fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024

Jón Viðar Arnþórsson: „Sennilega það erfiðasta sem ég hef gert”

Lögreglumaður í hruninu – Safnar fágætum Íslendingasögum – Kjaftasögur um unnustu

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 1. desember 2017 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Margt hefur drifið á daga Jóns Viðars Arnþórssonar þrátt fyrir ungan aldur. Hann starfaði sem lögreglumaður í hruninu en sneri sér síðan að uppbyggingu bardagafélagsins Mjölnis og gerði það að stærsta bardagafélagi Evrópu. Í kjölfar átaka innan félagsins steig hann til hliðar frá daglegum rekstri þess sem hann segir vera það erfiðasta sem hann hefur gengið í gegnum. Kristinn H. Guðnason, blaðamaður DV, settist niður með Jóni Viðari og ræddi við hann um æskuna, lögreglustörfin, bardagafélagið Mjölni, áhugann á Íslendingasögunum og framtíðina.

Slóst alltaf við yngri systur sína

Jón Viðar býr í Hveragerði í dag, ásamt Sóllilju Baltasarsdóttur, unnustu sinni, en sem barn bjó hann á höfuðborgarsvæðinu og í Borgarfirði. „Ég segist alltaf vera frá Reykholti. Mér leið svo vel þar og náði tengingu við staðinn.“ Jón Viðar flutti þangað með foreldrum sínum þegar hann var tveggja ára en þeir skildu þegar hann var ellefu ára. Eftir það voru Jón Viðar og systir hans, Ingibjörg Helga, sem er fimm árum yngri, hjá móður þeirra. Jón Viðar og Ingibjörg eru mjög náin og hafa verið samferða í bardagaíþróttunum frá unglingsaldri. „Við erum mjög góðir vinir og búin að æfa saman lengi. Þegar við vorum yngri vorum við alltaf að slást.“

Jón Viðar byrjaði að æfa karate með Þórshamri árið 1996. Hann var Íslandsmeistari unglinga fimm ár í röð og í landsliðinu. Tveimur árum síðar byrjaði Ingibjörg að æfa. „Ég sá MMA fyrst á myndböndum á netinu. Áður en ég smalaði í fyrstu Mjölnisæfinguna árið 2003 æfði ég brögðin á systur minni á eldhúsgólfinu heima.“ Jón Viðar segir að Ingibjörg hafi herst við að glíma við hann. „Hún hefur orðið Íslandsmeistari í hnefaleikum og karate. Nú stefnir hún á feril í MMA.“

Meiri tími í Bruce Lee en menntaskólann

Skömmu eftir að Jón Viðar hóf að æfa karate fór hann að hafa mikinn áhuga á lífi Bruce Lee. „Ég varð alveg dolfallinn, bæði af honum sem íþróttamanni og heimspekingi. Hann brúaði bilið milli Kína og Bandaríkjanna og minnkaði fordóma gagnvart Kínverjum á Vesturlöndum. Hann gerði það að verkum að mig langaði svolítið til að vera Kínverji þegar ég var unglingur.“

„Ég prófaði líka flest sem ég sá í Bruce Lee-myndunum, bæði á systur minni og vinum mínum“

Jón Viðar segist ekki hafa verið sérstaklega vinsæll á gagnfræði- og menntaskólaárunum. Hann gekk í MK en hætti eftir rúmlega fjögur ár. „Ég var aðallega að hugsa um bardagaíþróttir og æfði tvisvar til þrisvar á dag. Ég keypti bækur og heimildamyndir um Bruce Lee og var farinn að eyða meiri tíma í að læra um hann en námsefnið í menntaskólanum. Ég hafði ekki mikinn áhuga á náminu og gekk ekkert sérstaklega vel.“

Hann segist ekki hafa verið vandræðaunglingur en lent iðulega í slagsmálum. „Ég slóst mikið sem unglingur þótt ég hafi ekki endilega leitað slagsmál uppi. Í dag þoli ég ekki ofbeldi. Ég prófaði líka flest sem ég sá í Bruce Lee-myndunum, bæði á systur minni og vinum mínum.“

Virkilega smeykur í hruninu

Um tíma vann Jón Viðar á skemmtistaðnum Vegamótum, sem glasabarn og seinna sem dyravörður. En árið 2005, skömmu eftir að hann hætti í MK, hóf hann störf í afleysingum sem lögreglumaður.

