fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024

Trúir á líf eftir dauðann

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Föstudaginn 15. desember 2017 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Við lifðum ekki skort, en það var ekkert ríkidæmi. Við bjuggum í lítilli kjallaraíbúð mín uppvaxtarár. Þröngt máttu sáttir sitja. Við krakkarnir vorum úti að leika okkur frá klukkan átta á morgnana fram á kvöld, niður í fjöru, úti á bryggju. Þá voru engar tölvur. Svo stóð mamma í hurðinni, hrópaði og þuldi nöfn okkar sjö systkinanna til að kalla á okkur í mat.“

Þannig kemst Vilhjálmur Birgisson verkalýðsforingi að orði þegar hann lýsir æsku sinni á Akranesi. Vilhjálmur er landskunnur og þekktur fyrir að segja skoðanir sínar tæpitungulaust. Kristjón Kormákur ræddi við Vilhjálm um æsku hans á Akranesi, hvernig Akraborgin spilaði stórt hlutverk í því að hann ákvað að berjast fyrir alþýðuna og gegn ósvífinni fjármálaelítu. Þá opnar Vilhjálmur sig um ótal fundi með Sigmundi Davíð, verðtryggingu og svo sáran sonarmissi.

„Ég vil trúa því að það sé líf eftir dauðann,“ segir Vilhjálmur þegar hann er spurður um andlát Óttars sem féll frá aðeins þrítugur að aldri og skildi eftir sig tvö börn.

Alla tíð búið á Akranesi

Vilhjálmur er fæddur þann 5. ágúst 1965. Foreldrar hans eru Birgir Jónsson, útgerðarmaður og skipstjóri, og Þórhildur Björg Þórisdóttir verslunarstjóri. Vilhjálmur hefur búið á Akranesi alla sína tíð.

„Ég á sex systkini og það var líf og fjör hér í gamla daga,“ segir Vilhjálmur, sem er fjórða barn foreldra sinna. Á Vilhjálmur fjóra bræður og tvær systur. Faðir hans stundaði sjóinn og var því mikið um fiskmeti á borðum. „Í dag er ég giftur fjögurra barna faðir og á orðið átta barnabörn. Ég varð því á endanum ríkur maður.“

Samdi ykkur systkinum vel?

„Það var ekki mikill ágreiningur þó auðvitað væri barist um athygli foreldranna. Uppvaxtarár mín voru ánægjuleg. Ég var mikið í íþróttum og fótbolta og lék knattspyrnu með ekki ómerkari mönnum en Ólafi Þórðarsyni og Sigga Jóns sem síðar gerðist atvinnumaður með Arsenal. Það var frábær tími.

Hvernig varstu sem barn?

„Ég var prakkari. Það þurfti að hafa dálítið mikið fyrir mér og ég var uppátækjasamur. Við getum nánast fullyrt að ég hafi verið pínu óþekkur,“ segir Vilhjálmur og skellir upp úr.

Aðspurður hvort hann sé líkari föður sínum eða móður svarar Vilhjálmur:

„Ég er meira líkur mömmu. Ég var yngstur í nokkur ár, það er alltaf gott, síðan hefur sá gamli æði marga kosti. Það er gott að fá að reyta það besta frá þeim báðum.“ Vilhjálmur segir foreldrahlutverkið hafa tekið miklum breytingum frá því að hann var gutti. Í dag eru foreldrar oft gagnrýndir fyrir að eyða litlum tíma með börnum sínum. Þau séu upptekin í lífsgæðakapphlaupinu. Þessu er Vilhjálmur ósammála og blaðamaður tekur undir það.

„Ef við berum þetta saman, þá finnst mér foreldrar í dag veita börnum sínum meiri athygli. Ef við tökum knattspyrnu sem dæmi þá voru örfáir foreldrar að horfa á leiki eða fóru með í keppnisferð. Í dag er þetta gjörbreytt til hins betra og við fylgjum börnum eða barnabörnum á alla leiki.“

Vilhjámur bætir við að sjálfstæði barna þegar hann var ungur hafi verið mun meira en hjá börnum í dag.

