fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Fókus

Þóranna: „Þetta var í síðasta skipti sem ég sá elsku besta pabba minn“

Fékk ekki að vita raunverulega dánarorsök föður síns fyrr en hún var 15 ára – „Hann pabbi minn hafði komið óvænt til að kveðja okkur mæðgur“

Auður Ösp
Mánudaginn 9. janúar 2017 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Eftir því sem ég varð eldri og fór að grennslast meira fyrir um hans uppeldi og æsku og fór að grafa upp allt sem ég gat þá áttaði ég mig á því að hann var andlega veikur og enginn áttaði sig á því. Líklegast ekki einu sinni hann sjálfur, enda kom þetta öllum rosalega á óvart,“ segir Þóranna Friðgeirsdóttir sem var 9 ára gömul þegar faðir hennar, Friðgeir Sumarliðason lést sviplega. Þórönnu var tjáð að faðir hennar hefði beðið bana í bílslysi en hún var orðin unglingur þegar hún komst að öðru; hann hafði fallið fyrir eigin hendi.

Þóranna er fædd og uppalin á Akureyri en foreldrar hennar skildu þegar hún var fjögurra ára gömul. Í kjölfarið fluttist faðir hennar til Reykjavíkur á meðan mæðgurnar urðu eftir fyrir norðan. Hún hitti föður sinn í síðasta sinn um jólin 1994.

„Þetta eru atburðir sem ég hef þulið upp í hausnum á mér aftur og aftur og aftur síðustu ár og ég ákvað að prufa að skrifa þetta niður. Ég hef hugsað um það í sirka sex ár að koma þessu frá mér, í þeirri von að þetta nái til einhvers. Á þessum sex árum hafa alltof margir fallið fyrir sinni eigin hendi og skilið eftir sig börn, og í hvert einasta skipti sem ég heyri af því, finn ég til og hugsa: „Ætli þeim verði sagt frá þessu strax?“ „Ætti ég að segja eitthvað?“

segir Þóranna í samtali við blaðamann DV.is en hún ritaði á dögunum sláandi pistil um reynslu sína úr barnæsku. Viðbrögðin við skrifum hennar hafa verið sterk.

„Viðbrögðin eru mjög mikil og ég er að fá mörg persónuleg skilaboð hvað þetta varðar. Þetta er því miður algengara en maður heldur og flestir sem skammast sín fyrir þetta. Því miður.“

Þóranna lýsir því þannig að eftir að hún fékk að vita sannleikann um andlát föður síns, 15 ára gömul, þá hafi hún smám saman áttað sig á því hversu þungan kross hann bar á meðan hann lifði.

„Í rauninni átta ég mig á því sjálf, það var ekki mikið samband milli mín og föðurfjölskyldunnar eftir að hann féll frá og við mamma ræddum þetta aldrei.“

Þóranna kveðst hafa gengið í gegnum annað sorgarferli þegar hún fékk loks að vita hvernig andlát föður hennar bar að á sínum tíma. Hún er þó ekki reið út í móður sína.

„Þrátt fyrir að ég viti að mamma mín vissi ekki betur og var aðeins að reyna að gera það sem hún best vissi, þá var ofsalega erfitt að komast að þessu svona seint. Í raun upplifði ég sorgina alla aftur. Eins og ég hefði misst hann aftur. Það tók mig nokkur ár að skilja afhverju mamma sagði mér þetta ekki bara strax og mér fannst ég hálf svikin. Ég er ekki mikill uppreisnaseggur í mér og tók aldrei neitt reiðiskast á neinn eða tók út einhverskonar unglingareiði, ég stóð þögul á kanntinum og velti þessu bara fyrir mér ein með sjálfri mér,“

segir Þóranna og bætir við að hún hafi lengi velt þessu fyrir sér.

„Ég hef hugsað um þetta stanslaust og ég prufaði sjálf að útskýra þetta fyrir dóttur minni. Ég vildi sjá hvort ég gæti útskýrt þetta á fallegan hátt fyrir 9 ára barni án þess að það myndi líta út fyrir að vera eigingirni og höfnun. Ég útskýrði fyrir dóttur minni að afi hennar hefði verið rosalega veikur í hjartanu sínu og fundið svo til að hann vildi fá að hvíla sig uppi á himnaríki hjá guði: fá að vera einn af englunum sem passaði uppá okkur. Hann hefði sjálfur ákveðið að hann gæti passað betur uppá okkur þaðan en hérna hjá okkur.“

„Vildi að hann færi aldrei“

Í pistli sínum lýsir Þóranna meðal annars seinustu stundinni sem þau feðgin áttu saman. Það var um jólin 1994.

