fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024

Hildur í sínu allra besta formi: Þyngdist um 25 kíló og fékk fæðingarþunglyndi – Greind með sjaldgæfan sjúkdóm og sagt að búa sig undir það versta

Aníta Estíva Harðardóttir
Fimmtudaginn 28. desember 2017 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hildur Marín Ævarsdóttir greindist 9 mánaða með sjaldgæfan sjúkdóm sem gerir það að verkum að hún er með of fáar blóðflögur. Þegar hún var nítján ára gömul komst hún að því að hún væri ólétt og átti meðgangan eftir að vera henni virkilega erfið vegna sjúkdómsins.

„Þegar ég var tveggja ára var tekinn beinmergur úr mér og sendur til Bandaríkjanna. Það kom hins vegar ekkert úr niðurstöðunum og veit því enginn hvað er í raun og veru að mér,“ segir Hildur í viðtali við DV.

Hildur er í dag tuttugu og tveggja ára gömul, býr í Breiðholtinu ásamt kærasta sínum, Höskuldi, og dóttur sinni, Elmu Láru. Hildur starfar sem stuðningsfulltrúi í frístundaheimili en stefnir á að læra hjúkrunarfræði í framtíðinni.

Hildur með Elmu Láru dóttur sína og Höskuldur kærasti hennar
Hamingjusöm fjölskylda Hildur með Elmu Láru dóttur sína og Höskuldur kærasti hennar

Mikið áfall að verða ólétt nítján ára

„Ég var nítján ára þegar ég komst að því að ég væri ólétt og það var frekar mikið áfall. Ég er ekki með barnsföður mínum en ég kynntist frábærum strák þegar Elma var aðeins tæplega fimm mánaða og eru þau bestu vinir í dag.“

Þegar Hildur var ólétt af stelpunni sinni var hún sett í áhættumeðgöngu uppi á Landspítala og hugsuðu ljósmæður og læknar vel um hana.

„Ég fór í blóðprufu að minnsta kosti tvisvar í viku og hitti ljósmóður líka tvisvar í viku. Þegar ég var gengin fjórtán vikur var ég sett á mikið magn af steralyfjum til þess að reyna að fjölga blóðflögunum.“

Lyfin virkuðu ekki á Hildi og voru skammtarnir hækkaðir reglulega þar til hún var gengin átján vikur.

Lögð inn á spítala með lyf í æð

„Þá var ég lögð inn á spítala í skyndi til þess að fá lyf í æð sem átti víst að auka blóðflögurnar líka. Ég lá inni í viku og á hverjum degi í fimm klukkutíma á dag var lyfinu dælt í mig ásamt því að ég þurfti að taka steratöflurnar. En ekkert virkaði.“

Læknarnir gáfust ekki upp á því að reyna að hjálpa Hildi og hélt hún áfram að taka steratöflur alveg þangað til að hún átti Elmu, heilum átta vikum fyrir tímann.

„Mér finnst mjög líklegt að öll þessi steralyf hafi haft áhrif á það að ég fæddi dóttur mína svona mikið fyrir tímann. Ég var aðeins gengin 31 viku og 3 daga þegar ég var lögð inn á spítala með mikla samdrætti og verki. Þá hafði leghálsinn opnast og sama kvöld og morguninn eftir fékk ég sterasprautu fyrir lungun á Elmu.“

Hildur var í stanslausu eftirliti til þess að fylgjast með samdráttum og líðan Elmu en tveimur dögum eftir að hún var lögð inn á spítalann tók ljósmóðir eftir því að dóttir hennar hafði ekki hreyft sig neitt í tvo sólarhringa.

„Hún var vön að sprikla og sparka eins og enginn væri morgundagurinn og því var brunað með mig í sónar. Svo var hringt í Hildi Harðardóttur, skurðlækni, sem var ekki á vakt og mætti hún upp á spítala í hvelli.“

Móðir Hildar var hjá henni þegar Hildur skurðlæknir kom og skoðaði dóttur hennar og er hún virkilega þakklát fyrir það.

