að til þess þurfi fólk að ganga út frá flokkadráttum sem í raun tilheyra fallinni heimsmynd. Búsáhaldabyltingin var stærsta alþýðuuppreisn á Íslandi en því miður auðnaðist hvorki verkalýðshreyfingunni né vinstri flokkunum að styðja við kröfur hennar. Þessi fyrirbrigði höfðu fyrir löngu orðið klíkuvæðingu að bráð og gátu ekki skilið og brugðist við nýjum aðstæðum. Það var því fólk með annan bakgrunn sem tók upp baráttu fyrir almenning sem skuldara. Verkalýðshreyfingin varði fjármálakerfið og lífeyrissjóðina og það gerðu líka vinstri flokkarnir í ríkisstjórn.En krafa hinna skuldugu er ekki hægri krafa nema í eyrum þeirra sem eru lokaðir inn í gamalli heimsmynd um almenning fyrst og fremst sem launafólk. Við í Sósíalistaflokknum þurfum ekki að verja gamla afstöðu vinstri flokkanna eða verkalýðshreyfingarinnar og getum því vel tekið undir kröfur um réttlæti til hinna skuldugu. Trúum því meira að segja að það sé ekki hægt að heyja baráttu fyrir hin verst settu í dag án þess að ganga út frá almenningi sem skuldurum, leigjendum og neytendum eins og launafólki. Það má vel vera að fólk sem stendur djúpt inn í gömlu flokkunum og elítustjórnmálunum finnst sem við hljómum eins og eitthvað sem þeim hefur verið kennt að fyrirlíta en það er þá ekki við okkur að sakast.““

Helsta sökudólginn í klíkuvæðingu verkalýðshreyfingarinnar og vanhæfni hennar á að takast á við þarfir umbjóðenda sinna telur Smári vera Samfylkinguna og að minna leyti Vinstri græn. Leiðtogar sem sátu áratugum saman hafi svo til allir komið úr Samfylkingunni, eins og til dæmis Gylfi Arnbjörnsson.

„Það er mikill glæpur hjá þessu fólki að taka baráttutækin, hreyfinguna og flokkana, úr höndum fólksins sem er algjörlega háð því að lýðræðislegur vettvangur virki fyrir það. Að drepa niður alla virkni í verkalýðshreyfingunni til þess að gera hana að einhvers konar klappstýru fyrir umsókn um Evrópubandalagið, upptöku evru og öðrum áhugamálum elítunnar er voðaverk. Á sama tíma tók Samfylkingin arfleifð baráttusögu verkalýðshreyfingarinnar frá síðustu öld og flokkanna sem hún gat af sér og breytti sér í eins konar lífsstílsflokk fyrir hina menntuðu millistétt, flokk sem á í dag aðallega samleið með Viðreisn, Bjartri framtíð og slíkum viðrinisflokkum. Samfylkingin á ekkert erindi lengur inn í alvöru stéttabaráttu og er á engan hátt í stakk búin til að takast á við nýfrjálshyggjuna. Til þess skortir hana fólk innanborðs sem hefur upplifað á eigin skinni ranglæti samfélagsins.“

Fulltrúar Sósíalistaflokksins munu djöflast á kerfinu

Nú er unnið að því að raða á lista Sósíalistaflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar en leiðtoginn verður þar ekki á lista. Hann telur sig vera of mikinn forréttindamann til þess. Kjörnefnd sem skipuð var með slembiúrtaki velur fólk á listann með það að leiðarljósi að hafa sem breiðastan hóp þeirra sem ekki hafa haft rödd hingað til. Meðal helstu stefnumálanna verða hækkun launa hjá Reykjavíkurborg, bygging húsnæðis fyrir þau sem eru í mestri neyð og krafa um að hin verr settu komist að borðinu þar sem ákvarðanir um framtíð þeirra eru teknar. Það kemur flatt upp á Smára þegar spyrillinn ber hina hefðbundnu spurningu um mögulega samstarfsflokka upp.

