„Ég er broddgöltur“

Margrét Gústavsdóttir skrifar
Laugardaginn 9. desember 2017 20:00

Kött Grá Pje er listamannsnafnið sem rithöfundurinn og rapparinn Atli Sigþórsson tók sér á fylleríi í jólafríi norður á Akureyri fyrir nokkrum árum. Kött af því hann hreinlega elskar ketti. Segist sjúkur í þá. Grá af því honum finnst grátt bæði góður og vondur litur á sama tíma. Pjé, af því hann er yfir sig hrifinn af dr. Helga Pjeturs heitnum, jarðfræðingnum og dulvísindamanninum sem hafði áhuga á að reisa stjörnusambandsstöð á Íslandi. Margrét Hugrún Gústavsdóttir, blaðamaður og stílisti, heimsótti Atla ásamt Brynju ljósmyndara, þar sem hann býr ásamt kærustu sinni í litlu raðhúsi í Bústaðahverfi.

Atli stendur við útidyrnar og reykir sígarettu þegar blaðamann og ljósmyndara ber að garði. Það glampar á græna metalnaglalakkið í vetrarsólinni. Hann býður okkur inn fyrir, upp á aðra hæð.

Það fyrsta sem blasir við þegar við komum upp tröppurnar er arfagamall, hálfþunglyndur köttur og mynd af Jesú Kristi. Flísalagt gólfið er vel skúrað og glansandi. Íbúðin fremur lítil en snoturlega hönnuð. Þröngur gangur og þrjú herbergi. Öllu haganlega komið fyrir. Fullt af alls konar skrauti. Í miðri stofu stendur stórt skrifborð með tölvu, pennum, pappírum og bókum. „Ég sit hérna eiginlega allan daginn og skrifa,“ útskýrir rithöfundurinn um leið og hann afsakar óreiðu á heimilinu að íslenskum sið.

„Ég er voðalega orðljótur í rappinu og henni hefur eflaust þótt leiðinlegt að heyra mig staglast endalaust á því að sjúga typpi og þess háttar.“

„Ætti ekki að hafa forræði yfir unglingi“

Atli fæddist á Akureyri í júní árið 1983. Hann er sonur Sigþórs Heimissonar, fyrrverandi sjómanns, sem rekur í dag Pólýhúðunarverkstæði Akureyrar, og Hrannar Einarsdóttur myndlistarkonu. Hann á einnig tvö yngri systkini sem búa bæði í Danmörku og starfa sem arkitektar.

Spurður að því hvort foreldrar hans hafi stutt hann í að gerast listamaður útskýrir Atli að hann sé hálfspilltur af því að vera bæði sonur togarasjómanns og fyrsta barn foreldra sinna. Foreldrar hans hafi verið ungir þegar Atli kom í heiminn og því hafi hann líklegast fengið að ráða sér meira sjálfur en ella.
„Ungir foreldrar vita auðvitað ekki alveg út í hvað þeir eru að fara. Læra sínar lexíur á fyrsta barninu. Komast smátt og smátt að því að of mikið frjálsræði gangi kannski ekki. Systkini mín eru til dæmis bæði agaðri og skynsamari en ég, enda voru foreldrar okkar búnir að æfa sig á mér. Ef maður setur þetta í samhengi … Ég var til dæmis orðinn unglingur þegar pabbi var rúmlega þrítugur, á sama aldri og ég er á í dag. Þetta er auðvitað hálffáránlegt ef maður hugsar út í það. Ég ætti alls ekki að hafa forræði yfir unglingi núna. Hann væri ansi taugaveiklaður held ég,“ segir Atli og flissar um leið og hann þiggur kaffibolla af sambýliskonu sinni.