„Ég man ennþá þegar ég var í sónarnum og læknirinn horfði á mig og sagði: Hildur við þurfum að sækja hana strax!“

Grétu í kór

„Ég vissi ekki hvernig ég átti að vera og við mamma grétum saman í kór. Mamma var sem klettur hjá mér allan tímann og ég veit hreinlega ekki hvað ég hefði gert á þessu augnabliki án hennar.“

Eftir sónarinn var Hildi rúllað í hjólastól upp á fæðingarherbergi og hún undirbúin fyrir bráðakeisara.

„Læknateymið og ljósmóðirin biðu eftir blóði úr Blóðbankanum og það leið ekki nema kannski korter og þá var barnsfaðir minn kominn upp á spítala og ég komin inn á skurðstofu með tvo poka af blóðflögum í sitthvorn handlegginn.“

Vegna þess að Hildur var ekki búin að ganga fulla meðgöngu kom barnalæknir inn á skurðstofu til Hildar til þess að tala við hana áður en bráðakeisarinn yrði framkvæmdur og undirbúa hana fyrir hvað koma skyldi.

Sagt að búa sig undir hið versta

„Hann sagði að þar sem Elma væri mikill fyrirburi að þá ættum við að vona það besta en búast við því versta. Að heyra þessi orð var hræðilegt og ég vissi ekki hvernig mér ætti að líða. Ég var hálf dofin.“

Hildur var svæfð fyrir keisarann og fékk hún því ekki að upplifa fæðingu dóttur sinnar sem kom spriklandi í heiminn en þurfti örlitla hjálp við öndun í súrefniskassa til að byrja með.

„Keisarinn gekk mjög vel en ég missti samt mikið blóð og bjargaði blóðflögugjöfin mér því vel. Ég upplifði mikinn sársauka eftir vöknun og fékk því stóran skammt af morfíni. Ég man varla þegar mér var rúllað inn á vökudeild í rúminu nokkrum klukkutímum seinna. Sem betur fer náði mamma mín því öllu upp á myndband þegar ég sá stelpuna mína í fyrsta skiptið í kassanum. Það má oft þakka fyrir tæknina í dag!“

Þyngdist um 25 kíló og fékk fæðingarþunglyndi

Á meðgöngunni þyngdist Hildur um rúmlega 25 kíló á einungis 32 vikum og höfðu steralyfin gífurleg áhrif á bjúgmyndun í líkama hennar.

„Ég var hrikalega bjúguð og óþekkjanleg, þegar ég skoða myndir af mér í dag þá þekki ég mig ekki. Ég hef alltaf verið í mjög fínu formi og þetta var því mjög erfitt fyrir mig.“

Hildi leið virkilega illa andlega og fékk mikið fæðingarþunglyndi.

„Ég sagði ekki nokkrum manni frá vanlíðaninni og bældi þetta þetta allt inn í mér. Elma Lára þurfti að eyða fyrstu 3 vikum ævi sinnar á vökudeild og tók það mikið á.“

Nokkrum vikum eftir fæðingu ákvað Hildur að byrja að hreyfa sig og taka á mataræðinu.

„Ég hef alltaf lifað við hollan og heilbrigðan lífsstíl með engum öfgum og hélt ég því áfram eftir fæðingu. Það tók mig samt þó nokkuð langan tíma að komast aftur í gott form og ná því af mér sem ég hafði bætt á mig.“

Hildur fór að æfa af krafti og var dugleg að mæta á brennslu- og lyftingaæfingar.

