Fókus

Varð að komast heim

Kolbrún Bergþórsdóttir
Laugardaginn 7. október 2017 08:00

Kristín Clausen hitti Ragnar Freyr Ingvarsson, lækni og matgæðing, og ræddi við hann um matargerð, læknisstarfið, ástandið á Landspítalanum og íslenska heilbrigðiskerfið.

Læknirinn í eldhúsinu, Ragnar Freyr Ingvarsson, er fluttur heim til Íslands, en á árunum 2008 til 2016 bjó hann og starfaði í Svíþjóð og Bretlandi. Ragnar taldi sig vera búinn að kveðja Ísland fyrir fullt og allt. Það breyttist þó skyndilega þegar hann fékk svokallaða bráðaheimþrá. Ragnar, sem er kvæntur og á þrjú börn, notar eldamennsku til að koma ró á hugann í annríki hversdagsins.

„Það er augljóst mál að við erum sem þjóð ekki að borða rétt. Þjóðin þyngist sífellt með hverju árinu,“ segir ástríðu- og sjónvarpskokkurinn, rithöfundurinn og læknirinn Ragnar Freyr Ingvarsson. Hann hefur, síðustu ár, gefið út matreiðslubækur undir nafninu Læknirinn í eldhúsinu samhliða fullu starfi í læknisgeiranum. Í dag er Ragnar umsjónarlæknir á lyflækningasviði Landspítalans og gigtarlæknir hjá Klíníkinni, sem er einkarekin læknastöð í Ármúla. Hann þekkir því báða kima heilbrigðiskerfisins af eigin reynslu.

Fyrir jólin gefur Ragnar út sína fjórðu matreiðslubók. Að þessu sinni er áherslan á „sous Vide“ en það er ákveðin eldunaraðferð þar sem hráefni er eldað undir vatnsþrýstingi sem er ætlað að varðveita gæði matarins og tryggja að hann verði fullkomlega eldaður. Bókin mun fylgja nýrri tegund af „sous Vide“-tæki, sem verður á vegum fyrirtækisins Margt smátt og Kjötkompanísins í Hafnarfirði. „Ég prófaði þetta tæki í hálft ár. Það er ljómandi gott og kraftmikið. Matreiðslubókin fylgir með í kassanum. Henni er ætlað að kynna fyrir fólki handtökin auk þess að innihalda nokkrar ljúffengar uppskriftir.“

Aðspurður hvernig nafnið, Læknirinn í eldhúsinu, kom til svarar Ragnar að hann hafi lengi vel skrifað uppskriftir og veitt hollráð í matreiðslu undir sínu nafni, Ragnar Freyr. Þegar bloggsíðurnar, forverar samfélagsmiðlanna, voru sem vinsælastar, var síða Ragnars oft með þeim vinsælustu á blogginu á mbl.is. „Ég lagði mikinn metnað og ástríðu í uppskriftirnar sem birtust á blogginu mínu sem skilaði sér, meðal annars, í því að Mogginn setti efnið mitt oft í blaðið. Það var ákveðinn stökkpallur, en á þessum tíma var ég ekki með neina stefnu. Mér fannst þetta einfaldlega skemmtilegt.“

Það var svo ekki fyrr en árið 2012 að danskur kollegi Ragnars á spítalanum í Lundi í Svíþjóð skoraði á Ragnar að gera meira úr blogginu. „Þá var ég búinn að blogga í fimm ár. Hann sagði mér að ég þyrfti að hafa skarpari fókus og auðkenna mig frá öðrum matarbloggurum. Ég tók þessu alvarlega og í framhaldinu byrjaði ég að kalla mig Lækninn í eldhúsinu. Það er kannski ekki sérlega grípandi en segir það sem segja þarf.“

„Ég einfaldlega vaknaði einn morguninn og hugsaði að ég yrði að komast heim.“
Fluttur heim „Ég einfaldlega vaknaði einn morguninn og hugsaði að ég yrði að komast heim.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Matarvenjur hafa áhrif á heilsuna

