Fókus

Prúður og stilltur

Íslensku gúrúinn Bragi Valdimar Skúlason um æskuárin fyrir vestan, íslenskublætið og hömlulausan jólafílíng Baggalútanna út desember

Margrét Gústavsdóttir
Mánudaginn 27. nóvember 2017 22:00

Bragi hét hann, guð skáldskaparins í norrænni goðafræði og Bragi Valdimar heitir hann, einn fremsti texta- og lagahöfundur þjóðarinnar í dag. Bragi Valdimar hreinlega elskar íslensku; velti sér upp úr henni í háskóla og talar hana bókstaflega aftur á bak og áfram.

Hann er formaður Félags tónskálda og textahöfunda og vinnur allan daginn við að skrifa texta á auglýsingastofunni Brandenburg. Í desember fara svo flest kvöldin hans í að spila og syngja með félögunum í Baggalút sem fyrir löngu hafa tekið við keflinu af sveinunum þrettán sem oddvitar jólanna á Íslandi.

Bragi sleit barnsskónum í Hnífsdal en þangað flutti hann með foreldrum sínum þegar hann var fimm ára. Mamma hans, Ingibjörg Valdimarsdóttir, var 36 ára þegar Bragi kom í heiminn, en pabbi hans, Guðmundur Skúli Bragason, var þrítugur. Bragi litli ólst upp sem einbirni í góðu yfirlæti þroskaðra foreldra sinna. Fékk fínasta atlæti og var almennt frekar sáttur krakki að eigin sögn.

Fimmtán ára mætti hann svo aftur á mölina. Byrjaði í MH og kynntist þar félögum sínum í Baggalút.
Í dag er þessi rúmlega fertugi orðspekingur kvæntur þriggja barna faðir sem býr í póstnúmeri 103 ásamt eiginkonu sinni og ástmey til sautján ára, Þórdísi Heiðu Kristjánsdóttur tónlistarkennara og saman eiga þau dæturnar Brynju, fjögurra ára, Þórdísi, sjö ára, og Ingu Margréti, tólf ára.

„Eða … reyndar er þetta svipað og hjá Emil í Kattholti sem sagði að maður vissi aldrei hvort maður hefði gert skammarstrik fyrr en eftir á.“
Emil í Kattholti „Eða … reyndar er þetta svipað og hjá Emil í Kattholti sem sagði að maður vissi aldrei hvort maður hefði gert skammarstrik fyrr en eftir á.“

Mynd: Brynja

Átti griðastað á bókasafninu

Hvað ákafann í íslenskuna varðar segist Bragi í fyrsta lagi hafa verið mjög fljótur að læra að lesa. Sex ára gamall var hnokkinn alveg fluglæs og Bókasafnið í Hnífsdal varð hans helsta athvarf.
„Það má segja að ég hafi gert ósköp lítið annað en að lesa. Fyrst um sinn las ég hefðbundnar barnabækur; Frank og Jóa, Kim, Flipper, Skipper og hvað þetta hét nú allt saman, en smátt og smátt færði ég mig upp á skaftið. Fór í Alistair MacLean og eitthvað aðeins greindarlegra. Fyrstu bækurnar sem ég man eftir að hafi gripið mig sérstaklega voru bækur eftir Ole Lund Kirkegaard en ætli það hafi ekki verið Sagan endalausa sem ég féll svo alveg fyrir. Þetta var arfaslæm kvikmynd en alveg frábær bók. Sagan fjallaði um Ævintýraland sem var að hverfa af því fólk var að hætta að lesa bækur. Í minningunni var þetta mjög löng bók en líklegast er hún það ekki.“

Heldurðu að þetta hafi markað kaflaskil í lífi þínu? Andartakið þar sem þú byrjaðir að hafa áhyggjur af framtíð íslenskunnar, umkringdur VHS-spólum árið 1984?

