Fókus

„Endalausar persónuárásir, ítrekað netníð, fordómar, hatursorðræða og hótanir, stundum morðhótanir“

Sorg og gleði – Trúa á ástina – Perrar – Barneignir – Ást á ónýtu kerfi – Verður amma – Óvirðing við hinn látna – Erfitt að ná ekki að kveðja vinkonu

Kristjón Kormákur Guðjónsson skrifar
Þriðjudaginn 9. janúar 2018 13:25

Það hefur gengið á ýmsu í samfélaginu árið 2017. #Metoo-byltingin hefur haft gríðarleg áhrif, þá féll ríkisstjórn og önnur reis í staðinn. Hér ætlum við ekki að fjalla um samfélagsmál nema að hluta. Hér tjá þekktir Íslendingar sig um sínar verstu stundir á árinu og þær bestu. Sumir opna sig um erfiðan missi, kynferðislega áreitni og árásir á netmiðlum. Þá opna hinir þekktu Íslendingar sig um ný líf, börn, barnabörn og getur einn fyrrverandi þingmaður ekki beðið eftir að verða amma. Myrkur og ljós í lífi þekktra Íslendinga á árinu.

Sema Erla Serdar formaður Solaris

Baráttunni er ekki lokið

Árið 2017 hefur verið ansi viðburðaríkt hjá mér en það sem stendur upp úr sem það besta á árinu, fyrir utan góða heilsu, fjölskylduna, voffana og vini, er stofnun Solaris – hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi í janúar 2017 og sá mikli árangur sem við höfum á þessum stutta tíma náð í að bæta stöðu og réttindi fólks á flótta sem er hér á landi og býr við margvíslega neyð, skert réttindi og þjónustu og jafnvel mannréttindabrot. Án góðs stuðnings almennings hefði fátt af því sem við höfum gert orðið að veruleika. Baráttunni er þó langt í frá lokið og mun halda áfram á nýju ári.

Það sem stendur upp úr sem hið versta á árinu, fyrir utan persónulega sorg, missi og aðra erfiðleika, eru endalausar persónuárásir, jafnt á mig sem og fjölskyldu mína, ítrekað netníð og annað áreiti, fordómar, hatursorðræða og hótanir, stundum morðhótanir, sem því miður fylgir því að ég berjist fyrir bættum kjörum og réttindum fyrir fólk á flótta. Það er fyrst og fremst vegna uppruna míns, en það, ásamt fjölmörgum öðrum dæmum sem til eru, segir okkur að fordómar, öfgar og útlendingaandúð er vaxandi vandamál í íslensku samfélagi. Það er mikilvægt að við bregðumst öll við því og látum slíkt ofbeldi aldrei viðgangast.

Ég skipulagði í haust, fyrir hönd Æskulýðsvettvangsins, metnaðarfulla og mikilvæga ráðstefnu um hatursorðræðu í íslensku samfélagi. Um var að ræða fyrstu stóru ráðstefnuna sem haldin hefur verið hér á landi um þetta hættulega samfélagsmein og segja má að hún standi einnig upp úr sem eitt af því besta á árinu. Hið sama má segja um verkefnið hans Georg Leite, New Faces of Iceland, sem mér hlotnaðist sá mikli heiður að taka þátt í. Um er að ræða hrikalega flotta ljósmyndabók með mörgu flottu fólki sem á það sameiginlegt að vera af íslenskum sem og öðrum uppruna. Verkefni eins og þessi eru til þess fallin að vinna gegn fordómum og útlendingaandúð og ég vil sjá meira af slíku á nýju ári.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af