Var það æskudraumur þinn að verða lögga?
„Alls ekki. Ég var að ganga í menntaskólann einn kaldan vetrarmorgun þegar ég leit inn í lögreglubíl. Ég sá hvað lögregluþjónarnir höfðu það gott og mig langaði til að vera þar. Seinna dró Gunnar Scheving, félagi minn, mig inn í þetta.“

Lögreglustarfið átti vel við Jón Viðar og árið 2007 innritaði hann sig í Lögregluskólann. Hann hafði mikinn áhuga á að komast í sérsveit ríkislögreglustjóra og skráði sig sérstaklega í það inntökuferli sem er mjög eftirsótt og fáir komast að. Árið 2008 lauk hann inntökuferlinu. „Þá skall hrunið á og enginn peningur til hjá lögreglunni. Sérsveitin gat því ekki ráðið fleiri inn og ég starfaði áfram hjá almennu lögreglunni en æfði með sérsveitinni.“

Jón Viðar segir hrunið og óeirðirnar í kringum það hafa verið mjög erfiðan tíma og að álagið hafi verið gríðarlegt. Hann tók þátt í því að verja Alþingishúsið þegar hasarinn var hvað mestur. „Í tvö eða þrjú skipti var ég virkilega smeykur. Þarna var margt fólk og í byrjun vorum við fáliðaðir. Í eitt skipti fékk ég skilti í höfuðið og fékk stærðar kúlu. Þegar á leið varð lögreglan skipulagðari og þá gekk þetta betur og maður var öruggari. Oftast stóðum við kyrrir og fengum aðeins yfir okkur skyr og öskur. En maður gat búist við hverju sem var.“ Hann segir að tilfinningarnar á þessum tíma hafi verið blendnar. „Ég var líka fúll út í ríkisstjórnina en við þurftum að vinna vinnuna okkar. Það er gott að fólk mótmæli ef það er ekki sátt, en ég kann ekki við að það sé gert á ofbeldisfullan hátt.“

Þurfti aldrei að beita kylfu eða piparúða

Lögreglustarfið var bæði gefandi og erfitt að mati Jóns. Best fannst honum að geta hjálpað fólki. „Ég hafði minni áhuga á innbrotum, fíkniefnamálum og slíku. Mest fannst mér spennandi ef það voru slagsmál sem ég gat komið að og leyst úr eða ef fólk var í hættu eða leið illa. Að hnoða lífi í fólk og sjá raunverulegan árangur var virkilega gefandi.“ Hann segist margoft hafa þurft að beita ýmsum tökum sem hann kunni úr ISR- handtökukerfinu sem hann lærði í Miami árið 2006. „Ég þoli ekki ofbeldi en en þegar við komum að slagsmálum kom spenna í mig. Mig langaði til að hjálpa og nota það sem ég kunni til þess.“ Á þeim sex árum sem Jón starfaði sem lögreglumaður beitti hann aldrei kylfu og aldrei piparúða. „Ég notaði alltaf tök sem ég kunni og slasaði aldrei neinn. Ég er virkilega ánægður með þann árangur.“

Jón segir að nauðsynlegt sé að kunna réttu tökin í lögreglunni. Fyrir fjórum árum kom upp mál þar sem lögreglumaður beitti svokallaðri „norskri aðferð“ gegn konu í miðbæ Reykjavíkur. Lögreglumaðurinn var í kjölfarið dæmdur fyrir líkamsárás. „Það er til mikið af vitleysu í bardagaíþróttum en einnig ákveðin tök sem eru bæði örugg fyrir lögreglumanninn og þann sem er beittur þeim. Það yrði fáránlegt að taka einhvern sem á kannski erfiðan dag og rífa hann úr axlarlið og brjóta á honum hnéð. Fólk getur glímt við slíkt í mörg ár. Ég er ekki hrifinn af norska handtökukerfinu. Þessi maður var bara að nota eitthvert tak sem hann lærði en það er óöruggt og getur hæglega valdið slysi. Átök eru alltaf mjög óútreiknanleg og því skipta réttu tökin og rétt þjálfun miklu máli.“