Mynd: Brynja

Móðirin ekki hrifin af því að hlusta á frumburðinn staglast á munnmökum

Hann segist hafa búið við gott atlæti í uppeldinu. Pabbi hans þénaði vel á sjónum og skáldið upprennandi naut góðs af því.
„Að vera togarasjómaður er örugglega ömurlega erfitt en vel borgað starf og ég naut þess eflaust meira en pabbi. Hvorki mamma né pabbi lögðu hart að mér að vera eitthvað sérstaklega praktískur þegar kom að námsvali. Ég átti bara að standa mig vel í því sem ég tók mér fyrir hendur. Sama hvað það var. Mamma var samt virkilega fegin þegar ég fór að gefa út bækur, enda þykir henni það fínna en að sonurinn sé bara einhver sveittur rappari. Ég skil það svo sem vel. Ég er voðalega orðljótur í rappinu og henni hefur eflaust þótt leiðinlegt að heyra mig staglast endalaust á því að sjúga typpi og þess háttar.“

„Ekki vera alltaf að reyna að faðma mig. Ég er broddgöltur“

„Smátt og smátt byrjaði fólk að gefa mér naglalökk, alls konar fallega liti sem ég hafði gaman af og ég kunni bara að meta þetta.“

Akureyri hefur alla tíð þótt ákaflega borgaralegt samfélag og því liggur beint við að spyrja Atla hvort honum hafi þótt erfitt að alast þar upp, enda lífsstíll skáldsins og viðfangsefni svolítið á skjön við menningargildin sem hafa þótt við hæfi síðustu árin.
„Jú, vissulega er þetta mjög dúllulegt og borgaralegt samfélag þarna fyrir norðan. Ég gæti ekki hugsað mér að búa og starfa sem ögrandi listamaður á Akureyri, einfaldlega af því að þetta er svo mikið dúllupleis. Þetta var alltaf mikill iðnaðarbær, svo lokuðu verksmiðjurnar og bærinn þurfti að finna sig upp á nýtt. Varð menntabær en núna er þetta fyrst og fremst áfangastaður ferðamanna, sem er frábært því nú eru komnir alls konar barir og kaffihús í bæinn – „happy hour“ og fleira skemmtilegt. Ég myndi samt aldrei nenna að vera kjaftfor og „fríkí“ listamaður í þessum bæ og vera alltaf að standa í einhverju stappi við samborgara mína. Því síður myndi ég vilja að þau lyftu mér upp á einhvern stall … Æi nei, hrækiði frekar á mig. Ekki vera alltaf að reyna að faðma mig. Ég er broddgöltur,“ segir hann kíminn en tekur svo skýrt fram að hann kunni þrátt fyrir allt mjög vel við borgaralega heimabæinn og þangað fari hann reglulega til að heimsækja foreldrana, vini og ættingja.

Stóð hæfilega út úr en tilheyrði samt hóp

Sem krakki fann Atli sína hillu í rappinu. Stundaði það sem hann kallar eins konar trúarbrögð í nafni rappsveitarinnar Wu Tan Clan og var uppnefndur „skoppari“.
„Ég gekk svakalega langt í þessu. Var í risastórum hettupeysum og enn stærri buxum sem héngu niðrum mig. Var hipp hoppari alla leið. Þannig bjó ég mér til sjálfsmynd sem unglingur. Þá stóð maður hæfilega út úr en tilheyrði samt hóp. Ef maður var litinn hornauga þá var allur hópurinn litinn hornauga um leið: „Hysjiði upp um ykkur þarna skopparar“ var kallað á eftir okkur. Eitt gekk yfir alla. Rapptónlist var meira jaðarfyrirbæri á þessum tíma en er orðin mikið útbreiddari í dag. Fólk á öllum aldri hlustar á rapp en ég að hlusta á Wu Tang er bara eins og pabbi að hlusta á Led Zeppelin eða eitthvað. Þetta er svona miðaldra stöff.“

