fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

Hjálmar: „Ég var með skelfileg laun, en aldrei liðið betur í vinnunni“

Margrét Gústavsdóttir
Fimmtudaginn 12. október 2017 10:16

Hjálmar Örn.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hjálmar Örn Jóhannsson er einn þekktasti „snappari“ landsins. Með tíu þúsund fylgjendur og daglega bætast fleiri aðdáendur í hópinn. Hann er vægast sagt einstakur 44 ára maður. Ekki einasta er hann með eldrautt skegg, skalla og frekjuskarð sem gerir hann mjög sérstakan í útliti, Hjálmar er líka sérlega hömlulaus týpa og mikill grínisti sem hefur á undanförnum vikum og mánuðum mjakast hægt og rólega upp á íslenska stjörnuhimininn.

Hjálmar var illa haldinn af ADHD sem barn og unglingur. Hann flosnaði upp úr menntaskóla og fór að vinna hjá fjölskyldufyrirtækinu Brimborg sem er í eigu foreldra hans en fann sig líka í núinu á leikskólanum Múlaborg, sem hann segir eitt það allra besta starf sem hann getur hugsað sér.

Á Múlaborg keypti Hjálmar í fyrsta skipti notaðan snjallsíma af vinkonu sinni og byrjaði að snappa. Þetta var árið 2014.

„Fyrst var ég bara með svona þrjátíu fylgjendur, eins og flestir, bara vini og fjölskyldu en eftir því sem ég fíflaðist meira fékk ég fleiri og fleiri fylgjendur. Þetta spurðist bara út,“ rifjar hann upp.

„Ég man að 10. september 2015 var ég með 324 fylgjendur og fannst það algjörlega geggjað. Ég hafði aldrei fengið neitt „shout-out“ eins og það kallast þegar aðrir snapparar vekja athygli á manni svo ég vissi að fólk væri bara að mæla með snappinu mínu og fannst það alveg æðislegt. En svo vatt þetta upp á sig og nákvæmlega tveimur árum síðar, eða núna 10. september síðastliðinn, þá hafði ég náð 10.000 fylgjendum. Sem sagt, það bættust við 9.700 fylgjendur hjá mér á tveimur árum.“

Dæmigerðar týpur sem flestir kannast við

Óhætt er að fullyrða að persónugalleríið sem Hjálmar hefur skapað á SnapChat sé ástæðan fyrir vinsældunum. Hann bregður sér í alls konar bráðfyndin gervi, en karakterarnir eru byggðir á dæmigerðum Íslendingum sem hann hefur sjálfur kynnst og vill meina að flestir þekki þessar, eða mjög svipaðar, týpur.

„Til dæmis hann Bjarni gröfumaður. Hver þekkir ekki svoleiðis karl? Hann er rosaleg karlremba, vinnur svakalega mikið, helst bæði laugardaga og sunnudaga, trúir ekki á listamenn, er ekki umhverfisverndarsinni … svona rosalega grófur iðnaðarmaður, algjör nagli. Og „hvítvínskonan“ sem er minn allra vinsælasti karakter núna. Hana byggi ég á fjölda svona miðaldra kvenna í kringum mig. Þær hafa rosalega gaman af því að fá sér rautt og hvítt og sushi og leggja mikla áherslu á að „njóta“,“ útskýrir Hjálmar og breytir röddinni í hálfgerða falsettu um leið og hann setur sig í hvítvínskonu gírinn. „Við erum svo ruglaðar vinkonurnar þegar við hittumst. Við erum sko ekki í laaagi,“ segir hann skrækróma og bætir við þessar týpur leggi mikla áherslu á að „lífið sé núna“.

Starf: Ritari á Hjartavernd. Lífsskoðanir: Gleði. Núvitund. Kærleikur. Hjúskaparstaða: Fráskilin. Á tvö börn og eitt lítið barnabarn.  Stjórnmálaskoðun: Sjálfstæðisflokkurinn. Áhugamál: Veitingastaðir. Gott hvítvín. Ferðalög. Tónleikar. Hjólaferðir. Saumó. Aldur: 47 ára.
Hvítvínskonan Starf: Ritari á Hjartavernd. Lífsskoðanir: Gleði. Núvitund. Kærleikur. Hjúskaparstaða: Fráskilin. Á tvö börn og eitt lítið barnabarn. Stjórnmálaskoðun: Sjálfstæðisflokkurinn. Áhugamál: Veitingastaðir. Gott hvítvín. Ferðalög. Tónleikar. Hjólaferðir. Saumó. Aldur: 47 ára.

