fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fókus

Sterkur á svellinu

REYNSLUAKSTUR: Citroën C3 Aircross

Margrét Gústavsdóttir
Föstudaginn 2. febrúar 2018 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Blaðamenn DV, þau Margrét H. Gústavsdóttir og Björn Þorfinnsson, prófa nýja Citroën C3 Aircross jepplinginn.

Í tilkynningu segir að Citroën C3 Aircross sé kröftugur nýr sportjeppi með mikilli veghæð. Með því ásamt Grip Control spólvörninni og brekkuaðstoðinni komist menn hvert á land sem er. Ísetan sé há og ökumaður hafi góða sýn fram á veginn. Mikið er lagt upp úr því að hátt sé til lofts inni í bílnum og að fótapláss sé rýmlegt.
Citroën C3 Aircross er á lista yfir bestu bíla ársins 2018 en Citroen átti einnig bíl á listanum í fyrra. Þá höfðu hins vegar liðið ansi mörg ár frá því síðast, en Citroen vann síðast titilinn árið 1990. Úrslitabílarnir sjö eru í stafrófsröð: Alfa Romeo Stelvio, Audi A8, BMW 5 Serían, Citroen C3 Aircross, Kia Stinger, Seat Ibiza og Volvo XC40.

Hægt er að velja á milli nokkurra litasamsetninga en tvílita týpan gerir bílinn óneitanlega svolítið svalari.

Töff í tvílitu Hægt er að velja á milli nokkurra litasamsetninga en tvílita týpan gerir bílinn óneitanlega svolítið svalari.

Mynd: Copyright Astuce Productions

MARGRÉT:

Í hugum margra Íslendinga hefur Citroen lengi verið einhvers konar listamannabíll. Bíllinn sem viðkvæma ljóðskáldið myndi velja sér, týpan sem myndi frekar draga rauðvínsbelju upp úr skottinu og detta í það en að reyna að skipta um dekk. Skrifa svo atómljóð um reynsluna. Semsagt, ekki mjög karlmannlegur bíll.
Sjálf hef ég alveg gerst sek um smá fordóma líka. Ég hef ímyndað mér að Frakkar væru mikið betri í að mixa ilmvötn og gera fallega kjóla en að hanna góða bíla sem henta íslenskum aðstæðum. Mögulega hafði ég rétt fyrir mér í einhver ár en nú er þessi staða gerbreytt.

Citroen hefur hækkað gæðastandardinn svo svakalega hjá sér að bílarnir frá þeim eru komnir á lista yfir bestu bíla ársins, bæði nú og á síðasta ári. Þeir fljúga í gegnum hvert gæðaprófið á fætur öðru enda mikið í þessa bíla lagt.
Citroën C3 Aircross er trompið þeirra í ár. Eins konar „multi-purpose jepplingur“ sem maður ímyndar sér að sé hannaður fyrir praktísku týpuna sem vill eiga möguleikann á því að leggja niður sætin og fylla skottið af einhverju sem tengist áhugamálunum, taka þau svo upp aftur og smella krökkunum inn. Farangursrými bílsins er það stærsta í þessum flokki bíla, eða 410 lítrar, og að auki eru aftursætin á sleða svo auðvelt er að stækka farangursrýmið í 510 lítra.

Hægt að velja á milli flippstiga í útliti

Framleiðendur Citroen hafa alltaf verið duglegir að ráða til sín flippaða hönnuði. Allt frá gamla bragganum til Cactus hafa Frakkarnir ekki hikað við að fara aðeins út fyrir rammann.
C3 Aircross er engin undantekning þótt hann skeri sig ekki jafn mikið úr og áðurnefndir bílar.
Ég myndi ekki segja að mér þætti hann sérstaklega töff en hann er skemmtilega snaggaralegur um leið og hann er frekar látlaus, sérstaklega að innan enda mikið lagt upp úr því að hafa bílinn rúmgóðan og því ekkert óþarfa pláss tekið í pjattið. Ef þú ert týpan sem tekur smá sénsa með flippið þá velurðu eflaust tvílita útgáfu en bíllinn kemur einnig látlausari, t.d. hvítur með svörtu þaki eða alveg svartur.

Svakalega töff innkaupakerra

Þessi bíll er þokkalega lipur í akstri. Stýrið er óvanalega létt og bremsurnar lesa nánast hugsanir sem fólki gæti eflaust þótt bæði kostur og galli. Hann er fljótur að taka af stað og þægilega hljóðlátur en það besta við hann er hið svokallaða ESP stöðugleikakerfi með spólvörn. Vægast sagt algjör snilld.
Við prófuðum að keyra inn á bílaplan sem var bókstaflega jafn pikkfrosið og skautasvellið á Ingólfstorgi en það var ekki eins og maður fyndi fyrir því. Ég prófaði bæði að snarhemla og taka hratt af stað en það var eins og bíllinn skellti bara mannbroddum á dekkin um leið og hann nam hálkuna. Yfirnáttúrulegir taktar.
Við þetta varð ég samstundis mikið skotnari í þessum jepplingi, sem ég hafði örfáum sekúndum áður líkt við innkaupakerru. Hann varð að minnsta kosti alveg svakalega töff innkaupakerra, eða jafnvel úlfur í sauðargæru, eins og þeir hjá Top Gear kalla hann.

