Þetta skaltu forðast ef þú vilt auka vöðvamassann

Bjór, íþróttadrykkir og of margir próteinsjeikar eru ekki vinir þeirra sem stunda lyftingar

Einar Þór Sigurðsson skrifar
Sunnudaginn 8. janúar 2017 09:30

Janúar er sá mánuður ársins þegar líkamsræktarstöðvarnar fyllast af fólki sem ætlar að komast í betra form. Sumir gera ákveðnar grundvallarbreytingar á mataræði sínu í þeirri viðleitni að léttast á meðan aðrir eru með það markmið að auka úthald sitt eða vöðvastyrk. Tímaritið Men‘s Health tók á dögunum saman nokkrar tegundir matvæla eða drykkja sem fólk ætti að forðast sé það á annað borð að reyna að auka vöðvamassa sinn. Naut tímaritið aðstoðar næringarsérfræðingsins Stuart Phillips.

Íþróttadrykkir

Íþróttadrykkir eru jafn margir og þeir eru misjafnir þótt flestir séu þeir markaðssettir sem heilsuvörur. Íþróttadrykkir sem innihalda mikilvæg sölt geta gagnast þeim sem stunda langhlaup eða æfingar sem reyna mjög á þol iðkenda en þeir gera öðrum ekki endilega mikið gagn. Men‘s Health hefur eftir Stuart Phillips, næringarfræðingi við McMaster-háskólann í Bandaríkjunum, að íþróttadrykkir eigi það margir sameiginlegt að vera orkuríkir en næringarsnauðir. Mælir Stuart með því að þeir sem stunda langhlaup, til dæmis maraþonhlaup, neyti þessara drykkja en aðrir haldi sig við vatnið.


Of margir próteinsjeikar

Prótein er helsta byggingarefni líkamans og sem slíkt mikilvægt fyrir vöxt og viðhald vöðvamassa. En stundum er hægt að innbyrða of mikið af próteinum. Phillips bendir á að ef þú drekkur próteinsjeika í öll mál, eða því sem næst, gerist það að líkaminn breytir umframmagni próteins í fitu en ekki vöðva. Í þessu á hinn gullni meðalvegur við eins og í svo mörgu öðru.


Bjór

Áfengi er óvinur þeirra sem vilja komast í gott líkamlegt form og auka vöðvamassa. Phillips bendir á að áfengi geti haft áhrif á það hvernig líkaminn nýtir prótein og hægt á endurheimt eftir erfiðar æfingar. Phillips bendir einnig á hið augljósa; áfengi er hitaeiningaríkt í eðli sínu og bjór inniheldur, oftar en ekki, mikið af kolvetnum.


Mynd: 123RF

Sykurlaust gos

Það þarf svo sem ekki að fjölyrða um sykraða gosdrykki og neikvæð áhrif þeirra á líkamann. Fleiri vita líklega ekki að sykurlausir gosdrykkir – þó hitaeiningasnauðir séu – hafa einnig neikvæð áhrif á líkamann. Fjölmargar rannsóknir benda til þess að þeir sem neyta sykurlausra gosdrykkja hafi tilhneigingu til þess að bæta upp fyrir hitaeiningatapið með öðrum leiðum, hvort sem það er viljandi eða ekki.


Sælgæti

Margar tegundir sælgætis innihalda hnetur. Og hnetur innihalda prótein og holla fitu, ekki satt? Þá hlýtur að vera í lagi að borða slíkt góðgæti. Phillips bendir á að þótt sælgætisstykki geti verið freistandi eftir æfingu þá sé sykur- og fitumagnið oftar en ekki í slíkum mæli að það sest beint utan á fólk í formi fitu, ekki vöðva.


Mynd: guardian

Kleinuhringir

„Allt sem inniheldur mikla fitu en lítið af próteinum er vandamál,“ segir Phillips og falla djúpsteiktir kleinuhringir klárlega í þann flokk. Eitt gramm af fitu inniheldur níu hitaeiningar og það þarf engan stærðfræðisnilling til að reikna út að 1–2 kleinuhringir innihalda talsvert margar hitaeiningar.


Ekkert

Margir eru tiltölulega lystarlausir eftir erfiðar æfingar og ákveða að borða ekki neitt fyrr en hungrið fer að segja til sín. Sannleikurinn er hins vegar sá að eftir erfiða æfingu þarf líkaminn á næringarefnum að halda til að ná sínum fyrri styrk – og bæta við hann. Phillips bendir réttilega á að próteinrík fæða sé góð eftir erfiðar lyftingaæfingar. Algengt viðmið fyrir þá sem vilja auka vöðvamassa er 1,8 til 2,2 grömm af próteinum fyrir kíló líkamsþyngdar á dag. Mælt er með að þeir sem eru í mikilli ofþyngd miði neysluna við kjörþyngd sína.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af