Fókus

Högni: „Þessar freistingar og gylliboð eru hálfgerð geðveiki“ Ókyrrðin innra með mér

Kristján Guðjónsson skrifar
Fimmtudaginn 2. nóvember 2017 22:00

Það er áratugur frá því að Högni Egilsson skaust fyrst fram á sjónarsviðið í íslensku menningarlífi með hljómsveit sinni Hjaltalín og plötunni Sleepdrunk Seasons. Sveitin sló í gegn, jafnt meðal gagnrýnenda og almennra hlustenda, og söngvarinn og lagahöfundurinn varð að þekktu andliti í borgarmynd Reykjavíkur, stór karakter með áberandi útlit og háleitan listrænan metnað.

Fljótlega var hann orðinn eftirsóttt tónskáld á mörkum popptónlistar og klassíkur, en árið 2011 venti hann hins vegar kvæði sínu í kross og gekk til liðs við teknósveitina Gus Gus. Tvær plötur og fjöldi tónleikaferðalaga, taumlaust partí og innri átök, hafa tekið sinn toll og hefur Högni nú sagt skilið við hljómsveitina og einbeitir sér að eigin tónlist.

Fyrsta sólóplata Högna, Two trains, kom út á dögunum hjá breska útgáfufyrirtækinu Erased Tapes. Platan hefur verið mörg ár í smíðum en vinnan verið stopul, enda margt drifið á daga tónlistarmannsins, lífið hefur ekki verið einstefna, hann hefur runnið út af teinunum og tekið óvæntar beygjur. Kristján Guðjónsson ræddi við Högna um lífið og tónlistina, partí og geðveiki, ást og körfubolta.

Á listrænni siglingu

Aðdragandinn að fyrstu sólóplötu Högna Egilssonar hefur verið langur. Frumdrög hennar birtust í metnaðarfullu sviðsverki sem Högni stóð fyrir á Listahátíð í Reykjavík fyrir rúmlega sex árum. Tónlistin í verkinu var samstarfsverkefni Högna og Stephans Stephensen – sem er einnig þekktur sem President Bongo – eins stofnmeðlima teknósveitarinnar Gus Gus. „Við höfðum kynnst á klósettinu á knæpu í Reykjavík árinu áður. Ég þekkti hann varla neitt en við tengdum þegar við byrjuðum að spjalla um siglingar. Hann er mikill siglingamaður og ég líka, síðasta fasta vinnan sem ég hafði áður en ég fór út í tónlistina var að leiðbeina á siglinganámskeiði, kenna börnum og unglingum á kajak og svoleiðis. Stephan var að segja mér frá skútusiglingu sem hann ætlaði að fara í á Karíbahafinu um áramótin og spurði hvort ég vildi ekki bara koma með. Ég var og er mjög ævintýragjarn í eðli mínu svo ég sló bara til,“ segir Högni.

Það var svo á Karíbahafssiglingunni sem hugmyndin að verkinu fór að þróast. Stephan skyldi sjá um rafljóð, Högni syngja og annar ferðafélagi í siglingunni, píanóleikarinn Davíð Þór Jónsson, spila. Þá bættist við hugmyndin að fá karlakórinn Fóstbræður með og myndlistarmanninn Hrafnkel Sigurðsson til að myndstýra sjónarspilinu. Heildarkonsept sviðsverksins vann Högni svo í samstarfi við gamlan vin sinn, Atla Bollason, sem einnig samdi textana. Eitt af því sem þeir vildu skoða var hvernig ný heimsmynd brýtur sér inn í hugarheim fólks á hverri nýrri öld. Til að fá fjarlægð og betra útsýni yfir hvað væri að gerast í nútímanum, í upphafi 21. aldarinnar, litu þeir eina öld aftur í tímann til samanburðar.

