Ólafía Þórunn: Kenndi sjálfri sér um slysið

Litlar Ólafíur – Flókið samband við Valdísi – Möguleg gifting 2018 – Stór kjálkaaðgerð

Kristinn H. Guðnason skrifar
Föstudaginn 22. desember 2017 15:00

Árið 2017 var stórt hjá kylfingnum Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur. Hún spilaði fyrst Íslendinga á LPGA, stærstu mótaröð heims, tók þátt í þremur risamótum og komst í Evrópuúrvalið í LET-keppninni gegn Asíu og Eyjaálfu. Hún þykir koma sterklega til greina í valinu á íþróttamanni ársins sem mun koma í ljós 28. desember. Kristinn Haukur hitti Ólafíu í jólafríinu sem hún eyðir með fjölskyldu sinni í Grafarholtinu og ræddi við hana um ferilinn, frægðina, lífið og stóra kjálkaaðgerð.

Jólaundirbúningur er á fullu á heimili foreldra Ólafíu, Kristins Gíslasonar verkfræðings og Elísabetar Erlendsdóttur ljósmóður. Skreytingarnar eru komnar upp og verið er að pakka inn jólagjöfum. Á veggnum hangir mynd af hjónunum og börnum þeirra fimm. „Ég er langyngst,“ segir Ólafía. „Sá sem er næstur mér í aldri er sjö árum eldri en ég. Ég er litla örverpið.“

Golf er fjölskylduíþróttin á heimili Ólafíu og hefur verið um langa hríð. Foreldrar hennar og systkini spila öll. Fjölskyldan bjó í Mosfellsbæ þar til Ólafía var í fimmta bekk grunnskóla, þá fluttist hún til Reykjavíkur. Ólafía segist ekki vera með eitt fast heimili. „Ég er flakkari. Er stundum hér, stundum í Þýskalandi hjá unnusta mínum og stundum í Ameríku. Ég er með dót á öllum stöðum.“

Hvernig barn varst þú?

„Ég var mjög feimin við fólk en þegar ég var komin yfir feimnina var ég örugglega mjög skemmtilegur krakki. Þegar ég var að leika mér með vinum mínum fannst mér ég vera óstöðvandi. Að ég gæti gert allt.“

„Það var orðið of mikið að vera í þremur íþróttagreinum í einu“
Valdi golf „Það var orðið of mikið að vera í þremur íþróttagreinum í einu“

Ólafía var dugleg í íþróttunum frá unga aldri. Hún æfði badminton og handbolta þar sem hún spilaði með Fram og Fylki. Um tíu ára aldur byrjaði hún að æfa fjölskylduíþróttina. „Þegar ég var þrettán eða fjórtán ára valdi ég að einbeita mér að golfi og hætti þá í öðrum íþróttum. Það var orðið of mikið að vera í þremur íþróttagreinum á sama tíma.“

Var takmarkið alltaf að verða atvinnukylfingur?

„Þegar ég var byrjuð að keppa þá var það draumurinn, já.“

Vissir þú að þú hefðir það í þér?

„Nei, ekki alltaf. Ég hafði alltaf einhverjar efasemdir en ég lét á þetta reyna.“

Ef þú myndir spóla til baka, hefðir þú trúað því að þú yrðir á þessum stað núna?

„Alveg örugglega ekki. Þetta er allt búið að gerast svo hratt.“

Væri markþjálfari

Ólafía er orðin einn þekktasti íþróttamaður landsins og verður sífellt þekktari erlendis.

Hvernig tekstu á við frægðina?

„Mér finnst þetta mjög gaman en ég er undir miklu álagi og lendi stundum í aðstæðum sem ég hef aldrei lent í áður. En ég læri af því og verð vonandi betri og betri í hvert einasta skipti.“ Ólafía er mikið í kastljósi fjölmiðlanna og hefur það aukist frekar en hitt með árunum.

Biður fólk þig um eiginhandaráritun?

„Ekki hér á Íslandi. Ég er ekki stoppuð úti á götu þegar ég er erlendis, en ég er alltaf beðin um eiginhandaráritun þegar ég er að keppa. Ég var reyndar að gefa eiginhandaráritun um daginn í Kringlunni þegar ég var að selja plaggötin mín. Þá voru litlir krakkar að biðja um áritun, það var mjög krúttlegt.“ Plaggötin sem hún talar um eru með hvatningarorðum af ýmsum toga. Setningar sem hún sjálf hugsar um og notar í keppni og einkalífinu.