„Nei, ég var nú bara átta ára þá og held ég hafi ekki haft neinar áhyggjur af dauða bókarinnar. Þetta var í árdaga leikjatölvunnar og vídeóið var ekki mikil ógn, svoleiðis. Ég hafði líka bara gaman af því að lesa en ef ég hefði haft meiri áhuga á einhverju öðru þá hefði ég eflaust einfaldlega gert það frekar,“ segir Bragi og bætir við að í dag sé þetta reyndar svolítið breytt. Vissulega lesi hann eitthvað allan daginn en skáldsögur og fagurbókmenntir séu þar ekki í forgangi.

"Ætli þessir ungu rapparar séu ekki að bjarga því sem bjargað verður. Þau eru að minnsta kosti að reyna að tjá sig á íslensku sem er mjög gott."
Rappararnir redda þessu "Ætli þessir ungu rapparar séu ekki að bjarga því sem bjargað verður. Þau eru að minnsta kosti að reyna að tjá sig á íslensku sem er mjög gott."

Mynd: Brynja

Íslenskan í nútíma afþreyingarefni

Nú eru margir sem hafa áhyggjur af framtíð íslenskunnar, að hér sé að vaxa úr grasi kynslóð sem mögulega komi ekki til með að valda okkar ástkæra ilhýra með sama hætti og foreldrar hennar, hvað þá ömmur og afar. Hverjar eru skoðanir þínar á þessu?

„Það er mikið afþreyingarframboð fyrir börn í dag, annað en að sitja inni og lesa bækur eins og sumir gerðu hér áður fyrr. Elsta dóttir mín les reyndar mjög mikið sem gleður föður hennar mjög og áhugi hennar er alveg sjálfsprottinn. Ef krakkar finna sig í lestri bóka komast þeir fljótt á bragðið og sækja sjálfkrafa í meira. Það er líka gaman að spila tölvuleik eða horfa á bíómynd og í raun er þetta allt einhvers konar lestur – en íslenskur góður texti er kannski ekki þar á meðal. Því miður. Það er kannski einmitt stóra vandamálið. Það vantar íslenskustuðninginn í megninu af því myndefni sem krakkarnir okkar horfa á og í tölvuumhverfinu er líka allt meira eða minna á ensku. Ef við ætlum að gera eitthvað í þessu þá þarf að ausa peningum til þessa verkefnis og það er svo sem ekki verið að gera það, þrátt fyrir ýmis loforð.“

„Tónlistarveiturnar eru einn risinn sem við erum að berjast við. Á Spotify þóknast þeim til dæmis ekki að geta höfunda laga eða texta."
Berst við tónlistarveitur „Tónlistarveiturnar eru einn risinn sem við erum að berjast við. Á Spotify þóknast þeim til dæmis ekki að geta höfunda laga eða texta."

Mynd: Brynja

Hér erum við enn röflandi

Bragi nefnir að reyndar hafi fólk alltaf haft áhyggjur af framtíð íslenskunnar. Það sé ekkert nýtt.
„Við erum ekki í sömu íslensku bómullinni og við vorum í fyrir þrjátíu árum, eða hundrað árum – og þó voru menn áhyggjufullir þá. Rask og þessir herramenn vildu sporna við dönskum áhrifum, voru skíthræddir um að íslenskan væri bara að hverfa – og hér erum við enn röflandi, sem betur fer enda er þetta áhyggjuefni sem við þurfum að skoða á réttan hátt. Það þýðir ekki að vera með bölmóð og áhyggjur en gera svo ekkert í því. Flest fullorðið fólk les reyndar eitthvað á netinu alla daga, til dæmis á Facebook eða Twitter, en krakkarnir eru ekki þar. Þau finna sér aðrar leiðir til að tjá sig og þetta er allt að gerast mjög hratt. Ef við spornum ekki fljótlega við þá er raunveruleg hætta á að tungumálið fuðri upp,“ segir Bragi sem fylgdist nýlega með afhendingu á íslenskuverðlaunum unga fólksins.

