Fókus

Birkir: „Ég byrjaði bara að öskra. Mér fannst eins og það væri að kvikna í andlitinu á mér“

„Síðan byrjaði augað á mér að bólgna og þá var ég alveg viss um að ég væri orðinn blindur“

Kristín Clausen skrifar
Miðvikudaginn 15. febrúar 2017 20:00

„Þetta er búin að vera mjög sársaukafull vika,“ segir kokkaneminn Birkir Ívar Gunnlaugsson sem lenti í alvarlegu vinnuslysi fyrir viku þegar rjómasprautu-gashylki sprakk með þeim afleiðingum að hann brenndist illa í andliti, á höndunum og skaddaðist á auga. Betur fór en á horfðist í fyrstu og eru læknar bjartsýnir á að Birkir nái fullum bata með tímanum.

Gashylkið sprakk

Þegar slysið varð, um kvöldmatarleytið síðastliðinn þriðjudag, var Birkir að útbúa sósu í stórum stálpotti en margir áttu pantað borð á veitingastaðnum þar sem hann vinnur umrætt kvöld.

Andlitið er illa farið.
Tveggja gráðu brunasár Andlitið er illa farið.

Mynd: Úr einkasafni

Þegar sósan var nánast tilbúin, orðin hnausþykk og mallaði eftir að hafa verið elduð á 240 gráðu heitri hellu, ákvað Birkir að fylla á gashylki í sprautubrúsum sem notaðir eru á staðnum fyrir hinar ýmsu sósur, frauð og rjóma.

Gashylkin voru geymd í hillu fyrir ofan eldavélina.

„Ég færði sósupottinn til hliðar og rétti höndina upp til að sækja gashylki. Við það dettur eitt hylkið ofan í pottinn. Ég vissi strax að það gæti sprungið og var að velta því fyrir mér hvað ég ætti að að gera þegar það sprakk, nokkrum sekúndum síðar.“

Fyrst eftir slysið litu brunasárin svona út.
Miklir áverkar Fyrst eftir slysið litu brunasárin svona út.

Mynd: Úr einkasafni

Sprengingin var gríðarlega kraftmikil. Sósan slettist um allt eldhús, þrjá metra upp í loftið, og helluborðið, þar sem potturinn stóð, mölbrotnaði. Birkir, sem stóð beint fyrir framan pottinn, brenndist mjög illa þegar heit sósan fór yfir hann.

„Ég byrjaði bara að öskra. Sáraukinn var svo gríðarlega mikill og mér fannst eins og það væri að kvikna í andlitinu á mér. Um leið og þetta gerist fer rafmagnið af svo við sem vorum í eldhúsinu sáum ekkert. Vinnufélagar mínir reyndu að gera sitt besta til að hlúa að mér en það var erfitt í myrkrinu.“

Augað bólgnaði

Uppi varð fótur og fit í eldhúsinu, þar sem ekkert nema ópin í Birki heyrðust í myrkrinu en hann hljóp sjálfur beint undir vaskinn til að kæla brunasárin. „Síðan byrjaði augað á mér að bólgna og þá var ég alveg viss um að ég væri orðinn blindur.“

Í framhaldinu kom lögregla og sjúkrabíll á vettvang og Birkir var fluttur á bráðamóttökuna í Fossvogi en með viðkomu á Hvolsvelli þar sem slysið varð úti á landi.

„Sjúkraflutningamennirnir sem komu fyrstir á vettvang voru lengi að átta sig á því hvernig ætti að meðhöndla brunasárin. Þeir fundu í fyrstu heldur ekkert til að kæla mig,“ segir Birkir, sem er gríðarlega ósáttur við þessa fyrstu hjálp.

„Ég þurfti að biðja þá ítrekað um að setja eitthvað yfir andlitið á mér og held að þeir hafi einfaldlega ekki vitað hvernig ætti að bregðast við svona brunaáverkum. Að lokum fundu þeir þó Burn Free-grisjur sem þeir lögðu yfir andlitið á mér.“

Gleymdist að kæla handlegginn

Eftir að sjúkrabíllinn var kominn á Hvolsvöll mat vakthafandi læknir ástand Birkis svo alvarlegt að hann þyrfti að komast sem allra fyrst til Reykjavíkur. Áður en sjúkrabíllinn lagði aftur af stað fékk Birkir morfín og áframhaldandi kælimeðferð en hann segir að á þessum tímapunkti hafi sársaukinn verið orðinn óbærilegur.

Morfínið sló bara mjög takmarkað á verkina. Þá gleymdist að kæla handlegginn á Birki í öllum hamaganginum.

„Ég man ekki mikið eftir ferðinni í bæinn, ég var á svo miklum lyfjum. En ég fékk nett áfall þegar ég heyrði sjúkraflutningamanninn segja í talstöðina að ég væri annaðhvort með annars- eða þriðjastigs brunasár. Þó svo að ég viti ekki mikið um bruna þá veit ég að það er ekki hægt að laga ör eftir þriðja stigs brunasár.“

Núna, viku síðar, er Birkir kominn heim af sjúkrahúsinu. Brunasárin eru annars stigs svo læknar eru bjartsýnir á að húðin grói alveg á nokkrum mánuðum. Augað er illa farið og hornhimnan skaddaðist í slysinu. Í fyrstu var Birkir aðeins með 40 prósent sjón en með réttri læknismeðferð vonast augnlæknirinn hans til þess að hann fái fulla sjón með tímanum.“

Hornhimnan á auganu skaddaðist.
Læknar telja að Birkir eigi eftir að ná fullum bata Hornhimnan á auganu skaddaðist.

Mynd: Úr einkasafni

Birkir kveðst enn vera í miklu áfalli og finna mikið til. Hann ráðleggur fólki eindregið að huga að því hvar gashylki eru geymd á heimilinu. „Ég held að ég muni aldrei nota gashylki aftur. Ef svo verður verða þau ekki geymd nálægt einhverju heitu. Helst bara í öðru rými.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af