„Stjórnmálin eru ónýt og við getum því ekki gert neitt eins og hinir eru að gera. Fólk á Íslandi treystir ekki stjórnmálunum eins og þau hafa verið stunduð og allra síst borgarmálunum. Við stefnum því í raun ekki á að taka þátt í þessum stjórnmálum. Lítum á framboðið fremur sem uppreisn gegn stjórnmálunum en umsókn um að fá að vera með.“

Hvað ætlið þið þá að gera ef þið náið fulltrúum inn í borgarstjórn?

„Við stillum fram fólki sem hefur upplifað algert varnarleysi gagnvart Reykjavíkurborg og hefur verið háð velferðarsviði um afkomu sína. Fólki sem leigir í félagsbústöðum og hefur reynslu af störfum barnaverndar, fátækum lífeyrisþegum, innflytjendur sem aldrei heyrist í, leigjendum og öðrum hópum sem upplifa dags daglega óréttlæti samfélagsins. Ef við fáum fólk kjörið í borgarstjórn mun það verða fulltúar fólksins en ekki valdsins. Við getum vonandi rekið eins konar klögunarskrifstofu innan borgarstjórnar fyrir hina verst settu, þröngvað hagsmunum og sjónarmiðum þeirra inn í hvert mál sem kemur til umfjöllunar. Lýðræðishallinn gagnvart hinum verst settu er svo algjör að við gætum sótt okkur fyrirmyndir til borgarfulltrúa svartra í New York, sem ganga út frá því sem vísu að kerfið er fjandsamlegt kjósendum þeirra. Fyrsta verkefnið er að koma þessum sjónarmiðum að. Með því að útiloka hina verr settu frá stjórnmálunum mun niðurstaða elítunnar við borðið alltaf verða röng. Það er því í raun til einskis að ræða nein málefni fyrr en lýðræðishallinn hefur verið lagaður.

 

Kristinn H. Guðnason
Kristinn Haukur Guðnason er blaðamaður og sagnfræðingur sem starfað hefur hjá DV síðan 2017 en áður skrifaði hann fyrir Kjarnann.
Kristinn skrifar almennar fréttir, mannlífsviðtöl, um söguleg málefni og menningu.
Hann er ólæknanlegur nörd sem eyðir laugardagskvöldum í að spila við sjálfan sig og leggja höfuðborgir heimsins á minnið.

netfang: kristinn@dv.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

433
Fyrir 11 klukkutímum

Yfir 30 ár síðan England skoraði á Spáni

Yfir 30 ár síðan England skoraði á Spáni
Pressan
Fyrir 11 klukkutímum

Kjartan: Foreldrar sem ljúga

Kjartan: Foreldrar sem ljúga
Pressan
Fyrir 12 klukkutímum

Lykillinn að hamingjusömu hjónabandi: Sofið nakin!

Lykillinn að hamingjusömu hjónabandi: Sofið nakin!
Pressan
Fyrir 12 klukkutímum

Upplýst um það sem Stephen Hawking óttaðist mest – Hryllileg framtíðarsýn

Upplýst um það sem Stephen Hawking óttaðist mest – Hryllileg framtíðarsýn
Eyjan
Fyrir 13 klukkutímum

Fjölgun borgarfulltrúa kostar hundruð milljóna

Fjölgun borgarfulltrúa kostar hundruð milljóna
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Koscielny hættur með landsliðinu – Lætur Deschamps heyra það

Koscielny hættur með landsliðinu – Lætur Deschamps heyra það
Matur
Fyrir 14 klukkutímum

Tilbrigði við stef: Hvernig væri að prófa túnfiskborgara?

Tilbrigði við stef: Hvernig væri að prófa túnfiskborgara?
Lífsstíll
Fyrir 14 klukkutímum

Hljóðfærahúsið: Kveikir neistann hjá upprennandi tónlistarfólki

Hljóðfærahúsið: Kveikir neistann hjá upprennandi tónlistarfólki