Fókus

Þessir Íslendingar eru að gera það gott í Hollywood

Auður Ösp
Laugardaginn 10. febrúar 2018 20:00

Þúsundir leikara streyma til Hollywood á degi hverjum í von um frægð og frama en fæstir komast þó í gegnum nálaraugað. Allt frá því á seinustu öld hafa þónokkrir íslenskir leikarar freistað gæfunnar vestanhafs með misjöfnum árangri. Þó svo að sumum hafi tekist að landa fleiri en einu hlutverki er vart hægt að segja að einhverjum hafi tekist að „meika það“ eins og sagt er og byggja upp alvöru stjörnuferil. Að minnsta kosti ekki hingað til. DV tók saman nöfn nokkurra íslenskra leikara og leikkvenna sem hafa verið að gera það gott í skemmtanabransanum vestanhafs undanfarin misseri.

Hera Hilmarsdóttir

Óhætt er að segja að frægðarsól Heru Hilmarsdóttur hafi risið ansi hratt undanfarin misseri. Árið 2012 hreppti hún lítið hlutverk í bresku stórmyndinni Anna Karenina, þar sem Keira Knightley og Jude Law fóru með aðalhlutverkin, og eftir það fór boltinn að rúlla.

Hera Hilmarsdóttir.
Hera Hilmarsdóttir.

Mynd: Marsý Hild

Hún fór með stórt hlutverk í ævintýraþáttaseríunni Da Vinci’s Demons og þá lék hún á móti Josh Hartnett og Ben Kingsley í myndinni The Ottoman Lieutenant. Því næst tók við hlutverk þjónustustúlkunnar Tönju í spennutryllinum An Ordinary Man þar sem Hera lék í annað sinn á móti Ben Kingsley. Þá var greint frá því í fyrra að Hera myndi fara með eitt af aðalhlutverkunum í Mortal Engines, nýjustu mynd Peters Jackson, sem gerði þríleikinn um Hringadróttinssögu og Hobbitann.

Hér má sjá Heru í hlutverki sínu í Mortal Engines sem frumsýnd verður síðar á árinu.
Vígaleg Hér má sjá Heru í hlutverki sínu í Mortal Engines sem frumsýnd verður síðar á árinu.

Jóhannes Haukur Jóhannesson

Jóhannes Haukur hefur fyrir löngu skapað sér sess sem einn af vinsælustu karlleikurum íslensku þjóðarinnar og þá hefur hann einnig verið að gera það gott í Bandaríkjunum sem kvikmynda- og sjónvarpsleikari. Stóra tækifærið kom árið 2015 þegar hann var ráðinn í hlutverk Tómasar, sem var einn af lærisveinum Jesú í þáttunum A.D. The Bible Continues. Ári síðar landaði hann stóru hlutverki í annarri þáttaröð, The Last Kingdom, sem er framleidd af BBC og Netflix.

Jóhannes Haukur Jóhannesson.
Jóhannes Haukur Jóhannesson.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Síðar á þessu ári má sjá Jóhannesi Hauki bregða fyrir í hlutverki hollenska skipstjórans J. Rouverol í kvikmyndinni Where’d You Go, Bernadette sem meðal annars skartar Cate Blanchett, Kristin Wiig, Billy Crudup og Laurence Fishburne í aðalhlutverkum. Þá fer hann með eitt af aðalhlutverkunum í spennutryllinum Alpha sem væntanlegur er í kvikmyndahús í mars næstkomandi, en leikstjóri myndarinnar er Albert Hughes sem meðal annars leikstýrði The Book of Eli með Denzel Washington og From Hell með þeim Johnny Depp og Heather Graham. Síðar á árinu verður síðan frumsýnd kvikmyndin The Sisters Brothers en Jóhannes Haukur er þar í góðum félagsskap stórstjarna á borð við Jake Gyllenhaal, Joaquin Phoenix, John C. Reilly og Riz Ahmed.

Hér má sjá Jóhannes Hauk í hlutverki sínu í spennutryllinum Alpha.
Hér má sjá Jóhannes Hauk í hlutverki sínu í spennutryllinum Alpha.

Ólafur Darri Ólafsson

Fáir íslenskir leikarar hafa notið álíka velgengni í Hollywood og Ólafur Darri Ólafsson og er nú svo komið að hann starfar mestmegnis í Bandaríkjunum. Hann fór með stórt hlutverk í fyrstu og annarri seríu bandarísku grínþáttanna Lady Dynamite og þar á undan fór hann með hlutverk í þáttaröðinni Emerald City á vegum sjónvarpsstöðvarinnar NBC. Meðal annarra verkefna má nefna sjónvarpsþáttaraðirnar The Missing og Banshee að ógleymdum stórmyndunum Zoolander 2, The Secret Life of Walter Mitty og Walk Among the Tombstones en þess ber að geta að gagnrýnandi The Hollywood Reporter fór fögrum orðum um frammistöðu Ólafs Darra í myndinni.

Ólafur Darri Ólafsson.
Ólafur Darri Ólafsson.