„Í byrjun 20. aldarinnar voru ríkjandi valdakerfi að splundrast og á þeim tíma tókst tónlistinni að mála mynd af þessum óstöðugleika og umbreytingum heimsins. Það var hægt að greina það í tónlistinni hvernig samfélagsmeðvitundin var að umbreytast, eins og hún væri að draga línurnar í kringum þessar breytingar. Það má til dæmis nefna að ýmsar framúrstefnuhreyfingar voru að koma fram og Stravinsky flutti Vorblótið sem gjörbreytti tónlandslagi nútímans. Öll kerfi voru að fletjast niður og eftir stóð autt svið fyrir nýjar hugmyndir og nýja sýn. Við fórum að skoða hvað hafði verið að gerast á Íslandi á sama tíma og sáum að þá var meðal annars verið að byggja Reykjavíkurhöfn, sem átti eftir að verða kjarninn að framþróun íslensks samfélags á öldinni. Í þessari uppbyggingu spiluðu svo þessar tvær lestir stórt hlutverk – Pioner og Minør – einu lestirnar í sögu landsins. Fyrir okkur urðu þær strax að táknmyndum fyrir upprisu andans á Íslandi á þessum tíma, uppbyggingu nýrrar þjóðar,“ segir Högni og heldur áfram:

„Verkið snýst um nýja tíma sem eru að ryðja sér til rúms. Við vildum fanga kaldan tón og einhvern, einhvern … hvað er rétta orðið ..? Einhvern hjartnæman harmleik sem fylgir því alltaf að skapa sér nýjan tíma og öðlast nýja sýn,“ segir Högni.

Þegar hann talar fálmar hann eftir orðum eins og gítarleikari sem rennir fingri upp háls gítarsins til að leita að réttri nótu. Manni virðist sem honum líði almennt betur með að tjá sig í tónum en orðum og segir hann það ekki fjarri lagi:

„Ásetningur minn er alltaf mjög skýr þegar ég geri tónlist, tungumál tónlistarinnar er eiginlega skýrara fyrir mér. Þegar kemur að texta og frásögnum almennt þá er það þetta þokukennda yfirbragð sem hefur alltaf fylgt mér. Ég festist í spurningum um hvað hlutirnir eru og fer úr einu í annað, kannski hef ég alltaf viljað daðra við allt – er eiginlega svona omnisexual.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Gleyptur af Gus Gus

Eftir að lestarverkið var frumflutt á Listahátíð við góðar undirtektir var fljótlega farið að stefna á útgáfu plötu með fleiri lögum, en þá voru önnur verkefni hins vegar farin að krefjast æ meiri tíma og athygli. „Á þessum tíma var ég eiginlega gleyptur af Gus Gus,“ segir Högni.

Að beiðni Stephans hafði Högni byrjað að syngja bakraddir á nokkrum lögum með Gus Gus, það gekk vel og smám saman var hann genginn í þessa fornfrægu teknósveit og vann með henni að plötunum Arabian Horse sem kom út árið 2011 og Mexico, sem kom út 2014.

Vinsældir sveitarinnar hafa sjaldan verið meiri en undanfarin ár og hefur hún ferðast um heiminn nánast stanslaust, leikið á stórum tónleikum þar sem Högni hefur lifað rokkdrauminn – sérstaklega í Austur-Evrópu þar sem sveitin er víst hálfpartinn í guðatölu. „Ég fór algjörlega inn í þennan klúbbaheim og hvarf eiginlega úr þeim tónskáldaheimi sem ég var þá búinn að koma mér inn í,“ segir Högni. „Auðvitað er þetta performans, mikil músík og gaman en líka mikil veisla og partí.“

„Þegar ég horfi til baka hugsa ég til ævintýrisins um Gosa, þar sem hann er á leiðinni í skólann en hittir tvo refi sem freista hans og sannfæra hann um að ganga í sirkusinn þar sem hann verði dýrkaður og elskaður. Þvert á samvisku sína, engisprettuna Jiminy cricket, fylgir hann þeim og endar svo á „Pleasure Island“ þar sem menn reykja og skemmta sér allan daginn og breytast síðan í asna. Ætli þetta sé ekki dæmisaga um freistingar, kannski svipað og í sumum álfasögunum hér á Íslandi, þar sem álfameyjar lokka til sín unga menn. Annaðhvort snúa þeir til baka með sögu að segja eða eru algjörlega búnir að missa vitið. Þessar freistingar og gylliboð eru hálfgerð geðveiki.“