Mælaborðið er snoturt en á snertiskjánum er bæði hægt að stilla inn götukort, akstursmyndavél og margt fleira. Þá er einnig snertilaus hleðsla fyrir iPhone í bílnum og þráðlaust net.
Snoturt Mælaborðið er snoturt en á snertiskjánum er bæði hægt að stilla inn götukort, akstursmyndavél og margt fleira. Þá er einnig snertilaus hleðsla fyrir iPhone í bílnum og þráðlaust net.

Niðurstaða:

Ef ég væri með þriggja til fimm manna fjölskyldu, færi reglulega út á land, legði mikið upp úr góðu skotti eða þyrfti að aka miklar vegalengdir á hverjum degi þá myndi þessi bíll henta mér frábærlega. Yfirnáttúrulega stöðugleikakerfið með spólvörninni gerir hann líka sérlega öruggan í akstri við þær erfiðu aðstæður sem oft myndast hér á landi og vissulega höfðar það til fjölskyldufólks að setja öryggið á oddinn, enda dýrmætur farmur um borð.
En þar sem ég er miðaldra kona sem elskar sjónvarpsþættina Broen og dreymir um að vera eins og Saga Noren; í svörtum leðurbuxum, brunandi um á grænum Porche meðan hún leysir glæpamál, þá er þessi snaggaralegi fjölskyldubíll kannski ekki alveg mín týpa þótt góður sé. Allt hefur sinn tíma.

BJÖRN:

Ég hef afar takmarkaðan áhuga á bílum og þar af leiðandi hef ég enga þekkingu á þessum tækjum. Það var því með semingi sem ég fór út í þennan reynsluakstur á vegum blaðsins. Til marks um áhugaleysi mitt get ég sagt frá því að eftir átján ára samband höfum við konan mín átt tvo bíla saman. Báðir keyptir nýir en sá fyrri var keyrður þar til hann gaf upp öndina og núna erum við að vinna á bíl númer tvö. Ef þeir koma okkur á milli A og B þá erum við ekki mikið að spá í hvort að við ættum að skipta.

Svona er maður einfaldur

Ég hafði því ekki miklar væntingar þegar ég heyrði að við værum að fara að keyra Citroen-jeppling eða smájeppa. Það er erfitt að horfast í augu við eigin fordóma en einhverra hluta vegna var ég með þá ímynd í hausnum á mér að þetta væru ekkert sérstakir bílar. Af hverju veit ég ekki. Þá er enn erfiðara að viðurkenna það að bara þær upplýsingar að þessi bíll væri á lista yfir bíla ársins 2018 gerði það að verkum að ég var mun jákvæðari þegar kom að því að setjast undir stýri. Svona er maður einfaldur.

Óhætt að segja að ég hafi verið mjög hrifinn af Citroën C3 Aircross.

Útlit bílsins er nokkuð sérstakt en mér fannst hann bara nokkuð flottur. Bíllinn virkaði helst til lítill fyrir mínar þarfir (tvö börn og venjulega mikið af farangri) en rýmið og skipulagið inni í bílnum var afar gott. Stærð skottsins er eitthvað sem ég myndi helst horfa til og það var mjög ásættanlegt (410 lítrar og stækkanlegt upp í 510 lítra). Ég held því að þessi bíll gæti alveg verið góður valkostur fyrir þriggja til fjögurra manna barnafjölskyldur.

Niðurstaða:

Bíllinn var afar lipur og þægilegur í akstri auk þess sem hann var mátulega kraftmikill fyrir minn smekk. Hann var líka hljóðlátur og ég var virkilega hrifinn af því hvað spólvörnin virkaði vel á ísilögðu bílaplani.
Það sem ég var hrifnastur af er þó verðið, sem er á bilinu 3–3,4 milljónir króna eftir því hvaða aukahlutir eru teknir með. Í samanburði við aðra bíla í sambærilegum flokki finnst mér það gott og sanngjarnt verð og því vel þess virði að skoða þennan valkost enn betur. Maður fær svo sannarlega eitthvað fyrir peninginn.

Skottið er hægt að stækka með einu handtaki og sætin er auðvelt að leggja niður eða færa framar.
Nóg pláss í skottinu Skottið er hægt að stækka með einu handtaki og sætin er auðvelt að leggja niður eða færa framar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við
Fókus
Fyrir 4 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Hver verður næst?“

„Hver verður næst?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“