fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fókus

Hjördís barðist fram á síðasta dag: Skilur eftir sig þrjú ung börn sem þurfa á stuðningi að halda

Hjördís Ósk Haraldsdóttir sem lést úr krabbameini í janúar aðeins 32 ára skilur eftir sig þrjú ung börn -Þriðja æxlið dró hana til dauða á tveimur mánuðum

Kristín Clausen
Fimmtudaginn 16. febrúar 2017 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Hún var ótrúlega raunsæ og aðdáunarvert að fylgjast með hvernig hún tókst á við veikindin samhliða móðurhlutverkinu.“ Þetta segir Helga Jóna Guðbrandsdóttir, vinkona Hjördísar Óskar Haraldsdóttur sem lést í lok janúar eftir erfiða baráttu við krabbamein í heila.

Gafst aldrei upp

Hjördís sem var 32 ára skilur eftir sig þrjú ung börn; Alyssu Lilju, 11 ára, Amý Lynn, 9 ára, og Arion Raiden, 5 ára. Í janúar 2014 greindist Hjördís fyrst með góðkynja æxli í heilanum sem hafði mikil áhrif á hennar daglega líf. Það var jafnframt upphafið að endalokum lífs Hjördísar.

Tæpu ári síðar, eða í desember 2015, fékk Hjördís þær fréttir að hún væri með krabbamein. Þá hafði annað æxli fundist, við hliðina á því sem var góðkynja, en þetta nýja æxli var illkynja.

Þriðja æxlið fannst svo í lok nóvember 2016. Vikurnar á undan hélt Hjördís að hún væri búin að sigrast á krabbameininu og leit björtum augum til framtíðar. Höggið var því gríðarlega mikið þegar æxlið, sem dró hana til dauða á aðeins tveimur mánuðum, fannst. Að sögn vina Hjördísar gafst hún aldrei upp þrátt fyrir að hún hafi gert sér grein fyrir í hvað stefndi undir lokin.

Hjördís lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi þann 26. janúar síðastliðinn eftir hetjulega baráttu. Líkt og hún sagði sjálf í viðtali við DV í nóvember síðastliðnum þá kom jákvæðnin henni yfir erfiðustu hjallana.

Hjördís opnaði sig um veikindin í einlægu viðtali í DV í nóvember 2016

Í viðtali við DV í nóvember 2016 sagði Hjördís að þrátt fyrir að fyrsta æxlið sem fannst í höfði hennar í janúar 2014 hefði verið góðkynja hafi það verið stórt og á slæmum stað. Mánuðina áður en Hjördís leitaði til læknis fann hún fyrir mikilli þreytu, ruglaði orðum saman og átti í erfiðleikum með tal. Þá var hún oft með höfuðverk, fann titring og doða í handleggjunum og fékk sársaukapílur í andlitið. „Læknarnir vildu strax skera í það. Aðgerðin sem ég fór í var mjög stór og reyndi mikið á mig líkamlega. Hún heppnaðist ekki nógu vel þar sem þeir náðu bara örlitlu vegna þess hversu illa æxlið er staðsett.“Í framhaldinu fór Hjördís í endurhæfingu en hún var með stöðugan höfuðverk og átti í erfiðleikum með að halda heimilið og hugsa um börnin. Nokkrum mánuðum síðar, haustið 2015, fór hún að finna fyrir sömu einkennunum aftur. Í desember 2015 fékk Hjördís þær fregnir að hún væri með krabbamein. Krabbameinsæxlið var við hliðina á æxlinu sem var góðkynja. „Á aðeins nokkrum vikum stækkaði það mjög hratt og var orðið jafn stórt og góðkynja æxlið þegar ég byrjaði í meðferð.“Aðspurð hvernig henni leið þegar hún fékk að vita að hún væri með krabbamein segir Hjördís: „Ég var undirbúin. Var aftur búin að vera í afskaplega miklum rannsóknum og læknarnir sögðu mér að mögulega væri ég með illkynja æxli í þetta skiptið. Það er svo skrítið að ég fékk aldrei sjokk eða varð hrædd. Þetta er bara ömurlegt verkefni sem ég ætla að klára.“Þá sagði Hjördís í viðtalinu: „Maður verður að eiga góða að og sem betur fer er ég svo heppin. Ef það væri ekki fyrir fjölskyldu mína og allt sem hún hefur gert fyrir mig þá væri ég í volæði.“Í lok viðtalsins sagði Hjördís að krabbameinið hefði breytt henni og hún liti lífið allt öðrum augum en áður en hún veiktist. „Ég er orðin miklu sterkari andlega og búin að læra hvað það skiptir miklu máli að vera jákvæð. Núna tek ég bara einn dag í einu og er þakklátari fyrir það sem ég hef og það sem vel gengur.“

„Hugarfarið skiptir öllu máli við svona aðstæður. Ég hef svo mikið að lifa fyrir og þarf að vera til staðar fyrir börnin mín. Ég á líka yndislega foreldra, stjúpforeldra og svo á ég kærasta sem hefur hjálpað mér mikið í gegnum þetta allt saman.“

Ætluðu að ala börnin upp saman

Hjördís átti þrjú ung börn en hún og barnsfaðir hennar skildu árið 2014. Börnin eru hjá móður Hjördísar en mæðgurnar festu nýverið kaup á húsi þar sem þær ætluðu að ala börnin upp í sameiningu.