Mynd: Brynja

Með ímyndaðan sjúkdóm til að þurfa ekki að vinna

„Svo er það Kristján Agnarsson, kallaður Kagginn. Hann er ímyndaðan sjúkdóm sem heitir Fletcher Disease og þessa greiningu (eða ekki greiningu) notar hann til að þurfa ekki að vinna. Kagginn er alltaf að missa niður líkamlega orku og svo reynir hann að byggja hana upp með því að troða í sig sykri og sælgæti. Skilur samt ekkert í því af hverju hann er svona orkulaus. Án þess að ég vilji vera eitthvað vondur þá er Kagginn skot á þetta fólk sem er haldið endalausum sjúkdómum sem orsakast bara af ólifnaði. Hann er einfaldlega letingi sem nennir ekki að vinna, fann sér sjúkdóm og er bara á bótum frá borginni. Auðvitað er ekkert að honum,“ segir Hjálmar og skellir upp úr.

Starf: Öryrki Lífsskoðanir: Að hika er það sama og að hika.Hjúskaparstaða: Einhleypur.  Stjórnmálaskoðun: Það veltur allt á bakkelsinu hverju sinni.  Áhugamál: Sælgæti og að hanga með Hjörvari Hafliðasyni.  Aldur: 49 ára.
Kristján Agnarsson, „Kagginn“ Starf: Öryrki Lífsskoðanir: Að hika er það sama og að hika.Hjúskaparstaða: Einhleypur. Stjórnmálaskoðun: Það veltur allt á bakkelsinu hverju sinni. Áhugamál: Sælgæti og að hanga með Hjörvari Hafliðasyni. Aldur: 49 ára.

Mynd: Brynja

Gervifemínistar sem þykjast vera góðir á samfélagsmiðlum

Femínistar fá líka að vera með á snappinu hans Hjálmars en þar fer fremstur í flokki karakter sem heitir því lauflétta nafni Karl Önnuson Magnason Sigrúnarson.

„Karl Önnuson Magnason Sigrúnarson þykist vera mikill femínisti en í raun og veru þá snýst þetta bara allt um hann sjálfan. Að hann komist að í fjölmiðlum og að hann geti verið sá fyrsti sem bendir á eitthvert vandamál einhvers staðar. Þótt margir femínistar séu að gera frábæra hluti þá er hann ekki að því. Hann er bara athyglissjúkur náungi að reyna að koma sjálfum sér á framfæri,“ segir Hjálmar og tekur fram að karakterinn sé einna helst byggður á vinum hans. „Þetta eru tveir náungar sem ég þekki. Þeir þykjast vera rosalega harðir femínistar á samfélagsmiðlum en þegar þú kynnist þeim þá blasir það við að þeir hafa engan sérstakan áhuga á þessu og eru ekkert sérstaklega jafnréttissinnaðir,“ segir Hjálmar og hristir höfuðið um leið og hann glottir út í annað.

„Í staðinn fyrir að skammast í þessu fólki þá fæ ég útrás fyrir pirringinn með því að gera grín að þeim. Það hentar mér vel.“

Starf: Bókasafnsfræðingur. Lífsskoðanir: Jafnrétti og systralag. Hjúskaparstaða: Einhleypur.Stjórnmálaskoðun: Vinstri græn, alla leið. Áhugamál: Bókmenntir. Heit og köld pottaböð. Ný stjórnarskrá. Aldur: 47 ára.
Karl Magnason Önnusson Sigrúnarson Starf: Bókasafnsfræðingur. Lífsskoðanir: Jafnrétti og systralag. Hjúskaparstaða: Einhleypur.Stjórnmálaskoðun: Vinstri græn, alla leið. Áhugamál: Bókmenntir. Heit og köld pottaböð. Ný stjórnarskrá. Aldur: 47 ára.