Ert þú orðin fyrirmynd ungra stúlkna í golfi?

„Já. Tveir golfkennarar hérna hafa sagt við mig að það hafi aldrei verið jafn margar stelpur á golfnámskeiðum á Íslandi og nú. Þær segjast vera litlar Ólafíur.“

Hún segir vöxtinn í kvennagolfinu hafa verið mikinn á heimsvísu eftir að hin sænska Annika Sörenstam kom fram á sjónarsviðið. Fyrirmynd Ólafíu er hins vegar svissneski tennisleikarinn Roger Federer. „Ég elska Roger Federer. Ég horfi á tennis ef hann er að keppa og ég er ekki sjálf að keppa á sama tíma. Hann er svo andlega sterkur. Hann var trítilóður þegar hann var lítill, henti spöðum og blótaði. En síðan hefur hann umbreyst algerlega. Hann er þessi rólegi maður með stjórn á öllu. Mig langar að vera eins og hann.“

Ertu orðin rík af því að spila golf?

„Fer eftir því hvernig þú lítur á það. Já, já, það er alveg hægt að fá mikinn pening út úr þessu en ég er reyndar að eyða miklu fé í ferðalög og slíkt. En ég á ekki neitt, ekkert hús eða slíkt … enn þá,“ segir Ólafía og brosir. Hún segir að féð frá styrktarsamningunum dekki ferðakostnaðinn en verðlaunaféð fái hún að mestu leyti sjálf. Hún þarf þó bæði að borga háan skatt af því og kylfuberanum sjö prósent. Þá sé töluverður munur á verðlaunafénu á LPGA-mótaröðinni, þar sem hún spilar nú, og þeirri evrópsku sem hún tók þátt í áður. Fyrir sigur fást um 500 þúsund dollarar á móti um 80 þúsundum á þeirri evrópsku.

Hvað værir þú að gera ef þú værir ekki golfari?

„Ég væri annaðhvort markþjálfi, af því að mér finnst gaman að hjálpa fólki að ná sínum markmiðum, eða atvinnumaður í tennis, þótt ég sé reyndar ekki góð í tennis. Það er mjög erfitt sport og mér finnst það heillandi. Maður þarf að vera andlega sterkur og hafa úthald eins og í golfinu.“

Fjölmiðlar reyna að skapa ríg við Valdísi

Einn helsti keppinautur Ólafíu hér á landi hefur verið Valdís Þóra Jónsdóttir og hafa þær skipst á að vinna mót og titla. Eftir að Valdís laut í lægra haldi fyrir Ólafíu á Íslandsmeistaramótinu í höggleik síðasta sumar kom hún fram í sjónvarpsviðtali sem olli nokkrum usla. Valdísi var mikið niðri fyrir og sagðist meðal annars hafa verið brjáluð.

Hvernig er samband ykkar Valdísar?

„Þetta er flókið samband. Ég held mikið með henni en fjölmiðlar eru búnir að ota okkur í samkeppni af því að þeir eru alltaf að bera okkur saman og mér finnst það leitt. Fyrir þremur árum vorum við að keppa á sömu mótaröð og þá leigðum við saman. Núna erum við á mismunandi mótaröðum en við tölumst við af og til. Hún sendir mér línu ef ég stend mig vel og ég henni.“

Er þá enginn kuldi á milli ykkar?

„Nei. Við erum ekki bestu vinkonur en við erum ekki óvinkonur heldur eins og margir halda.“

Hvað fannst þér um viðtalið fræga?

„Hún er keppnismanneskja. Þetta atvik á Íslandsmótinu gerðist í hita leiksins. Hún var rifin í viðtal strax og var ekki búin að ná að kæla sig niður. Þetta var svolítið ósanngjarnt. En þetta kemur fyrir á bestu bæjum og það gera allir mistök. Ég held ekki alltaf kúlinu heldur.“

„Ég veit ekki hvernig þeir velja þetta og það er mjög erfitt að velja og bera saman ólíkar íþróttir“
Um íþróttamann ársins „Ég veit ekki hvernig þeir velja þetta og það er mjög erfitt að velja og bera saman ólíkar íþróttir“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Erfitt að bera saman íþróttir

Altalað er að val á íþróttamanni ársins standi milli Ólafíu og Gylfa Sigurðssonar knattspyrnumanns. Ólafía er varkár að spá fyrir um hver hreppi styttuna. „Ég veit ekki hvernig þeir velja þetta og það er mjög erfitt að velja og bera saman ólíkar íþróttir.“

Þegar viðtalið er tekið er Ólafía nýbúin að vinna titilinn kylfingur ársins í sjötta sinn. En hún hefur aldrei verið kjörin íþróttamaður ársins.