„Ég hef oft hugsað um það, þegar við krakkarnir vorum að leika okkur í fjörunni í stórbrimi, ef ég myndi vita af börnum eða barnabörnum við svipaðar aðstæður, drottinn minn dýri, ég fengi áfall. Það er kraftaverk, þegar hugsað er til baka, að vera lifandi, miðað við það sem við tókum okkur fyrir hendur. Við smíðuðum fleka og rérum 200 til 300 metra út á sjó án þess að vera í björgunarvesti. Svo var staðið á hálum klettum og veitt. Ég féll nú einu sinni af þeim og var bjargað af fullorðnum manni, en þá var ég sjö, átta ára.“

Þá byrjaði Vilhjálmur snemma að vinna.

„Ég byrjaði að beita 12 ára hjá pabba. Síðan var ég kominn á Eyrina að vinna í saltfiski. Mína fyrstu vetrarvertíð fór ég 15 ára gamall á sjó. Ég þekki öll þessi hefðbundnu verkamannastörf til sjós.

Kynntist konunni 16 ára

Vilhjálmur lauk grunnskóla en hætti í menntaskóla. Aðstæður voru slíkar að hann varð að leggja námið á hilluna. Vilhjálmur og Þórhildur, kona hans, hófu samband aðeins 16 ára gömul. Fyrir átti hún eitt barn sem hún eignaðist ári áður. Þórhildur er frá Suðureyri við Súgandafjörð. Þau kynntust árið 1982 og eignuðust sitt fyrsta barn saman árið 1984. Aðeins 26 ára voru börnin orðin fjögur.

Ég þekki nákvæmlega þá stöðu sem alltof margir eru í að vera orðinn auralaus þegar það eru fimm til tíu dagar í mánaðamót.

„Það sem hefur hjálpað mér gríðarlega í mínu starfi í dag er að þekkja það af eigin raun hvernig það er að reyna að láta enda ná saman mánuð til mánaðar,“ segir Vilhjálmur. „Ég hef alla tíð verið verkamaður og þurft að berjast fyrir því að eiga ofan í mig og mína. Ég þekki nákvæmlega þá stöðu sem alltof margir eru í að vera orðinn auralaus þegar það eru fimm til tíu dagar í mánaðamót. Það er ein skelfilegasta tilfinning sem þú lendir í fyrir utan fráföll og veikindi, að eiga ekki fyrir reikningum sínum eða mat. Þetta þekktum við á sínum tíma, með öll okkar börn.“

Lýðheilsumál

Á þessum tíma var ekki rekstrargrundvöllur fyrir því að Þórhildur myndi fara á vinnumarkaðinn. Laun hennar hefðu þá öll farið í að greiða fyrir dagvistun barnanna. Vilhjálmur var því lengi eina fyrirvinnan.

„Það er mér hulin ráðgáta hvernig við komumst í gegnum þessi ár. Að sama skapi verður mér oft hugsað til þeirra sem eru í þessum sporum. Það er lýðheilsumál að vera hér með launakjör með þeim hætti að fólk hafi tækifæri til að ná endum saman.“

Þótt blaðamaður sé nokkuð yngri en Vilhjálmur man hann þá tíð þegar dugði að vera með eina fyrirvinnu. Í dag, ef sambýlisfólk vinnur bæði láglaunastarf, dugar það oft ekki til að reka heimili.

„Þetta var svo allt, allt öðruvísi í gamla daga. Við fórum í bíó á sunnudögum og þá var það djús í brúsa og popp í poka sem var poppað heima og tekið með í kvikmyndahúsið. Tímarnir eru svo breyttir frá því í gamla daga.“

Úr Akraborg í verkalýðsstörf

Hvernig kom það til að þú endaðir í þessu starfi, að vera verkalýðsforingi?

