Fókus

Arnór í stríði við Hundasamfélagið: „Skammist ykkar […] Ógeðslega, og vonda fólk“

Kristjón Kormákur Guðjónsson skrifar
Þriðjudaginn 10. janúar 2017 15:40

„Ég á rosalega erfitt með einn hóp á Facebook. Það eru ekki Hermenn Óðins, Sjomlatips, Beauty Tips, eða Stuðningsmenn Donald Trump á Íslandi. Neibb. Hundasamfélagið.“

Þetta skrifar Arnór Steinn Ívarsson á bloggsíðu sinni en pistill hans hefur vakið mikla athygli í hópnum Hundasamfélagið á Facebook. Þar vandar Arnór Steinn meðlimum hópsins ekki kveðjurnar. Arnór Steinn hefur áður verið til umfjöllunar hjá DV en opið bréf sem hann ritaði Illuga Gunnarssyni menntamálaráðherra vegna kjaradeilu kennara vakti mikla athygli fyrir rúmum tveimur árum. Sá sem verður fyrir penna Arnórs að þessu sinni er hundasamfélagið en höfundur segir hópinn fullan af vondu fólki og segir Arnór hópinn vera þann versta sem hann hafi verið hluti af á netinu. Arnór segir:

„Nú er ég kominn með upp í kok. Ég hef daðrað við þá hugmynd að skrifa um þennan ógeðslega, ógeðslega hóp í nokkurn tíma, og ætla núna loksins að láta verða af því. Ég ætla að taka nokkur dæmi, og svo ætla ég að segja skilið við þetta drasl umræðuefni, og þennan ljóta hóp, að eilífu.“

Úthúðað sem dýraníðingi

Mynd: 123rf.com

Fyrsta dæmið sem Arnór tiltekur er að honum hafi verið úthúðað sem dýraníðingur og verið hótað eftir mistök sem hann hafi ítrekað beðist afsökunar á. Þar tók Arnór undir að ekki væri athugavert við það að slá hund sinn á trýnið ef hann gerði eitthvað af sér og viðurkennir Arnór að hafa sagt eitthvað á þessa leið:

„Ég sagði (og guð almáttugur hvað ég sé eftir því að hafa ekki beðið aðeins og lesið aftur) eitthvað eins og: “hvað er þetta eiginlega, til þess að ala upp Husky hund þá þarf að beita ofbeldi!” Galdraorðið: ofbeldi. Ég sé eftir því af því að ég meinti það alls, alls ekki. Auðvitað áttu aldrei að berja hund. Ég hefði aldrei átt að nota þetta heimska orð. Ég bara, og sorrí með mig, að ég var alinn upp með hundum svona, vissi ekki að það væri kominn almenningssáttmáli um það að þú mátt ekki slá hundinn þinn á nebbann ef hann gerir eitthvað af sér.“

Arnór segir í kjölfarið hafi stormurinn byrjað. Hann kveðst strax hafa reynt að útskýra að hann hafi gert mistök. Í kjölfarið hafi að hans sögn myndast ógeðslegur múgæsingur.

„“Sæll. Ef ég sé þig beita hund ofbeldi þá mun ég beita þig ofbeldi. Vertu bless.” Þetta fékk ég nokkrum mínútum síðar frá miðaldra karlmanni. Ég brotnaði niður. Ég? Dýraníðingur? Ég sem eyði korteri í að biðja hund minn fyrirgefningar ef ég stíg óvart á löppina hennar? [ … ] Sumir reyndu að verja mig. En annars var ég hafður að háði og spotti af hinum.

Niðurrif

Arnór kveðst verða var við ýmisskonar grimmd í hópnum. Þegar fólk þurfi að láta frá sér dýrin vegna ákveðinna aðstæðna fái þeir sem taki það erfiða og ömurlega skref oft yfir sig skítkast.

Birtir hann nokkur komment í tengslum við slíka umræðu:

„Af hverju varstu þá að fá þér hund ef þú vissir að þú gætir mögulega þurft að losa þig við hann? Hataru hunda?” “Af hverju ertu þá eiginlega að flytja þangað? Ha? Er ekki til eitthvað hundavænt húsnæði, hefuru leitað nógu vel, ha??” “Hefðir nú átt að hugsa þig um áður en þú fékkst þér hund,“ segir Arnór og segir umrædd komment ekki þau verstu sem hann hafi orðið var við.

Leitin að Tinnu

Tíkin Tinna hefur enn ekki fundist og hefur verið mikill samhugur hjá notendum Hundasamfélagsins. Tinna týndist upphaflega í pössun hjá ókunnugri konu. DV sem og aðrir fréttamiðlar hafa greint frá málinu að undanförnu. Það var aðfaranótt 29. desember sem farið var með Tinnu ásamt þremur öðrum hundum út í garð til að láta hana pissa. Tinna var með heimagerða ól og fældist þegar flugeldur sprakk í nágrenninu og sleit sig lausa úr ólinni.

Arnór nefnir að ungur maður hafi talið sig sjá Tinnu. Hann hafi reynt að ná henni en mistekist. Var hann sakaður um að villa um fyrir leitinni en segir sjálfur að rafhlaðan í símanum hafi tæmst. Í kjölfarið fékk hann þessi skilaboð að sögn Arnórs:

„Það er því miður mjög greinilegt að þú hefur ekki fengið sama uppeldi og sem betur fer flestir fá, og fyrir það vorkenni ég þér. Þú hefur líklega átt ömurlega æsku fyrst þetta er karakterinn sem þú sýnir á fullorðinsárum…þar sem ég er kennari þá veit ég að ekki allir skilja án frekari útskýringa svo ég segi það beint út. Þetta kemur þér niður, í lægstu hyldýpi samfélagsins þar sem enginn mun hlusta á þig né taka mark á þér”

Önnur skilaboð sem fylgdu í kjölfarið voru:

„Vá ! Hvað þú ert skemmdur greyið þitt ! Big time Sækó !!! [… ] Greyið barnið þitt. Þú ert ógeðslegur … hefur augljóslega enga samkennd fyrir öðrum.“

Gagnrýnir Arnór umræðuna í hópnum en tekur fram að margir hafi beðið unga manninn afsökunar á ummælum sínum. Um þá sem tala með þessum hætti segir Arnór:

„Ef fólkið sem lét eftir sig þessi ummæli eru að lesa þessa grein, þá vil ég segja það hérna sjálfur; skammist ykkar. Skammist ykkar til hins óendanlega, og ég vona innilega að þessi skömm muni fylgja ykkur um alla tíð, eins og þung járnkúla í keðju fast við hægri fót ykkar. Ógeðslega, og vonda fólk.

Þið eruð svo gjörsamlega búin að sundurtæta þann boðskap sem þessi hópur hefði getað orðið, og eruð búin að saurga allt það mannorð sem mögulega gæti fylgt ykkur, að ekki nokkur lifandi, hugsandi maður ætti að taka ykkur alvarlega.“

Þá segir Arnór að lokum:

„Ég get ekki horft á Hundasamfélagið lengur og hugsað “Ooo, það eru nú ýmsir gallar við þetta, en þessi hópur hefur samt leitt margt gott af sér!” Nei. Ekki lengur. Ekki lengur get ég horft fram hjá þessu ótrúlega vonda fólki sem mokar skít út úr sér og hugsar sig ekki um tvisvar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af