Fókus

Fyrsti koss frægra Íslendinga: „Ég fór í sleik og missti meydóminn“

Kristjón Kormákur Guðjónsson skrifar
Mánudaginn 9. janúar 2017 13:06

Hvernig var fyrsti kossinn? Er spurning sem aðstandendur kvikmyndarinnar Hjartasteins lögðu fyrir fræga Íslendinga en svörin má einnig sjá í myndskeiði hér neðst. Þeir sem svöruðu spurningunni voru meðal annars Aron Már Ólafsson snapchat-stjarna, Saga Garðarsdóttir leikkona, KK, Sigríður Klingenberg, Steiney Skúladóttir og svo Salka Sól sem ákvað að ganga skrefinu lengra og greina líka frá hversu gömul hún var þegar hún missti meydóminn.

Í umfjöllun um kvikmyndina segir að hún eigi líklega eftir að vekja upp margar æskuminningar hjá áhorfendum. Því hafi verið ákveðið að leita til þjóðþekktra einstaklinga til að rifja upp fyrsta kossinn.

Mynd: Facebook-síða Arons Más

„Já, það gerðist á leikskóla, undir rúmi og ég var í Pétur Pan búning og það var minn fyrsti tungukoss. Það var bara mjög næs,“ svaraði Aron Már.

Saga Garðarsdóttir:

„Þetta var eftir herranæturæfingu í MR. Hann var að skutla mér heim. Ég var búin að vera skotin í honum mjög lengi. Hann var í Gettu betur liðinu og allt. Síðan kysstumst við. Ég man ekkert mikið eftir því. Ég man bara að ég fór út úr bílnum og fór að sofa en ég lá andvaka til svona fimm um nóttina að hugsa um hvað ég væri nett, að ég væri ógeðslega kúl og hvað ég hlakkaði til að segja öllum vinum mínum hvað ég væri kúl.“

KK:

„Það var tungukoss. Ég var í viku á eftir í vímu og er enn þá held ég.“

Sigríður Klingenberg:

„Ég bjó í sveit þegar ég var krakki og hafði aldrei farið til Reykjavíkur. Svo kom einhver ægilega sætur strákur úr Reykjavík og hann byrjaði að kyssa mig. Þetta var ótrúlega súrealískt. Hann setti upp í mig tunguna. Ég vissi ekki hvað hann væri að gera svo að ég fraus bara. Passaði að hreyfa ekki neitt. Svo tók hann út úr mér tunguna og þá spurði ég hann: „Hvað var þetta?“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Strákurinn svaraði: „Þetta gera allir í Reykjavík.“

Steiney Skúladóttir:

„Hann var aðeins eldri en ég. Hann spilaði inn á minn mesta veikleika sem er keppnisskapið mitt. Hann sagði: „Bíddu, þorir þú ekki?“ Þá var ég bara jú, auðvitað þori ég. Það er hægt að segja hvenær sem er og þá mun ég gera það. Ég hef sko borðað kúk.“

Söngkonan Salka Sól er síðustu til að svara og ákvað hún að ganga aðeins lengra í frásögn sinni af fyrsta kossinum sem átti sér stað þegar hún var 16 ára.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Það voru strákar komnir utan að landi, mættir í bæinn. Þeir voru í hljómsveit og við vorum svona nettar grúppíur. Við fáum að halda smá partý heima hjá systur einnar stelpunnar. Ég er eitthvað að spila á píanóið og einn strákurinn kemur upp að mér og finnst ég flink að spila og það endar þannig að við ákveðum að fara heim saman. Við erum sextán ára þannig að við löbbuðum bara út á Hlemm og tókum strætó,“ sagði Salka Sól.

„Fyrir tilviljun voru mamma og pabbi ekki heima og við fórum bara heim og ég fór í sleik og missti meydóminn,“ sagði Salka Sól og hló þegar hún áttaði sig á að hún hefði ef til vill gefið aðeins ítarlegri upplýsingar en óskað var eftir og bætti við hlæjandi: „Má ég ekki alveg segja þetta?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af