Líkt og svo margir hefur Ragnar nokkrar áhyggjur af heilsu Íslendinga. Hann segir þó enga yfirlýsta næringarstefnu að finna í matargerð sinni en þegar rýnt sé í uppskriftirnar megi sjá að maturinn er allur eldaður frá grunni. „Ég elda alvöru mat úr hágæða hráefnum. Heilsa fólks stendur og fellur með mataræðinu og ef við myndum sjóða saman þá þekkingu á næringarfræði, sem við búum yfir í dag, þá er lykillinn að bættri heilsu að elda góðan og hollan mat frá grunni.“

Ragnar kveðst sjálfur nota mikið af ekta fitu á borð við smjör og jómfrúarolíu þegar hann eldar. „Þá reyni ég að borða mikið grænmeti og gott íslenskt kjöt og fisk.“ Eina reglan sem hann setur sér í eldhúsinu er að nota sem sjaldnast unna matvöru. „Hvað varðar heilsu þá vildi ég óska þess að fleiri gerðu sér almennilega grein fyrir því hvað matarvenjur hafa gríðaleg áhrif á heilsuna, til lengri tíma litið. Offita hefur aukist ár frá ári sem og sykursýki 2. Háþrýstingur, hjarta- og æðasjúkdómar og heilaáföll eru að vissu leyti lífsstílstengdir sjúkdómar sem hafa gríðarlega mikil áhrif á lífsgæði og heilsu fólks. Að auki eru þeir auðvitað gríðarlega kostnaðarsamir fyrir heilbrigðiskerfið.“

Þrátt fyrir að vinna langan vinnudag þá kveðst Ragnar ætíð gefa sér góðan tíma með fjölskyldunni við matarborðið á kvöldin. „Ég reyni að klára allt á dagvinnutíma en auðvitað kemur fyrir að ég þurfi að vinna á kvöldin. Það fylgir starfinu og þannig vil ég hafa það.“

Aðspurður játar Ragnar því heilshugar að hann noti eldamennsku og mat til að slaka á. „Þegar það er brjálað að gera í vinnunni þá hringi ég oft í konuna mína og við ræðum hvað við ætlum að hafa í matinn um kvöldið. Konan mín eldar ekki mikið en hún er ástríðunautnaseggur. Það sem hún eldar er samt allt mjög gott,“ segir Ragnar og bætir við að samtölin komi ró á hugann. Þá kveðst hann vita fátt betra, eftir langan dag, en að koma sér vel fyrir í eldhúsinu og hræra í pottum.

Ragnar flutti, ásamt fjölskyldu sinni, til Lundar í Svíþjóð árið 2008. Þar fór hann í sérnám í lyf- og gigtarlækningum. Eftir að námi lauk starfaði hann sem sérfræðingur á spítalanum í Lundi. Árið 2015 tók svo nýtt ævintýri við en þá fluttist fjölskyldan til Bretlands þar sem eiginkona Ragnars, Snædís Eva Sigurðardóttir, fór í framhaldsnám í sálfræði við háskólann í Sussex, og hann starfaði sem gigtarlæknir og við stjórnunarstörf. Í fyrra komu þau svo aftur heim til Íslands. Ragnar viðurkennir að fram að þeim degi, sem hin óstjórnlega löngun að flytja aftur heim kom yfir hann, hefði hann ákveðið að hann myndi ekki setjast aftur að á Íslandi. „Ég ætlaði aldrei að flytja aftur til Íslands. Ég var alveg farinn héðan en það breyttist. Ég einfaldlega vaknaði einn morguninn og hugsaði að ég yrði að komast heim. Við sjáum alls ekki eftir því.“

Dauf eyru stjórnvalda

Undanfarið ár hefur Ragnar starfað á Landspítalanum, þar sem hann er í 70 prósent starfi, og hjá Klíníkinni, þar sem hann tekur á móti sjúklingum í eina viku á þriggja vikna fresti. „Það er virkilega gaman að vera í hringiðunni á Landspítalanum og geta svo skipt algjörlega um gír og tekið á móti gigtarsjúklingum á stofunni,“ segir Ragnar sem viðurkennir þó að mörg krefjandi verkefni bíði úrlausnar á Landspítalanum. „Á hverju ári fjölgar þeim verkefnum sem við náum ekki að sinna. Stjórnvöld hlusta með daufum eyrum. Hér á spítalanum á eftir að skella á annar erfiður vetur, síðasti vetur var virkilega erfiður, og ég veit að starfsfólk er farið að kvíða ástandinu.“

