Fókus

Róbert Marshall losar sig við Marshall

Sándið hentar ekki lengur – Ætlar ekki að verða Róbert bangsi

Ritstjórn DV skrifar
Miðvikudaginn 15. febrúar 2017 21:00

Róbert Marshall, fyrrverandi þingmaður, hyggst losa sig við Marshall-magnarann sem hefur fylgt honum um langa hríð sökum þess að „Marshall sándið hentar mér ekki lengur“. Þetta skrifar Róbert inn á hljóðfærasölusíðu á Facbook og segir ekkert annað í stöðunni en að fá sér nýjan magnara.

„Þetta er auðvitað vandræðalegt, ég tala nú ekki um vegna þess að ég hef notað Marshall-magnara í áraraðir,“ segir Róbert í samtali við DV. Róbert er liðtækur gítarleikari og hefur getið sér gott orð sem slíkur. Spurður hvort hann hafi keypt sér Marshall-magnara í upphafi vegna nafnsins svarar Róbert: „Við skulum orða það þannig að mér hefur aldrei fundist, fram að þessu, neinn annar magnari koma til greina. Af einhverri ástæðu.“

Hluti af breytingum í lífinu

Ýmsir gera góðlátlegt grín að Róbert inni á síðunni. Þar á meðal er Snæbjörn Ragnarsson, bassaleikari Skálmaldar, sem bendir á að til séu magnarar af tegundinni RedBear. „Væri nú gaman ef hann fengi sér svona. Svona bangsamagnara, ha?“ skrifar Snæbjörn og vísar þar til Róberts bangsa sem Ruth Reginalds túlkaði á barnaplötu á áttunda áratugnum. Róbert hlær við og segist nú vera fremur áhugalítill um það. „Ég hef fundið annað sánd sem mig langar til að gera að mínu. Ég er að leita mér að Vox-magnara, sem ég held að ég sé búinn að finna, og það verður nýja sándið.“

Spurður hvort þetta sé hluti af breytingum tengdum því að Róbert lét af þingmennsku við síðustu kosningar útilokar hann það ekki. „Ætli það ekki, maður er á ákveðnum tímamótum í lífinu og er að endurskoða svona ákveðna hluti sem maður hefur fram að þessu talið sjálfsagða og eðlilega. Ég ætla hins vegar að halda nafninu,“ segir Róbert Marshall að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af