Taugaveiklaður og feiminn en alveg tjúllaður á sviði

Árið 2013 gaf Kött Grá Pje út sitt fyrsta rapplag, Aheybaró, sem náði fljótlega vinsældum á Rás 2. Hann segist hafa verið að gera vini sínum greiða með því að rappa í laginu en fljótlega myndaðist eftirspurn eftir þeim sem skemmtikröftum og Atli ákvað að fljóta á öldunni. Láta gamla rapparadrauma rætast.
„Ég stofnaði band með vini mínum og við byrjuðum að koma fram. Að rappa á sviði er örugglega það skemmtilegasta sem ég geri en mér finnst allt skipulagið í kringum þetta leiðinlegt. Að miða sig við aðra, mæla mér mót við fólk til að æfa og svo framvegis. Ég á voðalega bágt með alla svona strúktúra. Nema þá sem ég smíða sjálfur – og þeir eru óskaplega hrörlegir,“ segir Atli og strýkur sítt hárið frá bleikum gleraugunum um leið og hann bætir við að hann sé sjálfur mikill tónlistaramatör sem hafi blessunarlega fengið tækifæri til að vinna með öðrum sem séu honum mikið færari. Verið svona „live act“. Ég gaf lítið út af lögum en fékk á mig orð fyrir að vera frekar tjúllaður á sviði. Mikill sviti og djöfulgangur. Við stóðum þarna, næstum-því-miðaldra karlar með bumbuna úti að bölva eitthvað, rosa hressir. Fólki hefur örugglega aðallega þótt þetta fyndið en við ákváðum að hundsa það, kusum að trúa því að fólki þætti við töff, en auðvitað hefur það ekkert verið. Ég er alls ekki töff. Ótrúlega taugaveiklaður, feiminn og hræddur við fólk. Alltaf þegar ég set upp sólgleraugu og fer að láta eins og spaði þá er það bara eitthvað „front og feik“. Enginn töffaraskapur, enda er ég enginn töffari.“

Mynd: Brynja

Valdi bleik gleraugu af einskærum hégóma

Talandi um sólgleraugu. Stíllinn á þér, hárið, bleiku gleraugun og naglalakkið. Það eru ekki margir rapparar í þessum gír. Hvað kemur til?

„Já, sko ég byrjaði bara að naglalakka mig af því að mér finnst það fallegt. Fyrst gerði ég þetta til að skreyta mig áður en ég fór á svið og svo fannst mér naglalakkið bara svo flott að ég fór að vera svona dagsdaglega. Smátt og smátt byrjaði fólk að gefa mér naglalökk, alls konar fallega liti sem ég hafði gaman af og ég kunni bara að meta þetta. Hvað hárið og gleraugun varðar – fyrst fékk ég mér skyggð gleraugu af því að ég var með einhverja ljósfælni, svo skipti ég yfir í þessi bleiku af eintómum hégóma. Ég viðurkenni það. Mér fannst þau bara flottari en grái liturinn,“ segir Atli sem hefur aldrei mátað sig við það sem hann kallar venjulega, töff rappara. „Ég var alltaf meira eins og eitthvert frík, eða viðrini. Líklegast ætti ég betur heima í svona „sækadelik“ rokkhljómsveit. Fagurfræðin mín á að minnsta kosti betur heima í því samhengi.“

Hádramatísk yfirlýsing um endalok rappferilsins

Á dögunum sendir þú frá þér dramatíska yfirlýsingu þar sem þú sagðist vera steinhættur að rappa. Samt hefur rappið átt hug þinn allan í mörg ár. Hvers vegna þessi tilkynning um að þú værir hættur?

„Það var aðallega til að stöðva allar þessar fyrirspurnir. Ég var alltaf að fá tölvupóst, símtöl og skilaboð þar sem fólk vildi fá mig í þetta. Ég gerði þetta opinberlega til að stoppa það allt, frekar en að reyna að „feida“ út. Ég á samt örugglega eftir að rappa aftur. Þetta er að sjálfsögðu ekki alveg búið.“

Heldurðu að þú getir náð að gera fólk jafn æst í ljóðin þín og bækurnar og það hefur verið í rappið? Ljóðaupplestur kallar ekki beint á sexí trylling?