„Ég og mamma mín sitjum inní stofu og erum að bíða eftir pizzu, það er dimmt úti, mamma hafði kveikt á kertum og jólatréið lýsti ennþá upp stofuna. Dyrabjallan hringir, 9 ára ég hleyp að útidyrahurðinni og opna.

Pabbi. Þarna var hann. Pabbi minn. Ég var rosalega hissa, enda bjó hann í Reykjavik og var ekki vanur að koma í heimsókn, hvað þá óvænt að kveldi til. Mamma kemur inni forstofu,alveg jafn hissa og spyr hvað hann sé að gera hérna. Á sama tíma kemur hann inn. Hvort ég dragi hann inn er möguleiki þar sem ég var rosaleg pabbastelpa, enda var hann bestur.

Við setjumst inni stofu, ég hendist til og næ í nýju sparískóna mína sem ég varð að sýna honum. Hann þefar af þeim. Ég man að mamma hló og spurði: „Ertu að þefa af skónum hennar?“ Þetta var furðulegt en fyndið. Hann var fyndinn, enda bestur. Restin af kvöldinu einkendist af pizzuáti og ást minni af pabba mínum, pabbi minn var kominn, ég vildi að hann færi aldrei.

Þetta var á milli jól og nýjárs, ég man ekki nákvæmlega hvaða dag, en hann var hjá okkur fram yfir áramót, hann fór með mér í Hagkaup og leyfði mér að kaupa mér eitthvað fallegt, bað mömmu mína um kvöldstund án mín og eyddi áramótunum síðan með okkur og vinum mömmu. Þetta var svo yndislegt, pabbi minn var hjá mér. Hann var bestur.

En öll gleði þarf að taka enda og hann þurfti að fara aftur suður. Mig langaði með, ég vildi svo mikið fá að fara með, „Plís elsku pabbi minn má ég koma með þér.“ Það var ekki hægt. Ég var hrikalega sár.

Þetta var í síðasta skipti sem ég sá elsku besta pabba minn.“

Varð bílhrædd eftir andlátið

Þá rifjar Þóranna upp örlagaríkan dag, þann 8. janúar 1995.

„Við mamma erum að gera okkur klárar fyrir skólann, Sigga vinkona mömmu er komin því hún var að fara passa Árna bróður minn.

Heimasíminn hringir. Ég er inni forstofu og ég heyri mömmu mína brotna niður. Ég veit að einhver er dáinn, en hver? Afi? Amma? Eydís frænka? Harpa frænka? Aníta?

Ég man að ég þuldi upp alla í höfðinu á mér sem mér var annt um, því þetta var einhver sem mömmu var rosalega annt um. Mamma leggur símann frá sér.

„ÞÓRANNA“ er kallað á mig með brotinni röddu. Það er mamma mín, hún biður mig um að koma til sín. Sigga vinkona mömmu situr með Árna bróðir minn. Mamma tekur í höndina á mér og dregur mig að sér. Ég stend á milli lappanna á henni. Ég horfi í tárvot augun á henni og án nokkura orða veit ég hver var farinn.

NEI NEI EKKI HANN… EKKI PABBI.

Mamma,elsku besta mamma mín rígheldur í organdi 9 ára stelpuna sína sem var svo sár og reið, tekur við öllum höggunum mínum og knúsar mig einsog hún getur. Elsku mamma mín. Takk.

Ég fer inni herbergi og skrifa pabba bréf, ég man ennþá sögurnar og orðin sem séra Pétur sagði við mig þennan daginn, þar á meðal að ég ætti aldrei að halda neinu inni og vera dugleg að tala um tilfinningar mínar og líðan. Ég held fast í þau orð.

Bréfið færði ég pabba síðan á jarðaförinni 16.janúar 1995, ég finn ennþá fyrir því hvernig það var að kyssa kalda hendina hans og kalt ennið. Hann var ennþá bestur.

