fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

Taldi sig aðeins eiga ár eftir ólifað

York Underwood var fyrir mistök talinn með fjögurra sentimetra æxli í ristlinum – Sagt að búa sig undir það versta – Varð að eignast ákveðna tösku áður en hann færi

Steingerður Sonja Þórisdóttir
Laugardaginn 17. mars 2018 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kanadíski uppistandarinn York Underwood kom upphaflega til Íslands út af auglýsingu frá Icelandair sem hann sá í neðanjarðarlestakerfi í Edmonton. Fyrirsögnin var einfaldlega „Komdu til Íslands, frá og með 8. mars“. Svo hann ákvað einfaldlega að hlýða.

York Underwood var ekki einn af þeim sem gjörsamlega heilluðust af landi og þjóð við fyrstu heimsókn. Örlögin hafa þó hagað því svo að fjórum árum síðar er hann hér enn, kvæntur íslenskri konu og einn af vinsælli grínurum landsins. Árin fjögur hafa þó ekki verið átakalaus en árið 2016 var hann fyrir mistök greindur með meinvörp í ristli og taldi sig eiga ár eftir. York segir okkur frá þessum tveimur vikum af óvissu, barnsbjörginni og töskunni alræmdu sem skipti öllu máli en breytti svo engu.

Hristi bara hausinn og rauk út

„Við vorum að halda upp á þakkargjörðarhátíðina. Ég er ekki bandarískur en hélt upp á hana af því ég missti af kanadísku þakkargjörðarhátíðinni sem er aðeins fyrr, í október. Ég eldaði kalkún og fjöldi vina kom til að fagna með okkur. Daginn eftir leið mér alveg hrikalega illa og ég var með mikla verki í maganum, en ég þurfti að vera með uppistand á fjáröflun fyrir Rauða krossinn á skemmtistaðnum Húrra. Ég var handviss þarna um að útskýringin væri sú að ég borðaði alltof mikið og væri með meltingartruflanir.“

York mundi þá eftir að hafa heyrt að jurtalíkjörinn Fernet Branca gæti hjálpað við meltingarvandmál og fékk sé nokkur skot.

„En í hvert sinn fékk ég stingandi verk. Þetta varð verra og verra og ég var farinn að svitna, að lokum gat ég varla hreyft mig. Á þessum tímapunkti gat ég ekki hunsað þetta lengur og fór upp á spítala.“

Læknunum þar fannst hann vera bólginn svo þeir ákváðu að senda hann í tölvusneiðmyndatöku. Þeir töldu mögulegt að eitthvað hefði fest eða skorið vélindað eða að hann væri með minniháttar magasár.

„Þarna hugsaði ég bara; já ekkert mál, þetta reddast. Við vorum líka búin að ákveða að fara til Rússlands í desember. En ég fór sem sagt í skannann og manneskjan sem sá um það sagði að þetta liti ágætlega út og allt hafi gengið vel. En þegar ég var að fara stoppaði hún mig og bað mig um að bíða í augnablik. „Nei“ svaraði ég, „ég þarf að drífa mig, konan mín er að bíða og ég þarf að vera með uppistand bara eftir smá.“ Þá tók ég eftir því að svipurinn á henni var orðinn alvarlegri og hún sagði: „Nei, þú verður að bíða. Við fundum eitthvað sem lítur úr fyrir að geta verið um fjögurra sentimetra stórt meinvarp í ristlinum.“ Þau drógu mig til hliðar og sögðu að það þyrfti að meðhöndla þetta undir eins. En ég fór í kerfi, hristi hausinn og sagði: „Nei, nei, ég ákveð þetta seinna“, ýtti þeim frá mér og rauk út.“

Áfallið olli því að hann varð utan við sig og kom fyrst til sjálfs sín í leigubíl.