„Þar stóðu krakkar í löngum röðum til að taka á móti viðurkenningum. Mörg þeirra voru af erlendum uppruna og eru enn að læra tungumálið. Maður fékk nánast kökk í hálsinn við hvert nafn sem var lesið upp af gleði yfir því að það er enn fullt af fólki sem brennur af ástríðu fyrir þessu máli. Krakkar eru að lesa og það verða alltaf krakkar sem lesa,“ segir Bragi og bendir á að fyrir tvö hundruð árum hafi líklegast verið færri sem lásu bækur sér til fróðleiks og skemmtunar en nú til dags. Flestir hafi verið úti á túni að slá gras eða sinna bústörfum, bókaormarnir sem höfðu áhyggjur af tungumálinu hafi verið mikið færri. „Kannski svona tíu. Þetta fer eftir umhverfinu og því hvernig við búum og hlúum að þessu,“ segir hann og vindur í því samhengi talinu að þáttunum Orðbragði sem voru styrktir af Námsgagnastofnun og sýndir á RÚV.

„Bara uppi á sviðinu erum við sextán manns og svo eru um tíu til fimmtán aðrir sem koma að sýningunni með fjölbreyttum hætti. Við erum með litla verslun, rótara, flokk af japönskum blöðrugerðarmeisturum og fleira skemmtilegt. Það verður að vera smá flipp.“
Smá flipp „Bara uppi á sviðinu erum við sextán manns og svo eru um tíu til fimmtán aðrir sem koma að sýningunni með fjölbreyttum hætti. Við erum með litla verslun, rótara, flokk af japönskum blöðrugerðarmeisturum og fleira skemmtilegt. Það verður að vera smá flipp.“

Mynd: Brynja

Orðbragð ætti alltaf að vera aðgengilegt á netinu

Með þáttunum, sem voru hugarfóstur Brynju Þorgeirsdóttur, leituðust Bragi og Brynja við að fræða áhorfendur um tungumálið með skemmtilegum og nýstárlegum hætti. Þeir hafa verið notaðir við íslenskukennslu í grunnskólum en mættu vera aðgengilegri á netinu að mati Braga.
„Þessir þættir, eins og aðrir, hverfa af netinu hjá RÚV eftir nokkrar vikur en að mínu mati ættu þeir alltaf að vera aðgengilegir. Allt fræðsluefni ætti að vera mjög aðgengilegt og þá sérstaklega á netinu. Við gerðum einmitt þessa Orðbragðsþætti til að reyna að ná til yngra fólks og ég er mjög sáttur við hvað það tókst vel til enda alls ekki sjálfgefið að búa til skemmtiþátt um tungumálið,“ segir hann og hlær.

„Við erum ekki í sömu íslensku bómullinni og við vorum í fyrir þrjátíu árum, eða hundrað árum – og þó voru menn áhyggjufullir þá. Rask og þessir herramenn vildu sporna við dönskum áhrifum, voru skíthræddir um að íslenskan væri bara að hverfa – og hér erum við enn röfland"
Enn röflandi „Við erum ekki í sömu íslensku bómullinni og við vorum í fyrir þrjátíu árum, eða hundrað árum – og þó voru menn áhyggjufullir þá. Rask og þessir herramenn vildu sporna við dönskum áhrifum, voru skíthræddir um að íslenskan væri bara að hverfa – og hér erum við enn röfland"

Mynd: Brynja

Auglýsingabransinn er eins og hjá Emil í Kattholti

Eins og fyrr segir er Bragi með BA-gráðu í íslensku og starfar sem hugmynda- og textasmiður á auglýsingastofunni Brandenburg. Hann segist stundum skreppa upp í háskóla til að hughreysta íslenskunemana. Hann vilji gefa von um að það sé framtíð fyrir þetta fólk á vinnumarkaði að náminu loknum.
„Það er sjálfsagt að þau viti að í auglýsingabransanum sé athvarf fyrir hugmyndaríkt textafólk sem veit ekkert hvað það á af sér að gera þegar það klárar skólann. Ég hef allavega haft mjög gaman af þessu í þau tíu ár sem ég hef verið í þessu starfi enda enginn dagur eins. Ég byrjaði fyrst á auglýsingastofunni Fíton en fyrir sex árum stofnuðum við Brandenburg. Nafnið gengur eitthvað út á „branding“ eða markaðssetningu. Gott að íslenskumaðurinn hafi valið nafn sem er ekki íslenskt, en þetta er allavega þýskt. Það er næstbest.“

Hvernig virkar þetta ferli? Hvað gerist áður en auglýsing verður til?

