Fókus

Hjón fengu áfall þegar þau fóru í glasafrjóvgun

Höfðu ekki hugmynd um að þau væru skyld

Ritstjórn DV skrifar
Laugardaginn 15. apríl 2017 13:00

Hjón nokkur í Mississippi, Bandaríkjunum, eiga erfitt með að bíta í það súra epli að í raun eru þau systkin. Þetta kom í ljós er þau ákváðu að fara í glasafrjóvgun eða IVF (in vitro fertilization).

Gerðar voru á þeim hefðbundnar prufur til að undirbúa ferlið, en aðstoðarmaður á læknastofunni tók þá eftir óvenjulegum skyldleika í erfðaefni hjónanna. Þetta kemur fram í frétt á Mirror. Hjónin óskuðu þess að vera ekki nafngreind í fjölmiðlum.

Læknirinn sem tók á móti þeim tjáir sig um málið. „Þessar prufur eru bara hluti af glasafrjóvgunarferlinu og eru ekki gerðar til að leita að skyldleika í genum. En í þessu tilviki varð aðstoðarmaður minn var við ískyggilega mikinn skyldleika í DNA-sýnum hjónanna.“ Sýnin voru síðan skoðuð betur og þá kom í ljós að þau væru systkin.

Fyrst var haldið að hjónin kynnu að vera systkinabörn, en við nánari eftirtekt kom hitt í ljós.

Fædd sama dag en föttuðu ekkert

Hjónin eru fædd sama dag í sama mánuði, árið 1984. En þau óraði ekki fyrir því að þau væru systkin eftir öll sín ár í sambúð – ekki fyrr en nú.

En eftir að læknirinn fékk uppgefin fæðingardag þeirra beggja fór hann að hafa sínar grunsemdir.

Kútveltust fyrst af hlátri

Eftir að sýnin höfðu verið tekin úr erfðaefni hjónanna og rannsökuð á stofunni, voru þau boðuð í aðra skoðun til læknisins. Þau vissu enn ekki neitt um þetta.

Læknirinn, sem var ekki viss hvort hjónin væru meðvituð um þennan skyldleika sinn, spurði þau síðan mjúklega: „Þið vissuð að þið væruð systkin er það ekki?“

Viðbrögð hjónanna við þessari afbrigðilegu spurningu voru á þann veg að bæði fengu þau skyndilegt hláturskast. Þau héldu auðvitað að læknirinn væri að gantast í sér.

Töldu þetta tilviljun

„Eiginmaðurinn sagði að margir tækju eftir einkennum á borð við sama afmælisdag og svipað útlit, en héldu að það væri einfaldlega fyndin tilviljun og hefði alls ekkert með skyldleika að gera,“ segir læknirinn.

Það tók drjúga stund að sannfæra hjónin sem enn stóðu í þeirri meiningu að þetta væri góðlátlegt grín, en eiginkonan grátbað lækninn lengi vel um að viðurkenna að svo væri.

„Ég vildi að ég væri að grínast, en ég varð að segja þeim sannleikann,“ segir læknirinn í samtali við blaðið Mississippi Herald, eftir að hafa útskýrt fyrir hjónunum að það væru DNA-sýni fyrir hendi til að sanna skyldleikann.

Bæði ættleidd

Hjónin kynntust fyrst í menntaskóla og áttu strax vel saman. Það vildi nefnilega svo vel til að þau höfðu svipaðan bakgrunn. Bæði höfðu þau verið ættleidd og bæði höfðu þau misst foreldra sína.

Þessi sameiginlegi bakgrunnur gerði það jú að verkum að þau skildu hvort annað afar vel og urðu hamingjusöm hjón. En hann varð líka til þess að valda þeim þessu mikla áfalli síðar meir.

Eins og gefur að skilja eru hjónin örvæntingarfull yfir fregnunum og velta því nú fyrir sér hvernig hjónabandið verði í framtíðinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af