„Fyrsta sem ég hugsaði var einfaldlega guð minn góður, ég er með æxli í ristlinum. Svo bað ég bílstjórann um að stoppa á N1 við Hringbraut og bíða eftir mér. Ég stökk inn og pantaði mér búrritó á Serrano. Mig langaði reyndar meira í 12 tommu Subway en það var svo löng röð. Ég ætlaði ekki að fara að hrinda unglingunum úr röðinni og öskra „Drullið ykkur í burtu, ég er að deyja og það eina sem ég vil er tólf tommu bræðingur!“ Svo ég fékk mér bara búrrító, settist niður og grét.“

Sagt að búa sig undir það versta

Eftir að heim var komið ákvað York að hringja í lækni og vin sinn í Kanada og fá frekari upplýsingar um hverjar horfurnar væru. Hann sagði honum að búa sig undir það versta.

„Hann sagði að ef það væri svona stórt, þá væri þetta líklega komið á stig þrjú eða fjögur. Honum fannst líka stórmerkilegt hvað það var að uppgötvast seint og sagði að ef þetta reyndist rétt og það væri illkynja þá ætti ég líklega ekki nema um það bil ár eftir ólifað. Konan mín hágrét, ég grét og við vissum ekki hvað við áttum við okkur að gera.“

Læknarnir byrjuðu að plana hvernig meðferð væri best en sögðu að hann yrði að bíða í tvær vikur og taka lyf til að hreinsa ristilinn algörlega svo þeir gætu framkvæmt ristilspeglun þar sem tölvusneiðmyndir eru ekki nákvæmar þegar það kemur að holrými eins og ristlinum.

„Ég auðvitað afpantaði Rússlandsferðina og beið þessa fjórtán daga, haldandi að dauðinn væri á næsta leiti. Maður hafði ekkert að gera nema að hugsa. Ég fór yfir „fötulistann“ (e. bucket list) minn og hugsaði hvað mig langaði og hvað ég þyrfti að gera áður en ég myndi deyja. En það var gott að finna að þegar ég horfði svona á allt og hvernig líf mitt var þá var ég frekar sáttur. Líf mitt er mjög gott, ég á yndislega konu sem ég elska en ég fór einhvern veginn að hugsa um hvað mig hefur alltaf langað í handgerða leðurtösku frá ákveðnu fyrirtæki. Furðulegt hvernig hausinn á manni virkar í þessum aðstæðum, kannski er það sjálfsbjargarviðleitni.“

Taskan umrædda er handgerð af manni að nafni David Munson í Texas. Fyrirtæki hans Saddleback Leather er þekkt um allan heim fyrir einstakar leðurtöskur.

„Einkunnarorð fyrirtækisins í auglýsingum er „Þau mun slást um hana eftir að þú deyrð“ og einhvern veginn sat það í mér. Mig langaði í þessa tösku sem fengi ættingja og vini mína til að slást um eignarhaldið eftir að ég væri dáinn. Því allt sem við erum og höfum eru minningar og þegar við deyjum hverfa þær með. Mér fannst eins og þetta væri eitthvað haldbært til að skilja eftir mig.“

York fór beint í það að senda David tölvupóst. David spurði hann hversu hár hann væri og York svarar að hann væri rétt undir tveimur metrum.

„Þá svaraði hann að ég yrði að fá stærstu töskuna, svo ég pantaði hana. Þetta var það eina sem mér datt í hug í fljótu bragði að ég þyrfti að gera. Eina sem mig langaði var að eignast þessa tösku áður en ég dæi, og þar með var það komið.“

Taskan myndi vaka yfir eiginkonunni

Upphaflega hafði hann séð auglýsinguna og langað í töskuna þegar hann var 23 ára gamall en fannst hún þá alltof dýr og óskynsamlegt að kaupa hana.

