Fókus

Eva María: „Skilnaður er erfiður og það er einkamál hvers og eins hvernig glímt er við þá erfiðleika“

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar
Mánudaginn 13. febrúar 2017 11:15

Eva María Jónsdóttir hafði átt afar farsælan feril sem dagskrárgerðarmaður á RÚV þegar hún ákvað að söðla um og fara í bókmenntanám í Háskóla Íslands sem leiddi hana síðan inn í heim miðalda. Hún lauk meistaraprófi í miðaldafræðum frá Háskóla Íslands fyrir ári og starfar nú sem vef- og kynningarstjóri Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, auk þess sem hún sinnir fræðunum eftir mætti. Kolbrún Bergþórsdóttir hitti Evu Maríu og spurði hana meðal annars um fræðin, íslenskuna, fjölskyldulífið og trúna.

„Ég hætti á RÚV sumarið 2010. Þá var von á fjórðu dótturinni í heiminn og ég var búin að ákveða að fara í nám í miðaldafræðum meðfram barnauppeldi,“ segir Eva María. „Það var ekki erfið ákvörðun að hætta. Ég var komin í nýtt samband og mér fannst ég bera ábyrgð stórri fjölskyldu því á þessum tíma voru fjögur börn að koma nokkurn veginn ný inn í líf mitt; barn okkar Sigurpáls mannsins míns og þrjú börn sem ég þekkti ekki vel sem voru börnin hans og því stjúpbörn mín.

Vinna í sjónvarpi gerir kröfur til þess að maður vinni á alls konar tímum sem eru ekki endilega fjölskylduvænir. Það hentaði mér ekki lengur. Ég var líka búin að fá að gera nokkurn veginn allt sem stofnunin bauð upp á, á þeim tíma. Mig langaði til að vinna eftir langtímaplani og það er ekki gert í sjónvarpi hér, nema helst í leiknu efni sem var ekki mín deild. En menn sjá augljóslega hvað hægt er að ná fram miklum gæðum ef gerð eru plön til margra ára eins og raunin er með Fanga, sem þjóðin sameinaðist yfir undanfarnar vikur. Í almennri dagskrárgerð er hinsvegar yfirleitt unnið frá degi til dags, eða maður er með vikulegan þátt, en mig langaði helst að setja mér langtímamarkmið og vinna eftir því. Langtímamarkmið mitt var því að klára nám. Næsta langtímamarkmið er svo að upplifa að flytja inn í hús íslenskunnar á Melunum.“

Gefandi fjölskyldulíf

Eva María er gift Sigurpáli Scheving hjartalækni og samanlagt eru börn þeirra sjö talsins. Eva María segir ekki hafa verið erfitt að verða stjúpmóðir, þó erfitt sé að ganga inn í hlutverk sem tiltölulega lítið sé fjallað um, nema í gömlum ævintýrum um vondar stjúpur. „Ég fagnaði því strax í byrjun. Þegar á líður finnur maður að þetta er mikil vinna, fyrir mig sem á mín börn og Sigurpál sem á sín börn og svo eigum við eitt saman. Við erum ekki eins. Maðurinn minn kemur úr öðru umhverfi en ég og hefur annað lag á sínum börnum en ég hef á mínum. Þetta krefst fundarhalda. Það þarf að ræða hlutina og ákveða sameiginleg gildi. Maður verður að hafa fyrir því að komast að samkomulagi og fylgja því. En maðurinn minn er mjög léttur og kátur í lund og það hjálpar til í þessum efnum. Hann tekur ekki öllu svona alvarlega eins og ég.

Fjölskyldulífið skiptir mig mjög miklu máli enda er það bæði gefandi og krefjandi. Ég er sennilega alltof meðvituð um að vera góð fyrirmynd. Elsta barnið er sautján ára og mér finnst það vera tilbúið til að takast á við lífið upp á eigin spýtur og það er ólýsanlega góð tilfinning. Ég get stutt þessa manneskju áfram en ég hef í raun lokið mínu uppeldishlutverki og segi bara: Takk Guð fyrir að tekist hafi að koma einu barni til manns! Þá eru bara sex börn eftir.“

„Ég er trúuð í dag, en missti trúna um skeið og um leið samband við kirkjuna.“
Trúin „Ég er trúuð í dag, en missti trúna um skeið og um leið samband við kirkjuna.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Skilnaður sem skóli

Nokkur fjölmiðlaumfjöllun varð þegar Eva María skildi við fyrri mann sinn Óskar Jónasson kvikmyndagerðarmann. Hún er spurð hvort henni hafi fundist sú umfjöllun erfið. „Það er ekki erfið tilhugsun að fjölmiðlar sinni sínu hlutverki á meðan sýnd er kurteisi og þess gætt að bera virðingu fyrir einkalífi fólks,“ segir hún. „Skilnaður er erfiður og það er einkamál hvers og eins hvernig glímt er við þá erfiðleika og þá getur verið óþægilegt ef fjölmiðlar vilja setja sig inn í þá glímu. En þar sem um helmingur þeirra sem gifta sig ganga í gegnum skilnað er eðlilegt að fólk segi frá reynslu sinni ef það heldur að það sé til einhvers gagns. Fólk er sem betur fer farið að sjá ljósið í því að tala um margs konar erfiðleika sem áður var þagað um.

Þó að ég hafi talað um skilnað sem erfiðleika, get ég líka litið á hann sem mikinn skóla. Ég var ekki feimin við að segja frá því að ég þáði mikla hjálp frá presti, sálfræðingi og sálgreini. Ég fór meira að segja á námskeið til útlanda. Ég gerði allt sem ég mögulega gat til að komast heil í gegnum þessar miklu breytingar. Það gerði líka fyrrverandi eiginmaður minn, og bæði höfum við fengið spurningar úr öllum áttum um hvað reyndist best og svo framvegis. Ég held að flestir þurfi mikla hjálp þegar gengið er í gegnum skilnað.“

Af hverju skilduð þið Óskar?

„Undir lokin vorum við ekki saman af því að okkur langaði til að vera saman, heldur af skyldurækni, því að við áttum saman börn og heimili. Það var ekki nógu mikil ástæða til að vera áfram saman. Maður finnur að maður stöðvast í þroska ef maður lendir í þeirri þröngu stöðu.“

Hver heldur þú að sé lykillinn að farsælu hjónabandi?

„Ég hef hugsað mikið um það en veit það sennilega ekki betur en næsti maður. En mín reynsla kenndi mér að það er mikilvægt að vera ekki hrokafullur og segja: Ég er í svo góðu hjónabandi að ekkert fær unnið á því. Ég held að þessi uppfinning mannsins, hjónabönd, séu yfir höfuð erfið og krefjist vinnu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af