„Það sem hvatti mig áfram var hreinlega ofvirknin mín. Ég á það sameiginlegt með föður mínum og afa að vera hrikalega ofvirk og hef ég alltaf hreyft mig mjög mikið. Ég æfði fótbolta og dans í mörg ár ásamt því að spila körfubolta í nokkur ár.“

Vanlíðanin hvatti Hildi áfram

„Ég vildi komast í sama far og fyrir meðgöngu og jafnvel toppa það og líða vel. Ég hafði aldrei litið svona út og vildi losna við þessa vanlíðan. Það hvatti mig áfram að sjá hvernig ég leit út í spegli og má því segja að vanlíðan mín hafi hvatt mig áfram.“

Hildur viðurkennir að erfitt hafi verið að koma sér í gang þegar hún var í fæðingarorlofi með dóttur sína en hún hafi beðið móður sína um að líta eftir dóttur sinni þegar hún var sofnuð á kvöldin á meðan hún skrapp í ræktina.

„Það sem mér fannst erfiðast var mataræðið á meðan ég var í fæðingarorlofi. Mig langaði alltaf að narta í eitthvað óhollt og því tók það mig lengri tíma að ná árangri heldur en ef ég hefði sleppt því að narta í kex og nammi. Mataræðið skiptir alveg 80% máli.“

Hildur borðar í dag mjög holla fæðu án þess þó að fara út í einhverjar öfgar.

„Ég borða reyndar ekki hvítt brauð eða bara brauð yfirhöfuð þar sem mér finnst það ekkert sérstakt. Ég fæ mér próteinduft út á hafragrautinn minn alla morgna og þar sem ég æfi eins og vitleysingur alla daga þá leyfi ég mér óhollt, í hófi að sjálfsögðu. Mér hefur aldrei fundist gott að borða hreinan kjúkling eða ósaltaðan fisk með brokkolí heldur borða ég bara venjulega og holla fæðu og fylgist með kaloríuinntöku minni.“

Mynd: Sigurður Steinthorsson
Hildur Lára hefur aldrei verið í jafn góðu formi Mynd: Sigurður Steinthorsson

Aldrei verið í betra formi

Hildur Marín segir að lífið í dag sé frábært. Henni hafi aldrei liðið jafn vel bæði andlega og líkamlega og samband hennar við núverandi kærasta sé blómstrandi.

„Ég kynntist honum bara þegar Elma var tæplega 5 mánaða og gerði mér engar væntingar þar sem ég bjóst ekki við því að kynnast stráki sem vildi eitthvað með tvítuga einstæða móður að gera. En hann lét mig strax vita að hann væri tilbúinn í að taka þeirri ábyrgð sem fyldi mér og Elmu og eru þau bestu vinir í dag og ég gæti ekki verið hamingjusamari. Hann stendur sig rosalega vel í föðurhlutverkinu og ég er svo gífurlega þakklát því að hafa kynnst honum.“

Árangur Hildar er ótrúlegur og stefnir hún á að læra einkaþjálfun áður en hún fer í hjúkrunarfræði.

„Ég er að vinna að bloggsíðu með vinkonu minni sem er einkaþjálfari og það eru því mjög spennandi tímar framundan.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum

Flassari fyrir dóm – Sakaður um að hafa sýnt af sér ósiðlegt og lostugt athæfi

Flassari fyrir dóm – Sakaður um að hafa sýnt af sér ósiðlegt og lostugt athæfi
Fókus
Fyrir 4 klukkutímum

Styttist í barnamenningarhátíð í Reykjavík – Vegleg dagskrá og börnin í aðalhlutverki

Styttist í barnamenningarhátíð í Reykjavík – Vegleg dagskrá og börnin í aðalhlutverki
Eyjan
Fyrir 5 klukkutímum

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Eyjan
Fyrir 6 klukkutímum

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Kostar sitt að kúka í Lystigarðinum – Akureyrarbær tvöfaldar verðmiðann

Kostar sitt að kúka í Lystigarðinum – Akureyrarbær tvöfaldar verðmiðann
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni
Eyjan
Fyrir 8 klukkutímum

800 milljóna halli en þokast í rétta átt

800 milljóna halli en þokast í rétta átt