Í þessu samhengi bendir Ragnar á að Landspítalinn sé mjög aðþrengdur. „Í dag erum við ekki með eitt laust pláss á öllum spítalanum. Samt erum við með 20 manns sem bíða innlagnar. Til að koma þeim að þurfum við að útskrifa sjúklinga og vonandi verður það fólk sem er tilbúið til útskriftar. Þannig búum við til pláss. Í dag veit ég að við munum ekki finna pláss fyrir alla þá sem bíða innlagnar. Þeir munu festast á bráðamóttökunni og teppa plássin fyrir aðra sjúklinga sem þurfa sannarlega á bráðaþjónustu að halda. Við erum alltaf að leita nýrra lausna. Snemma í sumar opnuðum við bráðalyflækningadeild með nýju verklagi, sem hefur gengið afar vel. Að ári stendur til að opna bráðagöngudeild á vegum lyflæknissvið.“

110 einstaklingar búa á Landspítalanum

Ragnar segir að 110 einstaklingar búi á Landspítalanum. „Á mannamáli þýðir þetta að að um er að ræða fólk sem hefur lokið læknisfræðilegri meðferð en kemst ekkert annað þar sem það þarf á aukinni þjónustu að halda, t.d. daglegri hjúkrun eða aðstoð við athafnir daglegs lífs. Ástæðan er sú að það skortir viðeigandi þjónusturými eða þjónustu fyrir þennan stóra hóp sem vex með hverju árinu. Það var gerð úttekt á þessu í fyrra á vegum háskólans. Bara það að hýsa þetta fólk á Landspítalanum kostar samfélagið 3 til 4 milljarða á ári. Væri ekki miklu betra að sinna fólki fólk í huggulega öldrunarrými, á viðeigandi stofnunum eða í heimahúsi með góðri heimahlynningu? Getur þú ímyndað þér að níræð kona, sem hefur unnið allt sitt líf, vilji verja sínum síðustu dögum inni á herbergi á Landspítalanum umkringd veiku fólki? Nei, ég hélt ekki.“

Ragnar er sannfærður um að margt megi betur fara á Landspítalanum. Það sem stendur upp úr, að hans mati, er þó allt það hæfileikaríka starfsfólk sem starfar á spítalanum. „Hér vinnur hæfileikaríkt og metnaðarfullt fólk sem brennur fyrir starfi sínu. Þetta fólk er allan daginn að leita lausna í fjársveltu umhverfi. Á sama tíma bendir ríkisstjórnin á að búið sé að auka fjárframlög. Það hefur vissulega gerst, en betur má ef duga skal. Þörfin vex langt umfram fjárframlög. Við höfum verið í þessu svelta ástandi alltof lengi. Þegar ég var læknanemi fyrir 15 árum var svelt ástand, líka þegar ég var hérna fyrir 10 árum. Þú getur rétt ímyndað þér hvernig staðan er orðin. Á sama tíma hefur þjóðinni fjölgað, fólk lifir lengur og erlendum ferðamönnum sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda, hefur líka stórfjölgað í takt við fjölgun ferðamanna á Íslandi. Það þarf að sinna öllu þessu fólki almennilega. Í núverandi ástandi er það því miður mjög erfitt.“

„Þegar það er brjálað að gera í vinnunni þá hringi ég oft í konuna mína og við ræðum hvað við ætlum að hafa í matinn um kvöldið."
Kokkur í frístundum „Þegar það er brjálað að gera í vinnunni þá hringi ég oft í konuna mína og við ræðum hvað við ætlum að hafa í matinn um kvöldið."