„Ég veit það ekki. Ég er auðvitað pínu dóna- og ruddaskáld líka. Á það til að vera með gjörninga þar sem ég er á brókinni einni fata að tússa á líkamann. Ég kann alltaf vel við mig fyrir framan fólk, sem er í sjálfu sér ótrúlegt af því að á sama tíma sæki ég ekki mikið í félagsskap. Mig grunar að fólkið sem kemur að sjá mig á ljóðakvöldum sé sama fólkið og mætti á rappkonsertana mína. Á ljóðakvöldum fá þau sér kannski frekar rauðvín en velja Jack í kók á tónleikum. Það má alveg leika tveimur skjöldum þannig. Svona smá.“

Frussandi fínn og sætur femínisti

Í útliti er Atli bæði karlmannlegur og kvenlegur í senn. Kvenleikinn kemur aðallega með síða hárinu og naglalakki en sjálfur segist hann femínisti alla leið.
„Sem sviðslistamaður var ég, og er kannski, svolítið fljótandi í kyngervinu. Mála mig til dæmis og set á mig fallega hringa. Fyrir tónleika fékk ég fólk til að mála mig um augun, og ég stefni alltaf á að læra að gera þetta sjálfur af því mér finnst ég æðislega fínn svona málaður. Ég „fíla“ að vera málaður, fínn og sætur um leið og ég er sveittur og frussandi. Það er eitthvað við það,“ segir hann og brosir lymskulega.

Áður en Atli lauk meistaranámi í skapandi skrifum frá HÍ lauk hann BA-námi í sagnfræði við sama skóla. Hann segist hafa heillast af öllu sem viðkom kynjahlutverkum og kyngervum þegar hann lagði stund á þetta nám.
„Það er svo áhugavert að við höfum annars vegar gamla líffræðilega kynið og hins vegar kyngervið sem má núna vera frjálst og fljótandi. Kynhegðun er í sjálfu sér orðin einhvers konar róf sem teygir sig út um allt og þetta samfélagsfyrirbrigði er svo rosalega frábrugðið öllu sem fyrirfinnst í dýraríkinu. Mér finnst frábært að einstaklingnum sé frjálst að ákvarða nákvæmlega hvað hann er, án þess að þurfa að gera grein fyrir því. Þetta er í sjálfu sér það sem aðgreinir okkur hvað mest frá öðrum skepnum og gerir okkur svo mannleg um leið. Mér finnst það mjög fallegt.“

Tengir við baráttu kvenna og hinsegin fólks

Atli segist alltaf hafa tengt mikið við baráttu kvenna og hinsegin fólks fyrir jafnrétti og virðingu en það voru meðal annars skoðanasystkini hans í stjórnmálum sem höfðu áhrif á viðhorfin – Sóley Tómasdóttir og fleiri gallharðir vinstrisinnar.

„Ég tók eftir því að skoðanasystkini mín í hefðbundinni pólitík voru að hugsa á svipuðum nótum hvað varðar jafnréttismálin og ég varð fljótt sammála því sem ég heyrði um róttækan femínisma,“ segir Atli sem tók meðal annars virkan þátt í femínistaspjalli á netinu upp úr síðustu aldamótum.

„Þar var mikið talað um félagsmótun. Að kynin væru mótuð inn í alls konar hlutverk og að félagslegir strúktúrar réðu í sjálfu sér muninum á kynjunum frekar en aðrir þættir. Ég var sjálfur mjög félagsfræðilega sinnaður, tengdi strax við þess háttar kenningar þegar ég var í menntaskóla og fannst þessi hugmynd um félagsmótun ganga vel upp. Ég man sérstaklega eftir fræga málinu þar sem Kolbrún Halldórsdóttir tók fyrir bleiku og bláu nýburagallana á spítalanum. Mér fannst þetta örlítið ýkt og ætla ekki að hafa neinar sérstakar skoðanir á því núna, en engu að síður kviknuðu þarna miklar pælingar um það hvernig stelpum og strákum er beint í ákveðnar áttir strax frá fæðingu.“

