Fókus

Sorgarferlið sem ævintýri

Aude Busson leikstýrir nýju íslensku leikriti fyrir sex ára og eldri um Hafrúnu sem saknar nýlátinnar ömmu sinnar

Kristján Guðjónsson
Laugardaginn 11. nóvember 2017 21:00

Í síðasta mánuði var frumsýnt í Tjarnarbíói nýtt leikrit fyrir sex ára og eldri, Íó eftir Ragnheiði Hörpu Leifsdóttur. Í leikritinu slást áhorfendur í för með Hafrúnu, lítilli stelpu sem hefur nýlega misst ömmu sína. Hún tekst á við tilfinningar sínar í ævintýralegu ferðalagi sem hvíti hrafninn Íó dregur hana í. Verkið fjallar um sorgarferli barns á sjónrænan og ljóðrænan hátt að sögn leikstjórans, frönsku sviðslistakonunnar Aude Busson.

Leikurinn og óþekktin

Aude hefur verið búsett á Íslandi í meira en áratug, útskrifaðist af sviðshöfundabraut LHÍ árið 2011 og hefur verið virkur þátttakandi í íslenskri barnamenningu og -sviðslistum æ síðan. Hún gerði til að mynda þátttökuverkið Ég <3 Reykjavík, var einn af höfundum verksins Made in Children, sem var sýnt í Borgarleikhúsinu í fyrra, og hefur stýrt barnamenningarhátíðinni Assitej.

„Það eru margar ástæður fyrir því að ég hef farið í þessa átt. Í fyrsta lagi hef sjálf mikinn áhuga á barnamenningu. Ég les til dæmis barnabækur bara fyrir mig sjálfa,“ útskýrir Aude.

„Ég hef sérstaklega gaman að barnabókum sem eru mikið skreyttar og eru með litlum en ljóðrænum texta. Það er eitthvað við abstrakt nálgunina sem mér líkar, þar sem myndir eru notaðar til að láta mann finna fyrir einhverri tilfinningu eða hugsa um eitthvert fyrirbæri. Ég kann einnig vel að meta hvernig barnaverk fást oft við mjög stórar spurningar sem eru samt skildar eftir opnar. Það er eitthvað við þetta „naivety“, að geta talað um hvers kyns mál með einföldum orðum og spurningum, sem mér finnst mjög skemmtilegt,“ segir hún.

„En svo er það líka hitt, að mér finnst mjög gaman að vinna með börnum. Það er svo mikil gleði, leikur og óhlýðni sem mér finnst svo gaman að vinna með listrænt. Þegar maður gerir eitthvað með börnum fær maður strax svo mikil viðbrögð. Maður getur eiginlega ekki hætt. Þau eru svo hungruð. Það er svo auðvelt að fá börn til að tala um það sem þau voru að sjá, þau hafa öll skoðanir. En það er líka skemmtilegt að maður sér strax að þau eru ekki öll með sama smekk. Það er eitthvað sem er gaman að fá þau til að tala um – hvernig áhorfendur þau eru, hvort þau fíli það þegar það er mikil áhersla á sögu eða fíli það sem er myndrænt.“

Gríma Kristjánsdóttir í hlutverki Hafrúnar sem hittir hvíta hrafninn Íó – sem Aldís Davíðsdóttir bjó til og stýrir.
Hafrún og Íó Gríma Kristjánsdóttir í hlutverki Hafrúnar sem hittir hvíta hrafninn Íó – sem Aldís Davíðsdóttir bjó til og stýrir.

Sorgarferlið sem ævintýri

Á svipaðan hátt og barnabækurnar sem Aude talar um fjallar Íó um mjög stórar tilfinningar en á ljóðrænan hátt, Hafrún – leikin af Grímu Kristjánsdóttur – kynnist dauðanum í fyrsta skipti af eigin raun þegar amma hennar fellur frá.

„Hún saknar ömmu sinnar mikið og hefur ekki fengið tækifærið til að ganga í gegnum neitt sorgarferli. Það flýgur hvítur hrafn inn um gluggann hennar og fer með henni í gegnum sorgarstig barna: stöðvun, sorg, þunglyndi, reiði, skömm og svo sátt á endanum. Þá má kannski segja að verkið tengist svolítið nýjum áherslum í barnauppeldi þar sem hvatt er til þess að maður sýni og viðurkenni tilfinningar sínar en loki þær ekki bara af,“ segir Aude.

„Í verkinu erum við ekki beint að leika tilfinningarnar heldur taka þær sér bólfestu í náttúruöflunum – við notum myndlíkingar. Þarna verður sorgarferlið að eins konar ævintýraför. Barn sem segir frá sýningunni talar líklega um að þarna sé stelpa sem fari í gegnum ævintýri, lendi í sandi sem reynir að svæfa hana, sandurinn grætur og frá honum kemur táraflóð þar sem stelpan sekkur. Foreldrarnir eru svo eflaust með svolítið annan lestur en barnið. En þannig geta þau náð að tala um þessa hluti: af hverju var stelpan að leita að ömmu sinni? Af hverju fann hún hana ekki? Af hverju sökk hún í táraflóðinu?“

Óvenjulegt barnaverk

Sjónræni þátturinn leikur ekki minna hlutverk í að skapa töfraveröld verksins en textinn. Það er Sigríður Sunna Reynisdóttir sem hannar leikmyndina, Tanja Huld Levý Guðmundsdóttir sem gerir búninga, Arnar Ingvarsson sér um ljós og Aldís Davíðsdóttir býr til hvíta brúðuhrafninn Íó og stýrir honum í sýningunni. „Þetta er rosalega mikill ævintýraheimur,“ segir Aude.