Meðfram veislunni hafa einnig verið mikil átök í Gus Gus og það vakti sérstaka athygli árið 2015 þegar Stephan, einn af stofnmeðlimunum, sagði skilið við sveitina eftir 20 ára samferð. Högni vill lítið segja um deilur stofnmeðlimanna en viðurkennir að á þessum tíma hafi sér oft liðið eins og hálfgerðu skilnaðarbarni.

Þegar leiðir Högna og Gus Gus skildu svo síðasta sumar hafði andrúmsloftið, álagið og rokkstjörnulífernið tekið sinn toll á heilsu söngvarans. „Það var alltaf mikil pressa, álag og svo þetta innbyrðis stríð og drama í hljómsveitinni. Þetta var farið að taka mikinn skerf af mér. Fyrst eftir að það var ákveðið að ég myndi hætta var ég svolítið smeykur við þessar breytingar, en þetta varð að tækifæri til að endurskoða hvað mér þykir kært, taka ábyrgð á eigin listrænu sköpun og eigin lífi og heilsu,“ segir Högni. „Og svo veit maður aldrei með framtíðina. Gus Gus er þannig batterí að það er ekkert útilokað að maður snúi einhvern tímann aftur. Daníel Ágúst sneri til dæmis aftur eftir sjö ára hlé.“

Frá öðru sjónarhorni

Tónleikaferðalögin höfðu áhrif á andlega líðan Högna en hann hefur verið að kljást við geðhvörf sem hann greindist með árið 2012 og opnaði sig um í blaðaviðtali í lok sama árs.

Þó hann segist vilja vera opinskár varðandi ástand sitt viðurkennir hann að það sé óþægilegt og hálf vandræðalegt að lýsa því sem hann hefur upplifað þegar andleg líðanin hefur verið hvað öfgakenndust: „Manni getur fundist eins og maður fari eiginlega upp til sólarinnar, maður fer að taka eftir og skynja hversu mikið vald felst í öllum þeim táknum sem berast okkur. Í kjölfarið fer maður svo mjög djúpt niður, langt inn í sársauka, og fer að baða sig í þessum tilfinningum,“ segir hann.

„Auðvitað hefur þetta gjörbreytt lífi mínu, sett strik í reikninginn og verið dragbítur. Oft hef ég hagað mér eins og bjáni, misst tengingu við vini og vandamenn. Þetta tekur allt tíma að jafna sig,“ segir Högni.

Högni segist þó ekki endilega líta á geðhvörfin sem sjúkdóm heldur sé þetta einfaldlega ástand sem hann þurfi að læra að lifa með og vinna úr. Hann segir að þótt það hrjái hann sé það einnig uppspretta sköpunar. „Ég man eftir því að hafa verið inni á geðdeild og hugsað að þarna væri fólk sem sæi heiminn frá öðru sjónarhorni en flestir, fólk með einhverja gjöf eða sýn sem ekki væri hægt að festa hendur á. Hvað ef það væri mögulegt að rækta og næra þá sköpun sem fylgir þessum miklu og sterku hugrænu upplifunum? Það væri að minnsta kosti mjög nútímalegt ef okkur tækist að skapa slíka umgjörð.“

Högni segir að í dag taki hann lyf til að halda sér í jafnvægi og segir að þau geri sitt gagn þótt aukaverkanirnar geti verið erfiðar. „Sveiflurnar hafa minnkað ár frá ári og ég stefni á að vera orðinn mjög jafn og duglegur næsta vor. Besta lyfið mitt núna er bara regla, rútína og hreyfing.“

