fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fókus

Systir Lalla Johns faldi öll tengsl við hann

Lýsir sárri fátækt í væntanlegri bók – Lalli er edrú í dag

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 26. ágúst 2017 11:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar Rósa Ólöf Ólafíudóttur fékk boðsmiða á heimildarmynd um bróður sinn, Lalla Johns, vissi hún ekki hvaðan á hana stóð veðrið: „Skömmin var svo mikil. Ég fór ekki og faldi öll mín tengsl við Lalla. Um þetta leyti fór hann í meðferð en féll aftur og ekkert gekk. Hann fór aftur út í afbrot, lenti á Litla Hrauni. Árið 2005 var hann orðinn algjör rúst. Þá fann ég til ábyrgðar minnar, steig fram og fór að tala um þetta. Það var erfitt skref sem hafði afdrifarík áhrif á Lalla, sem hætti að öllu sukki og hefur nú ekki drukkið í 12 ár.“

Þetta segir Rósa í viðtal við Lindu Blöndal í þættinum Þjóðbraut á sjónvarpsstöðinni Hringbraut. Lalli Johns varð þekktasti utangarðsmaður þjóðarinnar eftir sýningu heimildarmyndar um hann sem kvikmyndagerðarmaðurinn Þorfinnur Guðnason gerði árið 2001. Þorfinnur lést árið 2015.

Rósa segist hafa verið uppfull af skömm vegna erfiðrar æsku þeirra systkina og með kvikmyndinni fannst henni sem allt það sem hún skammaðist sín fyrir og vildi fela væri opinberað. „Hann hafði verið á Breiðuvík og aldrei talað um það. Mér fannst ég bara ábyrgð og ég steig fram og fór að tala um hann. Það var ákveðin frelsun,“ segir Rósa.
Lalli Johns dvelur nú á áfangaheimilinu Draumasetrið við Héðinsgötu í Reykjavík og heilsast honum vel.

Rósa er með í smíðum bókina Kæra nafna þar sem hún skrifar um æskuár sín en hún ólst upp við mikla fátækt í braggahverfum Reykjavíkur. Foreldrar hennar skildu en móðir hennar var mjög bakveik vegna hryggbrots í æsku: „Hún náði sér aldrei af því og gat ekki brauðfætt okkur. Þá var ekki þetta félagslega kerfi sem er í dag – að vissu leyti. Hún réð ekki við álagið,“ segir Rósa.

Rósa Ólöf Ólafíudóttir
Rósa Ólöf Ólafíudóttir

Mynd: Hringbraut skjáskot

Rósa sagðist hafa upplifað sterkt að þau væru fátækari en annað fólk og í skólanum skorti hana ýmislegt sem önnur börn höfðu: „„Þegar maður er barn hefur maður ekki rökhugsun og dómgreind til að meta rétt og fer að kenna sjálfum sér um aðstæður sínar,“ segir Rósa og minnist þess að hafa sem barn horft upp á fólk koma fram við móður hennar af fyrirlitningu.

Rósa var send á milli fjölmargra fósturheimila og annarra aðila þar sem hún dvaldist sem barn, meðal annars á Silungapolli: „Það voru engar skýringar gefnar. Ég var bara rifin úr fanginu á mömmu, sett í einhverja koju og þar grenjaði ég úr mér.“ Þetta gerðist fyrst er hún var þriggja ára gömul. En á aldrinum 9 til 12 ára var Rósa þrjá vetur í heimavistarskóla í Hlaðgerðarkoti og lætur hún mjög vel af þeirri dvöl:

„Þar upplifði ég jákvæðni og að fólk hefði trú á manni. Það var eitthvað alveg nýtt. Það voru tímamót að líða vel á staðnum og vilja vera þar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki