Fókus

1983 – Snjóflóðin á Patreksfirði: „Leit upp og sá háan, svartan vegg koma niður“

Kristinn H. Guðnason skrifar
Fimmtudaginn 11. janúar 2018 19:12

Laugardaginn 22. janúar árið 1983 féllu tvö snjóflóð á bæinn Patreksfjörð á Vestfjörðum með aðeins tveggja klukkustunda bili. Snjór var mikill og þegar snögghlánaði safnaðist krap fyrir í laut í fjallinu Brellum sem orsakaði flóð snjós og aurs. Helgi Páll Pálmason hefur búið í bænum alla ævi og var 22 ára gamall þegar flóðið skall á húsinu hans.

Svartur veggur niður hlíðina

Helgi starfaði sem björgunarsveitarmaður á þessum tíma og hafði verið við störf frá því klukkan sex um morguninn, við að moka frá húsum og ofan af þökum eftir mikla rigningu næturinnar. Eiginkona hans, Sólveig Ásta Ísafoldardóttir, vann á spítalanum og var sofandi þegar hann kom heim um þrjú leytið. Þá hafði flætt inn í heimili þeirra sem þau höfðu nýlega eignast. Sólveig jós vatni úr eldhúsinu en Helgi ræsti fyrir utan.

Í samtali við DV segir hann: „Ég stóð við hliðina á húsinu og leit á klukkuna sem var korter í fjögur. Síðan leit ég upp í hlíðina og sá mjög háan, svartan vegg koma niður. Ég vissi nákvæmlega ekkert hvað þetta var en ákvað að hlaupa inn.“ Helgi segir að þrátt fyrir hlánunina hafi bæjarbúa aldrei grunað að þetta gæti gerst.

„Konan mín var inni í eldhúsi að ausa vatni upp úr gólfinu. Ég hljóp inn og tók hana í fangið og svo lenti flóðið á húsinu eins og einhver sprenging. Augnablik og svo búið. Húsið fylltist allt nema eldhúsið þar sem við stóðum. Þar var snjór upp undir hné.“ Eftir þetta komust þau út úr húsinu sem hafði sloppið nokkuð vel en hreyfst til á grunninum.

Fann stúlku í sjónum

Þegar út var komið fór Sólveig yfir að næsta húsi til manns sem hafði sloppið við flóðið. Hún fór seinna upp á spítala að vinna. „Ég heyrði kallað á hjálp frá öðru húsi og sá mann þar hálfgrafinn í snjó og fastan. Ég hjálpaði honum upp úr og heyrði þá kallað á hjálp niðri í fjöru. Þangað hljóp ég og sá allt í braki og drasli og mannshendi úti í sjó. Ég óð upp undir mitti út í sjó þar sem ég fann stúlku, dró hana upp og fór með hana í land og upp á sjúkrahús. Hún var örvilnuð og sofandi þegar við komum þangað. Síðan hélt ég áfram björgunarsveitarstörfum.“

Tveimur tímum seinna féll annað snjóflóð á Patreksfjörð en á öðrum stað. Um sjö leytið var Helgi kallaður upp á lögreglustöð. Þar var honum gerð grein fyrir því að hann hefði verið í mikilli hættu. „Fyrst þá áttaði ég mig á því að við vorum þarna við dauðans dyr. Ég hvíldi mig í tvo tíma á sjúkrahúsinu og hélt svo áfram að vinna við björgunarstörfin.“

Sluppu á ótrúlegan hátt og hjálpuðu öðrum.
Sólveig og Helgi Sluppu á ótrúlegan hátt og hjálpuðu öðrum.

Báru harm sinn í hljóði

Fjórir létust í flóðunum á Patreksfirði. Þrír í fyrra flóðinu, sex ára stúlka og fullorðin feðgin, sem voru allir innandyra á heimilum sínum. Í seinna flóðinu lést kona á sextugsaldri sem var á göngu ásamt annarri konu sem bjargaðist fyrir mikla lukku. Hún skall í gegnum hurð sláturhússins og slapp lítið meidd. Fjórir slösuðust í flóðunum og á fjórða tug manna urðu heimilislausir þar sem tuttugu hús skemmdust.

Helgi segir að engin hjálp hafi verið í boði fyrir íbúana, hvorki frá sálfræðingum né öðrum. Fólkið tók þetta á hnefanum og bar harm sinn í hljóði. „Til dagsins í dag hefur ekki verið mikið talað um þetta. Við Sólveig höfum alltaf farið og kveikt á minningarkerti á þeim degi sem flóðið varð.“ Einungis einu sinni hafi verið haldin minningarathöfn í bænum og komið upp merki.

Misstu allt

Sumir kenndu bæjaryfirvöldum um flóðið því að lautin sem krapið safnaðist saman í var manngerð. Málið endaði fyrir dómstólum og höfðu kærendur sigur í héraði en Hæstiréttur sneri dómnum við árið 1992.

Helgi segir ástandið í bænum hafa verið ömurlegt eftir flóðin og illa staðið að aðgerðum eftir þau. „Það var allt of mikill hraði í hreinsun á rústunum. Við vorum látin skrifa upp á pappíra til að rífa húsið okkar þremur eða fjórum dögum eftir flóð sem var alveg óþarfi að gera. Þetta var fyrsta húsið okkar og við höfðum átt það í innan við eitt ár. Allt okkar sparifé fór í þetta og við stóðum eftir slypp og snauð eftir þetta.“ Helgi segir mjög lítið hafa verið greitt úr Viðlagasjóði.

Fluttu margir úr bænum?

„Það var byggt raðhús fyrir fólkið sem missti húsin sín í flóðunum. En enginn sem lenti í flóðunum fór þar inn. Mér var neitað um það af því að ég fékk hús hjá verkalýðsfélaginu þar til nýja húsið yrði reist. En ég varð að fara fyrst á götuna. Þá vorum við komin með eitt barn og annað á leiðinni. Fleiri lentu í þessu og fluttu bara úr bænum.“

Í gegnum árin hafa komið lítil snjóflóð, síðast árið 2015. Árið 2016 hófst gerð snjóflóðagarða fyrir ofan bæinn og er áætlað að framkvæmdinni ljúki árið 2025.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Hvað segir dóttirin?