Í leikhúsi tónlistarinnar

Það var ekki fyrr en Högni sagði skilið við Gus Gus sem hann hafði tíma og einbeitingu til að snúa sér aftur að sólóplötunni. Þá hafði grunnhugmynd verkefnisins öðlast persónulegri skírskotun og tekið á sig margþættari myndir. Lestirnar tvær voru ekki lengur bara tveir dráttarklárar nútímans heldur einnig tvær hliðar á sömu persónu, tvær hliðar manneskjunnar. Óreiðan var ekki lengur bara umbreytingar heimsins: „Ég held að tónlistin máli oft mynd af ókyrrðinni í sjálfum mér,“ útskýrir hann. Og þó að ekki öll laganna væru samin inn í upphaflega þemað var hringnum lokað með því að nefna plötuna Two trains.

Hljóðrænt vísar tónlistin í iðnvæðinguna sem lestirnar voru hluti af, málmkennd og vélræn rafhljóð blandast við strengi og píanó. Það er einnig líkamleg vídd á plötunni. Platan byrjar á laginu Andaðu, eins og nýfædd vera dregur andann í fyrsta sinn, og andardrátturinn ómar svo undir síðar á plötunni. Það er svo óvenjulegt að heyra karlakór spila stórt hlutverk í tónlistinni og kveikir hugrenningatengsl við ættjarðarljóð, verkamannasöngva og hina merkilegu kóramenningu Íslands.

Bakgrunnur Högna í tónlist er annars vegar klassískur, þar sem hann lærði á fiðlu frá barnsaldri, og svo hins vegar popptónlistin sem hann sneri sér að á menntaskólaárunum. Með Gus Gus og á nýju plötunni eru rafrænu hljóðin hins vegar orðin enn annar þráður í vefnaði tónlistarinnar. Högni segir að forrituð hljóð og rafræn hljóðhönnun hafi gert það að verkum að nálgun fólks á tónlist og hlustun hafi breyst á undanförnum áratugum.

„Það sem hefur verið að gerast er að hljóðið sjálft er farið að líkamnast sem karakter í þessu leikhúsi tónlistarinnar, hljóðið og umbreyting þess er orðið að stórum hluta í frásögn verka. Í dag er eðli hljóðsins sjálfs og áferð þess orðin að breytu í því þegar við hlustum á tónlist. Ef við skoðum þá tónlist sem er vinsælust í dag sjáum við að fólk er farið að laðast að ósýnilegri þáttum en áður, hljóðinu sjálfu og hönnun þess. Áður fyrr voru það bara melódíur og hljómagangar sem skiptu máli. Þeir sem voru bestu tónskáldin voru mjög færir í að móta hljómaferðalög.“

Talið leiðist að þeirri tónlist sem er vinsælust á Íslandi í dag, rappinu, og hvernig tónar og hljóðrænir þættir eru farnir að skipta æ minna máli á meðan sviðsetning, sjónarspil og persónusköpun hefur farið að spila stærri rullu.

„Mér finnst mjög áhugavert í stórum hluta þess rapps, sem er fyrirferðarmikið í dag, þá virkar tónlistin sjálf – undirspilið – nánast eins og leikhústónlist, hún er hálfgerð sviðsetning fyrir performans og fantasíu listamannsins. Frásögnin er sérstök í rapptónlist því hún virkar nánast eins og leikhústónlist, svið fyrir performans og fantasíu karakters sem fær þar að koma skilaboðum sínum á framfæri. Síðan tengir fólk auðvitað alls konar músíkalska þætti inn í þetta. En músík krefst einhverrar innri þróunar, melódíu, frásagnar og umbreytingar. Rapptónlist er því eðlilega mjög mis-músíkölsk, en þetta rapp er ekki bara tónlist heldur virkar þvert á móti á fleiri „levelum“. Uppáhalds rappararnir mínir eru þeir sem eru sannfærandi í fantasíunni.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Fannst ég vera kominn heim

Eitt lag sker sig nokkuð úr hinum kalda og dökka hljómi plötunnar en það er lagið Moon Pitcher sem er bjart og grípandi, glaðvært lag með dansvænum takti. Högni gengst við því að lagið hafi verið samið til unnustu sinnar Snæfríðar Ingvarsdóttur leikkonu, en fyrr á árinu tilkynntu þau trúlofun sína.

