Fókus

Kara Kristel sýnir á sér mýkri hlið: „Ég hef lokað á tilfinningar mínar í mörg ár“

Ritstjórn DV
Laugardaginn 10. febrúar 2018 14:00

Kara Kristel er 22 ára og hefur vakið athygli fyrir opinská skrif um kynlíf og samskipti kynjanna. Kara er nýr penni á DV og sínum fyrsta pistli sínir hún á sér mýkri hlið en hún hefur áður gert.

Síðustu mánuði hef ég gefið út á við þá mynd af mér að ég sé frekar tilfinningalaus stelpa. Reyndar ekki bara seinustu mánuði heldur seinustu ár frekar. Að vera ungur á Íslandi í dag er ótrúlega erfitt, við erum öll svo erfið. Ég get aðeins tjáð mig út frá minni reynslu, en ég veit að reynsla flestra vina minna er svipuð.

Hversu lengi er hægt að sofa hjá manneskju án tilfinninga?

Hversu lengi er hægt að sofa hjá manneskju án tilfinninga? Hvar eru mörkin? Þegar hláturinn, gleðin og koddahjalið eru farin og seinasta skiptið okkar var án þess að hvorugt hefði hugmynd um að það yrði það seinasta. Hvernig kveður kona einhvern sem hún átti ekki, án þess að segja bless?

Ég er sek. Ég hef lokað á tilfinningar mínar í mörg ár. Nokkrum sinnum brennt mig á því eftir á. Ég hef áttað mig á því tvisvar, of seint í bæði skiptin, að ég væri með tilfinningar til viðkomandi.

Hvað gerir kona? Í fyrra skiptið læknaði tíminn sárin, ég er ekki búin að komast til botns í hvað gerðist í seinna skiptið. Ég sakna hans. Ég sakna hláturskasta, ég sakna samræðna, ég sakna kynlífsins.

Þegar tvær týndar sálir mætast og allt er leikur verður enginn sigurvegari. Þú getur ekki unnið leikinn, sama hvað þú reynir. Það getur það enginn.

Það er erfitt í samfélagi þar sem allir setja upp grímu, stelpur og strákar. Fáir þora að sýna tilfinningar og ef þú þorir ertu asnalegur.

Fáir þora að sýna tilfinningar og ef þú þorir ertu asnalegur

Ég veit að tíminn lagar allt, góðar vinkonur, góðir vinir og góð tónlist hjálpar til við að dreifa huganum. En þegar allt róast, kona er komin heim og þögnin tekur yfir byrjar hugurinn að reika. Hvað ef ég hefði sagt eitthvað? Er hann með sömu tilfinningar og ég?

Ef ég er heppin, eftir ótal kvöld sem innihalda vinkonur, hvítvín, gloss og djammsleika, gleymi ég honum.

Þegar ég hitti þig fyrst hefði mér aldrei dottið í hug hvað myndi gerast, hversu mikið mér myndi þykja vænt um þig.

Þegar tíminn hefur kennt mér að þegar ég næ að gleyma þér tekur sá næsti við, og sagan mun endurtaka sig alveg þangað til ég hef lært að opna mig. Þangað til mun ég sakna, og það er skrítið að sakna einhvers sem ég átti ekki.

Hvað er svona erfitt við þetta?

XXX

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af