Erfiðast að tala við ættingja látinna

Eins og gefur að skilja komu upp mörg erfið mál á útkallsdeildinni þar sem Jón Viðar starfaði. Til dæmis þegar hann kom að ungu látnu fólki. „En það fólk var farið. Að þurfa að tala við ættingja látinna var miklu erfiðara. Að sjá sorgina og heyra öskrin.“ Þá kom hann einnig oft að fólki sem var á virkilega vondum stað í lífinu. „Ég man sérstaklega eftir einu máli sem mér varð hreinlega óglatt af. Þá komum við að stúlku sem leið illa og var búin að vera að skera sig. Við reyndum að tala við hana en hún grúfði sig fram með hárið lafandi eins og í einhverri hryllingsmynd, með fingurna ofan í stórum skurðum á hendinni að deyfa sínar andlegu kvalir með líkamlegum. Ég fór að hugsa um hversu illa fólki gæti liðið, ég hef aldrei kynnst neinu í líkingu við þetta.“

„Ég man sérstaklega eftir einu máli sem mér varð hreinlega óglatt af“

Hann segist ekki hafa þurft að leita sér sálfræðilegrar aðstoðar eftir útköll eins og margir. „Sumir lögreglumenn hafa brotnað algjörlega niður. Þetta getur orðið of mikið og ef fólk nær ekki að tala um þetta við neinn getur þetta bugað mann. Ég held að ég sjálfur hafi náð að byggja upp einhverja skel gagnvart þessu og kúplað mig út á réttum tíma.“
Árið 2011 bauðst Jóni Viðari loksins staða hjá sérsveitinni en þá var íþróttafélagið Mjölnir, sem hann stýrði í hlutastarfi, að stækka mjög hratt. „Ég þurfti að velja á milli. Mig dauðlangaði til að verða sérsveitarmaður en Mjölnir var eins og barnið mitt. Ég gat ekki farið frá því.“ Jón hætti hjá lögreglunni og rekstur Mjölnis varð hans aðalstarf.

Vildi í UFC

Íþróttafélagið Mjölnir var stofnað út frá Þórshamri og SBG Iceland árið 2005. Jón og Gunnar Nelson voru meðal níu stofnfélaga en þeir eru ekki allir lengur í félaginu. Verkefnið var metnaðarfullt og Jón setti sér strax háleit markmið. „Ég ætlaði að gera þetta að stærsta bardagaklúbbi Íslands, sem tókst. Síðan að stærsta bardagaklúbbi Evrópu, sem tókst líka.“ Iðkendunum fjölgaði hratt og þar skipti góð markaðssetning sköpum og hún var ekki bundin við Ísland. „Ég klippti myndbönd allar nætur til að sýna fólki eitthvað nýtt og ferskt frá Íslandi. Maður lærði að ná til fólks og gera þetta spennandi. Svo fór Gunni að gera mjög góða hluti og var mikið í fjölmiðlum.“

Takmarkið hjá Jóni Viðari var að feta sömu slóð og Gunnar. „Planið var alltaf að keppa í MMA. Ég keppti mikið, bæði í karate og glímu á árunum 1996 til 2007. En á einni æfingu var mér kastað illa, ég lenti á olnboganum og fór úr axlarlið. Nákvæmlega það sama kom fyrir hina öxlina nokkrum árum seinna og þá sneri ég mér alfarið að þjálfun og rekstri Mjölnis.“

Jón Viðar segir að samstarfið við Conor McGregor hafi gert sitt til að vekja athygli á Mjölni. Hann hafi þó ekki verið nein stjarna þegar þeir hittust fyrst. „Þegar hann kom hingað fyrst átti hann ekki bót fyrir boruna á sér. Hann bjó uppi á háaloftinu hjá mér og ég þurfti að lána honum fyrir samloku. Í fyrstu tvö skiptin var hann bara að æfa og djamma með okkur. En í þriðja skiptið sem hann kom hingað var hann orðinn nokkuð stórt nafn. Conor er allt annar maður þegar hann er fyrir framan myndavélarnar. Sem manneskja er hann viðkunnanlegur og auðmjúkur. Þegar hann er að búa til peninga rífur hann kjaft við alla, af því að hann er góður í því og er fyndinn.“

„Ég varð svo reiður að ég reif hann úr peysunni og æpti á hann“
Greip ræningja „Ég varð svo reiður að ég reif hann úr peysunni og æpti á hann“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Hafnaði Jóni stóra

