Fókus

Trommari Dimmu: „Það er niðurlægjandi fyrir hana, en það versta er að hún er bara vön þessu”

Birgir Jónsson segir jafnréttisumræðuna erfiða – Bibbi vinur hans tekinn til kostanna

Kristinn H. Guðnason skrifar
Laugardaginn 15. júlí 2017 18:00

Birgir Jónsson trommari í rokkhljómsveitunum Dimmu og Króníku tjáði sig nýverið á Facebook um þá umræðuhefð sem hefur skapast um jafnréttismál. En Snæbjörn Ragnarsson, félagi hans úr Króníku, hefur farið mikinn í jafnréttisumræðunni undanfarið.

Umræðan eins og að vera plataður í partí

„Þau sem þekkja mig vita að ég er hégómagjarn egóisti með lítið hjarta sem er mjög umhugað um hvernig öðrum finnst ég vera. Lítið dæmi. Þegar ég heyri lagið You’re So Vain með Carly Simon og hún syngur: I bet you think this song is about you! Þá hugsa ég: “Já. Allan daginn.”

Þegar ég var lítill þá var ég alltaf rosa hræddur um að gera mig að fífli fyrir framan fólk. Ein martröðin var að sæta stelpan í skólanum sem aldrei hafði yrt á mig áður (right..) vildi allt í einu bjóða mér í svaka partý með hinum sætu og töff krökkunum. Þegar ég mætti og sagði eitthvað sem var ekki nógu töff byrjuðu allir að stríða mér og segja að ég væri heimskur, ljótur og lélegur trommari (as if…). Ég hefði sumsé verið plataður í partý sem mig langaði sjúklega mikið að vera með í en svo gerði ég mig bara að fífli að því að ég sagði eða gerði eitthvað vitlaust.

Svona líður mér í dag þegar kemur að umræðu um jafnrétti kynjanna. Sú umræða sem hefur farið fram í þjóðfélaginu í bland við gott uppeldi, sterkar kvennfyrirmyndir í mínu lífi og að vera alveg fáránlega vel kvæntur hefur haft þau áhrif á mig að ég held að ég sé mjög meðvitaður um þá staðreynd að konur hafa brattari brekku fyrir framan sig til þess að komast á sama stað og ég og mínir kynbræður. Það finnst mér ósanngjarnt og mig langar til að hjálpa til við að breyta því.“

Viðskiptasamtöl beinast að honum þó eiginkonan sé betur að sér

„Þetta ójafnrétti hef ég séð eftir að hafa búið og starfað í allskonar skrítnum löndum en einnig, og kannski ekki síst, hér á landi. Launamunur kynjana er staðreynd. Vanvirðing fyrir konum í ýmsum myndum er staðreynd. Sú “klisja” að konur þurfi að standa sig betur en karlar til að fá sama hrós/laun/stöður en karlar er raunveruleg. Ég hef séð það sjálfur í þekktum íslenskum fyrirtækjum. Það er að breytast og fyrirtækjamenning er misgóð og sum fyrirtæki eru frábær þegar kemur að þessu en þetta er til staðar. Því miður.

Það fer í taugarnar á mér þegar ég er með konunni minni og viðskiptafélaga, sem er bæði betur menntaðri en ég og betur að sér í okkar rekstri en ég, en samt er orðum mjög oft frekar beint til mín en hennar, þrátt fyrir að hún hafi kannski hafið samtalið og hafi haft orð fyrir okkur. Það er niðurlægjandi fyrir hana, en það versta er að hún er bara vön þessu. Það er sárt um að hugsa. Haldið skal til haga að þetta gerist hvort sem viðmælandi okkar er kona eða karl, ungur eða gamall. Ekkert alltaf, en of oft.

Punkturinn er: Það böggar mig að við erum ekki komin lengra í okkar þjóðfélagi en að konur séu ekki algjörlega á sama stað og karlar og séu oft ekki metnar að sínum miklu verðleikum. Ég sé enga ástæðu til þess og allt “niðurtal” til kvenna og hrútskýringar fara alveg ævintýralega í taugarnar á mér.”

Langar að taka þátt en óttast samherja sína

„Hér erum við komin að kjarna málsins. Ég er athyglissjúkur kjaftaskur. Mig langar sjúklega að leggja mína “miklu” krafta í þessa baráttu, hjálpa til við að opna umræðuna, ganga til liðs við það góða fólk sem hefur staðið í þessari baráttu í gegnum tíðina. Vandamálið er að ég þori ekki að fara í partýið til þeirra. Ég er hræddur um að vera strítt af því að ég kann ekki réttu orðin, hef ekki lesið réttu bækurnar og skil kannski ekki alveg hugtökin og orðfærið sem er notað í partýinu.

„Ég er hræddur um að vera strítt af því að ég kann ekki réttu orðin”

Það er kannski bara ekki nóg að finna til í réttlætiskenndinni og langa til að segja við alla: Hey krakkar ekki vera fávitar við erum öll frábær, hvernig sem við erum á litinn, hvar sem við fæddumst, hvernig sem við viljum lifa, hverjum sem okkur langar til að sofa hjá eða hvaða líkamsparta við viljum nota til að hafa gaman þegar við gerum það!”

Ég er hræddur í litla hjartanu mínu um að vera tekinn til kostanna eins og Bibbi vinur minn, sem er nota bene einn réttsýnasti maður sem ég þekki en var samt skorinn niður eins og lamb að hausti vegna þess að hann notaði ekki réttu orðin og kunni ekki réttu hugtökin.

Snæbjörn þarf ekki mig til að verja sig. Hann getur það sjálfur. En ég veit bara að hann var að segja það sama og mig langar til að segja: Þessi mál eru í ruglinu, hafa mögulega skánað en eru ekki góð. Við eigum að sjálfsögðu að vera jöfn og hafa sömu tækifæri og mig langar að bætast í hóp þess fólks sem er að reyna að koma þeim skilaboðum áleiðis til samferðamanna minna.

En ég hef bara svo nagandi tilfinningu um að ef að maður vogar sér að blanda sér í þessa umræðu án þess að vera með háskólagráðu í kynjafræðum þá sé girt niður um mann og maður látinn drekka ógeðsdrykk af sætu og kláru stelpunni í bekknum fyrir framan alla. ”

Hvað er þá til ráða?

„Þá er kannski bara best fyrir mig að halda bara kjafti og vera ekkert að tala um þetta.
Er jafnréttisbaráttan (ef það er þá rétta orðið) ekki tilgangslaus ef fólk getur ekki einu sinni staðið upp og tekið undir boðskapinn án þess að vera „skotið í bakið af samherjum“?

Er byltingin þá bara ekki búin að éta börnin sín ef fólk þorir ekki að mæta í partýið og syngja með?
(Nenniði plís að hlífa andlitinu þegar svipuhöggin koma fyrir allar þær hugmyndafræðilegu gildrur sem ég hef dottið í með þessum pælingum, ég þarf nefnilega að nota það í að vera sjúklegur…)”

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af