„Ég „fíla“ að vera málaður, fínn og sætur um leið og ég er sveittur og frussandi. Það er eitthvað við það.“

„Partur af þessu er kerfisbundið vandamál, einhver strúktúr sem byggir á því að halda konum niðri, en kynferðislega markaleysið er gömul og frumstæð hellisbúahegðun“

Líkt og flestir landsmenn hefur Atli skoðanir á svokölluðum myllumerkjahreyfingum sem hafa sprottið upp á netinu síðustu ár, í þeim tilgangi að rétta stöðu kvenna í samfélaginu og koma í veg fyrir kynferðisofbeldi, áreiti og kynbundið misrétti.

„Þessar hreyfingar hafa sýnt fram á að kynferðislegt ofbeldi og áreiti og kynbundið misrétti er ekki bara algengt fyrirbæri heldur beinlínis hversdagslegt – og það er í raun alveg sturlað þegar maður hugsar út í það. Partur af þessu er kerfisbundið vandamál, einhver strúktúr sem byggir á því að halda konum niðri, en kynferðislega markaleysið er gömul og frumstæð hellisbúahegðun: Karlkyns hellisbúinn sem rotar konu með lurk og dregur hana svo á hárinu inn í helli,“ útskýrir Atli sem hefur lagt sín lóð á vogarskálarnar til að breyta ástandinu til hins betra. Hefur meðal annars tekið þátt í Druslugöngum og fleira. Hann telur þó að félagsfælnin hafi komið í veg fyrir að hann geti sinnt því betur að vera pro-femínískur karlmaður eins og hann kallar það: „Ef ég væri ekki svona kvíðinn og lítið fyrir skipulegt félagastarf þá væri ég eflaust mun virkari í femínistabaráttunni.“

Tekur fullt af pillum á hverjum morgni

Atli segir að kvíðinn og þunglyndið hafi háð sér honum því hann var unglingur. Hann taki fullt af pillum á hverjum morgni og þurfi að hafa talsvert fyrir því að vera í andlegu stuði. Síðustu misserin hafi þó verið góð. Þetta þakkar hann góðum lækni og heiðarlegri sjálfskoðun.

„Ég er búinn að vera helvíti brattur það sem af er þessu ári enda á fínum lyfjakokteil. Svo nýt ég leiðsagnar frá Karl Reyni Einarssyni geðlækni sem hefur hjálpað mér mikið. Það er gott að tala við hann og samtölin hafa beint mér í réttar áttir í lífinu. Ég hef til dæmis verið að taka sjálfan mig í hugræna atferlismeðferð, tekið til í sálinni og skoðað hvar ég stend. Hvað ég vil og eitthvað svoleiðis. Þetta hefur allt haft góð áhrif. Hugræna atferlismeðferðin gengur til dæmis út á að greina hugsanavillur og hugsa jákvætt og það er allt fínt. Mig langar samt að nefna bókina Leitin að tilgangi lífisins, eftir Viktor Frankl, sem stórkostlegan áhrifavald á það hvernig maður getur breytt lífsviðhorfum til hins betra. Viktor þessi var fluggáfaður sálfræðingur sem lifði af vistina í útrýmingarbúðum nasista og skrifaði í kjölfarið þessa mögnuðu bók sem amma mín gaf mér fyrir mörgum árum,“ segir Atli ákafur og bætir svo við að reyndar hafi höfundurinn verið trúaður sem hann sjálfur sé ekki. Einnig sé hann svolítið ósammála því að allir fæðist með ákveðinn tilgang sem þurfi svo bara að finna. Okkar maður vil meina að við getum sjálf skapað okkur góðan tilgang.

„Viktor Frankl setur þetta þannig fram að tilgangur lífsins sé einhvers staðar flögrandi um í loftinu. Ég vil hins vegar meina að allir geti bara búið til sinn eigin pappírsfugl,“ segir kattavinurinn, kynjablendingurinn, rapparinn og rithöfundurinn Kött Grá Pje að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af