„Það má rekja til þess tíma er Akraborgin var lögð niður. Þar var ég háseti í fimm ár,“ svarar Vilhjálmur og bætir við að hann hafi alla tíð haft gríðarlegan áhuga á samfélagsmálum.

„Þetta var árið 1998 og voru Hvalfjarðargöngin opnuð það sama ár. Starfsmenn Akraborgarinnar gengu fyrir í starfið í gjaldskýlinu í Hvalfirði og við fengum allir vinnu þar. Ég óskaði eftir því að gengið yrði frá launakjörum í gjaldskýlinu á þann hátt að þau yrðu mannsæmandi. Okkur var lofað að launakjör yrðu borin undir okkur áður en við tækjum til starfa. Skömmu áður en við áttum að hefja störf fréttum við að búið væri að ganga frá kjarasamningi sem var fyrir neðan allar hellur.“

Tekjufallið fyrir hásetana á Akraborginni var um 40 til 50 prósent. Mönnum var vitanlega brugðið. Á þessari stundu kviknaði áhugi á verkalýðsmálum fyrir alvöru í brjósti Vilhjálms. Vilhjálmur komst í stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness, en um svipað leyti stóðu yfir mikil innanhússátök. Vilhjálmur fór fram á að fá að skoða bókhald og fleiri gögn félagsins. Því var hafnað. Vilhjálmur vildi ekki una því og fór með málið fyrir dóm. Sigraði hann bæði í héraði og Hæstarétti sem heimilaði að Vilhjálmur ætti rétt á að skoða gögn félagsins. Í kjölfarið varð slík óeining innan félagsins að Alþýðusamband Íslands tók félagið yfir og skipaði tilsjónarmann.

„Það var stillt upp tveimur listum, ég stillti upp einum og þeir sem höfðu verið við völd öðrum. Ég og minn listi unnum þá baráttu og við tókum við 19. nóvember 2003. Við höfum verið hér síðan og að mínu mati náð að gera marga góða hluti. Það hefur verið byggt upp félag sem er sterkt fjárhagslega og telur rúmlega þrjú þúsund félagsmenn.“

Hefur aldrei neinn lagt í að fara á móti þér?

„Nei, það hefur enginn gert og vonandi er það vegna þess að félagsmenn eru sáttir við okkar störf sem förum með stjórn félagsins,“ svarar Vilhjálmur, en kveðst harðákveðinn í að færa sig um set í starfi missi hann neistann. „Þá mun ég stíga til hliðar en ég hef enn brennandi áhuga á starfinu. Það er fátt sem veitir mér meiri ánægju en að tilkynna félagsmönnum þegar við höfum haft betur eða náð árangri í að lagfæra kjör fólks. Frá þeim tíma sem við tókum við höfum við innheimt yfir 520 milljónir vegna kjarasamningsbrota. Hafi ég verið í vafa um tilvist stéttarfélaga þá hvarf sá vafi eins og dögg fyrir sólu eftir að ég tók við starfinu vegna þess að leikurinn, vinnuveitandi gegn starfsmanni, er svo ójafn.“

Er eitthvað mál sem hefur komið inn á borð til þín á þessum árum sem stendur upp úr?

„Mér er minniststætt mál sem kom upp í fyrra. Það voru hjón sem misstu son sinn eftir að hann hafði svipt sig lífi. Þar gat ég sett mig í þeirra spor. Ég reyndi að liðsinna þeim eftir fremsta megni og lét þau fá gjafakort til að nýta fyrir jólin. Það eitt og sér linaði auðvitað ekki þjáningar þessa fólks en ég veit að þetta kom sér vel fyrir unnustu mannsins og barn þeirra. Þetta var ekki stórt en það snart mig þakklætið. Það eru líka litlu hlutirnir sem skipta máli. Þarna gat ég líka notað mína sáru lífsreynslu til góðs. Ég þekki það af eigin raun að missa barn. Enginn getur ímyndað sér sársaukann nema að hafa upplifað það á eigin skinni. Þú jafnar þig aldrei en þú lærir að lifa með því.“

Þegar Vilhjálmur er spurður um mál þar sem hann hefði viljað ná betri árangri æsist hann allur upp. Keppnisskapið er mikið og réttlætistilfinning … Það er af nægu að taka. Verkalýðsbarátta er eilífðarverkefni.