„Hugmyndavinnan þarf að vera í forgrunni, maður þarf að fá skemmtilegar og öðruvísi hugmyndir sem eru svo útfærðar af flinku fólki. Allt byrjar á hugmynd en svo taka við glímur við kúnna og markhópa. Flestar góðu hugmyndirnar lenda reyndar alltaf ofan í skúffu, því miður. Eða … reyndar er þetta svipað og hjá Emil í Kattholti sem sagði að maður vissi aldrei hvort maður hefði gert skammarstrik fyrr en eftir á. Þetta er svipað og þegar maður sendir frá sér lag. Maður veit ekki hvort það hitti í mark fyrr en lagið er komið í loftið.“

Essasú froskurinn sem allir fengu á heilann

Viðskiptavinir Braga og vina hans á Brandenburg eru margir, allt frá Íslandsbanka og Nova yfir í minni viðskiptavini og verkefnin eftir því. Stundum fer vinnudagur textamannsins í að lesa innihaldslýsingar á mat meðan aðrir dagar snúast um að skipuleggja stórar auglýsingaherferðir. Hann á erfitt með að rifja upp sín helstu afrek á þessu sviði en nefnir þó skemmtilega Essasú froskinn sem allir fengu á heilann fyrir nokkrum árum, dillibossaauglýsingar fyrir Krabbameinsfélagið og nú síðast allsherjar herferð fyrir Sorpu með Björn Jörund og Helga Björns í fararbroddi.
„Ætli Sorpa sé ekki skrautfjöðrin í augnablikinu? Þegar við stofnuðum þessa stofu þá vildum við hafa hugmyndavinnuna í forgrunni enda þarf frumlegar hugmyndir til að ná athygli fólks í þessu kraðaki.“

Prúður og stilltur en merkilega athyglissjúkur

„Ég hef mikið bragfræðiblæti og því er það mér hjartans mál að koma frá mér skikkanlegum textum. Það þarf að setja bragfræðina aðeins í öndunarvél.“
Með blæti fyrir bragfræði „Ég hef mikið bragfræðiblæti og því er það mér hjartans mál að koma frá mér skikkanlegum textum. Það þarf að setja bragfræðina aðeins í öndunarvél.“

Mynd: Brynja

Bragi hefur svolítið sérstakt fas því hann virkar bæði feiminn og galsafenginn í senn. Skemmtilega ólík einkenni sem gera hann að óvenjulegum karakter.
En hvort hafði yfirhöndina? Varstu prúður og stilltur, eða prakkari?
„Ég held að ég hafi nú verið meira prúður og stilltur. Það fór að minnsta kosti ekki mikið fyrir mér þegar ég var krakki. Ég hef alltaf verið svolítið feiminn en eftir því sem ég fer í fleiri blaðaviðtöl þá rjátlast þetta af mér. Þó ég hafi ekki verið mikið að sprikla þá hef ég alltaf verið merkilega athyglissjúkur. Á sama tíma og mér finnst ekkert sérstaklega gaman að tala um sjálfan mig þá vil ég endilega gera það. Þetta er einhver hæfileg blanda,“ segir hann og bætir við að hann hafi aldrei litið á sjálfan sig sem alvarlegan listamann þótt vissulega hafi hann mjög gaman af því að skrifa hjartnæma dægurlagatexta.

„Mér finnst það nauðsynlegt enda ekkert allt of mikið af þeim í umferð. Ég hef mikið bragfræðiblæti og því er það mér hjartans mál að koma frá mér skikkanlegum textum. Það þarf að setja bragfræðina aðeins í öndunarvél. Jónas Hallgrímsson hraunaði reyndar yfir rímnaskáldin á sínum tíma enda töldu menn fyrir um hundrað árum að fyrst að allir á landinu gætu hvort eð er sett saman vísur, þá gætum við alveg eins sleppt þessu, ef innihaldið hefði ekki listrænt gildi. Svo bara hættum við og nú getur varla nokkur kjaftur komið saman skammlausri vísu, sem er svolítið leiðinlegt því þetta hefur alltaf verið eitt af því merkilegasta við þessa þjóð. Meðan aðrir voru að setja saman flókna tónlist og mála flókin málverk þá vorum við að setja saman fáránlega flókin kvæði, rímur og vísur sem eru í raun okkar handverk, en þetta er ansi hverfandi í dag. Ég ætti kannski að opna rímnaskóla? Það verður örugglega gríðarleg aðsókn,“ segir hann og hlær.