„Það átti alltaf að vera lítill texti í verkinu, en hann hefur bara sífellt minnkað eftir því sem ferlið hefur haldið áfram. Það hefur líklega með smekk okkar að gera, en okkur fannst myndirnar eiga að geta sagt allt það sem við vildum segja. Við vildum líka hafa þær nógu opnar svo það þyrfti ekki að þröngva tilfinningunum í einhvern einn farveg, eins og það sé bara ein leið til að vera reiður og ein leið til að vera leiður. Við vildum að verkið væri mikil upplifun frekar en þétt saga,“ segir Aude.

„En þetta er dálítið óvenjulegt barnaverk í því landslagi sem við erum í. Þetta er mjög myndræn sýning og svolítið alvarleg. Hún er ekki með mikið af „punchline-um“ en flæðir bara áfram. Það er samt augljóst að börnin eru alveg með á nótunum frá upphafi til enda. Við vorum mjög ánægðar með að þetta virtist tala mikið til þeirra. Það er líka mikið hlegið þegar hrafninn og stelpan leika sér saman.“

Þá má nefna að Ásta Fanney Sigurðardóttir sér um tónlistina og segir Aude það bæta við nýrri ævintýralegri vídd í sýninguna: „Húmorinn hennar kemur skýrt í gegn í tónlistinni, til dæmis notar hún svolítið eitíslegan teiknimyndahljóm – við sem komum að sýningunni tengdum vel við það, enda allar aldar upp á níunda áratugnum. Hún var heldur ekki hrædd við að fara í myrku hliðarnar, sem er auðvitað mjög fín lína þar sem börn eru svo næm á hljóð í leikhúsi. Hljóðin þurfa að vera ný og svolítið ógnvekjandi – en samt ekki of.“

Töfraheimurinn í leikritinu Íó er ekki síst skapaður með fjölbreytilegri leikmynd, búningum og tónlist.
Myndrænt sjónarspil Töfraheimurinn í leikritinu Íó er ekki síst skapaður með fjölbreytilegri leikmynd, búningum og tónlist.

Einn partur af menningarlandslaginu

Aude segist finna fyrir því að áhugi og metnaður í barnasviðslistum hafi aukist á undanförnum árum, en hún segir mikilvægt að barnaverkin höfði einnig til eldri áhorfenda.

„Ég kem frá Frakklandi þar sem er afskaplega mikil barnasviðslistamenning, stórar hátíðir og slíkt. Ég man að fyrst þegar ég flutti til Íslands þá fannst mér verkin hér bara vera fyrir börn en ekki fullorðna um leið – ég á börn sjálf og ég vil helst fara á eitthvað sem mér finnst líka skemmtilegt. Mér finnst þetta hins vegar vera að breytast hérna. Fólk er að átta sig á að barnamenning er ekki einungis fyrir börn heldur einn partur af menningarlandslaginu,“ segir Aude og nefnir í því samhengi að það hvernig talað er um verk og þau auglýst geti skipti máli í því hvort eldri áhorfendur upplifi að verkið sé fyrir þá.

„Nokkur leikhús eru farin að auglýsa sýningarnar með ábendingum um aldur: „fyrir áhorfendur frá X ára.“ Þannig eru flest „fullorðinsverk“ merkt: „frá 14 eða 16 ára.“ Merkingar á verkum sem passa fyrir yngstu áhorfendurna eru ekki öðruvísi en á öðrum verkum – ekki með neinum sérstökum barnasýningastimpli. Mér finnst þetta áhugavert því það sýnir traust til áhorfendanna – hver og einn er einstakur og getur fundið fegurð í fjölbreytilegum verkum – en einnig traust til listamanna að verk þeirra muni finna sína áhorfendur.“

Kristján Guðjónsson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 5 dögum

Árið er 1998 – Svona bjuggu þær Carrie, Samantha, Miranda og Charlotte: 90’s lúkk og litir fyrir allann peninginn

Árið er 1998 – Svona bjuggu þær Carrie, Samantha, Miranda og Charlotte: 90’s lúkk og litir fyrir allann peninginn
Fókus
Fyrir 5 dögum

Glamour velur topp 24 kynþokkafyllstu knattspyrnumennina á HM: Rúrik og Ragnar sjá um að hækka hitastigið

Glamour velur topp 24 kynþokkafyllstu knattspyrnumennina á HM: Rúrik og Ragnar sjá um að hækka hitastigið
Fókus
Fyrir 6 dögum

Lauga (30) og Árni (28) á Torfastöðum: „Bændur eru bændum verstir“

Lauga (30) og Árni (28) á Torfastöðum: „Bændur eru bændum verstir“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Íslenska karlalandsliðið – MYNDIR: Hrikalega flottir í sérsaumuðum jakkafötum en mættu vinna betur með bindishnútana

Íslenska karlalandsliðið – MYNDIR: Hrikalega flottir í sérsaumuðum jakkafötum en mættu vinna betur með bindishnútana
Fókus
Fyrir 6 dögum

BÓKMENNTIR: Svikaskáldin fimm senda frá sér fagnaðarsöngva á morgun

BÓKMENNTIR: Svikaskáldin fimm senda frá sér fagnaðarsöngva á morgun
Fókus
Fyrir 6 dögum

TÍMAVÉLIN: Sexfætt lamb fæddist í Eyjafirði – Gat hvorki gengið né tekið spena

TÍMAVÉLIN: Sexfætt lamb fæddist í Eyjafirði – Gat hvorki gengið né tekið spena