„Lágmarkslaun á Íslandi eru 280 þúsund krónur sem er langt undir viðmiðum sem velferðarráðuneytið hefur gefið út sem neysluviðmið. Það er okkur í verkalýðsbaráttunni, samtökum atvinnulífsins og raun samfélaginu öllu til ævarandi skammar, að vera með launakjör sem duga ekki fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem hafa verið gefin út. Það er ég ósáttastur við. Þá er illa gert af stjórnvöldum á hverjum tíma fyrir sig að voga sér að taka 53 þúsund krónur í skatta af lágmarkslaunum upp á 280 þúsund. Það er algjörlega sturlað á sama tíma og ráðuneytið segir að þú þurfir ráðstöfunartekjur upp á 350 til 400 þúsund til að ná endum saman,“ segir Vilhjálmur. Honum finnst erfitt að horfast í augu við það að ekki hafi tekist betur að slá skjaldborg utan um þá sem standa höllustum fæti í samfélaginu.

Hinir ríku verja verðtryggingu

Það verður ekki hjá því komist að ræða verðtrygginguna við verkalýðsforingjann. Það má heyra gleðitón í rödd Vilhjálms en svo breytist tónninn snögglega. Vilhjálmur kveðst berjast fyrir afnámi verðtryggingar og lækkun vaxta á meðan hann standi uppréttur. Að hans mati valda verðtrygging og vextir mestum ójöfnuði á Íslandi og auðvelt sé að útskýra það. Vilhjálmur situr beggja megin borðsins og stýrir félagi með digra sjóði og á því auðveldara með að sjá hin hryllilegu áhrif sem þetta hefur á alþýðu landsins.

„Þegar verðbólgan hækkar um ákveðna X tölu, þá detta kannski inn á okkar reikninga tvær, þrjár milljónir, þá þegar neysluvísitalan hækkar mest á milli mánaða. Ég geri mér grein fyrir hvaðan þessir peningar koma. Þeir koma frá mínum eigin félagsmönnum og þeim sem skulda fjármálastofnunum. Þess vegna veit ég að fjármálaöflin, þeir sem eiga peningana, fjármálaelítan vill ekki undir nokkrum kringumstæðum afnema verðtrygginguna vegna þess að verðtrygging er ekkert annað en vextir sem skilar auknu magni til þeirra ríku.“

##Húsnæðisliður

„Ég hef líka barist fyrir öðru sem skiptir gríðarlega miklu máli. Það er að svokallaður húsnæðisliður sé inni í lögum um vexti og verðtryggingu. Þetta þekkist ekki í neinum löndum sem við erum að bera okkur saman við. Bara á síðustu 12 mánuðum, svo fólk átti sig á þessu, ef húsnæðisliðurinn væri ekki inni þá hefðu verðtryggðar skuldir lækkað um 43 milljarða, en vegna þess að húsnæðisliðurinn er inni þá hækkuðu skuldirnar um 36 milljarða. Þetta er mismunur upp á um 80 milljarða sem er verið að færa frá skuldsettum heimilum til þeirra sem eiga fjármagnið,“ segir Vilhjálmur og bætir við að um sé að ræða tölur sem myndu duga fyrir nýjum spítala. „Þetta eru sturlaðar tölur. Það voru allir stjórnmálaflokkar, heyrðist mér, fyrir síðustu kosningar sem vildu taka húsnæðisliðinn út.“

Vilhjálmur bendir á að í nýjum stjórnarsáttmála sé nú talað um að taka húsnæðislið til skoðunar.

