Fókus

Kúabóndi ósáttur og hjólar í vegan: „Talað um bændur eins og þeir séu einhverjir dýraníðingar“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Laugardaginn 10. febrúar 2018 22:00

Þórhildur Sylvía Magnúsdóttir er kúabóndi ásamt eiginmanni sínum. Þau eiga um tvö hundruð nautgripi og sjötíu mjólkandi kýr. Þórhildi sárnaði mjög viðtal DV við Vigdísi Howser Harðardóttur veganfemínista um mjólkuriðnaðinn. Vigdís sagði nauðgunarmenningu ríkja innan mjólkuriðnaðarins og að beljum sé nauðgað. Viðtalið vakti mikla athygli og skapaðist mikil umræða í kjölfarið. Þórhildur segir umfjöllunina ósanngjarna og vill koma fram með sína skoðun á málinu.

„Fyrirsögnin beljum er nauðgað finnst mér mjög ósmekkleg og það er talað um bændur eins og þeir séu einhverjir dýraníðingar,“ segir Þórhildur og heldur áfram:

„Veganfólk sem hefur verið að reyna að tjá sig skilur oftast ekki hvernig dýraumhirða fer fram. Kýr eru sæddar vegna ræktunarmarkmiða og ræktunarstarfsemi, það minnkar líkur á skyldleikaræktun í hverri hjörð.“

Þórhildur segir veganfólk oft og tíðum sýna vanþekkingu. „Ég bjó til Snapchat-aðganginn @eldribondi og oftar en einu sinni hafa veganeinstaklingar skrifað við snöppin. Einn kvenkyns bóndi, sem var að sjá um snappið, tók myndband af nýbornum kálfi og kúin var að kara kálfinn, sem sagt sleikja hann. Hún var spurð hvers konar viðbjóð hún væri að sýna og ég tók þá við snappinu og útskýrði af hverju kýr gera þetta. Kýr gera þetta við kálfana sína til að örva blóðrásina og auka lífslíkur kálfsins,“ segir Þórhildur.

Segir engan stað vera betri en fjósið þegar henni líður illa.
Þórhildur Sylvía Magnúsdóttir Segir engan stað vera betri en fjósið þegar henni líður illa.

„Ég knúsa og klappa kúnum og spjalla mikið við þær. Þegar mér líður illa er enginn staður betri en fjósið. Kýrnar eru svo yndislegar. Það eru forréttindi að fá að umgangast dýrin og hugsa um þau og sjá kálfana verða fullvaxna kvígu eða naut.“

Að lokum segist Þórhildur ekkert hafa á móti veganfólki. „En stundum verður maður að passa hvað maður segir fyrir athyglina. Ég er ekki að tala um hversu mikið veganfólk er að nauðga grænmeti, ég meina veganfólk þvær og stingur grænmetinu upp í sig. Það má líta á þessa hluti frá mörgum áttum. Það skiptir ekki máli hvort maður sé vegan eða kjötæta, svartur, gulur eða hvítur, við eigum að virða hvert annað á allan hátt og virða störf hvert annars, en ekki dæma svona harkalega.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af