Fókus

„Mamma myndi halda að ég hefði gengið niður Bankastrætið berrössuð“

Eva Ruza sýnir á sér hina hliðina

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 10. febrúar 2018 11:00

Gleðigjafinn, veislustjórinn, blómaskreytirinn og snapparinn Eva Ruza Miljevic hefur alltaf nóg fyrir stafni. Hún er líka tvíburamamma, eiginkona og systir. Eva sýnir lesendum DV á sér hina hliðina og svarar nokkrum undarlegum spurningum.

Hvað viltu að standi skrifað á legsteininn þinn?
Hakuna Matata. Vil líka að þessu lagi verið blastað í jarðarförinni minni og allir dansi út.

Ef þú mættir velja eitt lag sem yrði alltaf spilað um leið og þú gengir inn í herbergi allt þitt líf, hvaða lag myndirðu velja?
Superstar með Jamelia. Og helst bara viðlagið þar sem hún syngur: „You must be some kind of superstar.“ Rándýrt egóbúst, erum við að tala um svefnherbergið eða bara öll herbergi sem ég mun ganga inn í í lífinu? „Ohh well.“ Ég held mig við þetta.

Yfir hverju getur þú alltaf hlegið?
Öllum lélegu bröndurunum hans pabba. Hann á ódauðlegt safn af fimmaurabröndurum sem eru í raun alveg glataðir, en honum sjálfum finnst þeir svo fyndnir að maður hrífst með honum.

Borðarðu mat sem er kominn fram yfir síðasta söludag?
Ekki séns. Ég er alveg agaleg með síðasta söludag. Mamma er alltaf að skamma mig, en ég er svo mikill gikkur á mat að ég ímynda mér græna myglu í öllu sem var útrunnið í gær. Og já, ég veit, ég verð að taka mig á í þessum málum.

Hvað er löglegt í dag en verður það líklega ekki eftir 25 ár?
Ég vona svo innilega að það verði reykingar. Mesti óþarfi í heimi eru sígarettur (hef aldrei reykt og þeir sem reykja eru pottþétt að skamma mig í huganum núna). Er samt ekkert að hugsa um að fangelsa fólk sem reykir, en ég vona að eftir 25 ár verði fólk búið að átta sig á að reykingar drepa … í alvörunni.

Hvert er þitt stærsta líkamlega afrek í lífinu?
Að ganga með tvö börn, í einu. Var svo heppin að það var einhver æðri sem ákvað að ég yrði tvíburamamma. Ég mun nota þetta óspart á eiginmanninn þangað til þau verða 18 ára. Að ég hafi í raun framkvæmt stórafrek með því að ganga með þau bæði í einu. Ég á það til að grípa í þann frasa þegar mig vantar vatnsglas og nenni ekki að standa upp. Svínvirkar alltaf. Ég á góð 11 og hálft ár eftir af þessum frasa.

Ef þú myndir borða sjálfa þig, hvort myndirðu hverfa eða tvöfaldast?
„Double trouble.“ Það er svo gott í mér pundið að ég myndi tvöfaldast .

Ef þú þyrftir að eyða 100 þúsund krónum á klukkutíma, í hvað verslun færirðu?
Ég myndi storma inn í fallegustu skóbúð Íslands, Bianco, til hennar Elísabetar vinkonu minnar, og kaupa mér slatta af geggjuðum skópörum sem mig vantar alls ekki en vantar samt. Konur með skóæði skilja hvað ég meina.

Hvað var í tísku þegar þú varst yngri en er það ekki lengur?
Buffalo-skór. Blessuð sé minning þeirra. Ég hef reyndar séð einhvers konar útgáfu af þessum skóm í dag, sem eru töluvert skárri, en ég bið í raun til Guðs að Buffalo-skórnir, „the one and only“ muni ekki koma í tísku, því ég á það til að vera „fashion victim“.

Hvað verður orðið hallærislegt eftir fimm ár?
Smellubuxurnar sem mér sýnist Adidas vera að innleiða aftur. Kendall Jenner póstaði myndskeiði af sér á Instagram í þeim og ég fékk ákveðinn hroll niður bakið. Hélt að þær væru að hvíla í friði með Buffalo-skónum. En ég held að þær munu ekki halda velli. Ef þið sjáið mig í smellubuxum og Buffalo-skóm í sumar þá kannski flettiði þessu viðtali upp og minnið mig á þetta svar.