„Þetta breytist alltaf eftir kosningar, þá á að fara skoða. Það er líka svo auðvelt að standa við það. Það er svo auðvelt að skoða hlutina og gera svo ekki neitt.“

Að mati Vilhjálms þarf að breyta tveimur atriðum í lögum um vexti og verðtryggingu, taka húsnæðislið út og afnema verðtryggingu og það þurfi að ráðast í strax. Bætir Vilhjálmur við og er mikið niðri fyrir að löngu tímabært sé að stjórnvöld taki stöðu með almenningi í landinu og hætti skefjalausu dekri við fjármálaöflin í landinu.

Eru það ekki fjármálaöflin sem stjórna landinu en ekki stjórnmálamennirnir?

„Það liggur fyrir. Það er eins og stjórnmálamenn á hvaða tíma sem er þori ekki almennilega að fara gegn þessum öflum,“ segir Vilhjálmur og tekur nýlega bónusa sem dæmi. Frétt um að stjórnendur Klakka hefðu samþykkt að greiða sér himinháa bónusa hefur vakið reiði.

Það er eins og stjórnmálamenn á hvaða tíma sem er þori ekki almennilega að fara gegn þessum öflum

„Þar er verið að afhenda 550 milljónir til 9 einstaklinga, um 60 milljónir á mann, og þetta fyrirtæki tengdist Exista, Lýsingu sem fóru í þrot á sínum tíma og skildu eftir sig blóðuga slóð hjá þúsundum Íslendinga,“ segir Vilhjálmur. Nú fýkur verulega í verkalýðsforingjann sem segir með öllu ólíðandi að misbjóða siðferðis- og réttlætiskennd þjóðarinnar með þessum hætti. „Við Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, ætlum að mótmæla þessu klukkan 13.00 og þenja flautur fyrir utan skrifstofur félagsins. Við mótmælum þessu siðrofi sem menn virðast ætla að ástunda enn og aftur.“

Vilhjálmur og Ragnar eru miklir mátar og hafa þekkst í átta ár, eða allt frá því að Ragnar fór að skipta sér af verkalýðsmálum. Þeir búa yfir svipaðri sýn í pólitík. Það vakti mikla athygli þegar Ragnar sigraði í formannskosningu VR. Ragnar og Vilhjálmur eiga það sameiginlegt að hafa farið gegn ríkjandi stjórn og sigrað. Vilhjálmur barðist við varaforseta Alþýðusambandsins á Akranesi.

„Það er ævintýralegt hvernig Ragnar komst til valda. Hann sigraði þessa risa með forystu Alþýðusambandsins á móti sér. En það skiptir ekki öllu máli hvort maður sé innundir hjá forystunni, það eru félagsmennirnir, að fá fólkið til að styðja sig.“

Enn og aftur eru lífeyrissjóðir að koma við sögu þegar berast tíðindi af bónusum. Það fauk í ykkur Ragnar við þessi tíðindi, ekki satt?

„Heldur betur. Lífeyrissjóðirnir teygja anga sína nánast inn í hvert einasta fyrirtæki á landinu. Það gerir það að verkum að samkeppnisstaða á olíumarkaði, fjarskiptamarkaði og flutningageira verður engin þegar lífeyrissjóðir eiga orðið nánast 50 prósent eða meira í þessum fyrirtækjum. Þetta bitnar á okkur sjálfum, sjóðsfélögum og vöruverð hækkar.“

Þá bendir Vilhjálmur á að sjóðirnir eigi einnig stóran hlut í Gamma og Heimavöllum.

„Sjóðirnir eru komnir úti um allt sem gerir það að verkum að húsnæði og leiguverð hefur snarhækkað. Hvert fer það? Nú, beint út í vísitöluna sem við fáum í bakið í hækkun á höfuðstól íslenskra lána.“

Vilhjálmur bætir við að fasteignasjóðirnir hafi sett ungt fólk í húsnæðisvanda. Fólk býr jafnvel heima þar til það er komið á fertugsaldur og þá eru fjölmörg dæmi um að fullorðnir einstaklingar taki sig saman í að leigja húsnæði. Öðruvísi fái það ekki þak yfir höfuðið.

