Fókus

Hildur: „Að koma að barninu sínu látnu í rúminu sínu er ekki það sem nokkur getur hugsað sér að eiga von á“

Dóttir Hildar Hólmfríðar var aðeins 15 ára þegar hún lést af of stórum skammti af Contalgin – Vill hefja forvarnarfræðslu fyrr í grunnskólum – „Ég er bara með myndir þannig að krakkarnir sjá svart á hvítu hvernig þetta getur endað“

Auður Ösp
Þriðjudaginn 28. nóvember 2017 22:00

„Hún sagði einhvern tímann við mig: „Mamma, ef ég fell einhvern tímann þá veit ég alveg hvað ég má taka mikið.“ Ég sagði við hana að þetta virkaði ekki svoleiðis. Þetta er bara rússnesk rúlletta. Þú tapar alltaf. Sem náttúrulega gerðist á endanum. Hún tapaði þessu,“ segir Hildur Hólmfríður Pálsdóttir, móðir Ölmu Maureen Vinson en Alma lést í október árið 2014 eftir að hafa tekið inn of stóran skammt af morfínlyfinu Contalgin. Hún var þá aðeins 15 ára gömul og var búin að vera í neyslu í þrjú ár. Hildur segir úrræði skorta fyrir ungmenni sem leiðst hafa út á þessa braut og vill nú segja sögu Ölmu í forvarnarskyni. Rætt var við Hildi Hólmfríði í Mannlega þættinum á Rás 1 fyrr í dag

DV greindi frá sögu Ölmu í byrjun þessa árs en hún var aðeins 12 gömul þegar hún fór út í neyslu fíkniefna og ekki leið langur tími þar til hún varð læknadópi að bráð. Hildur upplifði verstu martröð allra foreldra þegar hún kom að dóttur sinni þar sem hún var látin í rúminu á heimili sínu.

„Aldrei í lífinu hélt ég að ég ætti eftir að gera þetta, að sitja heima með tárin í augunum að skrifa minningargrein um dóttur mína. Elsku litli fallegi engill, það eru engin orð sem fá því lýst hversu mikið við söknum þín. Núna er allt svo hljótt, enginn söngur úr herberginu þínu, enginn gítarleikur, og ekkert verið að kalla á mömmu sína til að biðja hana um að koma með eitthvað,“ skrifaði Hildur í minningargrein um Ölmu á sínum tíma. Á öðrum stað ritaði hún:

„Að koma að barninu sínu látnu í rúminu sínu er ekki það sem nokkur getur hugsað sér að eiga von á, við stóðum hérna agndofa, ég og bróðir hennar, skelfingin var svakaleg.“

Fram kom í grein DV að Hildur gagnrýndi úrræðaleysi í samfélaginu þegar kemur að ungum fíklum og í samtali við Kastljós sagði hún forvarnir þurfa að hefjast fyrr.

Þá kom fram að Alma hafði átt sína drauma, hún hafði stórt hjarta og vildi láta gott af sér leiða, ljúka skóla og starfa við sálfræði og félagsfræði og stofna meðferðarheimili fyrir börn. Til þess kom aldrei. Hún varð fíkninni að bráð og lyfseðilsskylt lyf dró hana til dauða.

Alma Maureen Vinson lést aðeins nokkrum dögum fyrir 16 ára afmælið sitt.
Átti drauma Alma Maureen Vinson lést aðeins nokkrum dögum fyrir 16 ára afmælið sitt.

Rætt var við Hildi Hólmfríði í Mannlega þættinum á Rás 1 fyrr í dag og sagði hún meðal annars frá því hvernig neysla Ölmu hófst og hvernig úrræðaleysi kerfsins var algjört.

„Þegar hún var að gera eitthvað af sér og var að strjúka og það þurfti að leita hana uppi þá var hún send í neyðarvistun á Stuðla. Það úrræði er náttúrulega bara í einn, tvo daga og þá var hún send heim aftur,“ sagði Hildur og bætti við að í raun hafi innlögn á Vog verið það eina í stöðunni en þangað fór Alma nokkrum sinnum í meðferð. Á Vogi var hún innan um eldri krakka og telur Hildur að úrræðið sé að því leyti gallað.

Þá segir hún neyslu Ölmu hafa þróast mjög hratt og á meðan hafi aðstandendur hennar þurft að standa hjá og gátu þau lítið gert. Alma sökk djúpt í neyslu á hörðum efnum og var farin að sprauta sig þegar hún var fjórtan ára. Hildur segir að Alma hafi fundist hún vera „rosalega fullorðin“ þrátt fyrir að hún hafi augljóslega verið bara barn.

Þá bendir hún á að í dag sé ennþá harðari efni komin á markaðinn en hún telur forvarnarfræðslu byrja of seint í grunnskólum. Nær sé að byrja fræðslu í kringum 12 ára aldur. Það langar henni að gera með því að fara í skóla og segja nemendum sögu Ölmu en hún hefur meðal annars sett sig í samband við bæjaryfirvöld í Kópavogi og Guðmund Fylkisson lögreglumann sem hefur undanfarin ár leitað að hinum svokölluðu „týndu börnum.“ Þá hefur hún nú þegar flutt slíkan einn fyrirlestur fyrir þrjá bekki grunnskóla og mældist það vel fyrir.

„Ég er bara með myndir þannig að krakkarnir sjá svart á hvítu hvernig þetta getur endað. Ég er með myndir af henni í líkkistunni, reyndar með klút fyrir andlitinu,“ segir hún en hún líkir því að eiga barn í neyslu við það að eiga langveikt barn.

„Fólk heldur voða mikið að krakkar sem fari í neyslu komi fra brotnum heimilum þar sem foreldrarni séu í rugli. Mér finnst það í fæstum tilfellum svoleiðis. Hún kemur bara frá venjulegu heimili.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af