Hvaða teiknimyndapersónu myndirðu vilja eiga sem vin?
Svamp Sveinsson. Eins óþolandi og röddin hans er, þá virkar hann á mig sem flippað skemmtileg týpa og ég er nokkuð viss um að hann mundi kynna mig fyrir Pétri og við þrjú yrðum „best friends“ að eilífu.

Hvað myndirðu segja ef Guð hnerraði?
,,Eva blessi þig.“

Hvernig myndirðu lýsa litnum gulur fyrir blindum manni?
,,Ímyndaðu þér hlýjustu tilfinningu sem þú getur fundið. Þannig er gulur. Hlýr og góður.“

Ef þú þyrftir að dansa til að bjarga lífinu, undir hvaða lagi myndirðu vilja dansa?
„Bye bye bye“ með Justin Timberlake og strákunum í NSYNC.

Heilsarðu frægum Íslendingum úti á götu, þótt þú þekkir þá ekki persónulega?
Ég hika ekki við að nikka fast til frægra sem ég þekki alls ekki og ég geri það alveg mjög óvart. Einu sinni vinkaði ég til dæmis Sindra á Stöð 2 ákaft í rúllustiganum í Smáralind. Áttaði mig á að ég þekkti hann ekki neitt þegar hann hikaði aðeins þegar hann sá mig og hélt síðan áfram för sinni. Ég viðurkenni að ég bölvaði mér smávegis í hljóði það sem eftir var af rúllustigaferðinni.

Hver er versta vinnan sem þú hefur unnið?
Kannski ekki sú versta, en unglingavinnan skoraði ekki mjög hátt hjá mér. Ég gerði allt sem ég gat til að forðast verkin og átti minn stað undir runna í vesturbænum í Kópavogi sem var mitt frísvæði. Eftir það sumar ákvað ég að ég myndi aldrei vinna leiðinlega vinnu aftur í lífinu og hef náð að standa við það.

Ef þú yrðir handtekin án skýringa, hvað myndu vinir þínir og fjölskylda halda að þú hefðir gert af þér?
Að ég hefði „stalkað“ einhvern frægan, eiginmaðurinn svaraði þessar mjög fljótt fyrir mig. Mamma sagðist mundi halda að ég hefði gengið niður Bankastrætið berrössuð. Ég sé að ég þarf að endurskoða sjálfa mig eftir þessi svör frá þeim.

Ef þú værir ritstjóri dagblaðs og sama daginn myndi Lagarfljótsormurinn finnast, Frikki Dór vinna Eurovision fyrir Íslands hönd og Donald Trump yrði myrtur. Hver yrði stærsta fyrirsögnin í blaðinu þínu daginn eftir?
Ef Eurovision-draumurinn myndi rætast þá fengi dagblaðið allar blaðsíðurnar undir sigurinn og ég mundi boða mikinn fögnuð á Arnarhóli við komu Frikka til landsins. Ég væri náttúrulega mikil valdamanneskja og ræki vinsælasta dagblað landsins. Skítt með Trump og orminn. Frikki Dór ætti blaðið í um viku.

Hverjum líkist þú mest?
Ég líkist Tinnu systur minni mest, og margir halda að við séum eineggja tvíburar. En svo hef ég fengið að heyra um það bil 1.000 sinnum að ég líkist leikkonunni Kim Raven. Fæ það um það bil einu sinni í viku, fjöldann allan af skilaboðum þess efnis. Yfirleitt á mðvikudögum þegar Grey’s Anatomy er á skjánum.

Hvaða lag skammastu þín mest fyrir að hafa haldið upp á?
Barbiegirl með Aqua. Þetta lag var á topplistanum mínum í um eitt ár þegar það kom út á hátindi gelgjunnar. Ég viðurkenni alveg að ég hækka ef það kemur í útvarpinu en Jesús minn, þetta lag er svo slæmt að mig verkjar á sama tíma og ég góla hátt með hverju orði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af