Fókus

Af skurðarborði í læknaslopp

Fæddist með tvo hjartagalla og gekkst undir fjölda aðgerða – 14 árum síðar fetar hann í fótspor læknisins sem bjargaði honum

Kolbrún Bergþórsdóttir
Sunnudaginn 23. apríl 2017 11:00

„Hérna færðu grímu sem þú átt að anda inn í, svo áttu að telja upp að tíu í huganum og þá verður allt gott,“ segir hjúkrunarfræðingurinn við Hlyn, þar sem hann liggur í sjúkrarúminu. Hann er 13 ára og það sem stendur til er honum framandi en hann veit að það er mikið í húfi. Lífsnauðsynleg hjartaskurðaðgerð skal framkvæmd á honum. Hlynur hlýðir ljúfum tilmælum hjúkrunarfræðingsins og telur upp að tíu í huganum. Síðan verður allt svart.

Hlynur Davíð Löwe er 27 ára gamall í dag og veit upp á hár hvað tók við eftir að hann kom upp að tíu og féll um leið í fastasvefn – hann er búinn að læra allt um það. Í fyrravor lauk Hlynur læknisfræðiprófi frá háskólanum í Kaupmannahöfn, eftir sjö ára dvöl í Danmörku. Nú er hann kominn aftur heim til Íslands. Nánar tiltekið á langa ganga Landspítalans við Hringbraut, íklæddur hvítum læknasloppi með hlustunarpípu um hálsinn. Hlynur er á kandídatsárinu og hefur í nógu að snúast, en gefur sér samt tíma til að bjóða blaðamanni í heimsókn.

Allt er gott sem endar vel

Hlynur Davíð fæddist með tvo hjartagalla og þurfti að gangast undir fjölda aðgerða á unga aldri. „Ég var barn þegar þetta var og man ekki eftir öllu stússinu. Það voru aðallega pabbi og mamma sem höfðu áhyggjur.“ Foreldrar hans óttuðust um líf hans oftar en einu sinni og oftar en tvisvar þegar hann var lítill. „Þetta uppgötvaðist þegar ég var nokkurra vikna eða mánaða og svo fór ég til barnahjartalæknis hér á Íslandi í alls konar rannsóknir og upp komst um þessa galla. Í kjölfarið var ég sendur út til Bandaríkjanna og Bretlands, þar sem framkvæmdar voru aðgerðir á mér. Síðan kom ég heim og var að mestu leyti læknaður en það var eitt skilið eftir.“

Annan hjartagalla Hlyns, svokallaðan VSD, tókst að lækna til fulls þegar hann var þriggja ára gamall. „VSD er op á milli gátta í hjartanu sjálfu, hann var nú alvarlegri. En gallinn var ekki það mikill að hann hefði áhrif á mig, því þeir opnuðu ekki hjartað og fóru inn í það. Þeir þurftu að binda fyrir einhverjar æðar og gera eitt og annað.“ Síðan slær Hlynur á létta strengi og segir að nákvæmar aðgerðarlýsingar sé að finna einhvers staðar erlendis, í borgunum þremur sem hann var sendur til: Baltimore, Boston og London.

Hlaut blessun prestsins

Áratugur leið og Hlynur lifði eðlilegu lífi en hinn hjartagallinn var enn til staðar. Hann þurfti að fara í fjórðu og síðustu aðgerðina til að lækna ósæðarþrengsl. Hann var í sjöunda bekk í grunnskóla. Fermingarfræðsla hafði staðið yfir. „Í fermingarfræðslunni lét presturinn biðja fyrir mér vitandi að ég væri að fara í aðgerð. Þetta var kannski full dramatískt en fyndið samt,“ segir Hlynur og hlær. Aðgerðin gekk eins og í sögu. Hjartaskurðlæknirinn Bjarni Torfason stóð yfir honum og framkvæmdi lífshættulega aðgerð. Skar hann upp af mestu alúð, með heilan skara aðstoðarmanna í kringum sig. Allt á meðan Hlynur svaf vært á skurðarborðinu.

Við tóku ár þar sem Hlynur iðkaði íþróttir af kappi, spilaði fótbolta með vinum sínum og mætti reglulega í ræktina en það segir auðvitað sitt um árangur aðgerðanna. Nú eru liðin fjórtán ár og Hlynur er við hestaheilsu. „Ég hef ekki fundið fyrir neinu síðan og hef farið í eftirfylgd til lækna sem hefur litist ágætlega á mig.“

Stefnir sjálfur á skurðlækningar

Hvorki Hlynur né skurðlæknirinn vissu að fjórtán árum síðar ættu leiðir þeirra eftir að liggja saman á ný. Í það skiptið var Hlynur búinn að bregða sér í hlutverk Bjarna og orðinn læknir, kominn af skurðarborðinu í læknasloppinn og nýtur hinnar bestu tilsagnar frá bjargvætti sínum.

Hvernig er að vera í læri hjá Bjarna, er hann jafn góður að kenna og hann er að skera?

„Hann er gríðarlega góður kennari og leiðbeinandi. Þegar ég er með honum í aðgerðum þá segir hann mér hvað ég á að gera og hvað hann er að fara að gera næst, og hvert verkefni mitt er og hvernig ég get aðstoðað hann sem best. En það er ekki eins og það sé aðeins ég sem er að hjálpa honum inni á þessari stofu heldur svæfingarlæknar, svæfingarhjúkrunarfræðingar, skurðhjúkrunarfræðingar og líffræðingar sem stýra hjarta- og lungnavélum. Það geta verið allt að tíu til tólf manns í hverri aðgerð honum til aðstoðar. Þetta er samstarfsverkefni allra,“ segir Hlynur.