Eftir andlátið tóku vinkonur Hjördísar sig saman og stofnuðu styrktarreikning fyrir börn Hjördísar, eða Dísu eins og hún var alltaf kölluð. Vinkonum hennar er mikið í mun að tryggja framtíð barnanna eftir besta mætti. Númerið má finna neðst í fréttinni.

Yngsta barn Hjördísar, Aron, er með fæðingargalla í meltingarvegi (Short bowel syndrome) og er langveikur sökum þess. Hjördís dvaldi meira og minna með hann á Barnaspítala Hringsins fyrsta árið eftir að hann fæddist. Eitt stærsta vandamálið sem Aron glímir við í dag er að hann á mjög erfitt með að nýta sér næringarefni úr fæðunni. Hann er því á lyfjum og fær sérblandaðan næringarvökva í drykkjarformi fjórum sinnum á dag.

„Dísu fannst æðislegt að vera mamma. Enda forgangsraðaði hún hlutunum þannig alveg fram á síðasta dag að þau voru alltaf í fyrsta sæti,“ segir Helga og bætir við að börnin séu í góðum höndum.

Söknuður þeirra sé þó eðlilega mikill. „Eldri stelpurnar tvær vissu hvað var í gangi. Dísa var alltaf mjög hreinskilin og faldi ekkert fyrir þeim. Þær hafa þurft að fullorðnast mjög hratt.“

Hélt í hefðbundið líf

Þá segir Helga að Hjördís hafi reynt að halda í hefðbundið líf, barnanna vegna, eins lengi og hún mögulega gat. En eftir því sem tíminn leið þurfti Hjördís sífellt meiri aðstoð í daglegu lífi.

„Stelpurnar hennar voru duglegar að hjálpa mömmu sinni og eiga hrós skilið fyrir það. Enda einstaklega flottar.“
Þá segir Helga að Hjördís hafi verið mjög tilbúin að verða móðir þegar Alyssa kom í heiminn árið 2005.

Nokkrum mánuðum áður en illkynja æxlið fannst í heila Hjördísar.
Helga og Hjördís í júlí 2015 Nokkrum mánuðum áður en illkynja æxlið fannst í heila Hjördísar.

Mynd: Úr einkasafni

„Hún gerði allt eins vel og hægt er. Eftir að Aron fæddist upplifði Dísa gríðarlega mikla erfiðleika. Þá sá maður líka hvað það bjó mikill kraftur í henni,“ segir Helga og bætir við að börnin hafi ekki aðeins þurft að takast á við veikindin heldur einnig skilnað foreldra sinna:

„Þau voru mörg hlutverkin sem Dísa þurfti að setja sig í síðustu árin. Hún horfði samt alltaf fram á veginn, dvaldi ekki í sorginni heldur einblíndi á það jákvæða og tók einn dag í einu. Hjördís vældi aldrei yfir því að eitthvað væri ósanngjarnt eða vont heldur tókst á við verkefnin eitt af öðru. Krabbameinsmeðferðin og allt sem henni tilheyrði var svo lítið mál fyrir hana að maður trúði því stundum ekki hvað hún var raunverulega veik.“

Um síðustu jól hafði mikið dregið af Hjördísi sem fékk þó að verja aðfangadagskvöldi í faðmi fjölskyldunnar. „Hún gat ekkert tjáð sig og var orðin afar slöpp. En ég veit að hún naut þess að vera með börnunum sínum sem hún elskaði meira en allt. Nú er það í verkahring hennar nánustu að sjá til þess að framtíð barnanna verði björt.“

Styrktarreikningurinn er hjá Íslandsbanka. Númerið er: 0545-14-407765. Kennitalan er: 2411654349

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Sonur Elísu og Elíss fæddur

Sonur Elísu og Elíss fæddur
Fókus
Fyrir 2 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Bjútífilterar á samfélagsmiðlum orðnir svo lúmskir – „Þetta er ekki raunveruleikinn“

Bjútífilterar á samfélagsmiðlum orðnir svo lúmskir – „Þetta er ekki raunveruleikinn“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Faðir Olgu var einn þekktasti læknamiðill landsins – „Hann vissi allt“

Faðir Olgu var einn þekktasti læknamiðill landsins – „Hann vissi allt“