„Ætli þessir ungu rapparar séu ekki að bjarga því sem bjargað verður“

Þótt margir hafi sínar skoðanir á því sem rennur upp úr ungum röppurum í dag segist Bragi taka þeim fagnandi. Önnur eins vitleysa hafi nú runnið upp úr þjóðinni um aldaraðir og lög eins og B.O.B.A virki bara mjög frískandi.
„Endurnýjun kemur sjaldnast úr þeirri átt sem maður gerir ráð fyrir. Ætli þessir ungu rapparar séu ekki að bjarga því sem bjargað verður. Þau eru að minnsta kosti að reyna að tjá sig á íslensku sem er mjög gott, svo ég tali nú sem formaður íslenskra tónskálda og textahöfunda,“ segir Bragi og bætir við að það hlutverk gangi aðallega út á að fara á fundi og gera dauðaleit að einhverjum peningum fyrir tónlistarfólk.

„Tónlistarveiturnar eru einn risinn sem við erum að berjast við. Á Spotify þóknast þeim til dæmis ekki að geta höfunda laga eða texta. Það er hvergi minnst á þá eins og var gert á plötuumslögum hér áður. Þetta er auðvitað mikil barátta fyrir tónlistarmenn enda hefur þarna heill bransi þurrkast út, það er að segja plötuútgáfan. Á móti kemur að tónleikum hefur fjölgað. Það eru ótal tónleikar úti um allt, öll kvöld vikunnar,“ segir Bragi sem ætlar sjálfur að demba sér í heilmikla tónleikavertíð með Baggalút á næstu vikum en framundan eru átján tónleikar í desember.

„Við höfum auðvitað heilan horngrýtis helling upp úr þessu“

„Við erum að slá nýtt innanhússmet með tónleikum í Háskólabíói. Eftirspurnin hefur aukist með hverju árinu og við verðum alltaf jafn hissa, glaðir og þakklátir. Setjum status á Facebook í byrjun september og allt selst upp. Nú er svo komið að við flytjum inn í bíóið fyrsta desember og fáum ekki að fara út fyrr en á aðfangadag,“ segir hann og skellir upp úr þegar blaðamaður spyr hvort þeir fái ekki sjúklega mikinn pening fyrir þetta.
„Jú, við höfum auðvitað heilan horngrýtis helling upp úr þessu enda er þetta jólavertíðin,“ segir hann og bendir á að reyndar sé innkomunni dreift á ansi marga. Ekki bara félagana í Baggalút heldur marga fleiri tónlistarmenn og skemmtikrafta.

„Bara uppi á sviðinu erum við sextán manns og svo eru um tíu til fimmtán aðrir sem koma að sýningunni með fjölbreyttum hætti. Við erum með litla verslun, rótara, flokk af japönskum blöðrugerðarmeisturum og fleira skemmtilegt. Það verður að vera smá flipp.“

Fagmenn í flippi

Orðið flipp á vel við Baggalútana sem hafa sérhæft sig í tvenns konar flippi frá árinu 2001. Jólaflippi og orðaflippi. Orðaflippið birtist fyrst á fréttavefnum baggalutur.is sem fór í loftið upp úr 2001 en fyrsta platan, Pabbi þarf að vinna, kom út árið 2005. Ári síðar leit fyrsta jólaplata þeirra, Jól og blíða, dagsins ljós og framhaldið þekkja flestir.