Er þetta eitthvað sem skiptir þig máli?

„Ég hef farið á verðlaunaafhendinguna síðustu sex ár, meðal annars til að taka við verðlaunum sem golfari ársins. En mér hefur aldrei dottið í hug að ég gæti orðið íþróttamaður ársins af því að það er oftast sama týpan sem verður fyrir valinu.“

Er ekki ótækt að boltastrákar vinni þetta yfirleitt?

„Jú, en ég skil alveg að fótboltastrákar vinni þetta oft. Fótbolti er svo ótrúlega vinsæl íþrótt. Alltaf kemur upp umræðan um hvort verðlaunin eigi að vera kynjaskipt eða skipt í hópíþróttir og einstaklingsíþróttir. Þetta er flókið mál.“

Mögulegt brúðkaup á næsta ári

Eftir grunnskóla gekk Ólafía í Verzlunarskólann í tvö ár og hélt síðan út til Bandaríkjanna í háskóla. Hún nam við Wake Forest-skólann í Norður-Karólínu og bjó ein. Þar kynntist hún unnusta sínum, Thomas Bojanowski frá Þýskalandi.

Neistaði strax á milli ykkar?

„Já. Hann kom í skólann seint í janúar árið 2012 og í mars vorum við byrjuð saman. Hann var þá í hlaupaliði skólans.“

Ertu ekkert að kenna honum golf?

„Hann er byrjaður í golfi en hefur ekkert náð að æfa sig eða spila mjög mikið af því að hann er alltaf með mér.“

Thomas rekur fyrirtæki sem hjálpar ungum íþróttamönnum, meðal annars nokkrum Íslendingum, að fá skólastyrki í Bandaríkjunum. Hann hefur einnig verið kylfuberi hjá Ólafíu á mótum.

Er ekki erfitt að vinna svo náið með unnusta sínum?

„Jú, í byrjun. En síðan lærðum við bæði á það. Hann vissi til dæmis ekki hvernig ætti að bregðast við ef mér gekk illa og var pirruð. Hann skammaði mig stundum og það gerði mig enn þá pirraðri. En núna veit hann að stundum þarf ég að fá að pústa og svo er það búið.“

Ólafía og Thomas hafa verið trúlofuð í tvö ár og hún segir brúðkaup hugsanlega í kortunum á næsta ári. „Ef ég næ að skipuleggja það, en það er erfitt að finna tíma. Ég er bókuð á þriðja tug móta en það eru nokkrar frívikur og ég gæti gert það. Ég er að skoða þetta.“

En barneignir?

„Einhvern tímann í framtíðinni. Fyrst langar mig að ná aðeins lengra í golfinu.“

„Ég vildi ekki tala um þetta við neinn og vildi ekki hitta fólk“
Unnustinn í slysi „Ég vildi ekki tala um þetta við neinn og vildi ekki hitta fólk“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Fannst hún ábyrg fyrir slysi

Þegar Ólafía var á síðasta ári í háskólanámi lenti Thomas í slysi sem hafði mikil áhrif á þau bæði. „Við vorum að grilla og ég var að reyna að kveikja á grillinu en kunni ekkert á það. Þegar Thomas minn ýtti á takkann til að kveikja á grillinu fékk hann eldsprengingu í andlitið. Hann brenndist illa og við fórum strax upp á bráðamóttöku. Eftir þetta var hann alltaf hjá læknum, með umbúðir úti um allt og andlitið á honum skelfilega illa farið.“

„Ég þurfti að leita til sálfræðings út af þessu og mér leið eins og ég væri orðin þunglynd.“

Var þetta mikið áfall?

„Þetta var alveg skelfilegt og ég kenndi sjálfri mér mikið um þetta, af því að ég var að fikta í grillinu og ef hann hefði gert þetta sjálfur þá hefði þetta aldrei gerst. Ég átti mjög erfitt. Það gerist eitthvað í líkamanum þegar þú færð svona mikið sjokk. Ég þurfti að leita til sálfræðings út af þessu og mér leið eins og ég væri orðin þunglynd. Ég vildi ekki tala um þetta við neinn og vildi ekki hitta fólk. Þetta var ákveðinn tímapunktur í lífi mínu en ég komst yfir þetta og varð sterkari fyrir vikið.“

En hann kenndi þér ekkert um þetta?