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Fátækt fólk veigrar sér við að leita sér hjálpar

Einkarekstur í íslensku heilbrigðiskerfi hefur síðustu ár verið nokkuð umdeildur. Sitt sýnist hverjum og meðan sumir vilja meiri einkarekstur vilja aðrir ekki sjá hann. Þar sem Ragnar starfar bæði fyrir hið opinbera á Landspítalanum og rekur sína eigin stofu í Klíníkinni þekkir hann bæði kerfin út og inn. Ragnar kveðst hlynntur báðum kerfum. „Ég er mjög hlynntur opinberri þjónustu. Ég vinn við að byggja upp bráðalyflækningadeild á Landspítalanum og vil sjá hana vaxa og dafna. Á sama tíma eru sjálfstætt starfandi læknar ódýrir meðferðaraðilar. Við vinnum á samningi við Sjúkratryggingar Íslands. Það eru auðvitað kostir og gallar á báðum stöðum.“

Ragnar, sem hefur samanburð frá Svíþjóð og Bretlandi, segir að sjálfstætt starfandi læknar á Íslandi séu 75 prósentum ódýrari á Íslandi en í samanburðarlöndunum. „Í fyrirheitna landinu, Svíþjóð, greiðir hið opinbera, hvort sem það er í opinberum rekstri eða einkarekstri, á milli 50 og 60 þúsund krónur með hverjum sjúklingi í heimsókn á göngudeild. Í Bretlandi er þetta svipað. Á Íslandi eru greiddar 8 til 13 þúsund krónur fyrir hverja heimsókn á göngudeild. Þannig að við Íslendingar borgum einn fjórða af því sem þessi tvö ríki borga inn í sitt heilbrigðiskerfi, á sjúkling. Það sem skilur Ísland frá hinum löndunum er hversu stóran hluta sjúklingar greiða af sinni læknisþjónustu úr eigin vasa sem kemur sérstaklega niður á þeim sem minna hafa á milli handanna og það leiði til þess að fátækt fólki veigri sér við að leita sér hjálpar.“

Þá myndi Ragnar vilja að biðtími eftir valkvæðri skurðaðgerð yrði aldrei lengri en þrír mánuðir, eins og víða á hinum Norðurlöndunum, en eins og staðan er nú getur fólk átt von á því að bíða eftir aðgerðum í allt að tvö ár, háð greiningu. „Ég er algjörlega fylgjandi því að ríkið taki meiri þátt í kostnaði við heilbrigðisþjónustu. Á sama tíma er ég ekki sérstaklega fylgjandi því að fólk geti borgað sig fram fyrir röðina. Staðreyndin er samt sú að þó svo að við skrúfum fyrir það hér þá eru Svíþjóð og Bretland rétt handan við hafið – og ef aðgerðin er gerð innan EES-landa þá þarf ríkið, samkvæmt lögum að greiða fyrir hana. Ég tel auðvitað heppilegast að það sé gert á Íslandi, – þá hefur fólk meiri stuðning frá sínum nánustu. Fyrst að löglegt er að gera aðgerðina í öðru EES-landi – af hverju ekki í Ármúlanum eða Orkuhúsinu? Ef aðgerðirnar eru skilgreindar sem valkvæðar aðgerðir finnst mér þó að ríkið eigi að leggja sitt að mörkum, með það að markmiði að stytta biðtíma, með því að niðurgreiða þær. Margar þessa valkvæðu aðgerða henta vel fyrir sjálfstæðar rekstrareiningar og geta bæði verið ódýrari og eru öruggari valkostur. Mér finnst undarlegt að á sama tíma og við erum með aðþrengdan spítala, þá nýtum við okkur ekki úrræðin sem eru fyrir hendi á sjálfstæðum stofum, beint fyrir framan nefið á okkur. Þó það væri nú ekki nema til að létta á Landspítalanum. En markmiðið ætti fyrst og fremst að vera að veita sjúklingum góða og örugga þjónusta – út á það gengur þetta jú!“

Þá vill Ragnar meina að sum verkefni henti einkarekinni þjónustu töluvert betur en opinberum stofnunum og öfugt. Til dæmis ýmis göngudeildarstarfsemi og einfaldari aðgerðir, svo dæmi séu tekin. „Verkefni sem rúlla hratt og örugglega, og eru fremur einföld viðureignar, eiga ekki að trufla veikustu einstaklingana á Landspítalanum sem þurfa á sértækri og þverfaglegri þjónustu að halda. Að mínu mati væri best að aðskilja alveg bráðaþjónustu frá valkvæðri þjónustu. Sumar aðgerðir ætti að framkvæma utan við bráðasjúkrahúsið af því að þörfin fyrir þjónustuna er ekki sambærileg.