Vilhjálmur segir að verkalýðsforingjar eigi ekki að vera merktir stjórnmálaflokkum. Hann viðurkennir þó að hafa viljað sjá Flokk fólksins, Miðflokkinn og Framsóknarflokkinn í ríkisstjórn vegna málefna þessara flokka.
Styður góð málefni Vilhjálmur segir að verkalýðsforingjar eigi ekki að vera merktir stjórnmálaflokkum. Hann viðurkennir þó að hafa viljað sjá Flokk fólksins, Miðflokkinn og Framsóknarflokkinn í ríkisstjórn vegna málefna þessara flokka.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Á fundum með Sigmundi

Vilhjálmur fylgist vel með stjórnmálum. Blaðamaður bendir á að verkalýðsforinginn hafi að hans mati verið hliðhollur Framsóknarflokknum í skrifum sínum. Það ætti ekki að koma á óvart þar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, talaði um í sinni stjórnartíð að hann vildi afnema verðtrygginguna. Fyrir kosningar í haust mátti svo ráða af ýmsu sem Vilhjálmur lét frá sér á samskiptamiðlum að hann fylgdi nú Miðflokknum að málum. Það liggur því beinast við að spyrja hvar Vilhjálmur standi í pólitík.

„Forystumenn í verkalýðsfélögum eiga ekki að vera merktir einum ákveðnum stjórnmálaflokki. Hins vegar eiga þeir að styðja öll góð málefni, óháð flokkum. Það er rétt sem þú segir að árið 2013 gerist það að einn stjórnmálaflokkur lofar því sem ég hafði barist fyrir frá árinu 2009, sem var að leiðrétta forsendubrest heimilanna, taka á kröfuhöfum og afnema verðtryggingu. Ég er ekki í vafa um það að Framsóknarflokkurinn vann þennan svakalega sigur árið 2013 vegna þessara kosningaloforða.“

Vilhjálmur vill meina að Framsóknarflokkurinn hafi staðið við tvö af þessum loforðum. Sigmundur Davíð hafði haldið fram að hægt væri að ná 300 milljörðum af kröfuhöfum. Segir Vilhjálmur að Sigmundur hafi gert gott betur og náð 500 til 600 milljörðum. Þá hafi tekist að leiðrétta forsendubrest heimilanna. Á árinu 2013 var Vilhjálmur í miklum samskiptum við Sigmund Davíð og hélt 16 fyrirlestra á fundum flokksins.

„Það var eitt mál sem menn komu ekki í gegn og það var að leiðrétta verðtryggingu. Ég var skipaður í hóp af Sigmundi Davíð. Ég fékk skipunarbréf frá honum og í því stóð stutt og laggott að verkefni hópsins væri að afnema verðtryggingu og koma með tímasetta áætlun. Á öðrum fundi fann ég að enginn vilji var til að fara í þessa vegferð.“

Sjálfstæðismenn stóðu í veginum, grimmir fyrir járnum. Þeir ætluðu aldrei, að mati Vilhjálms, að afnema verðtrygginguna.

„Það þarf ekki nema skoða ræður þeirra þingmanna sem þar voru. Það var aldrei neinn vilji til að ráðast í þetta verkefni.“

Tilkynnti Sigmundi að hann væri hættur

Það er ljóst á tóni Vilhjálms að þarna hafi átt sér stað tími vonbrigða. Hann átti marga fundi með Sigmundi Davíð á þessum tíma í stjórnarráðinu.