„Nei nei, það var bara ég. Það var sama hvað fólk sagði við mig, ég gat ekki breytt hvernig mér leið. Núna er allt í lagi með andlitið, það greri mjög vel. En hann er með stórt ör á fætinum.“

Bloggaði um stóra kjálkaaðgerð

Jólin í ár verða Ólafíu mun þægilegri en jólin í fyrra þegar hún var að jafna sig eftir stóra kjálkaaðgerð. „Þegar ég var um sextán ára tók ég vaxtarkipp og neðri kjálkinn fór fram úr þeim efri. Ég var með smá undirbit af því að efri kjálkinn er svo lítill. Af því að þetta gerðist svo seint var ekki hægt að laga þetta með teinum.“ Hún segir afar sjaldgæft að þetta gerist og vegna núnings hefðu tennur hennar eyðst með tímanum. „Að vera með undirbit gerði mig aðeins grófari í andlitinu. En ég fór ekki í þessa aðgerð út af því. Mér hefði sjálfri aldrei dottið í hug að fara í þessa aðgerð fyrr en tannlæknirinn minn benti mér á að gera þetta. Annars hefðu tennurnar orðið að stubbum þegar ég væri orðin fimmtug.“

„Ég var ekki með neina vöðva í munninum og varð mjög smeyk"

Aðgerðin var mjög umfangsmikil og Ólafía var lengi að jafna sig eftir aðgerðina, léttist og missti mikinn mátt. „Ég var ekki með neina vöðva í munninum og varð mjög smeyk. Það tók nokkrar vikur að vinna upp kraftinn aftur. Í byrjun gat ég bara opnað munninn og þurfti að kyngja matnum beint. Það var nógu erfitt bara að opna munninn. Ég var á 100 prósent vökvafæði í fjórar vikur en síðan gat ég borðað aðeins þykkari mat.“

Hún gat lengi vel ekki farið fram úr rúminu og sá fram á að leiðast mikið. Þess vegna tók hún upp á því að blogga um aðgerðina og batann á heimasíðu sinni undir heitinu Olafia Bites Back. „Mig langaði að leyfa fólki að fylgjast með og ef einhver annar væri að fara í svona þá gæti viðkomandi séð mitt ferli og verið undirbúinn.“

En hafði þetta áhrif á atvinnumennskuna?

„Ég gat ekki hreyft mig mikið og snerti ekki golfkylfu í einn og hálfan mánuð. Fyrsta mótið eftir aðgerð var á Bahamaeyjum og ég fékk aðeins viku til að undirbúa mig. En ég stóð mig vel þar og náði niðurskurðinum. Það var vonum framar. Stundum er gott að fara inn í mót með engar væntingar því þá er engin pressa. Það vita allir að ég var nýbúin í kjálkaaðgerð og það gerist sem gerist.“

Playboy-fyrirsætur með milljón á Instagram

#MeeToo-byltingin hefur ekki farið fram hjá neinum þar sem konur segja reynslusögur af kynferðislegu ofbeldi, áreitni og mismunun. Hefur þú tekið eftir slíku í golfheiminum?

„Ég veit ekki um marga sem hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni. En það er alveg klassískt í íþróttaheiminum að fá vissar spurningar af því að þú ert kona – spurningar sem karlmenn myndu aldrei fá.“

Ólafía segist taka eftir karlrembu og staðalímyndum við val á boðskeppendum á mótum. „Við Valdís höfum báðar náð miklum árangri í golfi en svo er öðrum boðið á mót. Ég tók sérstaklega eftir þessu þegar ég var á Evrópumótaröðinni. Þegar þú ert á fyrsta ári þá kemstu í fá mót og þú þarft að sækjast eftir boðum líka. Stundum voru einhverjar gellur sem líta út eins og Playboy-fyrirsætur, með milljón fylgjendur á Instagram en ekkert sérstaklega góðar í golfi, að fá boð í mótið en ekki við. Þá sáum við að þetta getur verið svolítill karlrembuheimur sem við búum í.“ Hún segir þetta þó mun sanngjarnara á LPGA. „Þar er valið eftir getustigi en ekki hversu fallegur þú ert eða hversu marga fylgjendur á samfélagsmiðlum þú hefur.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af