Mynd: Brynja

Þakklátur þessu gula forriti

„SnapChat er bara algjörlega búið að breyta lífi mínu til hins betra. Ég er rosalega þakklátur þessu gula forriti! Í gegnum þetta hef ég fengið tækifæri til að leika í bíómynd, gera sketsa með heilmiklu liði, leika í þáttum, koma fram í sjónvarpi, vinna sem veislustjóri og alls konar. Mig langar að segja við alla sem eru þarna úti og langar að gera eitthvað: Það er enginn afsökun til að halda aftur af sér. Öll tæki og tól eru innan seilingar, hvort sem það er Instagram, SnapChat eða Facebook. Það þarf enginn lengur að bíða eftir því að einhver sjónvarpsstöð sé til í að taka mann inn og gefa manni tækifæri. Maður gerir bara hlutina sjálfur og kemur sér á framfæri.“

Fullkomið forrit fyrir mann með ADHD

„Fyrir mann eins og mig sem er með ADHD er þetta alveg geggjað forrit vegna þess að ég er minn eigin leikstjóri. Ég þarf ekki að bíða eftir neinum eða klippa eitthvað eða neitt. Ég geri bara eitthvert grín og kem því strax í loftið. Það hentar mér ótrúlega vel.

Ég flosnaði upp úr skóla út af ADHD. Kláraði reyndar grunnskólann en fór svo í menntaskóla og datt alltaf út aftur af því ég gat bara ekkert fókuserað. Ég gerði samt aldrei neitt í þessu, fór ekki á lyf eða neitt slíkt. Ég held að það hafi hamlað mér í alls konar hlutum en svo held ég að þetta forrit hafi hjálpað mér alveg gríðarlega til að koma minni list á framfæri. Mínu gríni. Ég er rosalega þakklátur fyrir það.“

Fer kannski á lyf um fimmtugt

Tekurðu eitthvað við ADHD núna?
„Nei, ég hef ekki prófað það. Ég hef bara farið í einhver viðtöl og slíkt en aldrei tekið neitt við þessu. Ég hef velt því fyrir mér hvort það myndi draga úr sköpunargáfunni ef ég myndi taka lyfin en þá myndi ég bara hætta á þeim. Ég held að það sé ekkert slæmt að fá hjálp við því sem hamlar manni í lífinu samt. Ég hef nefnilega mjög litla þolinmæði fyrir ýmsum hlutum. Til dæmis ef einhverjar langdregnar umræður eða sögur eru í gangi þá næ ég engan veginn að einbeita mér. Það er auðvitað skrítið að vera orðinn 44 ára gamall og finna hvernig þolið fyrir svona löguðu minnkar með árunum. Kannski að ég fari á lyf við þessu þegar ég verð fimmtugur. Tek þetta á fimmtugsafmælinu.“

Þegar Hjálmar er ekki að grínast á SnapChat eða skemmta annars staðar dregur hann björg í bú með því að aka bílum fyrir fjölskyldufyrirtækið Brimborg. Hjálmar er sonur þeirra Jóhanns Jóhannssonar og Margrétar Egilsdóttur en Brimborg hefur verið í þeirra eigu frá upphafi. Spurður að því hvernig pabbi gamli taki í tilburði sonarins segir Hjálmar föður sinn af gamla skólanum.

„Honum finnst þetta reyndar alveg frábært. Pabbi er samt af gamla skólanum, í þeim skilningi að maður þarf að sanna sig áður en honum byrjar að finnast það frábært. Þegar pabbi vissi að það væru tíu þúsund manns að fylgjast með mér þá fannst honum þetta algjör snilld. Þá hætti hann að hugsa um þetta sem 44 ára gamlan mann sem er í einhverju tilgangsleysi að fíflast heima í eldhúsi og sannfærðist um að ég væri að gera eitthvað af viti.“

Hafa þau hneykslast á þér?

„Já, guð minn góður þau hafa sko hneykslast. Margir muna eftir myndinni sem Kim Kardashian birti af sér þar sem hún var svona á rassinum og leit um öxl. Ég setti svona mynd af mér á Facebook þar sem ég sat inni á rúmi á rassinum. Hún fékk einhver 800 „like“ á Facebook eða eitthvað. Þá fannst þeim þetta svolítið komið gott.“

„Ég var eitthvað á rassinum í Frakklandi“

Hjálmar er í sambúð með Ljósbrá Logadóttur, deildarstjóra hjá Íslandsbanka. Hann segist vera mjög vel trúlofaður enda konan þolinmóð og umburðarlynd gagnvart sköpunargleði bóndans.

