Fókus

Fótbolti með her af miðaldra hvítum körlum, ljóðalestur og taílensk matargerð

Dagur í lífi Sigmundar Ernis

Margrét Gústavsdóttir skrifar
Sunnudaginn 14. janúar 2018 09:00

**Sigmundur Ernir Rúnarsson fæddist á Akureyri þann 6. mars 1961 og verður því 57 ára á þessu ári. Hann er sonur þeirra Rúnars Heiðars Sigmundssonar viðskiptafræðings og Helgu Sigfúsdóttur, skrifstofumanns og húsmóður. Sigmundur á þrjú alsystkin, þau Gunnar Örn (1956), Sigrúnu (1957) og Guðrúnu Sigfríð (1967). Að loknu menntaskólanámi á Akureyri flutti hann til höfuðborgarinnar og byrjaði að vinna sem blaðamaður á Vísi sem síðar sameinaðist DV. Þetta var árið 1981. Síðar hefur Sigmundur unnið á Helgarpóstinum og hjá Ríkissjónvarpinu en lengst af starfaði hann sem fréttamaður á Stöð 2 eða í alls tvo áratugi. Hann var þingmaður Samfylkingarinnar frá 2009 til 2013 og þegar því starfi lauk opnaði Sigmundur Ernir sjónvarpsstöðina Hringbraut ásamt fleiri fagmönnum. Sigmundur hefur gefið út um tuttugu bækur á tæpum fjörtíu árum. Sú fyrsta, Kringumstæður, kom út árið 1980 en síðasta bók hans, Rúna, örlagasaga, kom út fyrir síðustu jól. Sigmundur býr á Laufásveginum ásamt eiginkonu sinni Elínu Sveinsdóttur sjónvarpsframleiðanda og tveimur börnum, þeim Erni, 21 árs, og Auði, 13 ára, en Birta 27 ára og Rúnar, 25 ára, eru flogin að heiman. Fyrir átti Sigmundur tvö börn, þau Eydísi Eddu (f. 1985–d. 2009) og Odd sem nú er þrítugur.

07.00

Ég vakna yfirleitt klukkan sjö, tek mig til í ró og næði og fæ mér góðan morgunmat. Soðið egg, súrmjólk með púðursykri og kornflexi og svo kaffi með pínulítilli mjólk. Þá kem ég dóttur minni í Landakotsskóla, ýmist gangandi, hjólandi eða á bíl og því næst kem ég mér sjálfum mér í vinnuna og er þá mættur fyrstur manna.

08.00–09.00

Það fyrsta sem ég geri þegar ég mæti til vinnu er að lesa öll dagblöð upp til agna því ég hef alltaf verið mikill öfgamaður í blaðalestri. Upp úr níu fer ég svo að huga að fyrstu upptöku dagsins.
Í morgun skoðaði ég til dæmis leikmyndina að þætti mínum Heimilið sem fjallar um rekstur og viðhald heimilisins, valdi réttu fötin fyrir þann þátt og fór svo í smink. Ég er með fjóra fasta þætti í viku á Hringbraut. Fyrir utan Heimilið er einn þáttur sem fjallar einn um ferðalög, svo er ég með Ritstjórana, þar sem fjölmiðlafólk ræðir viðburði vikunnar, og að lokum Mannamál sem er meira á persónulegum nótum.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

11.00

Að loknum upptökum huga ég að vefnum hringbraut.is og skrifa þar inn fréttir en fyrir klukkan tólf liggur leiðin í Laugardal þar sem ég spila útifótbolta með vinum mínum þrisvar í viku og þá gildir einu hvernig viðrar. Í þessum hópi eru til dæmis þeir Einar Kárason, Friðrik Þór Friðriksson, Egill Örn Jóhannson bókaútgefandi, Bjarni Hafþór Helgason fjárfestir og fleiri þjóðþekktir menn. Í raun er þetta heill her af miðaldra, hvítum karlmönnum.

13.00

Eftir boltann mæti ég í vinnuna aftur, skelli í mig bollasúpu og tveimur hrökkbrauðum sem er minn hefðbundni hádegismatur. Þá er það upptaka á næsta þætti og aftur eru það viðeigandi föt og smink. Að þessu búnu, eða svona um klukkan þrjú, sný ég mér aftur að því að skrifa fréttir og svo nota ég restina af deginum til að huga að tilfallandi verkefnum sem eru framundan. Til dæmis er ég að gera fræðsluþætti um sjón og heyrn, Alþýðusamband Íslands og sitthvað fleira. Svo fer líka endalaus tími í að svara tölvupósti.

17.00

Að vinnudeginum loknum, eða upp úr klukkan fimm, tekur við heilög stund í Vesturbæjarlauginni. Þar á ég góðan tíma með sjálfum mér og öðru fólki sem dólar fáklætt í alls konar veðrum. Helst geng ég eða hjóla í laugina og kem svo við í Melabúðinni á heimleiðinni til að kaupa eitthvað í kvöldmatinn. Stundum kíki ég við á Dönsku kránni og fæ mér smá hressingu fyrir eldamennskuna framundan.

19.00

Besta ráð sem þér hefur verið gefið?

Ég held að það hafi verið Böðvar Guðmundsson sem sagði mér að það væri ekkert jafn mannbætandi og að lesa góða bók.

Hvaða er besta ráð sem þér hefur verið gefið?

Að hætta að flýta sér. Maður græðir ekkert á því. Það kemur oftast í ljós að það hefur ekkert upp á sig að flýta sér. Maður kemur bara fyrr að næsta rauða ljósi.

Hvað vildirðu að þú hefðir vitað fyrr?

Ég vildi að ég hefði vitað hvaða ánægju það gefur mér að ganga á fjöll. Það eru svona fimmtán ár síðan ég byrjaði þessa iðju og það er fátt í lífinu sem veitir mér meiri ánægju.

Upp úr sjö byrja ég að elda en ég sé alltaf um matseldina heima hjá mér. Það er allur gangur á því hvað það eru margir í mat því konan mín, sem starfar til dæmis hjá RÚV, er svo oft að vinna fram eftir á kvöldin. Hvað er í matinn? Ég elda allan andskotann. Til dæmis indverskan og taílenskan mat en aðallega reyni ég að elda eins mikið af íslenskum fiski og ég get og leggja áherslu á fjölbreytni í mataræðinu.

21.00

Yfirleitt sest ég við tölvuna og fer að skrifa bækurnar mínar eftir kvöldmat. Núna er ég að vinna í þremur, fjórum bókum samhliða. Ein er ljósmyndabók með prósum eftir mig, önnur er ævisaga sem kemur út í haust og þriðja er minningabók. Svo er maður alltaf með ljóðabók í vinnslu.

23.30–00.30

Oftast fer ég að sofa milli hálf tólf og hálf eitt. Uppi í rúmi les ég eins mikið af ljóðum og ég kemst yfir, það er að segja áður en ég sný mér að Elínu minni sem kemur stundum heim upp úr ellefu en um leið og hún leggur höfuðið á koddann þá slökkvum við ljósið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af