Ég varð ofsalega bílhrædd eftir að pabbi minn lést, enda vissi ég ekki betur en að hann hefði lent í bílslysi, ég sá fyrir mér að hann hefði kastast út úr bílnum og svo maður fundið hann, einhvern veginn vissi ég að það hefði maður fundið hann. Ég sá hann alltaf fyrir mér liggjandi úti snjó, mig langaði að þakka manninum fyrir að hafa hjálpað pabba mínum.“

Heimurinn hrundi

Þá rifjar Þóranna upp stundina þegar hún komst að sannleikanum um andlát föður síns,15 ára gömul en þá stalst hún til að lesa mat sálfræðings sem tekið hafði við hana viðtöl. Sjálf vissi ekki hún ekki almennilega ástæðuna fyrir því að hún var send í sálfræðitíma.

„Ég renni augunum yfir skjalið… skjölin.. en þarna var það… ástæðan, afhverju var ég send til sálfræðings? Sannleikurinn er sá að hann fyrirfór sér.

15 ára Þóranna er ein heima. Pabbi minn hafði yfirgefið mig vísvitandi, hann lenti ekki í bílslysi, hann ákvað að deyja, frá mér. Hann yfirgaf mig af fúsum og frjálsum vilja. Heimurinn hrundi … aftur. Ég man að ég orgaði aftur, ég barði frá mér aftur og svo grét ég þar til ég sofnaði. Ég sá samt til þess að ganga frá eftir mig svo mamma myndi alls ekki vita að þetta umslag hefði ég opnað, því miður. Ég held hún hafi samt alltaf vitað.“

Hann pabbi minn hafði komið óvænt til að kveðja okkur mæðgur, jólin 1994. Hann var orðinn þreyttur, þreyttur á að vera til, svo illt í hjartanu að hann hafði talið sjálfum sér trú um það að ég og við öll værum betur sett án hans. Pabbi minn féll fyrir sinni eigin hendi, 8.janúar 1995, aðeins 28 ára gamall.“

Þóranna er þess fullviss um að faðir hennar hafi verið kominn á endastöð, og aðeins séð eina leið út. Það sé þó alrangt að þeir sem bindi enda á líf sitt fremji þann verknað vegna sjálfselsku.

„Ég trúi því að hann hafi verið orðinn svo veikur að hann hafi virkilega, af allri lífs og sálarkröftum trúað því að með því að enda sitt líf væri hann virkilega að gera mér og okkur öllum greiða. Hann var það ekki, alls ekki. Ég man ennþá eftir, 22 ár,“ ritar Þóranna jafnframt um leið og hún hvetur þá sem glíma við sjálfsvígshugsanir og þunglyndi til þess að leita sér hjálpar.

„Ef þér er illt í hjartanu, svo illt í hjartanu að þú heldur að það væru allir betur settir án þín, leitaðu þér þá hjálpar. Ef ekki fyrir þig, þá fyrir alla sem elska þig. Þú ert verð/ugur, þú ert mikilvæg/ur og við þurfum öll á þér að halda“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Snýst ekki um að taka sviðsljósið frá körlum heldur beina því einnig að konum – „Þetta er mjög karllægur bransi og hefur alltaf verið“

Snýst ekki um að taka sviðsljósið frá körlum heldur beina því einnig að konum – „Þetta er mjög karllægur bransi og hefur alltaf verið“
Pressan
Í gær

47 ár frá upphafi tveggja tímamótageimferða

47 ár frá upphafi tveggja tímamótageimferða
Fókus
Fyrir 3 dögum

Katrín Myrra keypti miða aðra leið út til Taílands og það breytti lífi hennar

Katrín Myrra keypti miða aðra leið út til Taílands og það breytti lífi hennar
Fókus
Fyrir 4 dögum

Simmi Vill um árshátíðardrama Landsvirkjunar – Segir að önnur stórfyrirtæki megi frekar skammast sín

Simmi Vill um árshátíðardrama Landsvirkjunar – Segir að önnur stórfyrirtæki megi frekar skammast sín
Fókus
Fyrir 4 dögum

Guðbjörgu var útskúfað fyrir að tala um 47 ára aldursmun föður síns og barnsmóður hans – „Ætla ekki að þegja og taka þátt í þessum leik“

Guðbjörgu var útskúfað fyrir að tala um 47 ára aldursmun föður síns og barnsmóður hans – „Ætla ekki að þegja og taka þátt í þessum leik“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Er fyrsta vara lífsstílsmerkis Markle algjört flopp? – Sultukrukkan skilar sér ekki á samfélagsmiðla

Er fyrsta vara lífsstílsmerkis Markle algjört flopp? – Sultukrukkan skilar sér ekki á samfélagsmiðla