„Hún er alveg gríðarlega þolinmóð. Ég er svo heppinn. Það er alveg magnað! Hún hleypir mér í hvað sem er. Hvaða verkefni sem er. Styður alltaf við bakið á mér. Ég hef verið að taka upp heilu leikritin heima þar sem ég hef skipt svona sjötíu sinnum um gervi. Íbúðin liggur alveg í rúst en hún leyfir mér alltaf að klára það sem ég er að gera og er aldrei pirruð á mér.“

Hjálmar og Ljósbrá eignuðust son í maí síðastliðnum en fyrir á Hjálmar tvær dætur, Margréti Höllu, 21 árs, og Maríu Björt, 17 ára. Flestir kannast við tímabilið þegar unglingar taka gríntilburðum foreldra sinna illa svo það liggur beint við að spyrja hvort dæturnar hafi ekkert farið í flækju þegar pabbi byrjaði með sprellið á SnapChat.

„Ég hef ekkert verið að snappa mikið af þeim þannig. Hef reynt að halda þeim utan við þetta og blanda þeim ekkert í þessa sketsa. Þær hafa sloppið mjög vel undan þessu en svo hafa þær líka skammað mig þegar ég hef gengið of langt. Þá tek ég alveg mark á þeim. Í sumum tilfellum þarf maður að standa við sitt en svo er stundum ágætt að láta pikka í sig. Ég var eitthvað á rassinum úti í Frakklandi, þá sendi dóttir mín mér skilaboð og sagði: „hei, pabbi þetta er nóg. Taktu þetta út.“ Ég hlýddi henni þá.“

Starf: Gröfur og vinnuvélar. Hefur meirapróf og vinnuvélaréttindi. Lífsskoðanir: Þolir ekki femínista. Hefur ofurtrú á vinnusemi. Fyrirlítur listamenn og umhverfissinna. Hjúskaparstaða: Kvæntur til tuttugu og fimm ára. Á þrjú uppkomin börn og eitt örverpi. Stjórnmálaskoðun: MiðflokkurinnÁhugamál: Vinnan. Bjór. Formúla 1. Aldur: 46 ára.
Bjarni gröfumaður Starf: Gröfur og vinnuvélar. Hefur meirapróf og vinnuvélaréttindi. Lífsskoðanir: Þolir ekki femínista. Hefur ofurtrú á vinnusemi. Fyrirlítur listamenn og umhverfissinna. Hjúskaparstaða: Kvæntur til tuttugu og fimm ára. Á þrjú uppkomin börn og eitt örverpi. Stjórnmálaskoðun: MiðflokkurinnÁhugamál: Vinnan. Bjór. Formúla 1. Aldur: 46 ára.

Mynd: Brynja

Var færður til í bekknum

Hefurðu alltaf verið svona stórkostlega hömlulaus týpa?

„Já, ég held að það sé einmitt algjörlega rétta lýsingin á mér. Ég hef alltaf verið svona. Líka þegar ég var krakki. Það var alltaf verið að segja mér að vera hljóður í tímum. Svo var alltaf verið að færa mig í önnur sæti. Var færður út í horn eða eitthvað þar sem ég sat einn. Svo var ég líka færður alveg upp að kennaraborðinu til að hafa kennarann beint fyrir framan mig. Þau voru að reyna að fá mig til að halda athygli. Ég hef samt alltaf mætt til vinnu og slíkt þó að ég eigi erfitt með að halda athygli. Ég er ekki týpan sem sefur yfir sig. Svo er ég líka bara heppinn með fólkið í kringum mig. Til dæmis er ég að vinna hjá fjölskyldufyrirtæki og svo á ég líka alveg frábæra konu. Eins og með þetta ADHD; þegar hún vissi að ég væri svona þá las hún bara og lærði allt sem hún gat um þetta og vinnur svo bara út frá því. Eins og þegar við erum að fara að halda veislu eða matarboð, þá setur hún mér bara verkefni: „Þú átt að gera þetta núna, og svo áttu að gera þetta á eftir.“ Í staðinn fyrir að segja allt í einu. Þá fer auðvitað bara allt í fokk hjá mér.“

