fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

Kristinn Rúnar: „Geðhvörfin bundu enda á drauma mína um atvinnumennsku“

„Við erum að missa alltof mikinn efnivið úr íþróttum vegna andlegra veikinda“

Auður Ösp
Mánudaginn 25. júlí 2016 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er hægt að gera svo miklu miklu betur innan íþróttahreyfingarinnar að vinna með fólki sem finnur til andlegra veikinda sem byrjar oft þegar það er á unglingsaldri,“ segir Kristinn Rúnar Kristinsson sem þótti afar efnilegur íþróttamaður þegar hann var yngri en hann greindist með geðhvörf tvítugur að aldri. Segir hann andleg veikindi sín hafa spilað stóran þátt í því að íþróttaferli hans lauk, enda töluvert um vanþekkingu á geðsjúkdómum innan íþróttafélagana.

Í pistli sem birtist á Pressunni segir Kristinn Rúnar frá því hvernig hann var afar iðinn í íþróttum sem barn, hann byrjaði að æfa fótbolta með Breiðabliki fimm ára gamall og þótti efnilegur. Fljótlega var framtíðin ráðin: „Hátindurinn á mínum knattspyrnuferli var að verða markakóngur á Shellmótinu 98´ með 19 mörk á yngra ári og að vera valinn í landslið mótsins árið eftir á eldra ári. Ógleymanlegur tími og þarna tíu ára gamall vissi ég að það var búist við miklu af mér og ég gerði það sjálfur líka. Draumarnir voru orðnir talsverðir og ég man að á þessum tíma var ég farinn í frítíma mínum að æfa mig að skrifa eiginhandaráritunina mína og þegar ég var einn að æfa mig úti á velli fagnaði ég mörkunum alltaf eins og ég væri á Old Trafford með fleiri tugi þúsunda áhorfenda að horfa á mig. Ég var staðráðinn í að verða atvinnumaður í fótbolta.“

Sumarið 2001 fór hins vegar að síga á ógæfuhliðina hjá Kristni Rúnari. Hófst það með skyndilegri þyngdaraukningu sem leiddi til alvarlegs þunglyndis. Hann segir lítil úrræði hafa verið til staðar á þessum tíma.

„Þjálfararnir töluðu mjög lítið við mig um mín veikindi, lítið var um góð ráð eða að menn leituðu faglegrar aðstoðar. Þeir höfðu líklega hvorki færni né þekkingu til þess þó þeir hafi verið færir þjálfarar að öðru leyti, bæði fótbolta og körfuboltaþjálfararnir mínir. Ef ég hugsa út í það þá hefði ég þurft þjálfara sem væri mjög fær í svona málum því ég var ekki opinn með þetta, vildi helst ekki tala um þetta og skammaðist mín.“

Kristinn Rúnar var tvítugur að aldri þegar hann greindist síðan með geðhvörf, sumarið 2009. Hann hafði þá ekki spilað fótbolta með Breiðabliki í fimm ár en hugðist á þessum tímapunkti verða atvinnumaður og sigra heiminn. Hann rifjar upp hvernig hann, í sinni fyrstu „maníu“, hringdi í þjálfarann og bað um að fá að mæta á æfingu. „Ég ætlaði mér að skora allavega tíu mörk í þeim tólf leikjum sem voru eftir í deildinni og fara svo í ensku úrvalsdeildina um haustið og auðvitað að spila með Manchester United við hlið Wayne Rooney. Svona getur manían verið skæð, það getur endað mjög illa,“ ritar Kristinn Rúnar sem kveðst hafa verið litin hornauga og mætt neikvæðu viðmóti frá þjálfarnum og stjórnarmanninum eftir þessa uppákomu.

„Ég get talið svoleiðis viðbrögð og framkomu frá fólki gagnvart mér eftir að ég hef verið í maníu á fingrum annarrar handar og að fá svoleiðis frá svo háttsettum mönnum innan íþróttafélags í efstu deild í knattspyrnu segir mér að þeir voru ekki mikið að hjálpa mönnum sem áttu við andleg veikindi að etja,“ segir Kristinn Rúnar sem hvetur íþróttafélögin til að „stíga upp, auka við fræðsluna um þessi málefni, vera meira til staðar fyrir iðkendurna og benda þeim á þau úrræði sem eru í boði.“

„Það er nánast þannig að annar hver maður á landinu er að eiga við kvíða eða þunglyndi og svo eru sumir með stærri geðsjúkdóma á borð við geðhvörf eða geðklofa. Öll förum við upp og niður, bara mismikið og í mínu tilfelli er það í líkingu við rússíbana. Ég vona að það byrji bolti að rúlla núna og við tökum okkur öll saman um að koma af stað vitundarvakningu um andleg veikindi í íþróttum og landinu öllu, útrýmum fordómum og aukum fræðslu sem stuðlar þá að betri leikmönnum í framtíðinni og betri félagsliðum.“

Hér má lesa pistil Kristins Rúnars í heild sinni

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki