fbpx
Miðvikudagur 17.apríl 2024
Fókus

Dagur í lífi: Máni Pétursson

– sojalatte, vísindaskáldsögur, brennt hakk og bindishnútanámskeið á YouTube

Margrét Gústavsdóttir
Laugardaginn 2. desember 2017 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þorkell Máni Pétursson, eða Máni í Harmageddon, fæddist á vetrarsólstöðum, þann 21. desember árið 1976. Foreldrar hans eru þau Áslaug Björnsdóttir hjúkrunarfræðingur og Pétur Þorkelsson vélstjóri. Máni á eina yngri systur, Árdísi Ýr. Útvarpsmaðurinn skeleggi sleit barnsskónum í Garðabæ og þar býr hann enn. Hann er í sambúð með Bjarneyju Björnsdóttur, 39 ára leikskólastjóra á Litlu Ásum. Þau eiga tvo syni, Pétur Mána, 17 ára, og Róbert Frosta, 12 ára. Máni flosnaði upp úr menntaskólanum í Garðabæ á sínum tíma en lauk þó stúdentsprófinu með húfu og tilbehör þegar hann var 36 ára. Síðan segist hann hafa prófað að skrá sig á flestar brautir Háskólans en ekkert hefur heillað hann meira en útvarpsstarfið sem hann hefur nú sinnt nánast sleitulaust í tuttugu ár, þá aðallega á X-inu 977.

07.15

Ég læt klukkuna hringja korter yfir sjö en er yfirleitt ekki kominn á lappir fyrr en átta. Snúsa í þrjú korter. Mér finnst í fyrsta lagi leiðinlegt að vakna en svo dreymir mann líka oft svo skemmtilega á þessu snús tímabili. Í morgunmat reyni ég yfirleitt að fá mér eitthvað smúþísull eða dós af skyri og ef ég vakna mjög snemma þá renni ég við hjá Te og Kaffi í Hamraborg og fæ mér sojalatte eftir að hafa skutlað yngri syninum í skólann.

08.45

Ég er vanalega mættur í vinnuna svona korter í níu. Klukkan níu byrjar útvarpsþátturinn sem við æskuvinur minn, Frosti Logason, höfum stjórnað í tíu ár. Við höfum reyndar unnið á X-inu frá því við vorum krakkar. Það eru orðin tuttugu ár frá því við byrjuðum í útvarpi. Á þessum árum höfum við breyst í gamla karla með pólitískar skoðanir. Ég hef reyndar alltaf haft áhuga á pólitík en þetta kom seinna hjá Frosta. Hann er óþroskaðari en ég og hefur alltaf verið.

12.00

Þegar þátturinn er búinn fer ég í það að setja inn klippur úr þættinum og annað útvarpsefni á visi.is til sirka þrjú. Ég borða sjaldnast í hádeginu en ef ég náði ekki í sojalatte í Hamraborg um morguninn þá skýst ég í Borgartún um þetta leyti og fæ mér einn. Svo fer restin af deginum í að bóka Friðrik Dór Jónsson í alls konar partí í gegnum bókunarstofuna mína Paxal.

Hvað er besta ráð sem þér hefur verið gefið?

Ég er alinn upp við það að ég sé ekki merkilegri en aðrir og aðrir eru ekki merkilegri en ég. Þess vegna tala ég eins við alla. Ég held að þetta sé besta ráð sem ég hef fengið.

Hvað myndir þú vilja ráðleggja öðrum?

Að taka fulla ábyrgð á eigin lífi. Ef einhver móðgar þig, þá er það þér að kenna að þú móðgist. Hættu að vorkenna þér.

Hvað vildir þú að þú hefðir vitað fyrr? Að erfiðleikar eru ekki slæmir.

17.00

Að vinnudegi loknum reyni ég yfirleitt að kíkja í World Class í Laugum, einungis vegna þess að það er enn ekki komin stöð í Garðabæ. Einhver sagði að aðalmálið væri að mæta í ræktina svo ég legg áherslu á það og ef ég geri eitthvað þá hleyp ég á brettinu af því mér leiðast lyftingar.

18.00

Ég er oftast kominn heim milli klukkan sex og sjö. Kvöldmatartímar heima hjá mér eru hins vegar mjög óskipulagðir og það skrifast á æfingar og tómstundir strákanna. Sjálfur elda ég ekki mikið en það stendur þó alltaf til að breyta því enda er ég hræðilegur kokkur og hef átt stórslysastundir í eldhúsinu. Hef meira að segja brennt hakk. Það er alltaf á planinu að fara á kokkanámskeið en svo geri ég ekkert í því. Kannski að ég prófi bara YouTube. Ég lærði að minnsta kosti að gera bindishnút þar.

20.00

Á kvöldin kemur fyrir að ég kíki á fundi hjá leynifélagi sem ég er í og að þeim loknum fer ég yfirleitt heim að horfa á eitthvert rusl í sjónvarpinu þrátt fyrir áform um bókalestur. Ég horfi oftast á einhverja ofurhetjuþætti, vísindaskáldsögur eða annað óraunverulegt. Lífið er of raunverulegt til að maður fari líka að horfa á raunverulegt sjónvarpsefni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Sonur Elísu og Elíss fæddur

Sonur Elísu og Elíss fæddur
Fókus
Í gær

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Bjútífilterar á samfélagsmiðlum orðnir svo lúmskir – „Þetta er ekki raunveruleikinn“

Bjútífilterar á samfélagsmiðlum orðnir svo lúmskir – „Þetta er ekki raunveruleikinn“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Faðir Olgu var einn þekktasti læknamiðill landsins – „Hann vissi allt“

Faðir Olgu var einn þekktasti læknamiðill landsins – „Hann vissi allt“