Fæddur til að vinna á leikskóla

Þótt Hjálmar hafi fundið sína hillu í lífinu og uni sér vel við grínið er hann með nokkuð skýra og skemmtilega framtíðarsýn. Hann dreymir um að vinna á leikskóla, þrjá daga í viku en starfa sem skemmtikraftur hina dagana.
„Það höfðu margir sagt við mig að ég væri eins og fæddur í þetta starf svo ég prófaði. Fyrsta daginn hugsaði ég bara Guð, hvað er ég búinn að koma mér í!? Á degi tvö langaði mig ekki heim. Þetta er eina vinnan sem ég hef unnið þar ég hef hlakkað til að mæta á morgnana og langar svo ekkert heim eftir vinnu. Ég var með tvöhundruðsjötíuogfimmþúsund krónur a mánuði, skelfileg laun, en aldrei liðið betur í vinnunni. Heilmargir eru að tala um að þá langi til að komast í núið. Ef þig langar í núið þá skaltu fara að vinna á leikskóla. Þetta er andlegasta starf sem ég hef unnið. Alveg magnað. Ég þurfti bara að hætta út af laununum en ég mun fara aftur í þetta starf. Það er alveg á hreinu. Núna gæti ég lifað af því að skemmta og snappa, þótt það sé algjört hark, en draumurinn er að geta unnið sem skemmtikraftur um helgar og á leikskóla þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga.“

Stendur með leikskólakennurum

„Ég kynntist því að þarna er fjöldi fólks að vinna alveg gríðarlega erfitt starf, til dæmis með fötluðum börnum, á alveg gríðarlega lágum launum en samt er það rosalega þakklátt fyrir hluti sem venjulegt fólk er ekki þakklátt fyrir. Sem dæmi þá fórum við einu sinni að skoða Sorpu. Þar fengum við gefins fjölnota poka og ég gleymi því ekki hvað þau voru ánægð að fá þessa gjöf. Ég hafði þá unnið sem bílasali í tólf ár, verið boðið út að borða af alls konar lánastofnunum og þannig og menn voru bara að pæla í því hvaða stað okkur yrði boðið á næst. Frekjan í manni var orðin þvílík, en þarna erum við með æðislegt fólk sem er að vinna geggjað erfiða vinnu á fáránlegum launum en er samt rosalega þakklátt fyrir að fá fjölnota poka að gjöf. Hversu dásamlegt getur fólk verið? Ég er mjög harður á því að það verði að hækka launin þeirra og ég er til í slaginn hvenær sem er. Stend með leikskólakennurum, alla leið!“

Ertu femínisti?

„Já, það er engin spurning að ég reyni að tileinka mér fordómaleysi. Tengdafaðir minn er með þetta lífsviðhorf sem ég vil tileinka mér. Það skiptir engu máli hvort þú ert lítill, feitur, kona eða karl. Það á bara það sama yfir alla að ganga. Ég held að allir séu femínistar innst inni. Eða ég vona það. Ég á til dæmis einn góðan vin sem styrkir til dæmis Kvennaathvarfið, Stígamót og fleiri góðgjörðarsamtök. Mér finnst flott að vera ekki að básúna alltaf eigin góðmennsku á samfélagsmiðlum heldur gera þetta bara. Láta verkin tala og láta gott af sér leiða.“

Starf: Lausamaður á hjólbarðaverkstæðum.Lífsskoðanir: Frelsi til margvíslegra athafna.Hjúskaparstaða: Einhleypur.Stjórnmálaskoðun: Engin. Áhugamál: Parkúr. Fallhlífarstökk. Kvartmíluklúbburinn. Subaru Impreza.  Aldur: 35 ára.
Steinar Eyfjörð „Illa nettur“ Starf: Lausamaður á hjólbarðaverkstæðum.Lífsskoðanir: Frelsi til margvíslegra athafna.Hjúskaparstaða: Einhleypur.Stjórnmálaskoðun: Engin. Áhugamál: Parkúr. Fallhlífarstökk. Kvartmíluklúbburinn. Subaru Impreza. Aldur: 35 ára.

Mynd: Brynja

Kikk að sjá fólk fara að hlæja

Langar þig að færa út kvíarnar, ná heimsfrægð kannski?
„Jú, maður hefur nú kynnst því að svona samfélagsmiðlar geta dottið upp fyrir einn daginn og eitthvað nýtt tekur við. Þess vegna hef ég verið að reyna að stækka Facebook- og Instagram-síðurnar mínar. Um leið og maður er kominn með svolítinn fjölda á Facebook þá er hægt að gera vídeó þar líka. Það er svo frábært hvað þetta er orðið auðvelt núna. Í versta falli horfir enginn á þetta en maður er þó allavega að tjá sig. Gera eitthvað,“ segir Hjálmar og bætir við að hann hafi alltaf elskað glens og grín.