Vöxtur Mjölnis hefur verið lygilega hraður undanfarin tólf ár. Árið 2011 flutti félagið frá Mýrargötu í Loftkastalann og þá var bætt við svokölluðu Víkingaþreki inn í dagskrána. Þá tvöfaldaðist iðkendafjöldinn úr á þriðja hundrað í sjötta hundrað. Í dag eru iðkendur komnir yfir 2.000 manns. Aðspurður hvort Mjölnir sé tískufyrirbæri segir Jón Viðar: „Fólki fannst við töff, bæði fyrir það sem við gerðum og fyrir hvað við stóðum. Við seldum mörg þúsund boli og hettupeysur.“

Jón Viðar minnist sérstaklega eins atviks þegar hann var enn starfandi lögreglumaður. „Við vorum kallaðir út vegna vopnaðs ráns í 10-11 og þegar ég handtók ræningjann sá ég að hann var klæddur í Mjölnis-peysu. Ég varð svo reiður að ég reif hann úr peysunni og æpti á hann. En svo þurfti að taka myndir af honum til að bera saman við öryggismyndavélarnar og þá þurfti ég að klæða hann aftur í peysuna. Það var ömurlegt.“ Jón Viðar segir að hann hafi séð ræningjann einu sinni í Mjölni. „Honum fannst þetta mjög vandræðalegt.“

Þegar Mjölnir var stofnaður gerðu Jón Viðar og félagar hans sér grein fyrir því að fólk tengt undirheimunum myndi leita til þeirra. „Við höfum alltaf verið mjög ströng hvað þetta varðar og vísum fólki í burtu sem er í einhverju rugli, fólki sem er að gera eitthvað ólöglegt og berja mann og annan. Það er óöruggt og vill geta varið sig því það er svo mikil hætta í undirheimunum.“ Hann segir þetta yfirleitt hafa gengið átakalaust fyrir sig. „Reyndar var svolítið vesen með Jón stóra. Hann gekk upp að mér á íþróttakynningu í Mosfellsbæ og vildi fá að æfa, en ég sagði við hann: Því miður þú getur ekki æft hjá Mjölni. Hann sagði að ég gæti ekki bannað honum það, en ég sagði bara: Jú, ég get það víst.“ Aðspurður hvort hann hefði ráðið við hann segir Jón Viðar: „Já, ég held að það hefði ekki verið mikið vandamál þótt hann hafi verið stór og mikill. Fólk var fyrst og fremst hrætt við hann.“

Fornritasafnari

Jón Viðar er í sambandi með Sóllilju Baltasarsdóttur. Þau kynntust við tökur á þáttaröðinni Ófærð sem faðir hennar, Baltasar Kormákur, leikstýrði. „Svo hittumst við aftur við tökur á kvikmyndinni Eiðinum. Ég bauð henni í partí sem ég hélt á Vegamótum og við byrjuðum strax saman eftir það.“ Þau hafa nú verið saman í tæp tvö ár og í september síðastliðinn fluttu þau saman í hús í Hveragerði. „Hún er á kafi í ljósmyndun og hefur frábært auga fyrir þeim. Einnig hefur hún mikinn áhuga á kvikmyndum.“

Jón Viðar á sex ára son, Þorleif Óðin, með Ágústu Evu Erlendsdóttur leikkonu en þau kynntust í gegnum starfið í Mjölni. Í desember 2015 slitu þau samvistum og Ágústa dró sig þá úr starfsemi Mjölnis. „Þetta var svolítið stirt og erfitt til að byrja með. En í dag er allt gott á milli okkar og við tölum reglulega saman. Hún býr nú á Spáni með Þorleif en ég hitti hann reglulega.“

„Ég er kominn með mjög gott safn og takmarkið er að eiga fyrstu prentanir af þeim öllum“

Jón Viðar er mikill aðdáandi Megasar sem var fenginn til að spila í nafnaveislu Þorleifs. Sú nafnaveisla var þó ekki alveg hefðbundin. „Við létum útbúa „kirkjugólf“ inni í stofu hjá okkur og frændi minn, leikarinn Ingvar E. Sigurðsson, lék prestinn.“ Jón segist hrífast sérstaklega af orðsnilld Megasar. „Textarnir eru svo frábærir og það er svo gaman að horfa á hann koma fram.“ Megas hefur einnig spilað í afmæli Jóns.

