fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

Textílgraff á götum úti

Ný íslensk heimildamynd frumsýnd um helgina

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 11. september 2016 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tinna Þórudóttir Þorvaldar er ein fjögurra textíllistakvenna sem heimildamyndin Yarn fjallar um. Myndin hefur nú þegar verið sýnd víða um heim og hlotið lofsamlega dóma. Meðal annars hefur verið fjallað um hana í tímaritinu Elle, New York Times, Boston Globe og Hollywood Reporter. Leikstjórar myndarinnar eru Una Lorenzen, Heather Millard og Þórður Bragi Jónsson.

Blaðakona DV hitti Tinnu yfir kaffibolla á Reykjavík Roasters á Kárastígnum. Þar má oft rekast á Tinnu með litríkt hekl í höndum og dillandi hlátur hennar fer ekki framhjá neinum.

„Ég hef verið sjálfstætt starfandi textíllistakona síðastliðin fjögur ár og hef aðallega einbeitt mér að hekli. Á þeim tíma hef ég gefið út tvær heklbækur og ritstýrt þeirri þriðju. Sú fjórða er svo á leiðinni. Ég hef líka stundað ullargraff í gegnum árin, og hef unnið stór og smá verk á Íslandi, Kúbu, Spáni og í Danmörku.“

Ullargraff gerir umhverfið litríkt og hlýlegt.
Garni klædd borg Ullargraff gerir umhverfið litríkt og hlýlegt.

Havana og Reykjavík

Textíllistakonan Tinna er nýgift, hún á tvo stráka og býr í Norðurmýrinni. „Reyndar hef ég skipt tíma mínum milli Reykjavíkur og Havana síðastliðin tvö ár, og verið meira í Havana undanfarið ár. Bókin mín sem kemur út í haust var öll unnin þar.“

Fyrir þremur og hálfu ári hafði Heather Millard samband við Tinnu og spurði hvort hún mætti koma í heimsókn á vinnustofuna hennar með tökulið og fylgjast með. Ári síðar fór verkefnið svo af stað af fullum krafti. „Það var svo ekki fyrr en töluvert seinna sem ég áttaði mig á að þetta væri ekki séríslenskt smáverkefni. Það kom í ljós að í myndinni átti að fylgjast með fjórum listakonum um allan heim og ég var ein af þeim! Ég var upp með mér að vera hluti af þessum svakalega hópi.“

Ónytjalist

Myndin fjallar um hannyrðir á okkar tímum. „Áherslan er á listrænu og óhefðbundnu hlið hannyrðanna, götulist frekar en nytjalist – ónytjalist kannski. Listakonurnar í myndinni beita allar nýstárlegum leiðum til að nota textíl í götulist. Mér var til dæmis fylgt þegar ég var að setja verk upp úti á götu í Reykjavík, Barcelona og Havana. Það var mjög undarlegt að hafa tökulið á eftir sér – fyrir manneskju eins og mig sem er alls ekki vön að vera viðfangsefni myndavéla. Í Barcelona varð til dæmis uppi fótur og fit þegar fólk hélt að ég væri eitthvað fræg og vildi ná myndum af mér.“

Listakonurnar í myndinni vinna á mjög ólíkan hátt. „Þarna er til dæmis Olek sem er pólsk og þekktust fyrir afar stór umhverfisverk þar sem hún þekur ýmislegt með hekli í felulitum. Hún er án efa fremsta ullargraffkona okkar tíma. Hin japanska Toshiko Horiuchi MacAdam er þekktust fyrir mjög stór umhverfisverk sem eru hálfgerðir garnleikvellir. Hún vill að listin sé hluti af umhverfinu og að fólk snerti og noti verkin hennar. Cirkus Cirkör er svo sænskur sirkushópur sem notar garn heilmikið í sýningum sínum, og þar er listræni stjórnandinn Tilde Björfors fremst í flokki.“

Þetta byrjar jú allt með blessaðri sauðkindinni.
Ull, ull, ull! Þetta byrjar jú allt með blessaðri sauðkindinni.

Einkasýning með Írisi

Tinna hafði lítinn áhuga á að sjá afraksturinn fyrr en myndin var tilbúin. „Ég var mjög stressuð. Þetta var svo langur tími og tökuliðið búið að hitta fjölskyldu mína, börnin, manninn og alla í kringum mig. Svo fékk ég einkasýningu í sal A í Bíó Paradís þar sem ég sat ein með Írisi vinkonu minni – og þetta reyndist vera fáránlega skemmtilegt. Það er frábært að geta alltaf átt þetta tímabil í lífi mínu og geta seinna meir sýnt afkomendum mínum hvað ég var einu sinni ung og sæt og töff.“

Myndin var sýnd víða í Bandaríkjunum fyrr á árinu og hefur verið tekið vel í hvívetna. „Það er eitthvað æði í gangi sýnist mér. Þetta virðist vera nýjasta áhugamál hipstera. Fólk er kannski ennþá gjarnt á að tengja garn við ömmur og heklaða dúka – svo þetta er þarft verk, því þarna sést allt önnur hlið á því hvernig hægt er að nota garn í listsköpun.“

Til stendur að sýna myndina í enn fleiri löndum á næstunni og sjónvarpsstöðvar um allan heim hafa tryggt sér sýningarrétt á henni.

Frumsýning á Íslandi verður í Bíó Paradís föstudaginn 9. september kl. 18 og eru gestir hvattir til að mæta með prjónana!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki