Dagur í lífi: Hlínar Reykdal

– síld og kaffi, kerti á morgnana og perlumálun úti á Granda

Margrét Gústavsdóttir skrifar
Sunnudaginn 10. desember 2017 15:00

Skartgripahönnuðurinn Hlín Reykdal fæddist þann 30. júlí árið 1985. Hún sleit barnsskónum í Norðurmýrinni og stundaði sitt grunnskólanám í Ísaksskóla, Æfingadeildinni og Tjarnarskóla. Hún útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands árið 2009 með próf í fatahönnun en hefur getið sér gott orð sem skartgripahönnuður síðustu árin. Hlín er af myndlistarfólki komin en hún er dóttir þeirra Jóns Reykdal listmálara og Jóhönnu Þórðardóttur myndhöggvara. Hún á tvær eldri systur, þær Nönnu og Hönnu Fjólu, og eru báðar menntaðar í listnámi. Hlín býr við Hagamel í Vesturbænum ásamt eiginmanni sínum Hallgrími Stefáni Sigurðssyni, verkfræðingi og tveimur dætrum, Stellu, 8 ára, og Stefaníu, 4 ára. Árið 2010 stofnaði hún hönnunarfyrirtækið Hlín Reykdal ásamt Hallgrími og fljótlega upp úr því fóru íslenskar konur að skreyta sig með skarti úr smiðju Hlínar sem hefur átt gríðarlegum vinsældum að fagna síðustu árin.

07:00

Dagurinn byrjar á því að ég vek eldri dóttur mína fyrir skólann, útbý kaffi, kveiki á kerti og les svo með Stellu við eldhúsborðið. Það er mismunandi hvað við fáum okkur í morgunmat en ætli egg, hafragrautur og AB-mjólk með múslí séu ekki það algengasta. Mér finnst rosalega gott að vakna sjö til að hafa smá tíma á morgnana og vera ekki í algjöru stressi. Rétt rúmlega átta vappar Stella yfir götuna í skólann og þá hef ég mig og Stefaníu til. Annar kaffibolli og svo förum við öll út. Við Halli skutlum Stefaníu í leikskólann og svo erum við mætt í vinnuna út á Fiskislóð um níu.

09.00

Yfirleitt skoða ég tölvupóstinn í símanum á leið í vinnuna og þegar ég kem í stúdíóið fer ég í það að senda vörur út á land og sitthvað fleira. Við Halli erum til dæmis í því að panta inn vörur, taka inn vörur, afgreiða fjölbreyttar sendingar og svo framvegis. Þegar þessari „skrifstofuvinnu“ er lokið þá ákveð ég hvaða liti skal mála þann daginn. Ég mála hverja einustu perlu í festarnar mínar sjálf og þetta er hörku handavinna eins og gefur að skilja. Ég breyti um liti á hverjum degi enda fer þetta eftir því í hvaða stuði ég er þann daginn. Nú er ég mikið í silfur, gylltum og dökkum tónum fyrir jólin.

Besta ráð sem þér hefur verið gefið?Nanna systir gaf mér svolítið gott ráð um daginn sem er bæði kvenlegt og jólalegt: Gera sjálfa sig til fyrst, áður en maður heldur boð eða veislu, fara svo í að græja restina.

Besta ráð sem þú getur gefið öðrum? Að brosa framan í heiminn og reyna að vera smá jákvæð. Þá verður allt betra.

Hvað vildir þú að þú hefðir vitað fyrr? Það er að afreka ótrúlegustu hluti á stuttum tíma. Maður þarf ekki endilega að vinna fram í rauðan dauðann.

11.00

Eftir að hafa snurfusað búðina opna ég dyrnar og hleypi inn viðskiptavinum. Við opnuðum þessa verslun á Hönnunarmars 2016 og ég er alveg hæstánægð með að vera hérna á Grandanum. Bæði er þetta stutt frá heimilinu okkar og svo er bara búin að myndast svo dásamleg stemning í þessum bæjarhluta.

12.00

Við fáum okkur stundum rúgbrauð og síld, salat eða afganga frá deginum áður í hádegismat. Við erum með hellu hérna til að sjóða egg og lítinn örbylgjumat. Reynum að hafa þetta svolítið hollt í hádeginu. Stundum skrepp ég í kaffi yfir í Kumiko sem er skrautlegt kaffihús í götunni.

18.15

Vinnudagurinn er ýmist búinn korter yfir fjögur eða korter yfir sex. Þá sæki ég dætur mínar og við förum í að undirbúa kvöldmatinn og stússast eitthvað. Þrátt fyrir að vera frekar óskipulögð hvað þetta varðar þá reyni ég alltaf að elda góðan kvöldmat, enda elska ég hreinlega að elda mat. Eftir kvöldmatinn er svo aftur lestrarstund með stelpunum, bað og háttatími og þegar klukkan er orðin sirka níu þá er ég yfirleitt komin upp í rúm.

21.30

Ég sofna reyndar ekki svona snemma. Ligg yfirleitt í rúminu og les eitthvað, ýmist í símanum eða bara góða bók. Núna er ég að klára bókina um Jógu eftir Jón Gnarr sem ég tími varla að klára af því mér finnst hún svo æðisleg.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af