En það er ekki aðeins orðsnilld Megasar sem heillar Jón Viðar. Fyrir nokkrum árum fékk hann mikinn áhuga á íslenskum fornritum og nú safnar hann fyrstu prentunum af Íslendingasögum, frá 17. og 18. öld. „Ég leita að þessu úti um allt og er með menn sem leita fyrir mig. Ég held að ég sé búinn að eyða öllum peningunum mínum í þetta,“ segir hann og hlær. „Ég er kominn með mjög gott safn og takmarkið er að eiga fyrstu prentanir af þeim öllum. Yfirleitt er þetta aðeins til á söfnum en það finnst stundum ein og ein bók í dánarbúi.“ Hús Mjölnis, auglýsingar, bolir og fleira er skreytt út frá þessum textum og hugmyndum.

Mestar mætur hefur Jón Viðar á Egils sögu Skallagrímssonar en ekki vegna Borgarfjarðartengingarinnar. „Aðallega vegna þess hversu klikkaður hann var. Ég skil ekki af hverju það er ekki búið að gera bíómynd um hann.“
Jón Viðar hefur einnig miklar mætur á Snorra-Eddu og allri goðafræðinni. Hann er skráður í Ásatrúarfélagið en er ekki virkur félagsmaður. „Ég er ekki trúaður á þetta, ég trúi ekki á neitt yfirnáttúrulegt. En ég er hrifinn af sögunum, menningunni og boðskapnum.“

„Mér þykir enn þá vænt um fólkið þarna en ég hef ekki mikinn áhuga lengur á að starfa í þessu umhverfi“
Yfirtaka „Mér þykir enn þá vænt um fólkið þarna en ég hef ekki mikinn áhuga lengur á að starfa í þessu umhverfi“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Sárt að stíga út

Vöxtur Mjölnis var það hraður að Loftkastalinn sprakk fljótlega utan af starfseminni. Þá stóð til að flytja félagið í 3.000 fermetra húsnæði í Öskjuhlíð. „Við réðum ekki við framkvæmdirnar. Þetta kostaði sitt og reyndist þrefalt eða fjórfalt dýrara en við reiknuðum með.“ Um 150 milljónir. Jón segir Conor hafa lýst yfir áhuga á að taka þátt. „En hann á erfitt með að festa sig í einhverju.“

Síðasta vetur komu Róbert Wessman, Arnar Gunnlaugsson og fleiri inn sem nýir fjárfestar í félaginu Öskjuhlíð GP ehf. „Ég, Halli og Gunni vorum með kynningar og fengum þá á fund hjá okkur. Þeir voru aðdáendur íþróttarinnar og vildu koma að þessu.“ Öskjuhlíð GP á nú um þriðjung í rekstrarfélaginu í kringum Mjölni, Jón Viðar og Gunnar tæplega þriðjung hvor og nokkrir aðrir eigendur, þar á meðal Haraldur Dean, með nokkur prósent. „Þeir vildu breyta ákveðnum hlutum í stjórnun Mjölnis en ég var ekki hrifinn af því, við höfum ólíkar áherslur. Ég byggði Mjölni upp frá grunni og hafði ekki áhuga á að einhver yrði yfir mér í því.“

Vísir greindi frá því að þann 23. ágúst haldinn hefði verið átakafundur í stjórn Mjölnis. Jón Viðar furðar sig á því. „Þessi fundur var aldrei haldinn. Það voru smá átök fyrr um sumarið og ég kunni ekki við þá stefnu sem nýju hluthafarnir og fleiri vildu taka.“

Jón Viðar segir einnig að stemningin hafi súrnað og sumir innan félagsins haldið kjaftasögum á lofti um ýmsa hluti, meðal annars stöðu Sóllilju Baltasarsdóttur, sem var ráðinn markaðsstjóri Mjölnis. „Hún er dóttir Baltasars Kormáks og kærastan mín og fær síðan flotta stöðu hjá Mjölni. Sumir héldu að þetta væri einhver klíkuskapur en hún var búin að vinna hjá okkur sjálfboðavinnu í átta mánuði á undan og skilaði frábærri ljósmynda- og myndbandavinnu. Okkur vantaði skyndilega manneskju í stöðu markaðsstjóra og ég, Gunni og Halli réðum hana inn. Fólk taldi ranglega að ég hefði ákveðið þetta einn.“ Hann segir kjaftasögurnar um að hún væri á mjög háum launum rangar. „Það er algjör þvæla. Hún var á sama taxta og aðrir í hennar stöðu og fékk vinnuna af því að hún er mjög hæfileikarík og gerði frábæra hluti fyrir okkur.“