Það kom nýlega fram í fjölmiðlum að í fyrra hefðu 1,6 milljónir læknisverka verið unnin á Íslandi. Þar af voru nærri hálf milljón verk unnin á stofum sjálfstætt starfandi lækna. Þeir þáðu 4 til 6 prósent af framlögum til heilbrigðismála fyrir þá þjónustu. Ég veit ekki hvort fólk geri sér grein fyrir því hvað sjálfstæðar stofur eru öflugar og ódýrar rekstrareiningar.“

Þarf að skilgreina betur hlutverk Landspítalans

Ragnar myndi einnig gjarnan vilja sjá að hlutverk Landspítalans væri betur skilgreint. „Við eigum að skilgreina betur þjónustustig í kerfinu okkar. Hvaða verkefnum eiga heilsugæslan, göngudeildirnar, sjálfstæðar stofur og spítalarnir að sinna. Það getur ekki verið að Landspítalinn eigi að sinna öllu. Við eigum að sinna flóknum vandamálum og bráðatilfellum, veikustu sjúklingunum og erfiðustu málunum sem þurfa þverfaglega og breiða nálgun. Að mínu mati ætti það að vera meginhlutverk Landspítalans, auk kennslu og rannsókna að sjálfsögðu. Sérstaklega á meðan ástandið er svona slæmt. Þess heldur eigum við ekki að færa einfaldari vandamál inn á sjúkrahúsið, í þetta flókna og aðþrengda umhverfi. Einfaldari og minna aðkallandi vandamál eiga, að mínu mati, ekki endilega heima á bráðasjúkrahúsi heldur á göngudeildum eins og sjálfstæðum læknastofum þar sem það kostar mun minna að leysa úr þeim.“

Það sem skiptir Ragnar mestu máli, í þessu samhengi, er að sjúklingar fái sem mest gæði fyrir sem minnsta fjármuni. „Landspítalinn er geysilega mikilvæg stofnun sem þarf að standa vörð um og efla. Að sama skapi eru sjálfstæðar stofur lækna einnig mikilvægur hluti heilbrigðiskerfisins sem ekki má heldur vanrækja. Þetta þurfa ekki, og eiga ekki, að að vera andhverfir pólar. Við eigum heldur að útbúa skilvirkari leið fyrir þessi tvö kerfi til að vinna saman. Það hlýtur að vera farsælast fyrir okkur Íslendinga – markmiðið er jú, að að reyna að fá sem mest af góðri þjónustu á réttum tíma fyrir alla!“

Kolbrún Bergþórsdóttir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 2 dögum

TÆKNI: Svona horfir þú á íslenska landsliðið á RÚV erlendis

TÆKNI: Svona horfir þú á íslenska landsliðið á RÚV erlendis
Fókus
Fyrir 2 dögum

Meghan Markle (36) og Elísabet drottning (92): Óaðfinnalega lekkerar vinkonur í opinberri heimsókn

Meghan Markle (36) og Elísabet drottning (92): Óaðfinnalega lekkerar vinkonur í opinberri heimsókn
Fyrir 4 dögum

Dóra kláraði prófin jafn vel og kosningarnar

Dóra kláraði prófin jafn vel og kosningarnar
Fókus
Fyrir 4 dögum

TÍMAVÉLIN – Skáldkonan Ólöf frá Hlöðum (1857-1933) ólst upp við fátækt: „Oft grét ég þegjandi af leiðindum“

TÍMAVÉLIN – Skáldkonan Ólöf frá Hlöðum (1857-1933) ólst upp við fátækt: „Oft grét ég þegjandi af leiðindum“
Fókus
Fyrir einni viku

Fullt af fólki hætt við að gifta sig út af leiknum á laugardaginn: Óvenju mikið um afpantanir í kirkjum

Fullt af fólki hætt við að gifta sig út af leiknum á laugardaginn: Óvenju mikið um afpantanir í kirkjum
Fókus
Fyrir einni viku

11 ára gamall sonur Rikku sýnir meistaratakta sem skurðlæknir: „Framtíðin er í höndum unga fólksins,“ segir mamman stolt

11 ára gamall sonur Rikku sýnir meistaratakta sem skurðlæknir: „Framtíðin er í höndum unga fólksins,“ segir mamman stolt