„En þá einhvern veginn skipti það ekki máli. Ég sagði heldur engum frá því að ég hefði pantað hana, það hefði verið of furðulegt að segja við eiginkonu mína sem var hágrátandi yfir þessu öllu: „Heyrðu elskan, ég var að kaupa þessa æðislega flottu tösku!““

Taskan kom svo daginn áður en hann átti að mæta aftur hjá lækni. Það var furðulegt að útskýra af hverju Fedex-sendillinn væri mættur með þessa risastóru leðurtösku til hans.

„Það er samt fyndið hvað hún er svakalega stór, þannig hún virkar smá furðuleg, ég nota hana samt heilmikið. Ég gerði mér ekki grein fyrir stærðinni, hann bara sagði að ég þyrfti stærstu tegundina og ég sættist á það. Það væri hægt að koma einum miðlungsstórum hundi fyrir í henni. Ef við erum að tala um smáhund, þá jafnvel tíu stykki. Fimmtán ef þeim er troðið. Ég hef í raun ekkert til að geyma í henni, því á þeim átta árum sem eru liðin síðan ég var 23 ára hefur allt minnkað svo svakalega. Þegar ég er búin að láta Macbook air-tölvuna og símann minn í hana, þá er samt nóg pláss. Þótt ég láti í hana allt sem ég á, næ ég ekki að fylla hana.“

Skiljanlega fór York að velta því fyrir sér hvort taskan hefði kannski einhverja dýpri merkingu.

„Það er stundum sagt að það muni veita manni meiri hamingju að eyða peningum í upplifun og að gera eitthvað eins og að ferðast, en ekki í efnislega hluti. Fólk segir: „Ekki kaupa þér dýran bíl, farðu frekar til Indlands og finndu þig.“ En málið með upplifun og lífsreynslu, ég skil það ekki eftir mig, enginn getur upplifað eða fengið mína lífsreynslu eftir að ég er dáinn. En aftur á móti með töskuna, ég skil hana eftir mig og ekki bara það, heldur munu mínir nánustu slást um hana,“ segir hann glettinn og bætir svo við:

„Ef Björg, konan mín, myndi komast loks yfir fráfall mitt og giftast öðrum manni þá mun taskan alltaf minna á mig og vaka yfir henni. Hún mun aldrei losna við töskuna, hún er ekki að fara henda 120.000 króna tösku frá látnum eiginmanni sínum.“

Bjargaði lífi tveggja mánaða stúlku

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem York kemst í íslenska fjölmiðla en hann var einmitt tilnefndur sem maður ársins á RÚV fyrir frækilega björgun tveggja mánaða gamallar stúlku við Hringbraut. Móðir stúlkunnar kallaði eftir hjálp og hóf York um leið hjartahnoð og náði að lokum að blása lífi í hana.

„Kaldhæðni örlaganna er að ég var einmitt með töskuna á mér og hún lítur örlítið út eins og læknistaska, svona eins og virðulegur læknir úr gamalli bíómynd myndi bera. Kannski var það þess vegna sem konan kallaði til mín en þetta fór allt á besta veg og það er það sem skiptir mestu máli. “

Daginn eftir að York fékk töskuna var hann búinn að taka lyfin í tvær vikur og það var komið að ristilspegluninni sem myndi sýna nákvæmlega hversu alvarleg staðan væri.

„Þeir byrjuðu að undirbúa mig með því að stinga inn fingri eða tveimur sem er ekki beint notalegt. Þeir sögðu á einhverjum tímapunkti að þeir væru komnir með myndavélina einn metra inn í mig sem mér fannst stórfurðulegt að heyra. Síðan sögðust þeir vera komnir um það bil á það svæði þar sem meinvarpið átti að vera.“

„Augnablik …“ sagði læknirinn, „… augnablik … þetta hlýtur að fara að koma,“ bætti hann undrandi við.

Svo bað læknirinn um að fá að sjá upprunalegu myndina úr tölvusneiðmyndatökunni. Um leið og hann fékk hana leit hann upp og sagði: „Þetta er ekki æxli, þetta eru mistök, skuggaefnið hefur bara safnast upp á einum stað.“ York segir að læknirinn sem hafði upphaflega greint myndina hafi hlaupið út úr stofunni og kallað til Bjargar að þetta hefðu bara verið mistök og það væri í lagi með hann.

