Fókus

Eitt þekktasta atriði íslenskrar kvikmyndasögu er byggt á sönnum atburði: „Við erum allir vistmenn á Kleppi. Verið svo vinsamlegir að hringja á lögregluna strax“

Auður Ösp
Miðvikudaginn 20. september 2017 22:00

„Við erum allir vistmenn á Kleppi. Verið svo vinsamlegir að hringja á lögregluna strax.“ Þannig hljómar tilvitnun í eitt eftirminnilegasta atriði íslenskrar kvikmyndasögu, atriðið þegar þremenningarnir Páll, Óli og Viktor fá dagsleyfi af Kleppi og nota tækifærið til að snæða lúxuskvöldverð á Grillinu á Hótel Sögu. Færri vita þó að atriðið er byggt sönnum atburði sem átti sér stað á þessum sama veitingastað, kvöld eitt árið 1986. Þáverandi framkvæmdastjóri staðarins Wilhelm Wessman ljóstrar þessu upp í pistli sem birtist á vef Lifðu núna.

Var framkvæmdastjóri

Kvikmyndin Englar Alheimsins í leikstjórn Friðriks Þórs Friðrikssonar kom út árið 2000 og er byggð á samnefndri skáldsögu Einars Márs Guðmundssonar. Í einu þekktasta atriði kvikmyndarinnar fá þremenningarnir Páll, Óli og Viktor dagsleyfi frá geðsjúkrahúsi til að vera við jarðarför félaga síns en ákveða snæða frekar þriggja rétt kvöldverð á Grillinu á Hótel Sögu. Þegar reikningurinn berst í lok kvöldsins biður Óli þjóninn kurteislega um að hringja á lögregluna sem síðan fylgir þeim félögum til síns heima.

Wilhelm var framkvæmdastjóri Hótels Sögu á árum áður en rifjar hann upp að kvöld eitt árið 1986 hafi þrír menn verið gestir á staðnum. Mættu þeir í sínu fínasta pússi en í þá daga giltu strangar reglur um klæðaburð. Menn gátu ekki komið inn á Grillið í gallabuxum eða bindislausir. Lýsir Wilhelm atburðarás kvöldsins á þessa leið:

Pöntuðu það dýrasta

„Þeir pöntuðu það dýrasta á matseðlinum og drukku bestu vín hótelsins með, eins og Chateau Monton Rothschild 1982, en 1982 árgangurinn er einn besti árgangur Bordeoux-vína á síðustu öld. Það er því greinilegt að mennirnir hafi verið góðir smekkmenn á mat og drykk. Vínið kostaði sitt; flaskan var á 26.800 krónur þá. Svo reyktu þeir kúbanska vindla frá Davidoff. Þetta voru eiginlega einu Kúbu-vindlarnir sem hægt var að fá á þessum tíma. Stykkið kostaði tólf hundruð krónur. Í þá daga var hægt að fá hádegisverð á Grillinu fyrir sömu upphæð. Til þess að mega selja vindlana þurfti að uppfylla ströng skilyrði. Ég þurfti að senda alla þjónana mína á námskeið í meðhöndlun á þeim. Þegar gestir pöntuðu svona vindla þurfti að klippa þá sérstaklega og var það einskonar athöfn sem endaði með því að þjónarnir kveiktu í vindlunum fyrir gestina.“

Greiddi sjálfur reikninginn

Wilhelm kveðst enn muna eftir því þegar Halldór Sigdórsson, veitingastjóri á Grillinu, hafði samband og lét hann vita af því að inni á staðnum væru þrír vistmenn á Kleppi sem væru búnir að borða dýrustu réttina, drekka fínustu vínin og reykja flottustu vindlana.

„Þeir gætu ekki borgað reikninginn og lögreglan væri í lobbíinu. Hann spurði mig hvað hann ætti að gera í málinu. Grillið var fullt af gestum og ég bað Halldór því að láta lögregluna bara bíða eftir mönnunum. Ég taldi augljóst að við hefðum tapað þeirri upphæð sem mennirnir höfðu borðað og drukkið fyrir. Mér fannst því mikilvægast að ónáða ekki hina gestina með einhverri uppákomu.

Mennirnir fengu að klára máltíðina og mættu svo lögreglumönnum í anddyri. Síðan voru þeir bara keyrðir inn á Klepp af lögreglumönnum eins og fínir herrar.“

Wilhelm endaði á því að greiða sjálfur reikninginn.

„Það má því segja að besta sena í íslenskri kvikmyndagerð sé orðin til vegna fagmannlegra vinnubragða okkar starfsmanna í Grillinu.“

Auður Ösp
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 23 klukkutímum

Tónlistarmaður mánaðarins María Agnesardóttir – Söng lag Beyoncé í minningarmyndbandi

Tónlistarmaður mánaðarins María Agnesardóttir – Söng lag Beyoncé í minningarmyndbandi
Fókus
Í gær

Guðni viðurkennir að hafa gengið of langt

Guðni viðurkennir að hafa gengið of langt
Fókus
Fyrir 2 dögum

Stjörnumerkin og fatastíll: Rísandi Steingeit – Vekur athygli án þess að reyna það!

Stjörnumerkin og fatastíll: Rísandi Steingeit – Vekur athygli án þess að reyna það!
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hvernig er best fyrir kennara að spilla nemendum sínum?

Hvernig er best fyrir kennara að spilla nemendum sínum?