Á hvernig framhaldsnám stefnirðu?

„Mér finnst allar deildir sem ég hef verið á á skurðsviði það skemmtilegar að ég á erfitt með að gera upp á milli. Hjartaskurðlækningar eru í augnablikinu mest spennandi en hinar ekkert síðri.“

Hlynur kann vel við sig á Íslandi þótt hann hafi varið öllum sínum læknanámsárum úti í Danmörku. Í haust, að loknu kandídatsárinu, þarf hann að gera upp hug sinn og halda utan til sérnáms, en hvaða land verður fyrir valinu er óvíst. „Mig langar ekki að búa í útlöndum til frambúðar en ég þarf náttúrlega að fara út ef mig langar til að verða skurðlæknir og sérhæfa mig einhvers staðar, hvort sem það verður í Danmörku, Svíþjóð eða Bretlandi. Það verður að koma í ljós, ég ætla fyrst að átta mig á því hvað mig langar nákvæmlega að gera.“

Hefur búið í þremur löndum

„Maður þarf að öðlast sýn á það sem er að gerast annars staðar í heiminum, Ísland er þrátt fyrir allt smátt í stóra samhenginu og meira að segja Dönum finnst þeir vera smáir í stóra samhenginu þó svo að ég líti á Dani sem risastóra þjóð. Við höldum stundum að við séum nafli alheimsins og ekkert sé betra en á Íslandi,“ segir Hlynur léttur í lund. Hann hefur haft fasta búsetu í samtals þremur löndum auk Íslands. „Ég hef átt heima í Belgíu, Svíþjóð og Danmörku. Pabbi var að vinna í íslenska sendiráðinu í Brussel þegar ég var 11 ára, var þar í eitt og hálft ár og á meðan var ég í bandaríska skólanum The International School of Brussels og á ágætis vini þaðan sem komu í heimsókn til mín í fyrrasumar,“ segir Hlynur og bætir því við að hann hafi flutt til Svíþjóðar skömmu eftir síðustu aðgerðina og búið þar í heilt ár. „Mamma mín er ofnæmislæknir og lærði úti í Gautaborg. Hún kom heim eftir tvö ár þannig að hún var ekkert að staldra lengi við úti en nógu lengi til að þess að ég fékk að vera eitt ár í skóla úti í Svíþjóð og lærði sæmilega sænsku.“

Hlynur hefur ferðast víða innan Evrópu og einnig til Bandaríkjanna og sér vel fyrir sér að leggja land undir fót í fleiri löndum um leið og tími leyfir. „Ég er að vinna á fullu núna en þegar ég verð í framtíðinni orðinn sérfræðilæknir einhvers staðar þá vonast ég til þess að geta ferðast eitthvað. Mér finnst afskaplega spennandi að sjá heiminn í kringum mig.“

Hlynur metur mikils að hafa dvalist erlendis og byggt upp marghæfan menningarbakgrunn. Hann nýtur þess að grípa til málakunnáttu sinnar þegar tækifæri gefast. „Það var hringt í mig upp á spítala nýlega, það var manneskja frá Danmörku sem byrjaði á því að tala ensku við mig. Ég sagði bara: Já! Ertu frá Danmörku? – og fór að blaðra við hana á dönsku,“ segir hann stoltur og bætir við: „Svo eru líka einhverjir Svíar sem koma inn á bráðamóttökuna og ég get spjallað við þá á sænsku, það er ábyggilega mjög þægilegt fyrir þá – og gaman fyrir mig að rifja upp gamla takta þó svo að ég sé aðeins farinn að ryðga í sænskunni eftir þessi fjórtán ár – í samanburði við dönskuna!“

Kolbrún Bergþórsdóttir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 3 dögum

TÍMAVÉLIN: Sótölvaðir embættismenn í Bergstaðastræti – Nokkrir unnu hjá Íslandsbanka

TÍMAVÉLIN: Sótölvaðir embættismenn í Bergstaðastræti – Nokkrir unnu hjá Íslandsbanka
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ásdís Rán sinnir erlendum aðdáendum og verður með live útsendingar frá leiknum á morgun: Svona er HM stemmningin á Íslandi

Ásdís Rán sinnir erlendum aðdáendum og verður með live útsendingar frá leiknum á morgun: Svona er HM stemmningin á Íslandi
Fókus
Fyrir 5 dögum

Veðurfregnir vikunnar frá Páli Bergþórssyni (94): Gola og rigning út vikuna í Reykjavík – Kalt í næstu viku

Veðurfregnir vikunnar frá Páli Bergþórssyni (94): Gola og rigning út vikuna í Reykjavík – Kalt í næstu viku
Fókus
Fyrir 6 dögum

HÖNNUN & HEIMILI: Litríkt heimili hjá arkitekt í Stokkhólmi – Flippar með fúgurnar

HÖNNUN & HEIMILI: Litríkt heimili hjá arkitekt í Stokkhólmi – Flippar með fúgurnar
Fókus
Fyrir einni viku

TÍMAVÉLIN: Bjórlíkið breytti drykkjumenningu Íslands – „Sumir höfðu áhyggjur“

TÍMAVÉLIN: Bjórlíkið breytti drykkjumenningu Íslands – „Sumir höfðu áhyggjur“
Fókus
Fyrir einni viku

HEIMILI & HÖNNUN: „I’m blue dabadee daba daaa…“

HEIMILI & HÖNNUN: „I’m blue dabadee daba daaa…“