„Okkur fannst svo absúrd og fyndið að fólk væri að taka einhver topplög og gera jólatexta við þau svo við tókum fyrirtaks Iron Maiden-lag og gerðum jólatexta við það. Nú hefur þetta grín alveg snúist í höndunum á okkur því jólatónlist, aðallega þekkt lög með íslenskum textum, er okkar stærsta útgerð í dag,“ segir hann og skýtur inn að fljótlega sé von á nýju lagi sem þeir félagar sömdu í samstarfi við Friðrik Dór sem hann hefur miklar mætur á.
„Lagið heitir Stúfur. Eðlilega. Eða eins og segir í laginu: Frábær gaur, fáránlega nettur.“

Ég er bara jólakarl

Spurður að því hvort hann sjálfur sé mikið jólabarn segist reyndar orðinn svolítið gegnsósa af jólastemningu þegar aðfangadagur rennur loksins upp en þó hafi hann alla tíð notið sín á jólunum.

„Það er þó varla hægt að kalla mig jólabarn lengur. Ég er bara jólakarl. Jólin fyrir vestan í gamla daga voru fín, það var alltaf hægt að treysta á jólasnjóinn og svo vorum við þarna í góðri stemningu með kettinum ef við fórum ekki suður. Hvað varðar jólahald með fjölskyldunni í dag þá höldum við í þessar helstu hefðir. Drögum inn tré sem við horfum síðan á, visna upp og deyja, hægt og rólega í stofunni. Svo setjum við upp fullt af seríum, borðum piparkökur og alls konar kvikindi, hreindýr, naut og svín eða þessi helstu húsdýr svona. Þetta er allt eftir bókinni, bara jól 101 – eða 103 kannski?“

Að lokum. Ertu hættur að trúa á jólasveininn?

„Nei, þvert á móti. Í ár hef ég til dæmis fulla trú á Stúfi. Get alls ekki sagt að ég sé hættur að trúa á hann. Ég hef bara fulla trú á þessum öldruðu mönnum sem brjótast inn á nóttunni til að fikta í skótauinu okkar. Það er allt mjög eðlilegt við það. Bara skóblæti.“

Mynd: Brynja

Margrét Gústavsdóttir
....er félagi nr. 241 hjá Blaðamannafélagi Íslands.
Hún hefur m.a. starfað við sjónvarp og útvarp og verið vinsæll bloggari í gegnum árin. Margrét nam sálfræði og forritun Kaupmannahöfn á þeim árum þegar tæknisinnaðir voru með símboða í beltinu og farsíminn vó sirka 450 grömm en lífsspeki hennar rammast í setningunni:

„Mart smart gerir eitt lekkert.“

margret@dv.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 5 dögum

Árið er 1998 – Svona bjuggu þær Carrie, Samantha, Miranda og Charlotte: 90’s lúkk og litir fyrir allann peninginn

Árið er 1998 – Svona bjuggu þær Carrie, Samantha, Miranda og Charlotte: 90’s lúkk og litir fyrir allann peninginn
Fókus
Fyrir 5 dögum

Glamour velur topp 24 kynþokkafyllstu knattspyrnumennina á HM: Rúrik og Ragnar sjá um að hækka hitastigið

Glamour velur topp 24 kynþokkafyllstu knattspyrnumennina á HM: Rúrik og Ragnar sjá um að hækka hitastigið
Fókus
Fyrir 6 dögum

Lauga (30) og Árni (28) á Torfastöðum: „Bændur eru bændum verstir“

Lauga (30) og Árni (28) á Torfastöðum: „Bændur eru bændum verstir“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Íslenska karlalandsliðið – MYNDIR: Hrikalega flottir í sérsaumuðum jakkafötum en mættu vinna betur með bindishnútana

Íslenska karlalandsliðið – MYNDIR: Hrikalega flottir í sérsaumuðum jakkafötum en mættu vinna betur með bindishnútana
Fókus
Fyrir 6 dögum

BÓKMENNTIR: Svikaskáldin fimm senda frá sér fagnaðarsöngva á morgun

BÓKMENNTIR: Svikaskáldin fimm senda frá sér fagnaðarsöngva á morgun
Fókus
Fyrir 6 dögum

TÍMAVÉLIN: Sexfætt lamb fæddist í Eyjafirði – Gat hvorki gengið né tekið spena

TÍMAVÉLIN: Sexfætt lamb fæddist í Eyjafirði – Gat hvorki gengið né tekið spena