„Það sem stendur mér sérstaklega í minni er að þarna byrjuðum við að fagna og gráta af gleði og mér leið eins og þessu væri loksins lokið, þar til læknirinn sagði: „Jæja, núna þurfum við að taka myndavélina úr þér.“ Það var eitthvað svo ótrúlega ljúfsárt. Þessu var lokið, það var í lagi með mig og ég var ekki að fara að deyja, en það átti eftir að draga myndavél hægt heilan metra út um endaþarminn á mér. Það er tilfinning sem er erfitt að útskýra.“

Kom sjálfum sér á óvart

Útskýringin sem hann fékk á upphaflegu mistökunum er að efnið, svokallað skuggaefni, sem þeir sprauta í sjúklinginn til að sjá betur hvar vandamálið er geti sest í sprungur og safnast þar saman.

„Sérfræðingurinn sá um leið að um mistök hefði verið að ræða en fyrri manneskjan þekkti þetta vandamál greinilega ekki nógu vel. Margir hafa spurt mig hvort þetta hafi ekki bara verið kúkur, en ég er nokkuð viss um að læknavísindin séu komin lengra en svo að erfitt sé að sjá muninn á kúk og æxli. Allavega vona ég það. Ég gæti ímyndað mér að hver einasti dagur á spítalanum væri þá nokkuð taugatrekkjandi „Ó, guð þú ert með æxli, nei, bíddu nú við … þetta er bara kúkur“.“

Þegar þetta var loks allt yfirstaðið fékk York næði til að hugsa um allt sem hafði gengið á.

„Ég hef alltaf kviðið mikið fyrir dauðanum eins og kannski margir, þá hvort sem það er mínum eigin eða vina og fjölskyldu. En miðað við þá hræðslu kom mér á óvart hvað ég var eiginlega rólegur yfir þessu öllu saman. Maður varð eitthvað hálf vanmáttugur og þurfti bara að sættast við allt og taka hlutunum eins og þeir kæmu. Ég fór beint á barinn eftir þetta, það má segja að ég hafi ekki lært neitt af þessu þannig, og ég hef allavega engan dýpri skilning á dauðleikanum og tilverunnni. En ég á þó allavega góða konu og flotta tösku.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Keppandi Írlands í Eurovision í ár er kvár

Keppandi Írlands í Eurovision í ár er kvár
Fókus
Í gær

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall
Fókus
Fyrir 2 dögum

J. Lo loksins laus við slottið – 7 ár í sölu og verðmiðinn lækkaður um milljónir

J. Lo loksins laus við slottið – 7 ár í sölu og verðmiðinn lækkaður um milljónir
Fókus
Fyrir 2 dögum

Alda vann til verðlauna annað árið í röð

Alda vann til verðlauna annað árið í röð
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sviplegt fráfall samfélagsmiðlastjörnu skekur netheima – „Ég skil þetta ekki, ég var með henni á föstudaginn“

Sviplegt fráfall samfélagsmiðlastjörnu skekur netheima – „Ég skil þetta ekki, ég var með henni á föstudaginn“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Einkaþjálfari Taylor Swift varpar ljósi á það sem hún gerir til að halda sér í formi

Einkaþjálfari Taylor Swift varpar ljósi á það sem hún gerir til að halda sér í formi
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kryddpíurnar með endurkomu í rosalegu fimmtugsafmæli Victoriu Beckham

Kryddpíurnar með endurkomu í rosalegu fimmtugsafmæli Victoriu Beckham
Fókus
Fyrir 4 dögum

Segir móður sína stórhættulega í umferðinni – „Hvernig get ég fengið mömmu til að hætta að keyra?“

Segir móður sína stórhættulega í umferðinni – „Hvernig get ég fengið mömmu til að hætta að keyra?“