„Á einum fundinum sagði ég að ég væri hættur. Ég sagði við Sigmund: „Ég tek ekki þátt í þessu vegna þess að mitt skipunarbréf er alveg skýrt. Ég á að koma með tillögur hvernig við afnemum þessa verðtryggingu. Það var það sem þú fólst mér.“ Hann tók undir með mér en lagði hart að mér að fara ekki úr nefndinni og ég myndi frekar skila séráliti sem að hann lofaði mér að hann myndi reyna að berjast fyrir. Það var síðan niðurstaðan og ég var síðan einn á móti öllum hinum í sérfræðingahópnum og skilaði séráliti sem byggðist á því sem stóð í skipunarbréfinu. En eins og allir vita þurfti Sigmundur síðan að stíga til hliðar sem forsætisráðherra og þá var ljóst að verðtryggingarmálið var því miður endanlega dautt. Það fór gríðarlegur tími og orka í þessa baráttu og vonbrigðin voru gríðarleg. Þetta eru ein af þessum stóru vonbrigðum en samstarfið við Sigmund Davíð var mjög gott í þessu máli.“

Fyrir kosningarnar í haust var á ný rætt um að afnema verðtryggingu og taka húsnæðislið út. Segir Vilhjálmur að stjórnmálamenn í ákveðnum flokkum hefðu lofað því skýrt og greinilega.

„Ég er búinn að minna framsóknarmenn á þetta eftir kosningar. Ég er ekki í vafa um að það þurfi kjark og þor til að standa uppi í hárinu á fjármálaelítunni og setja hnefann niður.“

Hefur þú trú á að ný ríkisstjórn muni afnema verðtrygginguna eða standi við loforðin að einhverju leyti?

„Á meðan sjálfstæðismenn fara með fjármálaráðuneytið þar sem þessir hlutir gerast hef ég litla trú á því. Þess vegna er ég hissa á framsóknarmönnum að hafa gefið eftir fjármálaráðuneytið sem hefur með þennan málaflokk að gera. Ég ætla ekki að útiloka það fyrirfram að Bjarni muni ekki fara eftir stjórnarsáttmálanum en ég óttast svik. Það segir sig sjálft að þeir sem eiga gríðarlega fjármuni og eru innviklaðir inn í fjármálakerfið eins og viðskiptaráðherra, eru líklegri til að berjast á móti því að afnema verðtryggingu eða taka út húsnæðislið.“

Nú ríkir nokkur bjartsýni með nýja ríkisstjórn. Hefðir þú viljað sjá aðra flokka taka höndum saman?

„Ég hefði getað hugsað mér að sjá Flokk fólksins í ríkisstjórn. Ég get útskýrt það á einfaldan hátt, þeir vilja hjálpa fólki sem höllustum fæti standa, taka á verðtryggingu og húsnæðislið. Ég hefði viljað Miðflokk líka því þeir voru með sömu stefnumálin og svo hefði ég viljað fá Framsókn. Ég bar saman kosningaloforð þessara þriggja flokka og þeir voru sammála í 90% tilfella. Þess vegna varð ég mjög hissa að þeir skyldu ekki mynda eins konar bandalag, vegna þess að stefnuskrá þessara flokka var nákvæmlega eins að langstærstum hluta.“

##Sonarmissir og líf eftir dauðann

Sonur Vilhjálms, Óttar Örn Vilhjálmsson, svipti sig lífi árið 2014, aðeins þrítugur að aldri, faðir tveggja barna. Hefur Vilhjálmur síðan þá lagt baráttunni gegn sjálfsvígum lið og reynt eftir fremstu getu að opna umræðuna um þau. Hann telur þunglyndi, kvíðaröskun og áfengisneyslu lífshættulega sjúkdóma. Vilhjálmur hefur haldið minningu sonar síns á lofti með því að skrifa um hann á samskiptamiðlum. Að tala um reynslu sína við blaðamann tekur á fyrir Vilhjálm sem segist trúa á líf eftir dauðann. Vilhjálmur skrifaði nokkrum dögum eftir andlát Óttars:

„Mér er hugsað um lagið sem Helgi Björns söng „Geta pabbar ekki grátið“ Jú, pabbar geta svo sannarlega grátið því tárin streyma niður í hvert sinn sem ég slæ á lyklaborðið,“ sagði Vilhjálmur og bætti við: „Tár skríður niður kinn, aldan lekur af steini, sól sekkur í sæ, ég kveð en elska þó í leyni.