„Ég samdi þetta lag þegar við vorum tiltölulega nýbyrjuð saman og ég var á hæsta tindi ástarinnar,“ segir Högni en þau hittust fyrst í sundi fyrir um þremur árum síðan. „Ég sá hana koma upp úr sundlauginni. Ég sá bara bakið hennar þegar hún steig upp úr lauginni en ég varð strax ástfanginn. Ég missti af henni í það skiptið en komst að því hver hún var, svo ég greip tækifærið þegar ég sá sama bak á Kaffibarnum stuttu seinna.“

Hann segir sambandið sterkt og í vor hafi honum fundist vera kominn tími til að taka það skrefinu lengra og bað Snæfríðar. „Ég gat ekki séð mér fært að gera neitt annað, mér fannst þetta bara vera rétti tíminn – það gusaðist yfir mig löngunin til að giftast henni, mér fannst ég vera kominn heim. Að finna sér félaga til að deila ástinni og lífinu með er svo ótrúlega dýrmætt. Það fylgir því auðvitað vinna og krefst mikillar athygli, en maður lærir líka svo mikið, lærir að hugsa um eitthvað annað en sjálfan sig – og það er mjög fallegt,“ segir Högni. Hann segir að tengdafaðirinn, stórleikarinn Ingvar E. Sigurðsson, hafi heldur ekki sett sig upp á móti þessum ráðahag.

„Eitt af því sem ég er svo glaður með að hafa fundið út er að ég get verið ástfanginn og hamingjusamur en svo bara skáldað þjáninguna – það er svo mikill misskilningur að maður þurfi að vera að upplifa tilfinningar til að geta samið um þær. Með því að semja um þær getur maður látið óttann, hræðsluna og þjáninguna vera til annars staðar en í manni sjálfum – að þessu leyti er listin svartigaldur, með henni getur maður skipt um ham.“

Ætlar að komast í liðið

Högni segir að nokkur listræn verkefni séu framundan, en segir að nú vilji hann einbeita sér að færri hlutum en áður, gefa þeim betri tíma og meiri persónulega nánd. Hann viðurkennir að hann sé byrjaður að huga að nýrri plötu með Hjaltalín og sé sérstaklega spenntur fyrir því að vinna aftur með þeim en næsta verkefni er þó að koma sér í liðið hjá meistaraflokki Vals þar sem hann er byrjaður að æfa af fullum krafti eftir tíu ára hlé í íþróttinni.

„Þetta hefur mjög góð áhrif á mig, keppnisskapið og útrásin. Körfubolti er líka svo elegant íþrótt. Þú þarft að vera með allar skyngáfurnar spenntar. Það eru bara fimm menn í liðinu og hlutirnir gerast mjög hratt. Þú þarft að vera með svo mikla rýmisgreind, geta fylgt taktík og á sama tíma fundið hvert liðsmennirnir eru að hreyfa sig og hreyfa þig út frá því. Svo er líka mikill dans í körfuboltanum. Til þess að komast að körfunni þarftu svo að beita ýmsum brögðum. Þú þarft líka að nota mikla mjaðmahreyfingu, þú þarft að taka snúningsspor og ýmislegt til að gabba andstæðinginn,“ segir Högni og leggur áherslu á hinn mikla takt í boltanum: „Þú tekur alltaf jafn mörg skref þegar þú ert að stökkva, þetta er eins og trommutaktur, á meðan puttarnir þínir eru hi-hattar, leggirnir eru bassatromma. Þetta er eitt af því sem ég dýrka við körfuboltann,“ segir Högni ástríðufullur:

„Þessa dagana geri ég í rauninni lítið annað en að semja tónlist, spila körfubolta og elska kærustuna mína.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af