Þann 26. ágúst gaf Jón Viðar út yfirlýsingu á Facebook þess efnis að hann myndi stíga til hliðar. Hann segir nú: „Eins og staðan er í dag þá er ég enn þá í stjórn og ég er enn þá eigandi en er að kúpla mig út úr almennum rekstri.“ Hann segir sambandið við Gunnar gott en hefur minni áhuga á að starfa með ákveðnum aðilum. „Mér þykir enn þá vænt um fólkið þarna en ég hef ekki mikinn áhuga lengur á að starfa í þessu umhverfi.“

En telur þú að félagið hafi verið tekið yfir af nýju eigendunum?
„Já, að einhverju leyti. En ég bakkaði út úr þessu. Það var hrikalega sárt, sennilega það erfiðasta sem ég hef gert. En ég er sæmilega sáttur í dag og hef ákveðnar hugmyndir um framtíðina og ætla mér stóra og spennandi hluti.“ Hann segist ekki enn hafa ákveðið hvort hann verði áfram í eigendahóp Mjölnis.

Spenntur fyrir framtíðinni

Eins og áður sagði lærði Jón Viðar handtöku- og neyðarvarnarkerfið ISR Matrix í Miami árið 2006. Síðan þá hefur hann orðið yfirmaður ISR-samtakanna í Evrópu og stofnað fyrirtæki hér á landi með nokkrum öðrum lögreglumönnum, ISR Matrix. „Þetta eru tök sem henta fólki sem starfar við hættulegar aðstæður, til dæmis lögreglumenn, sérsveitarmenn, hermenn, njósnara, dyraverði, lífverði, flugfreyjur og marga fleiri hópa. Við erum einnig með sérstök neyðarvarnarnámskeið fyrir konur.“ Meðal þeirra aðila sem nota kerfið erlendis eru alríkislögreglan FBI, sérsveit bandaríska flughersins, sérsveit kínversku lögreglunnar og lögreglan í Ástralíu.

Hingað til hefur starfsemi ISR Matrix farið fram í húsnæði Mjölnis en Jón Viðar hyggst flytja hana í nýtt húsnæði um áramótin. Þá ætlar hann að einbeita sér að þessu verkefni að fullu en hingað til hefur þetta verið hliðarstarf hjá honum. „Takmarkið hjá mér er að kynna þetta kerfi fyrir flestum stofnunum og fyrirtækjum sem þurfa á þessu öryggi að halda. Einnig vera með námskeið á kvöldin fyrir þá sem vilja læra fyrir sig sjálfa.“ Hann segir að allir með hreina sakaskrá megi læra grunninn í kerfinu en aðeins lögreglumenn og þeir sem beri skotvopn við störf megi læra meira en það.

Jón Viðar hefur sinnt þjálfun lögreglumanna í kerfinu en einnig hefur hann verið í samstarfi við Alþingi, Ríkislögreglustjóra, Slökkviliðið og mörg önnur fyrirtæki og stofnanir. Hann segir þetta allt annars eðlis en íþróttirnar í Mjölni. „Það er allt annað að glíma á dýnu með dómurum og reglum heldur en úti á götu með engum reglum. Það geta verið hnífar og hver veit hvað. Ég hef aldrei séð tök sem henta götunni og lögreglunni eins vel og þessi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Hvetur United til að horfa í óvænta átt: Harðhausinn aftur heim? – ,,Gæti smellpassað“

Hvetur United til að horfa í óvænta átt: Harðhausinn aftur heim? – ,,Gæti smellpassað“
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Stórstjarnan plataði alla með nýrri mynd: Margir voru áhyggjufullir – Sjáðu svakalegan mun

Stórstjarnan plataði alla með nýrri mynd: Margir voru áhyggjufullir – Sjáðu svakalegan mun
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Guardiola: ,,Þurfum að skoða það í lok tímabils“

Guardiola: ,,Þurfum að skoða það í lok tímabils“
Fókus
Fyrir 7 klukkutímum

Forsetaframbjóðandinn sem gerðist miðill – Hannes lætur efasemdaraddirnar sem vind um eyru þjóta

Forsetaframbjóðandinn sem gerðist miðill – Hannes lætur efasemdaraddirnar sem vind um eyru þjóta