„Mig hefur alltaf dreymt um að verða skemmtikraftur og grínleikari. Það eina sem mig langaði þegar ég var lítill var að láta fólk fara að hlæja. Kikkið að sjá fólk fara að hlægja yfir einhverju sem maður gerir er alveg ómetanlegt. Kannski er þetta líka bara ákveðin meðvirkni? Mann langar einhvern veginn að öllum líki við mann. Steindi var einmitt að tala um þetta í viðtali um daginn. Það er þessi þörf á að öllum líki vel við mann, svo kemur einhver tólf ára úr Garðabænum og segir eitthvað ljótt um vídeóið manns og þá burðast maður með það í maganum. Mér fannst þetta svolítið merkilegt. Svo getur maður líka bara sætt sig við að það getur ekki öllum líkað við mann.“

Landaði aðalhlutverki í bíómynd gegnum SnapChat

Eins og fyrr segir hefur grínið á SnapChat fært Hjálmari fjölbreytt verkefni í skemmtanabransanum. Eitt þeirra er aðalhlutverk í kvikmyndinni Fullir vasar sem er leikstýrt af Antoni Sigurðssyni en sá hefur áður gert myndirnar Grimmd og Grafir og bein. Þegar þetta er skrifað er tökum á myndinni að ljúka en hún er væntanleg í sýningu snemma á næsta ári.

„Leikstjórinn var hrifinn af einni týpunni sem ég er með á snappinu svo hann bjallaði í mig og spurði hvort hann mætti ekki skrifa handrit byggt á þessum karakter. Ég sagði að væri engin spurning. Ég las síðan handritið, fannst það alveg geggjað og þá spurði hann hvort ég vildi ekki bara leika aðalhlutverkið í myndinni. Ég hélt það nú,“ segir Hjálmar og bætir við að hann hafi reiknað með því að það væri lítið mál. „Ég hélt ég myndi mæta kannski tvisvar, þrisvar í viku í tökur og fara snemma að sofa, en þetta reyndist algjör ímyndun. Við erum búnir að vera að frá klukkan tíu til tíu alla daga og að taka heila mynd upp á átján dögum. Þetta er búið að vera algjörlega geggjað og þvílíkt góð reynsla,“ segir Hjálmar en með honum í myndinni leika snapparinn Aron Mola, og þeir Nökkvi Fjalar og Egill Ploder, sem mörg ungmenni kannast við úr Áttunni.

Nú eruð þið fjórir karlmenn í aðalhlutverkum myndarinnar. Er þetta svona „dick-flick“ samanber „chick-flick“? Hvað segir þinn innri femínisti við þessu?

„Ég veit það ekki!“ hrópar Hjálmar og skellihlær. „Við erum auðvitað fjórir karlar þarna í aðalhlutverki en það er líka glæsilegur hópur af leikkonum með í myndinni. Til dæmis Ólafía Hrönn, Júlía Sara, Þórunn Antonía og margar fleiri. Fyrst og fremst er þetta samt bara hrein og klár íslensk grínmynd. Ekkert drama eða vesen, bara grín. Það er löngu komin tími á svona mynd og ég hlakka mikið til að sjá hana.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pétur Einarsson látinn
Fókus
Í gær

„Ég ætla ekki að ljúga því að ég hafi verið dýrlingur, en ég var ekki nógu heimskur til að eyðileggja fjölskylduna okkar“

„Ég ætla ekki að ljúga því að ég hafi verið dýrlingur, en ég var ekki nógu heimskur til að eyðileggja fjölskylduna okkar“
Fókus
Í gær

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Gunnar sat 12 spora fund í morgun þegar eitt vakti áhuga hans – „Ég er sjálfur sekur“

Gunnar sat 12 spora fund í morgun þegar eitt vakti áhuga hans – „Ég er sjálfur sekur“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Keppandi Írlands í Eurovision í ár er kvár

Keppandi Írlands í Eurovision í ár er kvár
Fókus
Fyrir 3 dögum

Grunaði að eiginkonan væri að halda framhjá – „Sannleikurinn var tvöfalt verri“

Grunaði að eiginkonan væri að halda framhjá – „Sannleikurinn var tvöfalt verri“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sviplegt fráfall samfélagsmiðlastjörnu skekur netheima – „Ég skil þetta ekki, ég var með henni á föstudaginn“

Sviplegt fráfall samfélagsmiðlastjörnu skekur netheima – „Ég skil þetta ekki, ég var með henni á föstudaginn“