Mynd: Vilhjálmur Birgisson

Treystir þú þér til að tala um Óttar?

„Það er frekar erfitt. Þetta var bara 11. apríl 2014,“ segir Vilhjálmur og þagnar um stund. Síðan bætir hann við: „Fólk tæmist að innan við að missa barnið sitt og þegar ég hugsa til baka, þá er eitthvað sem gerist í líkamanum, það er eiginlega ekki hægt að lýsa því öðruvísi en að þú tæmist. Það er ekkert eftir. Svo fyllist tómarúmið af nístandi sorg sem þú reynir að kæfa með fallegum minningum um þann sem er farinn.“

Óttar eignaðist, eins og áður segir, tvö börn og eru þau mikið hjá Vilhjálmi og Þórhildi. Afasonurinn Róbert er níu ára í dag og Bríet, sem fæddist á sjálfan baráttudag verkalýðsins, 1. maí, er sex ára.

Mamma, allt væri betra ef pabbi væri ennþá til

„Mamma, allt væri betra ef pabbi væri ennþá til,“ sagði Róbert við mömmu sína þegar hann var fimm ára, nokkrum mánuðum eftir að hafa misst föður sinn. Vilhjálmur segir börnin standa sig vel og dýrmætt að hafa þau nærri.

Vilhjálmur missti son sinn vorið 2014. „Ég vil trúa því að ég finni fyrir honum, það sé líf eftir dauðann,“ segir hann.
Lærði að lifa með sorginni Vilhjálmur missti son sinn vorið 2014. „Ég vil trúa því að ég finni fyrir honum, það sé líf eftir dauðann,“ segir hann.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Börn og barnabörn gera mann ríkan,“ segir Vilhjálmur, en telur mikilvægt að ræða opinberlega um sjálfsvíg. „Það er lítið fjallað um sjálfsvíg en mikilvægt að gera slíkt, því við vitum aldrei hjá hverjum þessi vágestur bankar upp á. Þetta er yfirleitt ungt fólk sem fellur frá og erfitt að sjá utan á því hvort fólk sé að glíma við sálræn vandamál. Svo er það þannig að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.“

Eru jólin erfiður tími nú eftir að Óttar er farinn?

„Við komum alltaf öll saman, fjölskyldan, um jólin. Fyrstu jólin voru skelfileg, en svo lærði maður að lifa með sorginni og hvernig á að takast á við slíkt gríðarlegt áfall sem það er að missa barnið sitt.“

Trúir þú á líf eftir dauðann?

Ég vil trúa því að ég finni fyrir honum, það sé líf eftir dauðann

„Já, ég vil gera það. Ég vil trúa því að það sé líf eftir dauðann,“ segir Vilhjálmur.

Finnst þér þú finna fyrir stráknum þínum?

„Já, ég vil trúa því. Því sem þú trúir, það upplifir þú. Við förum reglulega upp í kirkjugarð. Það eru forréttindi uppi á Skaga, að þegar ég keyri til og frá vinnu, þá er garðurinn tuttugu, þrjátíu metra frá veginum. Það liggur við að ég sjái leiðið. Við förum þarna oft upp eftir. Ég vil trúa því að ég finni fyrir honum, það sé líf eftir dauðann.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Innleiða stafrænar stefnubirtingar

Innleiða stafrænar stefnubirtingar
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Elmar Örn dæmdur í 3,5 árs fangelsi fyrir nauðganir – Sendi myndbönd af glæpnum til konunnar í pósti

Elmar Örn dæmdur í 3,5 árs fangelsi fyrir nauðganir – Sendi myndbönd af glæpnum til konunnar í pósti
Eyjan
Fyrir 7 klukkutímum

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Nýr þáttur af Íþróttavikunni kominn út – Axel Óskar er gestur

Nýr þáttur af Íþróttavikunni kominn út – Axel Óskar er gestur