Mynd: DV Mynd/Eyþór Árnason

Síðar á árinu verða frumsýndar fjórar Hollywood-kvikmyndir þar sem Ólafur Darri fer með hlutverk. Um er að ræða bandarísk-skosku spennumyndina Keepers, spennumyndina The Meg og ævintýramyndina Fantastic Beasts: The Crimes of Grindelwald sem byggir á bók rithöfundarins J.K. Rowling og er framleidd af Warner Bros. Þá má ekki gleyma spennu-/gamanmyndinni The Spy Who Dumbed Me þar sem stórstjörnurnar Mila Kunis og Gillian Anderson fara með aðalhlutverkin.

Ólafur Darri sló í gegn sem drykkfelldur þyrluflugmaður í kvikmyndinni The Secret Life of Walter Mitty.
Ólafur Darri sló í gegn sem drykkfelldur þyrluflugmaður í kvikmyndinni The Secret Life of Walter Mitty.

Darri Ingólfsson

Darri lærði leiklist í Bretlandi en hefur undanfarið ár búið og starfað í Englaborginni. Árið 2012 fór hann með aukahlutverk í þáttunum Last Resort, stórri framleiðslu á vegum ABC-sjónvarpsstöðvarinnar en þáttaröðin varð þó ekki langlíf og var framleiðslu hætt eftir aðeins 13 þætti. Nafn Darra rataði síðan í fréttir hérlendis árið 2013 þegar ljóst var að hann myndi fara með hlutverk geðtruflaða morðingjans Olivers Saxon í áttundu þáttaröðinni af Dexter. Hann hefur síðan þá komið fram í aukahlutverki í nokkrum sjónvarpsþáttaröðum vestra á borð við Haven, NCIS: Los Angeles, Criminal Minds auk þess sem hann er í stærri hlutverkum í þáttaröðunum Sequestered og The Originals.

Darri Ingólfsson.
Darri Ingólfsson.

Unnur Eggertsdóttir

Unnur Eggertsdóttir útskrifaðist úr leiklistarnámi í New York árið 2016 og elti í kjölfarið leikkonudrauminn til Hollywood. Hún er nú á föstum samningi hjá umboðsskrifstofu ytra og sækir prufur af kappi. Stærsta hlutverið til þessa er í annarri þáttaröðinni af Murder Among Friends en þættirnir eru sýndir á sjónvarpsstöðinni Investigation Discovery og hafa notið mikilla vinsælda. Þá fer Unnur einnig með lítið hlutverk í kvikmyndinni The Mystery of Casa Matusita II: The Five Guests sem meðal annars skartar Malcolm McDowell í aðalhlutverki.

Unnur Eggertsdóttir.
Unnur Eggertsdóttir.

Mynd: DV ehf / Þormar Vignir Gunnarsson

Einar Gunnar Einarsson

Einar Gunnar, sem notast við listamannsnafnið Einar Gunn, hefur verið búsettur í Bandaríkjunum undanfarna þrjá áratugi og starfaði lengi vel í auglýsingabransanum áður en hann fór að starfa sem aukaleikari. Á síðustu tíu árum hefur hann landað fjölmörgum litlum hlutverkum í bandarískum sjónvarpsþáttum á borð við The Mysteries of Laura og The Blacklist auk þess sem hann fór með hlutverk prests í Michael J. Fox Show. Þá hefur hann einnig stigið á svið á Broadway í leikritinu A Man for All Seasons og farið með hlutverk í þættinum The Men Who Built America sem sýndur er á History Channel.

DV ræddi við Einar á síðasta ári en þá hafði hann landað litlu hlutverki í hinum geysivinsælu sjónvarpsþáttum Law and Order: Special Victims Unit.

Einar Gunnar Einarsson.
Einar Gunnar Einarsson.

„Það eru margir um hituna fyrir hvert hlutverk. Það eru yfirleitt um 500–2.000 umsóknir sem berast varðandi hvert hlutverk og af þeim komast yfirleitt 6–12 í prufur. Síðan komast tveir á lokastigið og einn hreppir hnossið. Líkurnar á að hreppa hlutverk eru því ekki miklar,“ sagði Einar aðspurður um samkeppnina í Hollywood. Næsta verkefni Einars er þó á íslenskri grundu en hann fer með hlutverk í væntanlegri kvikmynd leikstjórans Baldvin Z, Lof mér að falla.

Tómas Lemarquis

Tómas Lemarquis er einna þekktastur hérlendis fyrir hlutverk sitt sem Nói albínói í samnefndri kvikmynd. Hann hefur undanfarin ár notið mikillar velgengi sem leikari í Evrópu og jafnframt fengið nokkur tækifæri í Hollywood. Árið 2013 landaði hann stóru hlutverki í spennumyndinni Three Days to Kill með bandaríska stórleikaranum Kevin Costner. Þá fór hann með hlutverk Calibans í myndinni X-Men: Apocalypse og í fyrra lék hann í Hollywood-myndinni Blade Runner.

Tómas Lemarquis.
Tómas Lemarquis.

Í samtali við Morgunblaðið í fyrra sagði Tómas frá því hvernig hann fékk hlutverkið með krókaleiðum. „Þetta var góð lexía varðandi það að gefast aldrei upp og missa aldrei sjónar á draumi mínum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af